Þjóðviljinn - 18.03.1987, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 18.03.1987, Blaðsíða 4
LEIÐARI Tímasprengjan í farteskinu Talsmenn ríkisstjórnarinnar tönnlast dag eftir dag á þeirri bábilju, að það hafi verið ríkisstjórn- in sem náði niður verðbólgunni. Hvað er nú að marka þessa staðhæfingu sjálfumglaðra stuðningsmanna stjórnarflokk- anna? Förum aðeins yfir staðreyndirnar í mál- inu. Það er að sönnu rétt að um tima var verðbólg- an á niðurleið. En það var ekki vegna snjallra aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar. Verðbólgan fór niður vegna þess að launafólk var látið taka á sig eina hriklegustu kjaraskerðingu sem sögur fara af hérlendis. Það var nefnilega launafólk, sem var látið greiða niður verðbólguna, og sé rýrnun hennar einhverjum að þakka, þá er það alþýðu þessa lands. Fráleitt ríkisstjórninni. Þær þvinguðu fórnir sem launafólk færöi samkvæmt nauðungartilskipunum stjórnvalda leiddu til þess að kaupmáttur taxtakaupsins lækkaði í tíð þessarar ríkisstjórnar um allt að þriðjungi. Kaupránið, sem ríkisstjórnin framdi á launa- mönnum til að greiða niður verðbólguna jafngildir á síðustu fjórum árum samtals 300 þúsund krónum á sérhvern íslenskan launa- mann! 300.000 krónum! Þannig var verðbólgunni náð niður um tima. Með feikilegum álögum á almenning meðan fyrirtækin sluppu og fengu meira að segja stór- kostlegar skattaívilnanir. Samt skirrast ráðherrar ríkisstjórnarinnar ekki við að ganga fram og berja sér á brjóst einsog Tarsan forðum og segja: Sjá, þetta er okkur að þakka! Hvílík ósvífni! Ósvífnin er enn grófari fyrir þá sök, að vegna mistaka og stjórnleysis ríkisstjórnarinnar á fjármálum þjóðarinnar eru hinar þungbæru þvingunarfórnir nú að verða til einskis. Baráttan við verðbólguna er nefnilega að tap- ast vegna fyrirhyggjuleysis ríkisstjórnarinnar. Það er tímasprengja í farteskinu, sem á eftir að springa síðar á árinu með þeim afleiðingum að verðbólgan mun rjúka upp. Þessi tímasprengja felst í hallanum á ríkis- sjóði. Þrátt fyrir allt góðærið hefur ríkisstjórninni tekist að koma svo dæmalausri óreiðu á fjármál sín, að ríkissjóður er rekinn með 3 miljarða halla á þessu ári. Ríkisstjórnin hefur ekkert getað sagt um hvernig á að greiða þennan halla, og ætlar bersýnilega að láta reka á reiðanum. Það leiðir hins vegar ekki til neins annars en prentunar nýrra peninga sem ekki er innistæða fyrir, þenslu, sem leiðirtil verðbólgusprengingar síðar á árinu. Hallinn á ríkissjóði er ávísun á nýtt verðbólguskeið. Þessi þróun er þegar hafin. Við síðustu kjara- samninga lofaði ríkisstjórnin að sjá um að verð- bólgan yrði ekki nema 7-8 prósent. í dag er hún þegar komin í 20 prósent, og virtir hagfræðingar af hægri vængnum spá því fullum fetum, að fyrir árslok kunni verðbólgan að vera aftur komin í 40 prósent. Þvingunarfórnir launamanna upp á hundruð þúsunda, sem átti að nota til að greiða niður verðbólgu, voru þarmeð færðar til einskis. Allt vegna klúðurs ríkisstjórnarinnar. Það er hins vegar til leið út úr þessu. Tals- menn Alþýðubandalagsins og Þjóðviljinn hafa hvað eftir annað vakið athygli á þeirri stað- reynd, að meðan kaupránið var framið á launa- fólki fengu fyrirtækin stórkostlegar skattaíviln- anir. Með því að afnema þær og láta fyrirtækin gjalda keisaranum það sem keisarans er, má auðveldlega afla nægilegs fjár í sjóði ríkisins til að útrýma hallanum og minnka verðbólgulík- urnar stórlega. Væntanlegir kjósendur verða því að gera upp viðsig, hvortþeirviljastyðjaverndarstefnu ríkis- stjórnarinnar gagnvart fyrirtækjunum og þar- með stuðla að áframhaldandi verðbólgu, eða láta fyrirtækin greiða sanngjarnan skatt af góð- ænsgróðanum og minnka verðbólguna. Á meðan tifar klukkan í gangverki verðbólg- usprengjunnar í farteskinu.... -ÖS KUPPT OGSKORID Tíminn í sjötíu ár Að fá nóbelsverðlaun Vitið þið fyrir hvað menn fá nóbelsverðlaun? Tja, hver og einn telur sig vafa- laust eiga nokkur svör við því. Sumir hafa fundið upp merkileg lyf sem kannski bjarga fjölda mannslífa. Aðrir hafa skrifað merkileg skáldverk á borð við Sjálfstætt fólk eða Doktor Faustus. Slíkir menn fá nóbels- verðlaun. Og allir eru tiltölulega glaðir. En grein ein í DV á mánudag- inn var minnir okkur á að það eru fleiri leiðir að þeim metnaðarsigri að fá nóbelsverðlaun. Greinin er eftir Hannes Hólmstein, sem er að andmæla hugmyndum um stefnu í mann- eldismálum, sem varaþingkona Framsóknarflokksins hefur hreyft. Hannes vantreystir stjórnmálamönnum til að móta slíka stefnu og framfylgja henni, enda séu þeir margir hverjir átvögl og kaffisvelgir. Og hnykk- ir á, máli sínu til sönnunar, með eftirfarandi gullkorni: „Vinur minn, James M. Buc- hanan, fékk einmitt nóbelsverð- laun í hagfræði á síðasta ári fyrir að benda á að valdsmenn eru hvorki betri né verri en við hin.“ Hér gæti komið amen eftir efn- inu. Eða þá hið fornkveðna ; vissu fleiri en þögðu þó. Hitt verður svo ljóst í leiðinni, að Hannes Hólmsteinn á að einka- vini nóbelsverðlaunahafa í hag- fræði, og er þá að sjálfsögðu til nokkurs unnið. Menning og viðskipti í viðskiptakálfi Morgunblaðs- ins á fimmtudaginn var hófst birt- ing greinaflokks undir freistandi heiti: „Áhrif menningar í útflutn- ingi“. Einmitt, hugsaði klippari. Þetta er eitthvað fyrir okkur. Það er öðru hvoru verið að tala um það, að menningin eigi að ryðja útflutningnum braut. Kannski eiga saman skáldskapur og skreið, málverk og mjólkurostur, tónverk og treflar. Við þurfum slaufu á saltfiskinn, segir í Brekkukotsannál. En því miður reyndist okkur í kot vísað. Greinin var um nauð- syn þess að sölumenn á flakki um heiminn byrji á að kynna sér rækilega siði heimamanna áður en þeir reyna að selja þeim smjör eða skrúfjárn. Og er sú viska reyndar jafngömul allri kaup- mennsku. Dæmi er tekið af þeim sem ætla sér að eiga viðskipti við araba. Það er ýmislegt, segir í greininni, sem þeir eiga að vara sig á. Þeir eiga ekki að ræða um íslamskar refsingarvenjur (en eins og menn vita eru þjófar handhöggnir í ýmsum löndum íslams og fleiri herfilegar refsingar eru þar við lýði). Þeir eiga ekki að tala um efni eins og kvenréttindabaráttu og fjölkvæni. Og þeir mega síst af öllu láta í Ijósi jákvæð viðhorf til ísraels. Það er líklega ekki nema satt og rétt, að ekkert af þessu mega sölumenn gera ef þeir ætla að selja varning í Arabalöndum. En nú mætti spyrja um tvennt: í fyrsta lagi: mundi Morgun- blaðið telja það skynsamleg ráð til bisnessmanna eða tvöfalt sið- gæði og aumingjaskap, ef í slík- um greinaflokki birtust hliðstæð- ar ráðleggingar til þeirra sem stunda viðskipti t.d. við Sovétrík- in? Til dæmis bessi: talið aldrei um stríðið í Afganistan við sov- éska viðskiptaaðila. Eða við- kvæm mannréttindamál. Og svo mætti áfram telja. í öðru lagi: við vitum að kaupsýslumenn forðast að segja eitthvað það sem lætur illa í eyrum viðskiptavina - hvort þeir eru arabar, Fransmenn eða Ní- geríumenn. En í guðanna bæn- um: hvað kemur þetta „áhrifum menningar“ við? Hinsvegar skulum við láta les- endum eftir að greina það hvaðan þau menningaráhrif eru komin, sem hafa laumað þessari klausu hér inn í fyrrnefnda grein: „Munur á viðskiptamenningu vestrænna landa og arabaríkj- anna gefur ástæðu til að breyta hinni hefðbundnu söluráðafræði og draga samningaferlið fram sem sérstakan söluráð á meðal samskiptasöluráða.“ Afmæli Tímans Tíminn varð sjötugur í gær og var blaðið að vonum lagt undir þann atburð. Þar var m.a. minnt í ritstjórapistli á algenga spurn- ingu úr samtímanum : er það við hæfi að dagblöð nú á dögum styðji við bakið á ákveðnum stjórnmálaflokki ? Tímamaður svarar þeirri spurningu játandi og bendir í leiðinni réttilega á það, að raup borgarapressunnar um að hún sé fjarska frjáls og óháð sé marklítið - enda auðvelt að rekja skrif þeirra blaða saman við hagsmuni hægri aflanna í landinu og þar með Sjálfstæðisflokksins. Tíminn og Þjóðviljinn eiga það sameiginlegt að vera í sögu og samtíð nátengd merkum félags- hyggj uhreyfingum. Og svo það, að fyrir bragðið dynja mjög á þeim ávítur um að þessi blöð séu „of pólitísk". Eins gott að þau láti slíkar aðfinnslur sem vind um eyrun þjóta: blaðasagan hefur þegar sýnt að líf þessara blaða er nátengt pólitískri sérstöðu þeirra; ef hún er kveðin í kútinn dettur úr þeim tilvistarbotninn. Annað mál er, að það er hægt að vera vinstrisinnaður og róttækur og samvinnusinnaður bæði á „lokaðan“ og „opinn“ hátt ef svo mætti að orði kveða; blind flokkshollusta er ekki dyggð frekar en það skoðanaleysi sem löt hægrimennska felur sig einatt á bak við. Við óskum Tímamönnum til hamingju með afmælið og vonum að þeim takist sem best að rækta þær hefðir sem blað þeirra hefur bestar átt. áb þJOÐVILJINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Útgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans. Ritatjórar: Árni Bergmann, Þráinn Bertelsson, össur Skarphéðinsson. Fréttastjóri: Lúðvík Geirsson. Blaðamenn: Garðar Guðjónsson, Ingólfur Hjörleifsson, Kristín Ólafsdóttir, Magnús H. Gíslason, Mörður Árnason, Ólafur Gíslason, SigurðurÁ. Friöþjófsson, Stefán Ásgrímsson, Vilborg Davíðsdóttir, VíðirSigurðsson (íþróttir), Yngvi Kjartansson (Akureyri). Handrita- og prófarkalestur: Elías Mar. Ljó8myndarar: Einar Ólason, Sigurður Mar Halldórsson. Útlltsteiknarar: Sævar Guðbjörnsson, Garðar Sigvaldason. Framkvæmdastjóri: Guðrún Guðmundsdóttir. Skrlfstofustjóri: Jóhannes Harðarson. Skrifstofa: Guðrún Guðvarðardóttir, Guðbergur Þorvaldsson. Augiyslngastjóri: Sigríður Hanna Sigurbjörnsdóttir. Auglýsingar: Olga Clausen, Guðmunda Kristinsdóttir. Símvarsla: Katrín Anna Lund, SigríðurKristjánsdóttir. Húsmóðir: Ólöf Húnflörð. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Útbrelðslu-og afgreiðslustjóri: HörðurOddfríðarson. Afgreiðsla: Bára Sigurðardóttir, Kristín Pétursdóttir. Innheimtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, ólafurBjörnsson. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavik, sími 681333. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 50 kr. Helgarblöð: 55 kr. Áskriftarverð á mánuði: 500 kr. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Miövikudagur 18. mars 1987

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.