Lesbók Morgunblaðsins - 02.06.1963, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 02.06.1963, Blaðsíða 12
I BÓKMENNTIR | Framhald af bls. 6. með Jón Hreggviðsson á öðru leitinu og Hið Ijósa man á hinu, jafnast á við þau fjarstæðukenndustu fyrirheit, sem rit þeirra gefa, Elíasar Mars og Geirs Krist- jánssonar, jafnvel það rit Elíasar, sem ber vitni svo háþróaðrar alþjóðlegrar siðmenningar, að nauðsyn þótti að gefa það út sem handrit, — já, og óvirtar Reykjavíkursögur á borð við Gangvirki Ólafs Jóhanns og óskrifuð snilldarverk þeirra, sem hafa fram að þessu verið svo varkárir að halda að mestu að sér hönd- um, — svo að ég ræði nú ekki þá höf- unda, sem telja sér vænlegast að beita snilli sinni að skyndimyndum persóna og mannlífs, sem þeir þekkja hvorki að haus né sporði, en fella í ramma róman- tíkur, sem er jafnópersónuleg og eftir- hermukennd og hún var hjá rótleys- ingjunum, er löfðu aftan í þeim snill- ingum sýmbólismans, sem auk hreinlist- rænnar fágunar áttu sér ekki annað markmið en eyða borgaralegri velferð sinni og að lokum lífi sínu?. Og mundi þeim ekki sumum hollt, skáldun- um, sem taka frægðina út í reikning hjá Duus, að hyggja lítið eitt að söngvaran- um frá Brekkukoti — jafnvel líka að paradísarfara, sem kominn er heim og hlotið hefur þá lífsreynslu, að það er ekki alveg jafnauðvelt að gleypa sólina og að gína við galdraflugum og ríslar sér svo við að hagræða steinum í van- ræktum veggjum, sem forfeður hans hlóðu?.... Annars hef ég haldið, að epíkin, persónulega mótuð frásögn, væri nokkurn veginn jafngömul þeim manni, sem fyrstur fann hjá sér hvöt til að tjá öðrum það, er á dagana dreif — og frá- sagnargleðinni hinni fyrstu gyðju list- rænnar tjáningar. Skyldi svo epíkin ekki verða lífseig, engu siður en trúar- leg tjáningar- og tilbeiðsluform mann- anna. Einhver bezt gerði þáttur bókar- innar Hugleiðingar og viðtöl er sá sein- asti, þó að hann falli raunar ekki inn í ramma hennar. Hann fjallar um kynni höfundar af Steini Steinarr, einkum eft- ir að hann lagðist banaleguna, og þá einnig að nokkru um skáldskap hans. Svo sem alkunnugt er orðið, hefur hópur ungra skálda og skældinga kjörið Stein spámann hinnar nýju tízku í Ijóðagerð og lífsviðhorfum, og þó að margt sé gott við það, sem Matthías segir um hann, þá er stundum á því fullmikill halelúja- bragur. Og Steinn — hvernig mundi hann horfa á söfnuðinn út um „bakdyr eiiífðarinnar?“ Á dögum sárbeiskju sinn- ar hefði honum verið dillað. Nú — ég er ekki viss um, nema hann aðeins hristi höfuðið í krafti þeirrar djúpu auðmýkt- ar, sem innst inni var viðhorf hans gagn- vart sannri list, trúlega í hans augum mestu dásemd mannlegs anda, nema ef hin sjálfgleyma ást kynni að hafa á seinustu árum ævi hans hlotið efsta sæt- ið í allri sinni frumstæðu, en guðkynj- uðu göfgi. Matthías opnar Steini skaut Abrahams, setur hann á bekk með sjálf- um Matthíasi Jochumssyni í íslenzkum bókmenntum. Aftur á móti þætti mér ekki ólíklegt, að það gerði Sigurður A. Magnússon alls ekki. Hann mun vart meta séra Matthías eins og höfundur bókarinnar Hugleiðingar og viðtöl, því í rauninni liggja leiðir þeirra Sigurðar að- eins saman, þar sem þeir ganga til vígs undir merkjum gyðju hinna órímuðu ljóða, enda nefnir Sigurður ekki Matthí- as Jochumsson, þá er hann skírskotar til mestu íslenzku skáldanna á 19. öldinni og fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu. Ég er heldur ekki viss um, að Sigurður meti Stein Steinarr jafnmikils og Matt- hías Johannessen metur hann. Hann læt- ur þess getið, að Steinn hafi verið svo bundinn íslenzkri rímhefð, að hann hafi fylgt henni I flestum ljóðum sínum, enda veit ég vel, einkum frá því er við Steinn ræddumst við heilan dag vestur á Isafirði á fyrsta áfanga vegferðar hans sem hneykslandi Ijóðskálds, að ritgerð Nordals um samhengi islenzkra bók- mennta hafði orðið honum ærið um- hugsunarefni. Og það mun sannast mála, að ekki aðeins sakir þessa sé ærið hæpið og grunnfærnislegt að gera Stein að spá- manni hinnar nýju Ijóðatízku. Beiskjan, bölmæðin og tvísýnið — og hin inn- hverfa og pínandi sjálfskoðun hans voru ekkert eftirstríðsfyrirbrigði, ekk- ert kjarnorkuafkvæmi, hvað þá tízku- sniðin gríma yfir sviplaust andlit á- byrgðarleysis og tómleika. Allt þetta var fyrst og fremst bundið uppeldi hans og æskukjörum og síðan magnað þeirri lífs- aðstöðu, sem lengst ævinnar var þeim mun verri en Bólu-Hjálmars, sem Steinn var líkamlega veilli, en annars í svipuðu ósamræmi og Hjálmars við skap, tilfinn- ingar og gáfur. En þrátt fyrir allt, var hann sannarlega mjög svo bundinn ís- lenzkum menningarerfðum. Jafnvel í ljóðaflokknum Tíminn og vatnið, þar sem hann kristallar lífsreynslu sína og lífsviðhorf og notar til tjáningar níst- andi andstæðna — annars vegar hnit- miðunarinnar í heimi útreikninga og tækni, hins vegar staðreyndar forgengi- leikans — orð úr flatar- og rúmmáli; jafnvel þar stuðlar hann hinar stuttu ljóðlínur samanþjappaðra hugsana, leift- ursýna og haminna tilfinninga og ástríðna .. Og það er ekki svo sem hann kafi þarna svartnættisdjúp bölmæðinn- ar. Ástin hefur komið til hans — og það hefur hlánað í sál hans: „Eins og tál- blátt regn sé ég tár þín falla á trega minn“. Og hann talar um hvolfþak ham- ingju sinnar. I»egar svona er komið, skýtur upp undir verndarvæng ástarinnar þessu sem Steinn er of sannur maður til að kannast ekki við fyrir sjálfum sér: „Eins og blóðjárnaðir hestar hverfa blá- fextar hugsanir mínar inn um bakdyr eilífðarinnar", segir hann. Matthías Jochumsson grípur líka til ærið fjar- stæðukenndrar samlíkingar, þegar hann freistar að nálgast Guð, píndur af efa kaldrænnar efnishyggju um tilveru hans: „Guð, minn Guð, ég hrópa gegn- um myrkrið svarta, líkt sem út úr ofni æpi stiknað hjarta", — svo að þarna mega þeir heita samferða, hið mikla skáld ljóss og gróandi og það skáld, sem fylking húms og sandfoks hefur viljað gera að spámanni sínum, enda má og minnast þess, að þó að Steinn Steinarr freistaðist til að trúa því um skeið, að Paradís yrði flutt á jörðu niður austur í heimi, þá reyndist hann það trúr mann- dómsviðhorfi íslenzkra menningarerfða, að hann fékkst ekki til að snúa Faðir- vorinu upp á andskotann. Og það er svo einmitt í ljóðabálkinum Tíminn og vatn- ið, sem hann, Steinn Steinarr, skrifar nafn Guðs með stórum staf. Hann var sem sé jafntrúr íslenzkum arfi í hugsunarhætti og lífsviðhorfum og hann var honum í notkun stuðla og höf- uðstafa. Hann hefur því notið í ríkum mæli þeirrar blessunar, sem Jónas Hall- grímsson segir um: „Þegar þeir deyja, þá er hún mest“. Ein lítil frásögn úr Heimskringlu Snorra E leiri leiðir eru opnar til form- breytinga í Ijóði en að yrkja órímað. Davíð Stefánsson sýndi það, eins og áð- ur er á bent, og notkun nýrra hátta og breytingar á orðavali frá því, sem áður hefur tiðkazt, er formbreyting, sem aft- ur og aftur á 19. öldinni og þeim áratug- um, sem liðnir eru af þessari, hafa gefið íslenzkum ljóðum nýjan og ferskan blæ. Snorri Hjartarson gengur miklum mun lengra á þeirri.braut en Davíð Stefáns- son að breyta notkun Ijóðstafa til sam- ræmis við áhrif breyttra tíma, og einnig má benda á þær nýjungar, sem Þorgeir Sveinbjarnarson hefur tekið upp í Vís- um Bergþóru, án þess að rjúfa samband- ið við forna íslenzka ljóðhefð. En slík nýbreytni er ekki á færi ann- arra en þeirra, sem gerþekkja hinar fornu rímreglur og bera fyrir þeim virð- ingu, en eiga hins vegar í sér hvöt til að finna tilfinningum sínum og hugsunum form, sem sé allt í senn: persónulegt, samræmt breyttum tímum og tíðaranda og raski ekki því formi, sem hefur reynzt þjóðinni líftaug manndóms og metnaðar á sultarárum nauðaldanna. En slíkt form getur sannarlega ekki orðið til án vilja- raunar og oft langvarandi baráttu, bar- áttu við efann um getu sína og köllun og þá ekki síður við freistinguna til að láta berast með bylgju tízkunnar, verða fyr- irhafnarlaust samstiga við jafnaldra, fé- laga og hugðarbræður — og síðast en ekki sízt láta leiðast af þeirri sjálfsblekk- ingu, sem sefjun erlendrar bókmennta- tízku býður upp á í krafti þeirrar van- máttartilfinningar, sem við íslendingar liggjum iðulega flatir fyrir. 1 M slenzkt skáld verður að skilja, að það má ekki falla í duftið fyrir T. S. Eliot, Ezra Pound eða öðrum furðuleg- um og einstæðum skáldum úti í hinum mikla mörutroðna heimi, skáldum, vöxn- um í arnarhreiðri hátt yfir milljónum morandi mergðar allra manntegunda á jarðkringlunni. En íslenzkt skáld má dá slík ofurmenni meðal skálda og tilfinn- ingabundinna spekinga, má freista að kafa í djúp þjáningar þeirra og lífsrýni, undrunar þeirra, niðurbælds örvænis og kristallaðra korna sannrar lífsvizku, þar sem þeir horfa og hlusta á æsilega og ógnþrungna móðu leysingarinriar, sem brýtur landið og fellur með feiknþung- um niði í hið úfna og ægifagra úthaf tímans. íslenzkt skáld verður að gera sér grein fyrir því, að það er vaxið úr allt öðrum og mjög sérstæðum jarðvegi, verður að skilja, að um leið og því er skylt að vera vökult gagnvart hinni víð- áttumiklu og voldugu veröld utan við eyjuna í norðurhöfum, getur það hvorki unnið og skapað eðli sínu samkvæmt ís- lenzk verðmæti né lagt hlutgengan skerf til menningar og listþróunar annarra þjóða, nema það standi á föstum grunni sögu og bókmennta sinnar eigin þjóðar og hafi tekizt í samruna tilfinninga og skynsemi að gera hið afbrigðilega sam- mannlegt og þar með sígilt. Ef til vill reynist miklu íslenzku skáldefni það eðlislægt, að lokinni harðri og alvarlegri baráttu, að túlka tilfinningar sínar og sýnir í órímuðum Ijóðum og um leið torræðum og andhælislegum myndum og líkingum, svo sem nú þykir hér og víða erlendis hinn skáldlegasti tjáningar- háttur, og þá skapar slíkt skáld eitthvað það, sem þykja mun forvitnilegt, sér- stætt og veigamikið. En það verður aldrei slíkt skáld, sem færir órímuðum ljóðum mikla sigra með oss íslending- um, aflar þeim viðurkenningar og gerir þau hold af holdi og blóð af blóði ís- lenzkrar menningar, menningarsóknar og menningarþróunar. Til þess þarf ann- að og óendanlega miklu meira. Til þess þarf það, að hið innhverfa, sjálfsskoðun- in, sjálfsþjáningin beri ávöxt út á við, verði hljómgrunnur óðs, sem túlki hið almenna íslenzka og sammannlega, lyfti hulu af leyndum fortíðar, eigi raunhæít erindi við samtíðina og birti framtíðina í spámannlegum leiftursýnum. Jónas Hallgrímsson var slikt skáld í bundnu máli, svo sem og Matthías Jochumsson og Einar Benediktsson — og svo er og um Davíð Stefánsson og Tómas Guð- mundsson. .. . En þrátt fyrir skáldlegar sýnir og frumleik, verður Hannes Sig- fússon þetta aldrei, sá meinsýni einfari — og Hannes Pétursson er ekki ennþá orðinn það, hvað sem eðli hans kann með sér að leyna. En þegar slíkt skáld órímaðra ljóða kemur fram, þá. ... ]Vlér dettur allt í einu í hug ein af þeim frásögnum Snorra Sturlu«onar, sem sýnir einna Ijósast, hver töframaöur hann var. Ég á við frásögnina af því, þegar forystumenn óvinaherja Ólafa konungs Tryggvasonar biðu þess við Svoldur, að hann sigldi austan. Þeir voru fullir eftirvæntingar og næstum yfirspenntrar óþreyju. Eitt skipið af öðru sigldi vestur um, og annað veifið gat að líta glæsileg skip og mikil, og þá vildu þeir, sem ékki þekktu Orminn langa, hraða sér til skipa sinna, en Eiríkur jarl kvað lengi vel nei við, sagði, að þarna færi ekki skip Ólafs Tryggvasonar. Þarna sigldu austan Traninn og Ormur- inn skammi, en loks kom eitt skip, sem menn aðeins horfðu á, en spurðu einskis, heldur gengu til skipa sinna.... Og þegar þar að kemur — eða kynni að koma — að stórskáld órímaðra ljóða kæmi fram hér á Islandi, skáld, sem ger- ir hið órímaða form þjóðlegt, eðlilegt og glæsilegt og talar í einföldum en spak- legum myndum og líkingum til þjóðar sinnar, svo að henni virðist hið tigna mál hans og hugsun eðlilegur gróður á akri íslenzkrar menningar, þá spyr enginn, —- þá þykir hæfa að leiða hið órímaða ljóð- form til öndvegis. Ég óttast ekki um framtíð íslenzkra bókmennta, en margt mætti um það skrifa, hve þungt þeim er nú fyrir fæti á margan veg. Hér hafa orðið miklar og margvíslegar breytingar og byltingar, hugir manna dregizt mjög að líðandi stund og forysta að vonum verið veil, svo sem viðhorfin eru margvísleg og breytileg, svo að segja frá degi til dags. En ég vil að lokum skírskota til orða, sem Halldór Kiljan Laxness hefur sagt suður í Danaveldi. Hann var spurður um íslenzkar bókmenntir og sagði eitthvað á þessa leið: „fslendingar geta skrifað bókmenntir, sem aðrar þjóðir geta ekki skrifað, en síðar yrðu sígildar. En í stað þess skrifa þeir það, sem aðrir geta gert betur“. | HEIMURINN | Framhald af bis. 1 þekkist í Kaupmannahöfn.' Þetta er ekki sagt Englandi eða Amex-iku til niðrun- ar — það er ekki þeim að kenna. Sök- in liggur hjá okkur sjálfum, Norður- landabúuim. Kétt fyrir norsku vikuna í Kaup- mannahöfn barst mér nýútkomið ,,Fél- agsbréf“ AB frá fslandi. Þar er prentuð ræða, sem Hennk Groth hélt, samkvæmt boði, 1 hátíðasal Háskóla fslands. Hann hefur síðar talað á svipaðan veg ann- ars staðar; einnig í dansika útvarpið síðastliðið mánudagsikvöld. Efnið var Norðurlönd og heimurinn. „Fyrir okkur Norðurlandabúum eru Norðurland og heimurinn orðið svo sárs- aukafullt, flókið og erfitt viðfangsefni, að við viljum helzt leiða það alveg hjá okkur.“ Síðar segir hann: „Bræðraþjóðirnar á Norðurlöndum eru.... ekki eins líkar að erfðakenningum og hugsjónum og við erum að vona, trúa eða tala um í skálarræðum. Og þegar við byggjum upp norræna samvinnu, verðum við að gera okkur ljóst, að sameining okkar verður að byggjast — ekki fyrst og fremst á ætterni, heldur á skyldleika í aðalatriðum, en jafnframt eins konar ástfanginni viðurkenningu á frábrugðn- um eiginleikum hinna.“ Um Norræna Menningarráðið, sem stofnað var 1947, ríkisstjórnunum til ráðuneytis, segir Groth, að það hafi því miður í fyrstunni haft heldur litla þýð- ingu, af því að það hafi nánast verið skipulagt sem meinlaus kjaftavél. En svo var það endurskipulagt 1954, og nú létu menn sér vítin að varnaði verða og fóm út í öfgarnar hinum megin, seg- ir Grotih, og ráðinu var skipt í deildir \ 12 TÆSBÓK morgunblaðsins 18. tölublað 1963

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.