Þjóðviljinn - 22.11.1986, Side 7

Þjóðviljinn - 22.11.1986, Side 7
„Gálkn" eftir Tryggva Ólafsson. MYNDLISTARSYRPA Það er til mikils vansa hvernig opinberir aðilar hér á landi hafa vanrækt að kynna hræringar í evrópskri myndlistsamtímans hér á landi, og nánast óskiljanlegt hvernig Listasafn Islands hefur komist upp með að vanrækja skyldur sínar í þessurr, efnum áratugum saman. Þeim mun meiri fengur er af þeirri sýningu 12 finnskra listamanna, sem opnuð var á Kjarvalsstöðum um síðustu helgi. Þessi sýning gefur okkur allgóða innsýn í nokkrar hræringar í finnskri nútímalist, og eiga frumkvöðlar hennar miklar þakkirskyldar. Þegar gengið er inn í austursal Kjarvalsstaða blasa við okkur þrjú stór málverk eftir finnsku listakonuna Leenu Luostarinen, sem eru grípandi fögur og full af nýrómantískum exxpressíon- isma. Luostarinen sameinar í verkum sínum norrænan tilfinn- ingahita og suðræn viðfangsefni, eins og myndina af múrveggnum sem leiðir hugann til norður- strandar Afríku. Meðal annarra athyglisverðra verka á sýning- unni eru tréskúlptúrar eftir Ra- doslaw Gryta, sem í einfaldleik sínum gefa til kynna þá viðleitni efnisins að upphefja þyngdaraflið og leita til himins. Eða flennistór- ar jarðlitastemmur Raili Tang, sem fylla gafl salarins og eru eins konar formlausar hugleiðingar um samspil litanna. Spennan í þessum myndum byggist ekki síður á þeim vitnisburði sem þær eru um glímu listakonunnar við viðfangsefnið, þar sem útkoman er engan veginn fyrirfram gefin. Margt fleira athyglisvert er á þessari sýningu, sem áhugafólk um myndlist 'ætti ekki að láta fram hjá sér fara. Totemsúlur í vesturanddyri Kjarvalsstaða hefur Helgi Gíslason sett upp myndarlega sýningu á tréskúlp- túrum, sem teygir sig reyndar inn í Vestursalinn þar sem Sigurður Örlygsson sýnir málverk. Skúl- ptúrar Helga eru eins konar totem-súlur úr gróflega höggnum viði þar sem víða koma fram málmeggjar eða oddar, og sums staðar hefur Helgi roðið lit á myndirnar eins og til þess að undirstrika totem-eðli þeirra. Helgi sýnir mikla tilfinningu fyrir efninu, þegar best lætur eru myndir hans afhjúpun á formum sem legið hafa djúpt í sameigin- legri dulvitund mannsins frá örófi. Helgi hefur þannig sýnt okkur að hann hefur galdur högg- myndalistarinnar á valdi sínu og er orðinn í fremstu röð lista- manna okkar á þessu sviði. Þetta er sterkasta sýning sem ég hef séð frá Helga til þessa. Sambandsleysi Sigurður Örlygsson hefur færst mikið í fang með sýningu sinni í Vestursalnum, þar sem hann sýnir 13 stór myndverk. Þetta eru stórar, formsterkar og litríkar akrílmyndir með grófu yfirborði og viðskeyttum aðskotahlutum sem Sigurður tengir formum myndflatarins eins og hann sé að teygja málverkið í áttina að skúlptúrnum. Það er rétt til fund- ið hjá Sigurði að takmarka fjölda verkanna og velja þeim gott rými, því myndirnar njóta sín til fulls í þessum stóra sal og bera hann uppi með aðstoð þriggja höggmynda eftir Helga sem bæta sýninguna upp. En þegar ég stend andspænis þessum verkum Sigurðar og reyni að átta mig á hvað þau segja mér, þá fæ ég það á tilfinninguna að eitthvað vanti á sambandið, annað hvort frá minni hálfu eða myndanna. Þótt þessar myndir séu stærri og ein- faldari í formi en þær sem ég hef áður séð frá Sigurði, þá eru þær um leið fjarlægari og einhverfari. Myndirnar verka á mig eins og klettaveggurinn sem lifir sínu lífi hvort sem einhver horfir á hann eða ekki, og þá er spurningin bara hvort sambandsleysi mitt við myndirnar stafar af of duldum eiginleikum þeirra eða hvort hér sé tjaldað of stórum leiktjöldum. Trylltir hestar Jóhanna Bogadóttir heldur um þessar mundir sýningu á um 30 olíumyndum og krítarmyndum í kjallara Norræna hússins. í myndum hennar koma fram ofsa- kennd átök í anda expressíónism- ans, þar sem trylltum hestum bregður gjarnan fyrir í hlutverki hins frumstæða lífskrafts og þar sem fjúkandi fúasprek og reka- viðargrindur mynda brestandi viðnám sem lætur undan ofsan- um. Jóhanna sýnir oft tilþrif í á- hrifamikilli og djarfri litameðferð þótt stundum skjóti hún einnig yfir markið eins og til dæmis í myndinni Á Sprengisandi. En best finnst mér henni takast upp þar sem hún losar sig að mestu við sýnileg tákn eins og í mynd- inni um höfuðskepnurnar, þar sem Jóhanna kemst næst óhlut- bundnum expressíónisma. Það er eins og hin táknræna merking hestsins og grindverksins vefjist stundum fyrir henni og veiki formbyggingu myndanna, þannig að tilfínningahitinn, sem á bak við myndirnar liggur, missir marks. Ég hef það á tilfinning- unni að rökrétta leiðin héðan fyrir Jóhönnu sé að losa sig við symbolismann og hella sér út í óhlutbundinn expressíonisma, sem gefur henni greinilega meiri möguleika á að samræma lit og formbyggingu. Píramídi og þorskhaus Tryggvi Ólafsson sýnir nú í Gallerí Borg um 35 akrílmyndir í smáu og stóru formi, þar sem hann heldur áfram að þróa sitt agaða myndmál með einföldum formum og hreinum litarflötum. Þetta eru hvorki ögrandi verk né uppreisnargjörn, heldur öllu fremur klassísk í einföldu form- máli sínu. Þar sem Tryggva tekst best upp eru myndir hans sláandi í einfaldleik sínum, þar sem form og litur ganga upp eins og reikningsdæmi. Tryggvi leitaði á sínum tíma fanga í pop- tónlistinni, sem var eins konar andsvar við modernismanum. En hin hráa myndnotkun pop- listarinnar með sinni beinu skír- skotun til menningariðnaðar neysiusamfélagsins átti aldrei við' Tryggva og hann hvarf frá beinni skírskotun til samtímaviðburða yfir í æ markvissari lýrískar vangaveltur um samspil forms og lita, þar sem hann tengir saman í heildstæðri myndbyggingu leifar úr fortíð og nútíð eða fyrirbæri úr ríki náttúrunnar og vélamenning- unni. Skírskotunin til hins ytri veruleika verður jafnframt æ veigaminni þáttur í verkum hans, heldur leitast hann fyrst og fremst við að láta formin í myndum sín- um ríma hvert við annað og lúta þannig lögmálum myndarinnar. í myndinni „Hróf“, sem er meðal sterkari mynda á þessari sýningu, hefur hann nær alveg horfið frá hlutbundinni skírskotun, og á Tryggvi þá ekki langt í land að lenda á bás með meisturum form- hyggju modernismans eins og þeim Richard Mortensen og Þor- valdi Skúlasyni. í myndinni „Gálkn“, sem er 250 cm á lengd og 64 cm á hæð tekst Tryggva frábærlega að láta ríma saman gamalt hjól, píramída, hönd og þorskhaus ásamt með fleiri form- um. Þessi mynd, eins og fleiri verk Tryggva, er eins og stemma eða laglína, sem hægt er að lesa frá vinstri til hægri og án þess að skilja í rauninni hvers vegna, þá finnur augað í þessum formum fullkomna hrynjandi. í þessu er galdurinn í myndlist Tryggva Ól- afssonar fyrst og fremst fólginn. í ormagarðinum Að lokum langar mig að geta um sýningu Ásu Ólafsdóttur í Gallerí Hallgerði að Bókhlöðu- stíg 2. Þessi skemmtilega og yfír- lætislausa sýning hefur að geyma collage-myndir og myndvefnað og snúast allar myndirnar með einum eða öðrum hætti um hið margræða tákn snáksins. Snákur- inn sem ímynd djöfulsins og efða- syndarinnar, snákurinn sem reð- urtákn og tákn fyrir viðkomu lífs- ins. Ása fer mjúkum og kven- legum höndum um djöfsa, og þegar best lætur eru myndir hennar hlaðnar erótískri spennu með sínu loðna yfirborði og sín- um ísmeygilegu skírskotunum, eins og til dæmis í myndinni „Jafnvægi“, þar sem litlir fjaðr- aðir þríhyrningar sem leynast undir loðnu yfirborði myndarinn- ar og svartur saumur í pappírinn mynda rafmagnaða umgjörð utanum snákinn. Það þarf enginn að láta sér Ieiðast í ormagarði Ásu Ólafsdóttur, þótt þar sé leikið á lágu nótunum, sem reyndar er sjaldgæf hvíld frá hin- um háværa bumbuslætti samtím- ans. ólg. Æðasláttur nútfmans íslenski dansflokkurinn Listdanssýning eftir Hlíf Svavarsdóttur og Nönnu Ólafsdóttur Tónlist: Olivier Messiaen, Lárus H. Grímsson og George Crumb. Eftir hinn frækilega listsigur dansflokksins síðastliðinn vetur undir stjórn Ed Wubbe beið margur maðurinn spenntur eftir framhaldinu. Sú sýning sem hér er á ferðinni er kannski ekki eins metnaðarfull og áhrifamikil og sú síðasta en hún er mjög vel heppn- uð og góður vitnisburður um það að dansflokkurinn sé að finna rétta stefnu og stíl. Og að þessu sinni eru dansahöfundar íslensk- ir. Nanna Ólafsdóttir hefur unnið mikið og gott starf fyrir dans- flokkinn á undanfömum árum. Það voru margir fallegir hlutir í ballett hennar Ögurstund, við undurfallega tónlist Messiaens, einkum sóló Katrínar Hall í lok- in, en það var einsog vantaði herslumun á formhugsunina. Það gætti vissrar einhæfni í hreyfing- um og maður saknaði sterks stfls. Þessi skortur varð einkum áberandi með samanburði við balletta Hlífar sem einkennast af mjög sterkri tilfinningu fyrir stfl og formi, en Hlíf hefur líka að baki langa og víðtæka reynslu bæði sem dansari og danshöfund- ur með Hollendingum sem standa í fremstu röð í nútíma- danslist í heiminum. Duende er saminn við tónverk eftir Bandaríkjamanninn George Crumb sem aftur hefur notfært sér ljóðbrot eftir Lorca. Þetta er seiðandi og áhrifarík tónlist, þrungin hljóðum hafsins og vindsins. í ballett Hlífar eru fjórir dansarar staddir á strönd hins mikia hafs og tjá í dansi sínum þau sterku öfl lífsins sem toga í manneskjuna úr öllum áttum. Þetta var seiðmagnaður ballett sem sýndi vel hversu hugkvæm Hlíf er í útfærslu hreyfinga og hve mikla tilfinningu hún hefur fyrir heildarbyggingu og hrynjandi. Guðmunda Jóhannesdóttir og Katrín Hall fóru fallega með sín hlutverk, en hér bar nokkuð á þeim átakanlega skorti á góðum karldönsurum sem lengi hefur hrjáð dansflokkinn. SVERRIR HÓLMARSSON Hápunktur þessarar sýningar þótti mér ballettinn Amalgam sem Hlíf samdi sérstaklega fyrir þessa sýningu og Lárus H. Grímsson hefur samið nýtt tón- verk fyrir. Tónlist Lárusar er raftónlist, sterkt, rytmískt verk fullt af æðaslætti og krafti en kalt og vélrænt eins og svo mikið af poppi nútímans. Ballett Hlífar við þessa tónlist er makalaust heilsteyptur, kraftmikill og heill- andi. Dansararnir hreyfðu sig eins og vélmenni, í stfl sem minnti bæði á ýmislegt í tónmyndbönd- um þessa dagana og einnig ex- pressionisma frá því kringum 1930. Þetta var verk sem bar öll merki dagsins í dag, flutti boð sín beint til okkar hér og nú. Þarna var sjálfur taktur tímans á ferð- inni: kaldur, vélrænn, kraft- mikill, ögrandi og dálítið skelfi- legur. Þetta var listviðburður. Sendið sjónvarpið á staðinn. Sigurjón Jóhannsson gerði ágæta búninga við Ögurstund og Amalgam og Páll Ragnarsson lýsti sýninguna af mikilli prýði - lýsingin í Amalgam var sérlega góð og átti stóran þátt í að auka áhrifamátt verksins. Sverrir Hólmarsson. ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 7

x

Þjóðviljinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.