Lesbók Morgunblaðsins - 28.02.1954, Side 16
132
C
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS
nýtt, verkaði ég og saltaði í tunnur.
Saltaður fýlungi er herramanns-
matur, og svarar hver fugl til
tveggja spaðbita að næringargildi.
En nú er öldin önnur um flest, og
enginn má veiða þennan fugl, lög-
um samkvæmt. Samt er hann alltaf
ögn drepinn „bæði frjálst og stolið“,
en það er enginn umsetning í hon-
um lengur. Það bar nefnilega til
tíðinda fyrir allmörgum árum, að
tvær kerlingar í Vestmanneyum
urðu lasnar og kenndu um fýlunga-
áti. Læknarnir fellust óðara á þetta,
svona til samkomulags við konurn-
ar, en án þess að rökstyðja frekar
orsakasambandið við fuglinn. Þetta
varð til þess að fýlaveiðar og fýla-
át var stranglega bannað, — en
hvernig sem það er, þá var eins og
fuglinn kynni þessari ráðabreytni
illa, að fá ekki að vera drepinn
áfram eins og að undanförnu. Hon-
um fækkaði til muna við friðunina
og flúði sín fyrri varplönd, flýði
„innundir jökul“ og dreifðist um
allar tríssur.
— Fluttist þú þó ekki allmiklu
efnaðri úr Hjörleifshöfða?
— Jú, eitthvað. En ég hafði lagt
í mikinn kostnað á jörðinni, sem
engum kom svo að liði eftir mig.
Ég hafði endurreist öll hús á jörð-
inni, og nú er það allt farið nema
fjósið og skemman, sem hverfa
sjálfsagt bráðum. Einhvern veginn
var jörðin aldrei að mínu skapi, —
svo það varð úr, að við fluttumst
úr Höfðanum vorið 1920, að Suður-
hvammi, þar sem ég bjó til 1940, —
að Kjartan stjúpsonur minn tók við
búi eftir mig. Við höfum aldrei
orðið viðskila síðan við sáumst
fyrst 1907, — en Skæringur, bróðir
hans, fluttist til Reykjavíkur.
— Hver eignaðist svo Hjörleifs-
höfða eftir þig?
— Við Kjartan minn eigum hann
nú ennþá, og hvorttveggja er, að
fáir mundu vilja kaupa hann og
svo kærum víð okkur ekkert um
að selja kotið. — Þetta er þó að
minnsta kosti gamalt örnefni!
— Hvað finnst þér svo markverð-
ast frá uppvaxtarárunum, þegar þú
lítur um farinn veg?
— Allt. Þá var allt merkilegt, að
manni fannst. Ég lærði að lesa hjá
Runólfi vinnumanni í Norðurvík,
bróður Jóns Mýrdals, skálds. Hann
kenndi mér einnig að draga til stafs
og þau undirstöðuatriði í reikningi
sem nægt hafa til minna fábrotnu
viðskifta um ævina. Hann er mesti
guðfræðingur og trúmaður, sem ég
hef kynnzt, enda hálflærður til
prests, þegar sjónin bilaði hann.
Svo var það fyrsta kaupstaðar-
ferðin. Ég held að það hafi verið
meira fyrirtæki í mínum augum þá,
heldur en þó að venjulegur sveita-
piltur væri sendur til Afríku í dag.
Ég fekk að fara við annan mann
lestaferð um vor til Eyrarbakka, og
suður fluttum við fisk til „inn-
leggs“. Harðfiskur er sá langversti
klyfjaflutningur, sem til er. í fyrsta
lagi verður að binda hann upp með
sérstöku lagi og varfærni, svo hann
meiði ekki hestana, — og í öðru
lagi mátti hann hvorki blotna né
verða fyrir sandfoki. Ef dropi kom
úr lofti eða eitthvað golaði var ekki
um annað að gera en leggjast og
fansa, en svo var það nefnt, þegar
reiðingurinn var breiddur yfir
klyfjarnar, eftir að sprett var af.
Efnaðri bændur áttu boldangsdúka,
áfasta við meldýnuna eða meljuna,
til yfirbreiðslu. Þess háttar þing
var venjulega sjórekið góss úr
frönskum skútum. Síðan þetta var
fór ég margar kaupstaðarferðir
með ýmsum sveitungum mínum, —
og það var stundum gaman. Hún
var nú stundum fljót að fara brenni
-vínsflaskan við árnar í þá daga!
Og einhvern veginn er það nú svo,
að ég kann aldrei almennilega við
að fara yfir hana Jökulsá á bíl. Mér
finnst ég tapa einhverju á því að
fá ekki að svipast um eftir brotun-
um eins og við gerðum alltaf áður
en við lögðum hestunum út í. Nú
er flogið yfir allt, og ekki neitt
neitt.
Eins og stendur er Hallgrímur í
orlofi, — því fyrsta á ævinni, og
dvelur hjá Pétri bónda á Þórustöð-
um í Ölvusi. Einu sinni, endur fyrir
löngu, þegar Pétur var ungur kaup-
maður hér í Reykjavík, kom hann
að Suðurhvammi og keypti bleikan
hest af Hallgrími. Síðan hafa þeir
verið kunnugir og vinátta þeirra
farið vaxandi. í vetur bauð Pétur
„síðasta bóndanum" að dveljast h^á
sér, og nú sitja þeir saman á kvöld-
in og spjalla um gamla daga og
nýa, Hallgrímur spinnur á snældu
og vindur upp stóra hnykla, á með-
an hann rifjar upp árin, sem eru
liðin. Og það er bæði skemmtilegt
og menntandi að sjá þannig „gamla
tírnann" rétta „nýa tímanum"
höndina á því sveitaheimili, þar
sem búið er með mestum nýtízku-
og myndarbrag á íslandi.
S. B.
KJARNARANNSÓKN
í STANFORD háskóla í Kali-
forníu hafa þeir nýlega fengið hina
kröftugustu smásjá, sem til er í
heimi. Þetta er ekkert smásmíði,
því að hún vegur hálft þriðja tonn.
Hún stækkar og tíu sinnum meira
heldur en hinar beztu smásjár
gerðu áður, og er hægt að sjá í
henni og aðgreina öreindir, þar sem
bilið milli þeirra er ekki nema
1/50.000 úr þumlungi. Smásjá þessi
er smíðuð í þeim tilgangi að rann-
saka með henni frumeindakjarna.
Hefur þá og komið í ljós að kjarn-
inn er ekki harður og heilsteyptur,
eins og menn heldu, heldur er hann
eins og frauð.