Þjóðviljinn - 27.04.1990, Qupperneq 14

Þjóðviljinn - 27.04.1990, Qupperneq 14
Megas, langafinn í íslensku rokki. Mynd: Jim Smart. Magnús Þór Jónsson öðru nafni Megas hefur allt frá sinni fyrstu hljómplötu verið umdeildur tónlistar- og textasmiður. Þeir eru til sem ekki ná upp í nefið á sér af hneykslan yfir Megasi og vanda honum ekki kveðjurnar. En sá kjarni tryggra aðdáenda sem myndaðist eftir að fyrstu plöturnar hans komu út, hefur farið stækkandi með hverri plötu. Nú er svo komið að fáir efast um hæfileika Megasar í textasmíðum og margir setja hann á stall með okkar bestu skáldum. Hann vill þó ekki sjálfur kalla textana sína Ijóö og segir ýmsa eftirmála sem orðið hafa vegna texta hans ekki skipta máli. Lífið sé korteðer allt einn eftirmáli. Innan skamms kemur út frá Megasi hljómplatan „Hættuleg hljóm- sveit og glæpakvendið Stella" sem aðeins verður seld í áskrift í síma 616766 og hægt er að skrifa sig á lista fyrir henni í hljómplötuverslun Dóra á Laugavegi 20. Þetta kann að virðast furðulegur dreifingarmáti en í viðtali við Nýtt Helgarblað gefur Megas sínar skýringar á honum. Hvers konar plata er „Hœttuleg hljómsveit og glæpakvendið Stella"? Þessi plata er ákveðin nálgun við fortíð, raunverulega og ó- raunverulega. Ég er eiginlega að hnita hringi yfir barnæsku stríðsáranna í Reykjavík, kem úr nútíðinni og þræði mig aftur til fortíðarinnar. En nútíminn er eins og gefur að skilja þarna til staðar þar sem ég legg upp frá honum í leit að týndum og gleymdum tíma. Þetta er fyrst og fremst mín saga, það er að segja ég í Reykja- vík þó borgin sjálf sé ekki svo mikið til staðar. Eg er að rifja upp mína tilfinningalegu afstöðu gagnvart heimsstyrjöldinni síðari og áhrif hennar á mig. Þá er ég líka að rifja upp þessar ægilegu rútur sem maður þurfti nánast að skríða í vegna þess að þær voru svo lágar. Með þessum rútum fór ég meðal annars upp á Snæfells- nes og víðar. Á plötunni er einnig fjallað um Basil fursta. Hann er í raun og veru ákveðið tákn á plötunni. Þar er líka minnisvarði um hríðina, þessa íslensku hríð sem er alltaf utan um mann, maður er alltaf í faðmi hríðarinnar á íslandi. Fjármála- ráðuneytið er eins og hríðin Er það eitthvað sem er gott eða vont? Það er náttúrlega gott vegna þess að það er ekki um annað að ræða. Annars er þetta lag tileink- að fjármálaráðuneytinu. Hríðin er auðvitað hafin yfir allan tíma þó lagið byrji á hríð allra tíma, hríðinni í gegnum tíðina. Fjárm- álaráðuneytið er ráðuneyti sem í stórum dráttum hegðar sér eins og hríð, hefur sama eðli og hún. „Hættuleg hljómsveit og glæp- akvendið Stella“ er ekki eins og „Loftmynd“ sem fjallaði um Reykjavík og ekki eins og „Höfu- ðlausnir" sem fjallaði um sam- skipti kynjanna fimm og ekki eins og „Bláir draumar“ sem var létt- ur og ljúfur djass án mikils lýrísks innihalds. Þessi plata er meira safn af lögum en einhver ákveðin heild. Hver eru kynin fimm, eru þau ekki bara tvö? Ég ætla ekki að telja þau upp, það yrði allt brjálað. Pú segist vera að rekja þig frá nútímanum aftur til stríðsáranna. En þú ert líka að láta skrá ævisögu þína til ellefu ára aldurs? Við köllum þetta ekki ævisögu heldur héraðslýsingu á Norður- mýri í Reykjavík. Ævisaga myndi lýsa ævi, ekki satt? Ef ég hefði aðeins náð ellefu ára aldri yrði þetta ævisaga en nú er ég óvart fjörtíu og fimm ára. Þetta er því afskaplega lítið ævisögubrot ef hægt er að nefna einhverja ævi í þessu sambandi. Bókin verður umfjöllun um þennan tíma, mig í þessum tíma. Þetta er töluvert skylt því að gera sönglög. Það er ekkert verið að rekja sig eftir þessum æviþætti og útlista hann sem slíkan. Éllefu er ansi merkileg tala. Hún stendur fyrir það þegar einn tugur er bú- inn og annar byrjar. Þessi tala er endurupphaf og það er aðalat- riðið. „Hættuleg hljómsveit og glæp- akvendið Stella" verður seld í á- skrift. Þú hefur lent í töluverðum vandræðum með sumar afþínum fyrri útgáfum vegna kurrs milli þín og útgefenda, er þetta niður- staða þess? Ástæða þessa söluforms er ekki endilega það sem gerst hefur á milli mín og útgefenda, ástæðan er miklu heldur ég og ástandið á markaðnum. Menn eru að reyna að gefa út hjá útgefendum og þola slíka afarkosti og niðurlæg- ingu sem í raun og veru er ekki neinum bjóðandi. Þess vegna á- kvað ég að kanna hvort hægt er að gefa út hljómplötu óháð þeim hefðbundnu dreifingarleiðum sem venjulega eru farnar og eru miklum annmörkum háðar. Allar hljómplötuverslanir eru meira og minna í höndum útgef- enda sem einungis leggja rækt við sínar eigin útgáfur. Ef maður er með sinn vaming í því kerfi öllu er maður í stríði sem maður hefur leit að týndum tíma MegasgefurútHættulegahljómsveit og glæpakvendið Stellu. Hann segir nýjustu plötuna alltaf vera þá verstu í huga almennings engan áhuga á að taka þátt í. Plöturnar sem ég hef gefið út eru bojkotteraðar fram og til baka. Ég er ekki fyrstur til að fara einhverja svona leið. Menn hafa gefið út plötu og miðað útgáfuna við það sem þeir geta selt prívat, hafandi þá reynslu að jafnvel þó þeir fari til útgefanda og fái hjá honum dreifingarsamning, er svo hraksmánarlega að málum staðið að það er ekki hægt að una því. Menn sem gefa út sjálfir hafa líka reynt að leggja þær inn í hljóm- plötuverslanir sem hefur heldur ekki gefið góða raun, vegna þess að þær eru settar í felur og farið með þær eins og óhreinu börnin hennar Evu. Sú leið að selja plötuna í áskrift er því eina leiðin sem hægt er að fara með sæmilegum virðuleik. fslendingar vanþróaðir Hvers vegna erástandið svona? íslendingar eru náttúrlega van- þróuð þjóð, nýsloppin úr nýlend- udómi og það hafa ekki skapast hér neinar hefðir í verslun og við- skiptum og því enginn grund- völlur til að byggja á. Einu mögu- leikarnir sem menn sjá til að afla sér fjár á íslandi eru annars vegar að hirða sem mestan pening og hlaupa síðan í burtu og hins vegar að komast á einhvern ríkisspena. Þeir sem eru í bisness á íslandi erú oft á tíðum siðvilltir götu- strákar sem þekkja engar reglur og engin siðalögmál. Eg er ekki að tala um neina einstaklinga heldur almennt um ástandið og hef ekki áhuga á að vera flæktur í viðskipti af þessu tagi. Auðvitað eru ýmsir mögu- leikar til og kannski eiga þessi mál eftir að þróast eitthvað skynsamlega. Kannski eiga bóka- útgefendur, sem standa á aðeins eldri merg, eftir að fara út í hljómplötuútgáfu. Liggur þetta í gamalgróinni virðingu íslendinga fyrir því sem er skrifað? Já, ég býst við því, mér sýnist bókaútgefendur haga sér öðru- vísi. Ég hef ekki stúderað þetta en fer bara eftir því sem blasir við án þess að vera nokkuð að rýna í ástandið. Sérðu það víðar í þjóðlífinu en á þessum vettvangi að íslendingar eru nýfrjáls nýlenda? Það beinlínis æpir á mann alls staðar og þarf ekki að ræða það. Við búum í „réttarríki“ sem verð- ur að hafa innan gæsalappa. Ég er enginn sérfræðingur í þessum efnum en það þarf heldur ekki sérfræðinga til að sjá þetta. Hefur þessi vanþróun sínar ják- væðu hliðar líka? Það fer nú lítið fyrir jákvæðum hliðum þegar litið er til annarra nýfrjálsra ríkja. Þar ríkir ekkert nema sundrungin. / textum þínum hefur mátt finna vísanir í Ijóð íslenskra góð- skálda og minni úr þekktum ís- lenskum ritverkum. Er þetta til marks um mikinn áhuga á ís- lenskum bókmenntum? Nei, þetta er til marks um fag- mannleg vinnubrögð. En það er annars ekki hægt að komast hjá því ef maður fæst við textagerð að vísa til texta sem áður hafa verið gerðir, það gefur eiginlega auga- leið. Þrátt fyrir það sem ég var að segja áðan eru til ákveðnar hefðir í landinu, sérstaklega bók- menntalegar. Til að gera sig skiljanlegan vís- ar maður í einhvern sameigin- legan reynsluheim og ég get gert mig skilj anlegri með því að vitna í alíslenska goðsögn til dæmis. Ég geri það auðvitað vegna þess að ég á von á því að einhverjir hafi þessa sömu reynslu og ég og það gengur eftir í flestum tilvikum og menn skilja betur hvert ég er að fara. Var í annarri veröld Ein vísun sem ég man eftir: „Gulir eru straumar þínir hland mitt í skálinni", hafði hún ein- hverja eftirmála á sínum tíma gagnvart fólki sem kannski telur sig hafa meira vit en aðrir á þvi sem er skrifað? Ég var nú góðu heilli afskap- lega mikið fjarverandi einmitt um það leyti sem þessi hljóm- plata kom út, ég var víðsfjarri í allt annarri veröld. Ég vissi þess vegna ekki hvað einhverjir þröngir einstaklingar í þessari veröld hér voru að pæla, þó ég hafi haft spurnir af því að mönnum þætti þetta skelfilegt og mörgum þótti þessi plata reyndar með því versta sem hafði verið gert á þessu landi. Lífið er líka allt einn eftirmáli þannig að þessi einstaki eftirmáli skipti engu máli, hann er þrettán ára gamall og eftir hann hafa komið aðrir eftirmálar. Pað var nú sagt um margar af þínum plötum að þær væru það versta sem hefði verið gert, en hef- ur þetta ekki breyst? Það nýjasta er alltaf það versta, það gefur augaleið fyrir mann sem er í meira lagi pró- gressífur. Þetta hefur ekkert breyst, það nýjasta er enn alltaf það versta. Ef það myndi breytast yrði ég skelfingu lostinn og spyrði sjálfan mig hvurn djöfulinn ég væri að gera. Það töluðu margir um fyrstu plöturnar sem hryðjuverk við ís- lenska tónlist, varþetta meðvitað? Þær voru hryðjuverk við þá tónlist sem þá var í gildi, en hún var líka alger ósómi. Ég geri aldrei neitt meðvitað, þetta er allt undirmeðvitað. Ég söng eins fag- urlega og ég gat og gerði eins blíða og indislega músíkk og ég ég gat en miðaði hins vegar við minn smekk. Ég hafði að leiðarljósi að gera músíkk sem mér myndi finnast gaman að hlusta á sjálfur. Ef þessi tónlist er á skjön við tímann þá læt ég mér það í léttu rúmi liggja. Málið er fyrst og fremst hvað ég hef gaman að sjálfur en ekki hvað einhver illa skil- greindur meðal-Jón með lægsta hugsanlegan samnefnara hlustar á og vill hlusta á. Af þessum sökum hafa meðal- Jónarnir með lágu samnefnarana sem ráða útvarpsstöðvunum orð- ið fúlir þegar ég kem með plötu og koma því þannig fyrir að hún er ekki leikin. En ég er ekki að svekkja mig á mönnum með læg- stan hugsanlegan samnefnara. Þeir verða líka að vera til, svo menn geti áttað sig á hversu lágt mannleg reisn getur farið. Það væri heldur ekkert gott til ef ekki væri neitt slæmt til. Illaskrifandi kolbrjálaðir popparar Fyrsta platan þín var tekin upp í Osló, hvernig kom það til að þér datt í hug að fara að taka upp plötu? Það er ósköp einfalt svar við því. Á meðan ég var hér á íslandi og var að semj a músíkk bar öllum saman um það, bæði mér og öllum sem til þekktu, að ekkert þýddi að fara til einhvers útgef- anda og segja, á ég að gera fyrir þig hljómplötu. Það datt ekki nokkrum manni í hug, það var svo gersamlega út í hött. Það sem var að gerast á íslandi í dægurlagamálum var þannig að mitt efni átti ekki heima á plötu í því samhengi og það var enginn útgefandi sem maður hefði leitað til. Síðan er ég þarna úti í Osló og þar voru önnur viðhorf. Þá var búið að stofna á Norðurlöndun- um alternatíf útgáfufyrirtæki og þau gáfu fólki þá hugmynd að það væri einfaldlega hægt að gefa út plötu eins og maður vildi hafa hana. Það þyrfti ekki að fara í Fálkann og SG, maður bara gæfi út plötu. Þegar sá möguleiki var kominn var ekkert annað en að kýla á málið og útkoman varð hugguleg og skemmtileg plata. Svo kom ég með hana hingað heim og furðaði mig á því hvað menn, ekki hvað síst popparar, urðu kolbrjálaðir og að afgreiðslumenn í plötubúð- um sem höfðu verið slefandi utan í popp, urðu viti sínu fjær af illsku. Ótalandi og illaskrifandi popp- arar sem höfðu aldrei lesið stakt orð í hefðbundnum íslenskum bókmenntum, hneyksluðust á að ég færi óvirðulegum höndum um fornhetjur sem þeir höfðu heyrt um einhvers staðar án þess að muna vel eftir því hvað þær hétu, Snorra Skallagrímsson og svo framvegis. En þar sem ég var með tilbúna plötu í höndunum fékk ég þá ranghugmynd að kannski væri hægt að gefa hana út á íslenskum markaði og þegar hún hafði selst í 600 eintökum var ég orðinn óheyrilega mikið bjartsýnn. Þess vegna þræddi ég alla útgefendur sem voru til, Tónaútgáfuna, Svavar Gests, Fálkann og Hljóm- aútgáfuna, en það kom á daginn sem áður hafði verið á hreinu, að enginn vildi gefa þetta út. Það var ekki fyrr en verulega vafasamar persónur komu til skjalanna í íslenskum útgáfumál- um, að ágætur maður Ingibergur Þorkelsson gefur mig út og þá fer sagan að gerast. Svo ég komi aftur að eftirmál- um. Á „Millilendingu" seturðu fram ákveðna skoðun á faðerni sonar Ragnheiðar biskupsdóttur. Eru svona hlutir ekki vísir með að æsa ákveðnar stéttir í landinu, ef þœr komast þá á annað borð að því að þessi texti sé til? Nei, ég býst við að þetta angri ekki ákveðna menn vegna þess að þeir hlusta ekki. En hlutir af þessu tagi angra ekki stéttir held- ur ákveðnar týpur. Þessi texti um Ragnheiði er ansi líflegur og hug- myndin sem kemur þar fram er ekki óskynsamleg. Auðvitað þarf heldur ekki að túlka þennan texta bókstaflega og þá er hann afskaplega raunsær texti sem lýsir mjög glögglega því sem trúlega gerðist. Reyndar hafði ég ekki svo mikinn áhuga á því sem gerðist en það er gaman af svona unglingavandamálum sem lifa í gegnum aldimar og það væri gaman að hafa stelpuna hérna í dag og sjá hvemig hún hefur litið út. Mig langar að víkja að annarri plötu, „Drögum að sjálfsmorði". Þú talaðir áðan um að þú hefðir lifað í öðrum heimi en það fólk sem lifir í þessum þrönga heimi hér... .. .ég lifði í ennþá þrengi heimi. Ég var svo vímaður alla daga að ég vissi ekkert hvað var að gerast. En hafði þessi titill einhverja skírskotun til þín sjálfs á þessum tíma? Nei, nei, mér fannst þetta snið- ugur tiltill. Þetta er skammstafað DAS, Dvalarheimili aldraðra sjómanna, og lengi vel hét þetta prógramm sem ég hafði verið að semja í nokkur ár, einfaldlega bara DAS. Þetta prógramm lýsir ferðalagi í gegnum lægð og svo upp úr henni dálítið bratt aftur. í dag finnst mér þetta mjög leiðinleg og afskaplega sjálfsánægð plata. Samt eru þarna lög eins og „Grísalappa Lýsa" sem lifa mjög vel hjá þeim kjarna sem safnast hefur utan um þig? Já, já, það er satt og það getur vel verið að mínar skoðanir séu litaðar af einhverju öðru en tón- listinni og textunum. Þetta var bara svo leiðinlegt tímabil. Kveðskapur með stóru kái Þú talar ekki um textana þína sem Ijóð þó margir tali um þá sem Kveðskap með stóru kái? Þeir geta bara notað sín stóru ká eins og þeir vilja, ég ætla ekk- ert að láta það vera um mig. Mað- ur kallar sitt verk einhverju nafni sem hægt er að brúka hvunndags. Ég þarf að nefna þetta einhverju nafni og þetta eru bara textar. Þeir eru í raun og veru í ákveðinni hefð dægurlagatextans, lítil ljóð sem standa ekki mikið sjálfstæð og eru ekki til brúks ein sér, held- ur eiga þau að brúkast með þeirri melódíu sem ég flyt við þau. Það er til að mynda ekki talað um „ljóðin“ í „Töfraflautunni", það er talað um liberetto, text- ann. Mér þætti óþægilegt að nota önnur orð, eins og kveðskapur og ljóðmæli. Nei, textar skulu það vera. Dauðadópaðar húsmæður Þú segir á einum stað í texta „til þess eru vítin að vita um þau til þess aðgeta varastþau“. Hefurþú persónulega komið í víti til að vara við? Þetta er útfærsla á orðatiltæk- inu, „til þess eru vítin að varast þau“. Textinn sem þetta kemur fyrir í fjallar um dauðadópaðar húsmæður og þessi texti er allur mjög hundingslegur og eiginlega verið að vara þar við einu víti til að bjóða mönnum inn í annað. Menn hlaupa gjarnan svo hratt úr einu víti að þeir lenda í öðru. Annars var ég að heyra nýja útfærslu af þessu orðatiltæki: „Til þess eru vídeóin að varast þau“, og finnst hún eiginlega sú besta. Margir voru lengi m'eð það á hreinu að þú værir að stæla Bob Dylan. Hefur hann haft mikil áhrif á þig? Já hann hefur gert það. Ég opnaðist fýrir rokkmúsikk þegar ég var smá patti og fannst ég hafa fundið þar svið sem var eins og klæðskerasaumað á mig. Mest hreifst ég af þessum gömlu eins og Fats Domino og Elvis Presley með þennan ryþma og niður- neglda texta sem passaði svo vel við lagið. Þeir voru stundum dá- lítið harkalegir og töff og það heillaði. En svo kemur ákveðið úrkynj- unartímabil vegna þess að ákveðnar stofnanir urðu hræddar og þessir gömlu hurfu af sjónar- sviðinu. Það sem stóð eftir var sykursætur og merkingarlaus til- búningur þessara stofnana. Ljúf tónlist - kannski, en ekki fullnægjandi. Þá hugsaði ég með mér að þetta væri ekki fyrir mig og gaf rokkdrauminn upp á bát- inn um tíma. Svo leið heil- langur tími og nýbylgjan kom, Bítlarnir, Stóns og allt það og ég fór aftur að leggja við eyrun. Mér fannst textarnir samt ekki alltaf góðir. Stóns gerði stundum góða texta en þeir skiptu þá svo litlu máli, að þeir leyfðu sér oft að láta þá detta niður í algera lágkúru, jafnvel texta sem höfðu í sér mjög góða hluti. Gómsætir textar Texti á að vera þannig að manni þyki gott að hafa hann uppi í sér, maður á að fá eitthvað út úr því að syngja hann. Þó að lög eins og „Long Tall Sally“, „Tutty Frutty'* og „Don‘t Be Cruel“ séu ekki þrungnir merk- ingu þá hafa þeir í sér ákveðinn galdur. Bítlarnir og Stóns höfðu vissulega galdurinn með sér en ég lét lýríkina trufla mig þegar hún var ekki nógu góð. Það var ekki fyrr en ég heyrði í Dylan að ég uppgötvaði að þetta svið var grensulaust og það var mjög dýrmæt ábending. Ég var þó svo fordómafullur út í amer- ískan kúltúr þegar ég heyrði fyrst í Dylan, að ég trúði því ekki að þessi sleikti, krullhærði piltur hefði samið þessa texta. Að lokum Megas, semurðu mjög mikið, ertu td. með nœstu plötu tilbúna í höfðinu? Já hún er í höfðinu. En ég pró- dúsera ekki meira en ég þarf. Ég er ekki einn af þeim sem lifi fyrir það að skrifa og semja tónlist. Mér finnst gaman að semja og hafa samið þennan bunka af lögum til að setja á hljómleika- skrár. Eins og ég sagði áður reyni ég að semja efni sem er ljúft að hafa uppi í sér og hef þess vegna miðað mína tónleika við að þeir séu krásir eða veislur fyrir mig sjálfan að minnsta kosti. Sumir eru þannig að þeim finnst yndislegt að vakna snemma á morgnana og byrja að semja texta og melódíur við pía- nóið. Ég er ekki þannig. Ég tek frekar vinnuskorpur og sný mér síðan að öðrum hugðarefnum þess á milli. -hmp ER1.MAÍ í MYNDINNI HJÁ ÞÉR? Nœsti gjalddagi húsnœðislána er 1. maí. Gerðu ráð fyrirhonum í tœka tíð. 16. maí leggjast dráttarvextir á lán með lánskjaravísitölu. 1. júní leggjast dráttarvextir á lán með byggingarvísitölu. Gjalddagar húsnœðislána eru: 1. febrúar- 1. maí - 1. ágúst- 1. nóvember. Sum lán hafa fjóra gjalddaga á ári, önnur aðeins einn. SPARAÐU ÞÉR ÓÞARFA ÚTGJÖLD AF DRÁTTARVÖXTUM OG HAFÐU ALLTAF NÆSTU GJALDDAGA INNI í MYNDINNI. tóp HÚSNÆÐISSTOFNUN RÍKISINS LJ SUÐURLANDSBRAUT 24 ■ 108 REYKJAVÍK • SÍMI 696900 14 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 27. apríl

x

Þjóðviljinn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.