Lesbók Morgunblaðsins - 27.09.1986, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 27.09.1986, Blaðsíða 11
N að yrði mér sönn ánægja ef þér vilduð vera við opnun sýningar minnar í Listasafni ísiands laugar- daginn 1. júlí 1978 kl. 14.00. Gildir fyrir tvo. Ég hef fengið léðan lista yfir bitastæða boðs- gesti hjá félagi íslenskra myndlistarmanna þar sem eru saman komnir í stafrófsröð allir menningarvitar landsins, ráðamenn þjóðarinnar og þeir sem hafa einhvern tíma yerið staðnir að því að kaupa málverk, sam- tals 736 einstaklingar. Eitt af öðru rita ég nöfn þessi á bakhlið boðskortanna. Bunkinn er tæplega 20 sentimetra þykkur og rétt nægir til að fylla póstkassann á næsta götu- horni. Það er nótt. Ég læðist meðfram austur- vegg Þjóðminjasafnsins með eftirtalin áhöld í tösku: kúbein, skæri, hníf, járnsög, vírklippur, sleggju og vasaljós. Með kúbein- inu spenni ég einn kjallaragluggann upp og smeygi mer inn. Kveiki á vasaljósinu. Þegar ég hef tekið þjófavarnakerfið úr sambandi brýt ég upp hurðina að listaverkageymslu safnsins og hefst handa við að bera verkin inní sýningarsalinn á annarri hæð. Ég reyni að hengja sem flest verkin á veggina en raða þeim sem af ganga á gólfið meðfram veggnum. Með hnífnum sker ég göt á öll málverkin. Með skærunum klippi égþau í smábúta. Með járnsöginni saga ég skúlptúrana í sundur. Með sleggjunni mola ég gifsið og leirinn. Að þessu verki loknu leggst ég á gólfið og sofna. Klukkan hálf tvö vakna ég og lít yfír verk næturinnar. Það er fullkomnað. Boðsgestir eru farnir að safnast saman fyrir utan dyrnar, gangurinn fyllist af skvaldri, hlátrasköllum og ræskingum. Á slaginu tvö opna ég dyrnar. Skarinn steymir inn, óskar mér til hamingju og fer að skoða myndirnar. Já, hm . .. segja menn og vita ekki al- veg hvað þeim á að finnast um þessa framúrstefnu. Ég hélt að svona lagað væri komið úr tísku, hvísla sumir. Þá fer að kvisast út meðal gestanna að þetta séu meistaraverk íslensku listasögunn- ýtortímingarstefnaii ar sem liggja þarna sundurtætt á gólfinu. Nokkrir framtakssamir náungar flýta sér að hringja í lögregluna og snúa mig niðrí gólfið. Þetta er sjúklegt, heyrist hvarvetna með- al gestanna. Maðurinn er alvarlega geð- bilaður. Það skiptir engum togum að fjölmennt lögreglulið mætir á vettvang og handtekur listamanninn. Daginn eftir eru allir fjölmiðlar uppfullir af ítarlegum frásögnum af þessu dæma- lausa fólskuverki. Menn ná ekki uppí nefið á sér fyrir reiði, hneykslan og viðbjóði. Enginn listfræðingur þjóðarinnar á nógu sterk orð til að lýsa vanþóknun sinni á þess- ari makalausu tortímingu menningararfsins. Sérstaklega þykir þeim óskammfeilið að ódæðið skuli vera framið af listamanni og það í nafni listarinnar. Þetta sýni útí hvers- lags ógöngur ófrjóir listamenn geta ratað í örvæntingarfullum tilraunum sínum til að vera frumlegir. Ekki lét Velvakandi né aðrir útverðir þjóð- arinnar sitt eftir liggja og kröfðust þess að dauðarefsing yrði tafarlaust tekin upp á íslandi og listamaðurinn hengdur á Lækjar- torgi við undirleik lúðrasveitar. Leiðarahöfundar vildu ekki taka svo djúpt í árinni, en kröfðust þess að maðurinn yrði settur í rafmagnsmeðferð á geðdeild Borg- arspítalans ásamt öllum þeim sem líklegir væru til að vinna svipað hermdarverk í ná- inni framtíð. Enda löngu orðið einsýnt að betra sé að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann. Þá bar svo við að í öllum helstu stórblöð- um heimsins fóru að birtast langar lofgrein- ar um þennan heimssögulega listviðburð í Listasafni íslands. Fylgdu heilsíðumyndir af listamanninum, verksummerkjum í Lista- safninu og grátandi listfræðingum íslensk- um. Voru alheimsmenningarvitarnir einhuga um að ísland hefði með þessu stór- kostlega afreki tekið ótvírætt forystuhlut- verk í þróun heimslistarinnar á þessum áratug. Listamaðurinn var lofaður ósparlega fyrir að hafa með snilligáfu sinni og áræði leitt nútímalistina útúr þeim ógöngum stöðnunar og síendurtekningar sem hún hefði verið í um árabil. Með verki sínu hefði listamaðurinn komið með nýja og óvænta sýn á listhugtakið. Aldrei fyrr hefði spurn- SMASAGA EFTIR GUÐMUND BJÖRGVINSSON MYND EFTm HÖFUNDINN ingin: hvað er list? orðið eins ágeng og í þessu verki. Goðsögnin um listina er beinlín- is mölvuð, þannig að heimurinn mun aldrei vera samur. í framhaldi af þessum skrifum flykktust til íslands hjarðir blaða- og sjónvarpsmanna sem vildu ólmir ná tali af meistaranum, en fundu hann vandlega keflaðan í gluggalausu einangrunarherbergi og voru tveir rassmikl- ir verðir við dyrnar. Þótti útlendingunum þetta furðuleg meðferð á snillingum. Nýútskrifaður listfræðingur, íslenskur, skrifaði skelegga grein í dagblaðið þar sem hann furðaði sig á þeirri nesjamennsku sem hefði opinberast í viðbrögðum landsmanna við þessum heimssögulega viðburði. Sér- staklega átaldi hann þá listfræðinga sem skrifað hefðu af hroka og vanþekkingu um listamanninn og verk hans og krafðist þess að þeir segðu allir af sér og bæðust afsökun- ar. Þeir hefðu orðið íslenskri listfræðinga: stétt til stórskammar á alþjóðavettvangi. I lok greinarinnar vítti hann ríkisstjórn ís- lands harðlega fyrir að vera ekki búinn að leysa listamanninn úr haldi fyrir löngu. Ríkisstjórn íslands, safnráð Listasafnsins héldu þegar langan fund um málið. Að fund- inum loknum var öllum fjölmiðlum send fréttatilkynning þess efnis að ákveðið hefði verið að setja listamanninn tafarlaust í heið- urslaunaflokk listamanna og honum yrði fengin til afnota rúmgóð vinnustofa í Laug- arásnum. Ennfremur var mælst til þess að hann yrði gerður heiðursfélagi í eftirtöldum klúbbum: Kiwanis, Rótarí, Frímúrararegl- unni, FÍM, FÍL og MFA. Loksins! Loksins! var yfirskriftin á ann- arri hverri grein sem hér eftir var skrifuð um listamanninn. Loksins höfum við eign- ast listamann á heimsmælikvarða. Lista- mann sem hefur þorað að brjóta sig úr viðjum útkjálkamennskunnar. Og langar biðraðir auðjöfra mynduðust fyrir utan Þjóðminjasafnið og vildu allir kaupa rifrildi úr tortímdu listaverki fyrir offjár, sérstaklega urðu glefsur úr málverk- um Kjarvals í háum verðflokki, og því smærri sem bútarnir voru því dýrari voru þeir. Fyrir vikið urðu talsverð brögð að því að óprúttnir gróðabrallarar færu að rífa þá bita sem þeir höfðu keypt niðrí smærri og smærri pjötlur. Til að girða fyrir slíkt svínarí voru listfræðingar ráðnir til að hafa yfirum- sjón með verslun verkanna. Fljótlega fóru að berast fregnir af því utan úr heimi að nýtortímingarstefnan færi einsog eldur í sinu um allar álfur. Þekktur ítalskur nýbylgjumálari sem hafði áður ver- ið í fararbroddi konseptlistar og þar áður einn af merkustu popplistamönnum í Evr- ópu, hafði brotist inní Louvre-safnið og eyðilagt öll verkin með sérhönnuðum tætara og hlotið einróma lof gagnrýnenda. Fleiri nýbylgjumálarar fylgdu í kjölfarið og beittu ýmist sérhönnuðum tölvustýrðum niður- rifsmaskínum eða fjarstýrðum sorpeyðing- artækjum. Frumlegasta framlagið til stefnunnar átti þó norskur ný-expressionisti sem braust inní Munch-safnið með blóð- hunda og lét þá tæta Munch í sig. í Ameríku voru það fyrst og fremst abstrakt expressi- onistarnir sem héldu kyndli ný-tortímingar- stefnunnar á lofti. Fór þar fremstur í flokki de Kooning sem þræddi söfnin í kaliforníu með fimmtán manna þrautþjálfuðu liði kar- ate-meistara sem brytjuðu listaverkin niður í ótrúlega smáar einingar. Einsog allir vita endurtekur sagan sig. Því hef ég fengið að þreifa á þar sem ég sit hérna í fangelsinu á-Ssaðárkróki og rita þessar línur. Nú er tími fordæmingarinnar í hámarki. Þeir jistfræðingar og ráðamenn sem eftir eru á íslandi eru sammála um að nú hafi ég gengið skrefi of langt með því að sprengja Listasafn íslands í tætlur. Jafn- vel hófsömustu menn heimta tafarlausa aftöku. En ég reikna ekki með því að það líði margir dagar áður en helstu menningarvitar heimsins hefji einróma lofgjörð um afrek mitt og sundurgreini hugmyndafræðilega forsendu verknaðarins. Auðvitað sjá allir sem hafa fylgst með menningarmálum af einhverri alvöru að eini rökrétti endapunkt- ur nútímalistarinnar er gjöreyðing. Höfundurinn er myndlistarmaður í Reykjavík. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 27. SEPTEMBER 1986 11 -

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.