Lesbók Morgunblaðsins - 14.09.1991, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 14.09.1991, Blaðsíða 7
Einbeitingin á fullu: Jacqueline leikur með Stephen Bishop. Jacqueline og Daniel Barenboim um það leyti sem þau giftust. að eðlisfari og þurft mjög á því að halda að blanda geði við jafnaldra sína. Hins veg- ar er óvíst hvort henni hefði hlotnazt sú færni í list sinni, sem raun bar vitni, ef hún hefði ekki stundað seliónám af fullum þunga á þessu mótunarskeiði. Fjölskyldan fluttist frá Purley, úthverfi Lundúna, inn í hjarta borgarinnar þegar •Jaqueline var tæpra fjórtán ára. Faðir henn- ar hafði fengið vinnu hjá fyrirtæki sem var til húsa við Portland Place og fjölskyldan fékk þar afnot af íbúð á efstu hæðinni með því skilyrði að enginn hávaði truflaði starfs- fólkið. Herbergi Jacqueline var algerlega hljóðeinangrað þannig að henni tókst ekki að ná góðum hljómi úr sellóinu. Hún þurfti því að æfa sig í býtið á morgnana áður en daglegar annir hófust. Hún var sett til náms í nýjum skóla, þar sem hún stakk átakanlega í stúf við ungar glæsimeyjar, stórvaxin, klunnaleg og kunni lítið fyrir sér í mannlegum samskiptum. Næsta ár, eða þar til móðir hennar tók hana úr skólanum, var henni mikil þolraun. Hún einangraðist meira en nokkru sinni fyrr. Stutt skóla- ganga olli að sjálfsögðu skorti á almennri þekkingu og hún var orðin sextán ára áður en hún fór ein síns liðs í neðanjarðarlest, kvikmyndahús eða gerði nokkuð upp á eig- in spýtur fyrir utan að leika á sellóið. Hún var gersamlega reynslulaus á öllum öðrum sviðum og hafði hvorki séð hnattlíkan né lesið í biblíunni áður en böndin við móður- ina tóku að bresta. Eigi að síður sá hún aldrei eftir þeim tíma sem hún varði með sellóinu á þessum árum. „Það var bezti vinúr minn þar til ég var sautján ára,“ sagði hún síðar. „Sá, sem ekki hefur reynt, hefur ekki hugmynd um hversu mikils virði það er að eiga sér sinn einkaheim að hverfa til og verða maður sjálfur ... ég gat sagt sellóinu frá öllum sorgum mínum og vanda- málum. Það veitti mér allt sem ég vildi og þurfti... Ég gerði mér þó ljóst síðar að það veitti mér ekki þjálfun í samskiptum við annað fólk.“ , SlGRAR OG SÁLARKREPPA í september 1960 sótti Jacqueline nám- skeið hjá meistara Pablo Casals í Sviss ásamt öðrum efnilegum sellóleikurum. Cas- als var kominn mjög til ára sinna en bráð- lifandi og áhrifamikill kennari. Þegar hann hafði heyrt Jacqueline leika spurði hann hana hverrar þjóðar hún væri. Hún kvaðst vera ensk. Hann svaraði: „Með þennan skaphita! Útilokað" Hvað heitið þér?“ „Jacqueline de Pré.“ „A-ha,“ sagði meistarinn sigri hrósandi. (Nafnið er franskt enda komu forfeður Dereks du Pré frá Frakklandi.) Þeir sem sóttu þetta námskeið hjá meist- aranum minnast þess hversu leikur Jacquel- ine var frábrugðinn öðru sem þarna heyrð- ist. Hún kom fram eins og þaulvanur ein- leikari þó að hún væri langyngst og hafði alla, sem til heyrðu, algerlega á valdi sínu. Þar fyrir utan var hún mjög feimin, barna- leg í fasi og móðir hennar vék varla frá henni. Skömmu eftir heimkomuna ákváðu Will- iam Pleeth og Iris du Pré að tími væri til þess kominn að hún kæmi fram opinberlega í fyrsta sinn. Hún hafði að vísu komið fram í sjónvarpi og leikið kammermúsík en Pleeth hafði ekki viljað láta hana taka þátt í sam- keppni utan einu sinni, þar eð hann taldi slíkt hættulegt fyrir nemendur enda væri ekki um neina samkeppni að ræða þar sem Jaqueline væri annars vegar. Árið 1960 hlaut hún gullverðlaun Guild Hall-tónlistar- skólans og fleiri verðlaunagripi og í nóvem- ber sama ár kom hún fram ásamt efnilegum fiðluleikara á tónleikum fyrir mjög þröngan hóp. En fyrstu einleikstónleikar hennar voru haldnir skömmu eftir 16 ára afmæli hennar í Wigmore Hall í London. Pleeth hafði undir- búið langa og erfiða efnisskrá fyrir hana þar sem fjöTbreyttir hæfileikar gátu notið sín. Skömmu fyrir tónleikana hlotnaðist henni Stradivarius-selló að gjöf og hún kom fram fyrir 550 áheyrendur í fullkomnu jafn- vægi. Að vísu kom það óhapp fyrir á miðj- um tónleikunum að A-strengur sellósins losnaði og hún hætti leik, afsakaði sig, fór að tjaldabaki, festi hann aftur og hélt svo áfram eins og skkert hefði í skorizt. Eftir því sem á efnisskrána leið magnaðist stemmningin, áheyrendur gerðu sér ljóst að hér voru ósviknir töfrar á ferðinni og dómarnir sem birtust í blöðunum voru allir á eina lund. Eitt blaðanna lýsti yfir að það væri móðgandi að kalla þessa 16 ára stúlku efnilega því að hún hefði slík meistaratök á hljóðfæri sínu að furðu sætti. Með þessum tónleikum hófst glæstur ferill hinnar ungu listakonu. Tilboð streymdu til hennar, hún fékk virtasta umboðsmann í Bretlandi til að skipuleggja tónleika og ferðalög og þótt Pleeth, sem elskaði hana eins og hún væri dóttir hans, hvetti til varkárni, voru hjólin farin að snúast á fullum hraða. Jacqueline fór tónleikaferðir innan lands og utan og fékk hvarvetna frábærar viðtök- ur. Hún kom í fyrsta sinn fram með fullskip- aðri hljómsveit í Royal Festival Hall 21. marz 1962, 17 ára að aldri og lék sellókon- sertinn eftir Elgar undir stjórn Rudolfs Schwartz og hlaut afar lofsamlega dóma. Fjölmiðlar veittu henni mikla athygli og fóru mörgum orðum um barnslegt sakleysi hennar, ljóst hár og geislandi bros. Sagt var að þetta undrabarn hefði margvísleg áhugamál, legði stund á franskar bók- menntir, málaralist, jóga og fjölmargt fleira. Af frásögnum þeirra mátti ráða að líf hennar væri fullkominn dans á rósum en undrabarnið með sellóið, var í raun og veru vansælt, ráðvillt og óánægt. Eftir að hafa stundað framhaldsnám um skeið und- ir handleiðslu franska sellósnillingsins Paul Tortelier við Tónlistarháskólann í París lagði hún frá sér sellóið um stund. Hún vildi komast að raun um hver hún eiginlega væri þegar þess nyti ekki við. Ævisöguritari er efins um að sjálfsleit listakonunnar hafi borið verulegan árangur en eftir mikla og erfiða sálarkreppu tók smám saman að rofa til. Hún efndi til nýrra kynna, reyndi að víkka sjóndeildarhring sinn og tók á leigu íbúð með kunningjakonu sinni og eftir nokkurt hlé tók hún sellóið fram að nýju. Smám saman komst hún að raun um að hún hafði mikil áhrif á karl- menn og átti í ýmsum ástarsamböndum, m.a. við bandaríska píanóleikarann Stephen Bishop sem hún lék með víða bæði á tónleik- um og inn á hljómplötur. Fjölmargir ungir tónlistarmenn aðrir hrifust af henni og hún naut þess að gefa þeim undir fótinn. Hún lifði fyrir líðandi stundu og naut nýfengins frelsis. í daglegri umgengni var hún kát og fjörug, reytti af sér brandara og þótti mjög hláturmild. Hún var stöðugt á ferð- inni, elskaði náttúruna og var ákaflega hrifin af börnum. Vinir hennar frá þessu tímabili segja að hún hafi haft óvenjumikla persónutöfra til að bera og átt auðvelt með að laða að sér fólk. Sumir telja þó fullvíst að hún hafi verið heilmikill leikari og sjald- an verið „hún sjálf“ nema þegar hún lék á hljóðfærið sitt. Þá blandaðist engum hugur um að hún talaði sínu máli og tjáði ofsa- fengna gleði og sára harma þannig að hún lét engan ósnortinn. Viðbrögðin voru þó ekki alltaf á eina lund, því að stundum var sagt með vandlætingu „að hún hefði opin- berlega mök við sellóið“ enda afhjúpaði hún sjálfa sig gersamlega í list sinni. Því fór fjarri að sívaxandi velgengni stigi henni til höfuðs. Hún tók sjaldan mark á gagnrýni enda þekkti hún vel hæfileika sína — og takmarkanir. Hún hafði litla þörf fyrir aðdáun en takmarkalausa þörf fyrir kærleika og vináttu og þótt hún elskaði tónlistina og hefði ævinlega unun af því að koma fram virðist hafa blundað með henni þrá eftir eðlilegu lífi þótt hún gerði sér grein fyrir að ekki yrði aftur snúið. Rostropovitsj Og Barenboim Skömmu eftir áramótin 1966 lá leið lista- konunnar til Rússlands þar sem sellósnill- ingurinn heimsfrægi, Mistislav Rostropov- itsj, hafði lofað henni tveimur kennslustund- um á viku við Tónlistarháskólann í Moskvu. Segja má að með samvinnu þeirra hafi verið rekið smiðshöggið á námsferil hennar en þó að hún hrifist ákaflega af Rostropov- itsj gerði hún lítið úr þeim áhrifum sem hann hafði á leik hennar. William Pleeth var sá sem hún taldi sig eiga allt að þakka. Rostropovitsj var hins vegar frá sér numinn yfir því sem hún hafði fram að færa og eftir tónleika sem hún hélt í Stóra sal Tón- listarháskólans að námsdvölinni lokinni sagði hann við hana: „Þú ert áhugaverðust af öllum sellóleikurum þinnar kynslóðar sem ég hef kynnzt. Þú getur náð lengst, lengra en ég.“ Nokkru eftir heimkomuna hitti hún ung- an, mikilhæfan og framagjarnan tónlistar- mann, Daniel Barenboim, fyrir tilstilli sam- eiginlegra vina. Síðar lýsti hún fyrstu fund- um þeirra á þessa leið í blaðaviðtali. „Ég var akfeit, 90 kíló enda nýkomin frá Rúss- lándi þar sem ég hafði ekkert borðað í fimm mánuði nema brauð og brúnar kartöflur, og miður mín yfir fyrirferðinni á mér. Þetta litla, smávaxna og liðuga fyrirbæri geystist inn í herbergið, starði á mig og sagði: Þú lítur ekki út eins og tónlistarmaður. Ég var mjög feimin og óörugg með mig á þessum tíma og hugsaði með mér: Guð minn góð- ur, það er bara eitt sem ég get gert. Til allrar hamingju hafði ég sellóið mitt hjá mér svo að ég náði í það og fór að spila. Hann fór að leika undir með mér og þá gerðist það. Það var eins og við hefðum leikið saman alla ævi. Og mér varð óskap- lega bilt við yfir því að geta náð svona miklu sambandi við aðra persónu." Kunnugir segja að Daniel hafði orðið bergnuminn af Jacqueline við þessi fyrstu kynni og ákveðið fljótlega að kvænast henni. Að vísu hófu þau sambúð nokkru áður en þau gengu formlega í hjónaband — tvö undrabörn en hvort með sínu móti. Þótt þau væru gerólík fór ekki milli mála að þau voru yfir sig ástfangin og hamingju- söm. Gæfan virtist brosa við þeim á lista- brautinni og í einkalífínu. Gyðingleg Hjónavígsla Barenboim var þremur árum eldri en Jacqueline. Hann fæddist í Argentínu, en foreldrar hans voru gyðingaættar og bæði miklir tónlistarmenn. Drengurinn sýndi strax svo mikla tónlistarhæfileika að for- eldrum hans var ráðlagt að flytjast með hann til Austurríkis en síðar settist fjöl- skyldan að í Tel Aviv. Hann stundaði nám í píanóleik hjá virtum kennurum í Evrópu og varð fljótt talinn í hópi efnilegustu píanó- leikara heims. Það fullnægði honum þó ekki því að hann hafði allt frá bernsku alið þá þrá í bijósti að verða hljómsveitarstjóri og þegar fundum þeirra Jacqueline bar saman hafði hann þegar haslað sér völl sem slikur með undraverðum árangri. Hann hafði haft aðsetur i London um nokkurra ára skeið og farið þaðan tónleikaferðir víða um heim. Barenboim er þannig lýst að hann hafi verið ólgandi af lífskrafti, einungis þurft tveggja til þriggja klukkustunda svefn og tekið ótæpilega þátt í samkvæmislífi þrátt fyrir stanzlausa tónleika, hljómplötuupptök- ur og ferðalög. Hann stundaði hnefaleika, Iék fótbolta, talaði mörg tungumál og fylgd- ist með flestu því sem á döfinni var hveiju sinni. Hann hafði óbilandi sjálfstraust og átti til að vera grófur og ruddalegur, en vinir hans telja engum vafa undirorpið að Jacqueline hafi haft góð áhrif á hann og mýkt ýmsa drætti í fari hans. í apríl 1967 komu þau fram saman í Festival Hall þar sem hann stjórnaði Brezku kammerhljóm- sveitinni og hún lék sellókonsert eftir Haydn. Neistarnir, sem flugu á milli þeirra, kveiktu í áheyrendum og einn gagnrýnenda gat ekki stillt sig um að geta þess að stjórn- andinn hefði stundum staðið hreyfingarlaus og starað á einleikarann. Annar gagnrýn- andi skrifaði: „Þetta gekk allt saman of vel, eins og yfirþyrmandi vor sem er svo grænt að mann kennir til.“ í þessum orðum fólst ef til vill uggvænleg forspá en enn um sinn voru engin tákn sýnileg um þau illu örlög sem vofðu yfir elskendunum. Þau bjuggu saman í lítilli íbúð skammt frá Baker Street og voru önnum kafin við margvísleg tónlistarstörf. Jacqueline hafði lagt að baki mikil ferðalög um Sovétríkin og síðar Bandaríkin, þar sem hún kom fram með hljómsveitum í fjórtán borgum og hlaut einróma lof gagnrýnenda. Barenboim var einnig stöðugt á faraldsfæti þannig að sam- vistir þeirra voru miklu stijálli en þau kusu. Gamlir vinir hennar hurfu smátt og smátt af sjónarsviðinu, því að Daniel vildi hafa hana fyrir sig og hún vildi allt fyrir hann gera. Og þar kom að hún gekk nánast fram að foreldrum sínum þegar hún lýsti yfir því að hún ætlaði að taka gyðingatrú er hún gengi í hjónaband. Telur ævisöguritari að þar með hafi foreldrar hennar hafnað henni að vissu leyti því að samkvæmt áliti þeirra stóðu gyðingar utan við samfélagið og mótmælendur af millistétt höfðu sem minnst samneyti við þá. Eigi að síður komu þau til Tel Aviv og voru viðstödd vígsluat- höfnina sem fór fram samkvæmt gyðingleg- um hefðum 15. júni árið 1967 rétt eftir að Jacqueline hafði tekið gyðingatrú. Helztu stjórnmálamenn ísraels sátu brúðkaup- sveizluna en Bretar létu sér fátt um finnast. Aðeins Daily Mail gat þess stuttlega að fyrrum undrabarnið Jacqueline du Pré og píanóleikarinn og hljómsveitarstjórinn Daniel Barenboim hefðu gengið í hjónaband í Israel. Niðurlag í næsta blaði. Guðrún Egilson tók saman. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 14. SEPTEMBER 1991 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.