Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1982, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1982, Blaðsíða 7
gefið upp alla von um það, að Pétur Hallsson og drengirnir hans væru ennþá í tölu lifenda. Jafnvel það gat ekki vakið hjá okkur nokkurn vonarneista, að Sigurður Guðbrandsson var ekki ennþá kominn með flóabátinn inn á leguna sína. Hinir voru miklu fleiri, sem voru sár- hræddir um það með sjálfum sér, að honum hefði hlekkzt eitthvað á. Það kom sér enginn að því að láta beint á því bera, en það lá í loftinu. Taugar okkar voru að gefa sig og þungur brim- niðurinn á skerjum lét ömurlega í eyrum. En það var blæjalogn. Víst var það huggun, hvaða vonir, sem við það mátti tengja. Það leið fram yfir hádegi. Ekkert gerðist og við fréttum ekki neitt. Ég eirði hvergi og gekk niður á stöðina. Guðmund- ur stöðvarstjóri var fölur og andvökulegur. Hann hafði víst ekkert sofið í nærri tvo sólar- hringa. — Ekkert_ að frétta? spurði ég- — Nei, því miður. — Þeir eru orðnir hræddir um Sigurð Guðbrandsson. Hvenær hafðirðu síðast sam- band við hann? — Klukkan að ganga þrjú í nótt. — Hvar var hann þá? — Hann var djúpt út á miðflóaálnum og ætlaði að halda þar sjó í nótt fram í birt- ingu. — Og halda leitinni áfram? — Ég býst við því. — Telur þú ástæðu til að óttast um hann ? — Tæplega. Hann var þarna í skínandi veðri og á hreinum sjó. — Talstöðin í bátnum er ótraust. Ég vona, að það sé bara hún, sem er biluð. Mér létti til muna við þessar upplýsingar. Og stundirnar sil- uðust áfram. Það var að byrja að skyggja. Og það var einmitt um það leyti, sem var að byrja að skyggja, að ljós sáust í mugg- unni úti á siglingaleiðinni. Allir, sem vettlingi gátu valdið, þustu niður að sjó. Það var beðið í ofvæni á meðan ljósin þokuðust nær. Það var flóabáturinn. Og um leið og hann renndi inn á leguna varð mönnum það fyrst ljóst, að hann var með bát í drætti — bát Péturs Hallssonar í Tangabúðinni. Á svipstundu höfðu mennirnir í fjörunni hrundið báti á flot og reru lífróður út að bátnum. Það tók talsverðan tíma að ganga frá flóabátnum á legunni. Það var orðið seint þegar ljósin slokknuðu um borð og við heyrð- um áraglam og mannamál þok- ast að landi. Hvaða tíðindi skyldu þeir flytja? Hvaða fréttir myndi ég eiga að færa Guðrúnu í Tangabúðinni í kvöld? Það gafst ekki langt tóm til bollalegginga um það. Bátarnir lentu samtímis. Pétur Hallsson stýrði sínum bát sjálfur til lands. Og upp úr bátnum studdu röskar hendur drengina hans tvo. Þeir voru kannski talsvert þrekaðir, en gátu þó staðið og gengið. Á Pétri varð ekkert séð við skinið af ljóskerinu. Hann var eins og hann væri að koma úr venjulegum róðri. Mikill á velli í sjóklæðunum, rólegur og myndugur í fasi. Ég bað röskan mann að þjóta nú allt hvað af tæki út í Tanga- búð og segja Guðrúnu, að þeir væru allir komnir lífs og heilir til lands. Hann hvarf á svip- stundu út í myrkrið. Litlu síðar leiddu menn Sveinbjörn og Hall heim á leið. Það var ekki við það komandi, að þeir gistu í þorpinu. Pétur gekk ekki frá sjó, fyrr en búið var að setja báða bát- ana. Og drösla tveimur stórlúð- um upp í stóra pakkhús. Það var ekki nóg með það, að Pétur Hallsson væri kominn að landi. Hann var kominn með falleg- asta aflann, sem sézt hafði í þorpinu á þessu hausti, tvær rígastórlúður auk slatta af fiski. Þegar gengið hafði verið frá öllu, bjóst hann til að fara heim, flaslaus og rólegur eins og ekk- ert væri um að vera. Einhver hafði orð á því að fylgja honum heim. — Það er óþarfi, piltar mínir. Ég kemst það einsamall. Og þið eruð búnir vel að gera. Ég þakka ykkur öllum hjartanlega fyrir. — Hann gekk til okkar og tók í höndina á okkur öllum. Þá kvað við margraddað í hópnum: — Við fylgjum Pétri allir! Það varð svo að vera og tjáðu engin mótmæli. Ég sá hvar þeir þokuðust út með ströndinni í flöktandi skini fjögurra lugta. — Þetta var sigurganga undir kolsvörtum skammdegishimni, sigurganga manna, sem boðið höfðu dauðanum byrginn og borið hærra hlut. Jólaeftirvæntingin var aftur setzt að í þorpinu okkar. Það voru ljós í hverjum glugga, annríki og umstang — og vakað fram á nótt. VI Aðfangadagur! Lifandis ósköp vorum við öll glöð og ánægð. Það var logn og bjart til lofts. Og ofan á allt annað hafði gert svolítið snjóföl á jörð, eins og til hátíðabrigða. Við fundum að okkur hafði öllum verið gefin stórkostleg jólagjöf. Engill dauðans og sorgarinnar hafði sneitt hjá þorpinu okkar. Upp úr miðjum degi kom Pét- ur í Tangabúðinni inn í þorpið. Hann færði aðra stórlúðuna sína út úr pakkhúsinu, hengdi hana í stóra talíukrókinn á stafninum og dró hana hæfilega hátt á loft. Þá sótti hann sér flatningsborð og lagði á það tvær sveðjur biturlegar. Að því búnu vék hann sér að börnun- um, sem voru að leika sér á plássinu og sagði: — Hlaupið þið nú í öll húsin og segið fólkinu, að hver sem vill, geti komið hingað og fengið sér lúðubita í soðið. Og verið þið nú anzi rösk! Það leið ekki á löngu áður en það var orðið æði mannkvæmt í kringum Pétur. Hann tók að brytja niður lúðuna sína, úthlut- aði hverjum einum eftir fjöl- skyldustærð. Það var auðséð, að hann gekk að þessu með vand- legri fyrirhyggju, sá um að hverju stykki fylgdi eitthvert lostæti af rafabelti eða sporði. Þegar fyrri lúðan var uppgeng- in, lét hann hefja hina út og hélt áfram starfi sínu. Og það stóðst Framhald á bls. 22. RENNANDI EKKI VIÐ EILÍFÐAR- STRÖND Meðal merkisrita, sem Ragn- ar í Smára lét saman taka og gaf út sem Helgafellsbækur rétt eftir stríðið, var kvæðasafnið ís- lands þúsund ár. I rauninni voru þetta sex bækur þótt bindin væru þrjú. Dr. Einar Ólafur Sveinsson reið á vaðið með forn- öldina og hafði sér til aðstoðar Bjarna Vilhjálmsson, síðar þjóðskjalavörð. Mig langar til að vitna hér að- eins í formála dr. Einars Ólafs, en tek þó setningarnar ekki í réttri röð: „Maður manni verður að máli kunnur. Orðin bera boð frá hug til hugar. í listinni verða þau að einhverju, sem helst má kalla opinberun. Lítið kvæði getur valdið því, að vitund lesandans víkki með nokkru móti, stækki. Stundum af því, að þar finnur hann sagt það sem honum fannst hann vita, en gat ekki komið orðum að. Eða hon- um verður það nú ljóst, sem hann gat ekki komið fyrir sig og hann átti þó hlutdeild í. Stund- um opnast honum nýir heimar. Margra alda gömul orð, sem hann vissi ekki, að væru öðru- vísi en önnur orð, fá allt í einu á sig ljóma, sem aftur vekur ljóma í huga hans. Og vísur, kveðnar af öðrum mönnum á öðrum tím- um, gagntaka svo hug hans, að honum finnst hann standa i sporum þeirra og vera í þeirra skapi og tíminn, hinn mikli af- máandi, er ekki lengur til.“ „I kvæði einu fjallar franska skáldið Charles Baudelaire um verk hinna miklu listamanna og ályktunarorð hans eru: „Helst mættum vér, drottinn, telja til metorða vorra þennan brenn- andi ekka, sem heldur áfram öld eftir öld og deyr upp við strönd eilífðar þinnar.““ „Þessi orð koma mér,“ segir dr. Einar Ólafur, „í hug þegar í stuttu máli á að gera grein fyrir því úrvali íslenskra kvæða frá landnámsöld til vorra daga sem hefst á þessu bindi." Eina stöku eða svo ætla ég að velja úr hverri bók og verður það þá að mestu gert af handa- hófi, og þó ekki alveg. Ef ég ætti að halda ræðu um okkar kröfu- gerðaröld og sjálfselskutíma myndi ég minna á þessa vísu úr Hávamálum: Bú er betra, þó lítit sé: halur er heima hverr, blódugt er hjarta, þeim er bidja skal sér í mál hvert matar. í þessum orðum er mikill sjálfstæðisboðskapur, ekki að- eins fyrir einstakling, heldur líka fyrir þjóð. Gjarna mættum við íslendingar sætta okkur við að bíta harðari kost en við ger- um nú, og búa þó við meiri reisn og hamingju. Dr. Páll Eggert Ólason, lög- fræðingur, prófessor og sagn- fræðingur, f. 1883, d. 1949, valdi kvæði tímabilsins 1300—1600. Þar eru skáldin Eysteinn Ás- grímsson Liljumunkur, Jón biskup Arason, séra Einar Sig- urðsson í Eydölum, höfundur kvæðisins Nóttin var sú ágæt ein. Hann var forfaðir allra helstu skálda með næstu kyn- slóðum. Um þetta leyti komu og fram vikivakakvæði og hálfút- lendir þjóðvísnadansar með sín- um skemmtilegu viðkvæðum. Loks má nefna Þórð Magnússon á Strjúgi í Langadal. Hann var bóndi og rímnaskáld, lifði fram til loka sextándu aldar. Eftir hann er þessi vísa: Vid skulum ekki hafa hátt, hér er margt að ugga. í allt kvöld hefí ég andardrátt úti heyrt á glugga. Snorri Hjartarson valdi svo úr kvæðum 16., 17. og 18. aldar. Þess má geta að Snorri hafði áð- ur tekið saman í bók, sem nefnd var Sól er á morgun, kvæði og stökur frá átjándu öld og fyrri hluta þeirrar nítjándu. Það er skemmtilegt og smekklegt rit. í hans hluta af Islands þúsund ár- um koma fram mörg höfuðskáld okkar, nefna má: Hallgrím Pét- ursson, Stefán Ólafsson, Pál Vídalín, Eggert Ólafsson, Jón á Bægisá, Bjarna Thorarensen, Sveinbjörn Egilsson, Bólu- Hjálmar og Sigurð Breiðfjörð. — Ég ætla hér aðeins að minna á eina vísu eftir þann síðast- nefnda: Kaldur vetur mæðir mig, mold og keldur frjósa. Það er betra að bæla sig við brjóstin á þér, Rósa. Það kom svo í hlut hins kunna skólamanns, rithöfundar og fræðimanns Arnórs Sigurjóns- sonar, f. 1893, d. 1980, að fjalla um nítjándu öldina, sem sann- arlega er stórfenglegur tími í ljóðagerð okkar. Hann byrjar á Jónasi, Grími, Gröndal, Páli, Steingrími, Matthíasi, Hannesi, Kristjáni, Stephan G., Þorsteini, Einari Ben. Ég hef varla þurft að nefna föðurnöfn í þessari upptalningu. Við þekkjum öll þessi skáld. Ekki ætla ég að gleyma Guðmundunum tveim, Friðjónssyni og Guðmundssyni. Nöfn nokkurra hleyp ég yfir, til þess að gera rununa ekki of langa. Það eru þeir, sem afkastaminni hafa verið eða sungið með lágværari tóni. Ég vel vísu fyrir þessa öld eft- ir Pál Ólafsson: Vonin styrkir veikan þrótt, vonin kvíða hrindir, vonin hverja vökunótt vonarljósin kyndir. Þá erum við komin að síðasta hluta þessa ritverks og ljóðum skáldanna, sem telja má að séu menn okkar aldar, þeirrar tutt- ugustu, þótt margir þeirra og kannski flestir séu fæddir fyrir aldamót eða varla vaxnir úr grasi fyrr en á fyrstu tugum hinnar nýju og eigi helstu menningarrætur sínar langt aftur í fortíðinni. 1918 hljótum við að nafninu til sjálfstæði sem þjóð, og það er einmitt í tilefni af lýðveldisstofnuninni 1944, sem efnt er til þessarar miklu ljóðaútgáfu. Hér var einu af skáldum nútímans, Tómasi Guð- mundssyni, sem sjálfur var ástsæll hörpuleikari ljóðsins, söngvari gleði og trega, falið að velja efni á 200 bókarsíður. Hér læt ég staðar numið að sinni. Kannski vík ég síðar að vorri ljóðaöld, eins og hún birt- ist í þessari bók. En ég minni á þau orð úr formála dr. Einars Ólafs Sveinssonar, sem ég vitna í hér að framan, ennfremur á þá staðreynd að í þessum bókum eru aðeins sýnishorn, bak við þau standa öll ljóð, sem ekki hafa komist fyrir innan bóka- spjaldanna. Og því má heldur ekki gleyma, að í óbundna mál- inu á bókum, handritum og í munnlegri geymd eru líka mikl- ir dýrgripir. Á meðan við eigum slíkar menningargjafir erum við ekki fátæk þjóð. Á árunum 1976—77 kom út í sex stórum bindum íslenskt ljóðasafn hjá Almenna bókafélaginu, Kristján Karlsson valdi. Þar voru þýð- ingar teknar með og náði það úrval allt fram til síðustu ára. Blöðum í því seinna. Jón úr Vör 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.