Þjóðviljinn - 04.02.1987, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 04.02.1987, Blaðsíða 4
LEIÐARI Barátta farmanna Farmenn hafa nú staðiö í óvenju hörðu verkfalli á fimmtu viku. í erfiðri deilu hafa þeir sýnt aðdáunar- verðan kjark og þrautseigju, andspænis óvanalegu tillitsleysi atvinnurekenda. Furðuleg harka vinnuveitenda hefur hins vegar hleypt málinu í grimmilega bundinn hnút. Og einsog ský hafa nú skipast er lítið útlit fyrir að nokkuð annað en lagasetning geti hoggið á þann hnút. Lagasetning er hinsvegar sú lausn sem er síst fyrir farmenn. Síðan 1978 hefur öllum kjaradeilum þeirra lokið með lögum. Og alltaf hefur það leitt til þess að langþráðar kjarabætur hafa ekki náðst fram, til að mynda viðurkenning á því að langtíma fjarvistir frá fjölskyldu og ástvinum beri að meta í launum. Lausn með lögum myndi leiða til nákvæmlega sömu niður- stöðu núna. Á tening atvinnurekenda er hins vegar allt annað uppi. Æ ofan í æ hafa þeir sneitt hjá umræðum um hin raunverulegu kröfuefni farmanna, og þannig vit- andi vits dregið deiluna á langinn. Með því hyggjast þeir knýja fram íhlutun ríkisstjórnarinnar. Vitaskuld. Þeir vita að lagasetning er þeim ævin- lega hagstæð. Þessvegna telja þeir sig græða með því að bíða af sér verkfallið og láta ríkisstjórn eða þing um að leysa málið með gamalkunnum hætti. En þetta er í hæsta máta óábyrg afstaða. Látum vera, þó atvinnurekendur skilji ekki að lýð- ræði er nauðsynlegt, og að lýðræðið ryðgar og eyðist einsog járn í sjó verði það siðvenja að ríkis- valdið loki frjálsum samningum með lögum. Látum vera þó þeir kjósi sovésku aðferðina umfram þá íslensku. Hitt er verra, að nákvæmlega í dag eru ekki pólitískar forsendur til að leysa þessa deilu með lögum, fyrr en að loknu löngu verkfalli. Skilji menn það ekki, ættu þeir að spyrja Þorstein Pálsson. í þessi liggur hin óábyrga afstaða atvinnurekenda. Þeir hljóta að skilja að verkfallið kann að verða langt, mjög langt, áður en Þorsteinn og félagar hans í Sjálfstæðisflokknum borða hattinn sinn og samþyk- kja lög, sem auðvitað væri pólitískt glapræði fyrir flokksformann sem loksins er að ná sér á strik eftir langa Síberíuvist. En við höfum ekki efni á löngu verkfalli. Atvinnu- rekendur hafa það að vísu. Það er góðæri, og þeir eiga nóg af fé um þessar mundir. Guðmundur Hallvarðsson, formaður Sjómannafélags Reykjavík- ur, hefur líka sagt að farmenn þoli margra vikna verkfall enn. Það er hreystilega mælt. Því miður hefur þjóðin ekki efni á þess konar hreysti um þessar mundir. Dýrmætir fiskmarkaðir okkar erlendis vega nú salt framá blábrún bjargsins vegna flækjunnar sem deilan er komin í. Þessvegna þarf að leysa hana sem fyrst, en til þess þurfa hins vegar báðir aðilar að sýna sanngirni og slá af kröfum sínum. Sýna raunveru- legan samningsvilja. Eftir því munu menn verða dæmdir. Farmenn skilja þetta, - þeir geta sér líka grein fyrir þeim vanda sem steðjar að svokölluðu þjóðarbúi tapist fiskmarkaðir vestra. Þess vegna hafa þeir fyrir sitt leyti lýst yfir, að þrátt fyrir vægast sagt furðulega framkomu atvinnurekenda séu þeir reiðubúnir til að slá af sínum kröfum, bæði hvað snertir sjálf grunn- launin og yfirtíð líka. Þetta er ábyrg afstaða. Þar er tekið tillit til sam- eiginlegra hagsmuna þjóðarinnar. En hvernig svara atvinnurekendur? Með hótunum. Ótrúlega ósvífnum hótunum. HörðurSigurgestsson, forstjóri Eimskipafélagsins og einn helsti oddviti atvinnurekenda í núverandi farmannaverkfalli, lét sé sæma að hóta því blákalt á dögunum frammi fyrir alþjóð, að verkfall farmanna yrði brotið á bak aftur með því að flytja inn verkfalls - brjóta frá útlöndum. Útlend leiguskip. Hvílík ábyrð. Hvílíkur samningsvilji. Hótanir af þessu tagi minna meira á slagsmál í göturæsum stórborganna en starfsaðferðir í samn- ingum siðaðra manna. Þær kunna að hafa gengið fyrir nokkrum áratugum í stórborgum Vesturheims, þar sem undarlegar aðferðir voru löngum tíðkaðar af atvinnurekendum til að halda verkafólki niðri. Slíkar aðferðir kunna að vera forstjóra Eimskipafélagsins hugleiknar, en við búum hins vegar á íslandi en ekki í Ameríku - þó forstjóranum þyki það ef til vill leitt. Haldi forystumenn þessa félags, sem eitt sinn bar réttnefnið óskabarn þjóðarinnar, að þeir leysi lög- legar kjaradeilur með hótunum, þá er þeim vinsam- lega bent á að leita sér að öðrum starfa hið allra fyrsta. Þjóðin hefur ekki efni á mönnum sem með óábyrgum málflutningi slökkva þá litlu vonarglætu sem er til lausnar í deilu sem er öllum dýr. Farmenn hafa rétt út höndina. Þeir hafa slegið af kröfum sínum. Þjóðin mun fylgjast með því hvort einu viðbrögð atvinnurekenda verða hótanir um innflutn- ing á erlendum verkfallsbrjótum. -ÖS KLIPPT OG SKORIÐ Vindurinn út í veður og vind „Röksemdir andstöðumanna Alberts Guðmundssonar eru því fallnar." Á þessum orðum lýkur mánudagsleiðara hins frjálsa og óháða dagblaðs DV. Öll gagnrýni á að Albert Guðmunds- son skipi fyrsta sæti lista Sjálf- stæðisflokksins í Reykjavík er nú fokin út í veður og vind. Vindur- inn er úr Heimdellingum, Moggaliðinu og öðrum sem hafa verið óvægnir í gagnrýni sinni á að fyrrverandi stjórnarformaður Hafskips og bankaráðsformaður Útvegsbankans skipi þetta sæti. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að DV hrópi húrra, tengsl þeirra við Hafskipsmálið eru öllum kunn. Þetta óþægilega mál, sem skattgreiðendur verða að borga milljarð, eða meira, fyrir, kom af stað töluverðum skjálfta í stjórnmála- og við- skiptalífi landsins. Nú er best að gleyma þessu máli, snúa sér í al- vöru að kosningabaráttunni og reyna að halda þannig á spilunum að það líti út fyrir að samstaða sé um vandræðagripinn í fyrsta sæti. í leiðaranum er látið í það skína að andstæðingar Alberts innan flokksins hafi beðið færis að knésetja hann og má skilja það sem svo að Hafskipsmálið hafi verið hálfgerð himnasending til þeirra, en þar sem Albert hefur ekki enn verið sakfelldur tókst þeim ekki að bola honum frá: íslandsmet í hundalógík „Hvað sem líður tengslum Al- berts við Hafskipsmálið, hefur ekki komið fram nein ákæra á hann í því“. Reyndar hefur eng- inn verið ákærður enn. „f umræð- um telja menn ekki, að Albert hafi gert neitt saknæmt." Forsæt- isráðherra hefur lýst því yfir að ef Albert hefði verið ráðherra Framsóknar hefði hann krafist þess að hann segði af sér. Þetta er hið mesta vandræða- mál, það fer ekki á milli mála við lestur leiðarans. Leiðarahöfund- ur fer einsog köttur í kringum heitan graut, en brennir sig samt. Hann reynir að finna einhver rök gegn því að Albert eigi ekki að vera í fyrsta sæti í þeim tilgangi að sýna fram á að auðvitað eigi hann að skipa þetta sæti. Helstu rökin voru þau að flokkurinn tapaði fylgi fyrri hluta vetrar, eftir að niðurstöður prófkjörsins voru kunngerðar. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun DV hefur flokk- urinn hinsvegar endurheimt fylgi sitt. Ergo: „Röksemdir and- stöðumanna Alberts Guðmunds- sonar eru því fallnar.“ Einsog sjá má á þessu er rök- færsla DV sennilega íslandsmet í hundalógík. Það kemur reyndar ekki á óvart þegar leiðarinn stendur undir hausnum „Frjálst og óhátt dagblað" og við hliðina er kjallaragrein eftir Birgi ísleif Gunnarsson, þriðja mann á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Birgir á villigötum Vinstri flokkar á villigötum nefnist þessi grein fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur. Fjall- ar hún um krataflokka í ná- grannalöndum okkar, nb. ekki ís- lensku kratana. Birgir ísleifur býsnast mjög yfir þeirra afstöðu krataflokkanna að vera á móti vígbúnaði, einkum kjarnorkuvíg- búnaði, og að sumir þessara flokka hafi gerst svo djarfir að gagnrýna NATO. Birgir tekur dæmi frá þrem löndum, Danmörku V-Þýska- landi og Bretlandi: „Allt fram á þennan áratug voru krataflokkarnir sterkt og leiðandi stjórnmálaafl víða í Evr- ópu, t.d. í Noregi, Danmörku, Þýskalandi og Bretlandi. Þessir flokkar tóku höndum saman við hægri flokkana um mótun varnar- og öryggismálastefnu. Stofnun Atlantshafsbandalagsins og síðar víðtæk samvinna á sviði efnahags og viðskiptamála voru í mörgum löndum borin fram undir forystu sósíalista." Auðvitað er það rangt að sósí- alistar hafi verið áfram um stofn- un NATO, það voru sósíaldem- ókratar. Hinsvegar hafa kratar í þessum löndum gert sér grein fyrir vígbúnaðarbrjálæðinu og endurskoðað afstöðu sína. Þessa afstöðubreytingu má rekja aftur til þess tíma er bandamenn ís- lendinga og annarra þjóða Atl- antshafsbandalagsins voru með villimannslegan stríðsrekstur í Víetnam. Umræðan um kjarn- orkuvopn og uppsetningu meðal- drægra eldflauga í Evrópu varð svo til þess að þessir flokkar tóku sjálfstæða stefnu í þessum mál- um, vildu að þjóðir Evrópu hefðu sjálfar ákvörðunarvald um það hvort þessum útrýmingarvopn- um yrði komið upp í löndunum. Óábyrg afstaöa Birgir reynir mjög að einfalda ástæður þess að krataflokkarnir snéru baki við helstefnu Pen- tagon: „í hægri sveiflu þessa ára- tugar misstu margir krataflokkar völdin og þar með virtist öll ábyrgð og staðfesta rokin út í veður og vind.“ Flokkarnir eru semsagt með stefnu sinni í víg- búnaðarmálum einvörðungu á höttunum eftir atkvæðum. Fyrst hægri sveifla var, hefði þá ekki verið einfaldara að magna einu- sinni enn upp rússagrýluna og ná þannig í atkvæði, einsog Jón Baldvin hefur verið að iðka hér á íslandi? Þetta er ábvrgðarlaus leikur, segir Birgir Isleifur. Hvað er ábyrgðarlaust? Að snúast gegn vígbúnaðarkapphlaupinu? Er það ábyrgari stefna að lýsa bless- un sinni yfir endalausri stækkun vopnabúrsins, þó vitað sé að stór- veldin geti nú útrýmt jarðarbúum ótal sinnum? Er það ábyrg stefna að lýsa blessun sinni yfir stjörn- ustríðsáformum Reagan-stjórn- arinnar einsog Birgir ísleifur og Jón Baldvin hafa gert, það þótt fjöldinn allur af vísindamönnum um allan heim og ekki síst í sjálf- um Bandaríkjunum, hafi mar- gvarað við því brjálæði. Hverjir eru ábyrgari, Læknar gegn kjarn- orkuvá eða herforingjar stórveld- anna? Birgir ísleifur, það er ábyrgð- arhlutir að skrifa svo óábyrgan áróður um jafn mikilvægan hlut sem framtíð á jörðu er. -Sáf þlOÐVILJINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Útgefandl: Útgáfufélag Þjóðviljans. Rltstjórar: Árni Bergmann, Þráinn Bertelsson, össur Skarphóðinsson. Fréttastjóri: Lúðvík Geirsson. Blaðamenn: Garðar Guðjónsson, Ingólfur Hjörleifsson, Kristín Ólafsdóttir, Magnús H. Gíslason, MörðurÁrnason, ólafurGíslason, SigurðurÁ. Friðþjófsson, Stefán Ásgrímsson, Vilborg Davíðsdóttir, Víðir Sigurðsson (íþróttir), Yngvi Kjartansson (Akureyri). Handrlta- og prófarkalestur: Elías Mar. Ljósmyndarar: Einar ólason, Sigurður Mar Halldórsson. Útllt8teiknarar: SævarGuðbjörnsson, GarðarSigvaldason. Framkvæmdastjóri: Guðrún Guðmundsdóttir. Skrlf8tofustjóri: Jóhannes Harðarson. Skrifstofa: Guðrún Guðvarðardóttir, Guðbergur Þorvaldsson. Auglýsingastjóri: Sigríður Hanna Sigurbjörnsdóttir. Auglýsingar: Olga Clausen, Guðmunda Kristinsdóttir. Símvarsla: Katrín Anna Lund, Sigríður Kristjánsdóttir. Húsmóðir: Ólöf Húnfjörð. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Utbreiðslu-ogafgreiðslustjóri: HörðurOddfríðarson. Afgreiðsla: Bára Sigurðardóttir, Kristín Pétursdóttir. Innheimtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, ÓlafurBjörnsson. Utkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síöumúla 6, Reykjavík, sími 681333. Auglý8ingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóð viljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 50 kr. Helgarblöð:55 kr. Áskriftarverð á mánuði: 500 kr. 4 SÍÐA — ÞJÓÐVILJINN Miðvikudagur 4. febrúar 1987

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.