Þjóðviljinn - 16.02.1990, Blaðsíða 15

Þjóðviljinn - 16.02.1990, Blaðsíða 15
Elísabet Berta Bjarnadóttir Tvö Ijóð Tilbrigði við vorið í Prag Ást þeirra var eins og vorið í Prag svo ung - svo heit - svo hrein heiður í henni himinninn tær fuglasöngurinn laufmiklar trjákrónurnar léttur niður vatnsins svo sæt angan ávaxtanna. Dag einn kom hræðslan við framvinduna eins og skriðdreki á breiðum beltum úr austri fór þvert yfir ást þeirra kramdi hana undir farginu. Svo brostin - svo blóðug - svo ötuð varð ást þeirra svo dökkur yfir henni himinninn hljóðnaður fuglasöngurinn fallin trén þungur niður vatnsins svo fylltist loftið sterkum daun sundurtættra ávaxtanna. Gert á nýársmorgun 1987, nær 20 árum eftir innrás Sovétmanna í Tékkóslóvakíu. Meðan múrarnir molna Svo einn daginn 1990 var Mandela látinn laus hóf hnefann á loft í Ijósgráum jakkafötum í augunum mátti sjá óljósa mynd af bognu baki sitjandi á naglfastri rúmbrík í lokaðri lítilli fangasellu hjarta sem slær í molnandi múrinn. MINNING Guðmundur Daníelsson Fæddur 4. okt. 1910- Dáinn 6. febr. 1990 RHhölundasambandið kveður heiðursfélaga Mikill sagnameistari er f allinn í valinn, Guðmundur Daníelsson rithöfundur, eftir tæpa átta giftu- drjúga og starfsama áratugi. Hann var aðeins 23 ára þegar fyrsta bókin frá hans hendi kom út, og hann hélt áfram að skrifa alveg fram á síðasta æviár. Segja má að hann hafi fyrst vakið veru- lega athygli með hinum ágætu skáldsögum Bræðurnir í Gras- haga 1935, og framhaldi hennar Ilmur daganna ári síðar, og áður en yfir lauk voru rit hans orðin u.þ.b. fimmtíu; smásögur, ljóð, leikrit, ferðasögur og ævisögur; en þó voru skáldsögurnar drýgst- ar og munu margar halda nafni hans lengi á lofti. Má auk þeirra sem áður voru nefndar vísa til Á bökkum Bolafljóts 1940, Musteri óttans 1953, Blindingsleikur 1955, Hrafnhetta 1958, að ógleymdri bókinni Húsið 1963, um bygginguna sem gengur undir því nafni á Eyrarbakka þarsem Guðmundur bjó lengst af og starfaði. Guðmundur Daníelsson var ötull baráttumaður í félaga- samtökum rithöfunda. Hann var formaður Félags íslenskra rit- höfunda 1970-1972, og einn af stofnfélögum Rithöfundasam- bands íslands 1974 er íslenskir höfundar sameinuðu krafta sína innan þess. Hann sat í Rithöf- undaráði 1974-78, og hann var kjörinn í fámennan en útvalinn hóp heiðursfélaga Rithöfunda- sambandsins árið 1985. Við forystumenn RSÍ leituðum stundum álits og ráða hjá Guð- mundi um málefni sem snerta hag skáldskaparins og bókmennt- anna. Hann leit jafnan á málin úr frumlegri og óvæntri átt, var gamansamur, ráðhollur og við- ræðugóður. Nú er skarð fyrir skildi í okkar röðum, og eftirsjá í því að heyra ekki framar glað- beitta og drynjandi bassarödd gamla meistarans að austan. Fyrir hönd Rithöfundasambands íslands Einar Kárason, formaður „Havel í kastalann" - stendur á þessu spámannlega plakati; það er í Hrad, gömlu konungshöllinni í Prag sem skrifstofur forseta Tékkóslóvakíu eru. Þegar andófsmaður verður leiðtogi Hugleiðingar Václavs Havels á umbrotatímunum í fyrrahaust Hvernig bregðast þeir menn við sem fyrir skömmu voru ofsótt- ir andófsmenn, Donkíkótar frels- isins, vondaufir um árangur- um þaö leyti sem umskipti mikil verða og kallað er á þá að þeir komi og hafi forystu fyrir samfé- laginu? Um þetta efni fjallar Václ- av Havel, forseti Tékkóslóvakíu, í grein sem hann skrifaði í október í fyrra þegar sýnt var að dagar valdhafanna voru senn taldir, þegar fólk þyrptist undir merki stjórnarandstöðunnar - en áður en menn gátu við því búist að Havel settist í forsetastól. Hér er grein þessi þýdd og endursögð upp úr bæklingi frá Charta 77 deildinni í Stokkhólmi, sem nefnist „Rætur hinnar bros- andi byltingar". Þýðing andófsins Havel hefur máls á því að nú sé tími „hins klassíska andófs lið- inn“. Með því eigi hann við árin löngu, þegar sú eina frjálsa rödd sem í landinu heyrðist var rödd tiltölulega lítils hóps manna, sem hafði ákveðið að segja sann- leikann án tillits til afleiðinga. Þetta fólk, segir Havel, naut að vísu samúðar hjá hluta almenn- ings, en sú samúð var mest falin því fáir vildu leggja sig í sömu hættu og andófsmenn. Andófs- menn gátu ekki státað af mörgum áþreifanlegum sigrum í pólitík. Þýðing þeirra hefur, að mínu viti, fyrst og fremst verið siðferðileg, þeir voru viðmiðun, þeir spunnu þráð samhengis milli fortíðar og óljósrar framtíðar, samhengis sem varðar hugsjón myndugs þegnréttar í landinu. Við áttum öngva tryggingu fyrir árangri, að- eins von um að hin donkíkótíska hegðun reyndist ómaksins verð. Þessu næst ræðir Havel um það millibilsástand sem hann er staddur í þegar greinin er skrifuð: andófsmenn eru ekki lengur inni- lokaðir á bak við þykkan múr, en enn hefur ekki orðið til „eðlileg pólitísk menning" sem þeir geti starfað í. Nú verði menn að gera það upp á nýtt, hverjir þeir eru og hvernig þeir eigi að takast á við verkefnin, segir Havel. Hann segist ekki ganga með fullkomna forskrift um lausn mála, en vill leyfa sér að bera fram nokkrar persónulegar athugasemdir og ráðleggingar. 1 fyrsta lagi ráðleggur hann fé- lögum sínum úr andófinu að sýna raunsæi. Menn eigi ekki að vera alltof hrifnir af því að fólk mars- éri nú með þeim og bindi vonir við „að þeir einir eigi að leysa vandamál sem aðeins verða leyst af samfélaginu í heild“. Það er að vísu ekki nema eðliegt, segir Ha- vel, að við séum ánægðir þegar það kemur nú í Ijós, að það sem við höfum sýslað við í mörg ár var ekki merkingarlaust með öllu. En semsagt: látum það ekki stíga okkur til höfuðs. t annan stað varar Havel menn við því, að þeir sem þegar fyrir fimmtán árum sögðu það sem all- ir segja í dag, séu eins og með sjálfvirkum hætti kvaddir til að gegna „forystuhlutverki". Að þeir séu svo miklu betur til for- ystu fallnir en þeir sem „ekki vöknuðu fyrr en klukkuna vant- aði fimm mínútur í tólf“. Þeir eiga m.ö.o. „ekki að gleyma því sem þeir hafa alltaf lagt áherslu á: að þeir eru ekki að vinna fyrir eigin málstað heldur fyrir samfé- lagið“. í þriðja lagi varar Havel menn við að básúna mikið um einstök áform og aðgerðir, sem vekja mikla athygli almennings og fjöl- miðla. Og vanrækja þá það leiðinlega hvunndagsstarf sem skiptir ef til vill meira máli fyrir framtíðina: „Ég er þá að hugsa um hið þolinmóða hversdagsstarf að því að skapa sér trausta áætlun og þroska meðvitundina, starf sem hlúir að og breiðir út þann umræðuvilja sem er forsenda lýð- ræðis í anda Masaryks“. Að lokum kemur Havel að því sem hann segir skipta allra mestu máli: „Því sýnilegri sem við verð- um á hinu pólitíska sviði þeim mun rækilegar verðum við að minnast hinna upphaflegu, m.ö.o. siðferðilegu, forsendna breytni okkar, og þeim mun bet- ur verðum við að gæta þess að ábyrgð okkar fari ekki, skyndi- lega og án þess eftir verði tekið, að klofna í tvennskonar ábyrgð: mennska ábyrgð og pólitíska“. Hvort sem við erum niðurlægðir fangar eða talsmenn þjóðarvilj- ans verðum við að byggja starf okkar á einni og sömu samvisku: „Ég hefi,“ segir Václav Havel, „alltaf verið sannfærður um það og trúi því enn í dag að eiginleg ástæða fyrir öllum kreppu- einkennum sem við sjáum allt um kring sé hin siðferðilega kreppa samfélagsins, og að enga kreppu - frá hinni efnahagslegu og pólit- ísku til umhverfiskreppunnar - getum við leyst með öðrum hætti en þeim að vinna bug á hinni sið- ferðilegu kreppu. Við verðum að sigrast á djöfullegri hugmynda- fræði sérgæskunnar og á þeirri uppgjöf mennskunnar og þegnréttarins sem svo lengi og kerfisbundið hefur sýkt okkar samfélag." Föstudagur 16. febrúar 1990 NÝTT HELGARBLAÐ - SlÐA 15

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.