Lesbók Morgunblaðsins - 31.05.1997, Blaðsíða 15
KANTÖTUR OG
KVARTETTAR
TONLIST
Sígildir diskar
BEETHOVEN
L. van Beethoven: Minningarkantata um Jósep
keisara II, WoO 87; Krýningarkantata Leop-
olds keisara II, WoO 88. Opferlied Op. 121b;
Meeresstille und gliickliche Fahrt Op. 112.
Judith Howarth & Janice Watson (S), Jean
Rigby (MS), John Mark Ainsley (T) & José van
Dam (B). Corydon-kórinn og hljómsveitin u.
stj. Matthews Best. Hyperion CDA66880. Upp-
taka: 9/1995 & 6/1996. Lengd: 79:39. Verð
(JAPIS): 1.499 kr.
EFTIR ærna fjarveru er upphaflegur
umsjónarmaður þessa hálfsmánaðarpistils
aftur mættur til leiks. Þakka ber Valdemari
Pálssyni fyrir vel unnin afleysingarstörf.
Keisari er nefndur Jósep annar af
Austurríki (1765-90), sonur Maríu Theres-
íu. Lesendur muna kannski eftir honum í
kvikmyndagerð Milosar Formans af leikriti
Peters Shaffers, „Amadeus," þar sem hann
var gerður að broslegu gauði, svo illa að
sér um tónlist, að hann þurfti að lepja eftir-
farandi gullkorn upp eftir hirðmanni sínum
um nýflutta óperu, þegar tónskáldið spurði
hann álits: „Of margar nótur, minn kæri
Mozart!“
En hvað sem líður listrænni ástæðu Shaff-
ers fyrir að gera samtímamenn „krafta-
verksins sem guð lét fæðast í Salzburg" að
hálfvitum, þá var hinn raunverulegi Jósep
keisari ekki aðeins smekkmaður um tónlist,
heldur einnig einn mesti merkisberi Habs-
borgara fyrr og síðar fyrir hönd upplýsingar
og framfara; svo mikill, að íhaldsöfl aðals
og kirkju vörpuðu öndinni léttar, er hann
lézt, ári eftir fall Bastillunnar í París.
Að sama skapi var hann umbótasinnum
harmdauði. Einn þeirra var Severin nokkur
Averdonk, hveijum bókmenntafélag (Les-
engesellschaft) Bonnborgar fól að yrkja
minningarljóð í kantötu, er tíðindin um frá-
fallið bárust þangað. Höfundur diskbækl-
ingsins lætur að því liggja, að Averdonk
hafi farið full geyst í að minnast frjáls-
hyggju hins látna - í kantötutextanum er
Jósep m.a. sagður hafa troðið „óargadýri
ofstækis“ undir fót - og því hafi verkið aldr-
ei verið flutt, þó að kröfurnar sem tón-
setjari kantötunnar gerði til flytjenda kunni
einnig að hafa þótt óárennilegar.
Tónskáldið var ekki nema tvítugur piltur,
á launum sem víóluleikari í hirðsveit bróður
hins látna, kjörfurstans af Köln (er bjó í
Bonn), að nafni Ludwig van Beethoven.
Téður kjörfursti hefur þó varla verið alls
óánægður með tónverkið, því þegar hann
fór til Vínar að taka við kórónu bróður síns
hálfu ári síðar undir nafninu Leopold II, var
Beethoven falið að semja krýningarkantötu
af því tilefni. En einhverra hluta vegna var
hún ekki flutt heldur.
Kantöturnar gleymdust síðan gjörsam-
lega og virðast ekki hafa verið fluttar fyrr
en á okkar tímum. Nóturnar voru fyrst end-
uruppgötvaðar 1884, og er þær komu
Brahms fyrir sjónir, skrifaði hann gagnrýn-
andanum Hanslick: „Jafnvel þótt ekkert
nafn væri á titilblaðinu, kæmi enginn annar
til greina - þetta er Beethoven út í gegn!“
Orð að sönnu. Þegar við fyrstu heyrn
má kenna fyrirboða um seinni verk eins og
Fidelios, jafnvel kórkafla Níunnar, eins og
heyra má af lokakór Krýningarkantötunnar.
Ótrúlegt afrek fyrir tvítugt upprennandi
tónskáld, enda kantöturnar líklega metnað-
arfyllstu og frumlegustu tónsmíðar Beetho-
vens frá Bonnárunum.
Ásamt smekklega völdu kórverkunum
Opferlied (1824; við texta eins af uppáhalds-
skáldum Beethovens, Matthissons) og Meer-
esstille und glúckliche Fahrt (1815; texti
eftir Göthe), hefur þetta sumpart fágæta
efnisval náð að mynda eigulegan hljómdisk,
þökk sé einnig snörpum og æskuþrungnum
flutningi þeirra Corydon-félaga í skarpri
upptöku Hyperion-liðsins.
BEETHOVEN
L. van Beethoven: TheLate Quartets.
Strengjakvartettar Op. 127,132,130,133
(Grosse Fuge), 131 og 135. Búdapest-kvart-
ettinn. Bridge 9072 A/C. Upptaka: Salur
Þingbókasafns Bandarikjanna,
1941/1943/1960. Lengd (3 diskar): 3.11:05.
Verð(JAPIS): 2.499 kr.
ROSKNIR og reyndir dómarar erlendra
hljómplötutímarita eiga til að mikla svo fyr-
ir sér og lesendum afrek löngu liðinna flytj-
enda, að jaðri við að vera grunsamlegt hvað
lárviður dafnar vel á leiðum. Bornar saman
við frammmistöðu flinkustu nútímalista-
manna í topp-upptökum virðast furðumarg-
ar fornfálegar hljóðritanir á suðandi 78
snúninga lakkplötum með pappakassa-akú-
stík eiga ótrúlega mikla náð fyrir eyrum
þessara elztu hunda í hettunni.
Til skamms tíma var ég meðal þeirra sem
hafa tilhneigingu til að brosa góðlátlega að
fortíðarsnobbinu. Þangað til ég heyrði um-
ræddar upptökur með Budapest-kvartettn-
um. Þá féll hulan. Þetta var upplifun sem
gerði hljómgæðaraus ádíófíla að hégómlegu
tildri. Maður freistast til að endurtaka orð
Brahms hér að ofan - Þetta er Beethoven
út í gegn! - því að í samanburði við varfærn-
islega meðferð hins annars ágæta Quartetto
Italiano á sömu öndvegisverkum kamm-
ertónmennta [Sígildir diskar 23.3. 1996] er
hér spilað líkt og um líf og dauða væri að
tefla. BQ hefur eitt til að bera umfram ítal-
ana sem er algert höfuðatriði í Beethoven,
nefnilega rytma, og miðað við lifandi kon-
sertupptökur er áhættan sem BQ-karlarnir
taka á köflum hreint lygileg; hún sést m.a.
af því að heildarsett þeirra er stundarfjórð-
ungi styttra en hjá QI. Hér er hvergi slegið
af, þegar beðið er um presto.
En spilamennskan er af þvílíkum kalíber,
að BQ-félagarnir komast upp með það. Það
er ekki aðeins að feilnótur heyrist varla,
heldur sannfærist maður um að einmitt
svona flutningur var sá sem Beethoven hafði
í huga, þegar prímaríusinn Schuppanzigh
(úr samnefndum strokkvartett) spurði tón-
skáldið á æfingu varðandi tiltekinn níðings-
lega erfiðan stað, hvort hann væri að grín-
ast - enda þóttu kvartettarnir framan af
nánast óspilandi, sem kunnugt er.
Kanadíska útgáfufyrirtækið Bridge er á
sérsamningi við Þingbókasafnið í Washing-
ton við dreifingu á konsertupptökum þess,
er hófust laust fyrir seinna stríð. Hér komst
útgáfan sannarlega í feitt, því að Búdapest-
kvartettinn var „hús-sveit“ safnsins í rúm-
lega 20 ár og urðu hljómleikar hans nafntog-
aðir. í þessum hljóðritunum heyrist hvers
vegna. Upptökugæðin eru eins og gefur að
skilja ekki í samræmi við nýjustu kröfur -
t.a.m. á einstaka sterkur tónn til að rifna -
en tekizt hefur að lágmarka suð án þess
að glata nálægð. Mestu skiptir þó, að þegar
hljómlistarmenn af þessum gæðaflokki gefa
allt sem þeir eiga, verður flest annað hjóm
eitt.
Ríkarður Ö. Pálsson
STURLA FRIÐRIKSSON
SNJÓMAÐURINN JETTI
Minnisstæð er fjallafara
fregn af snjómanninum Jetti,
sem hann nyrst í Nepal frétti
norpaði á ysta hjara,
og er sumir segja bara
sé að finna hér á hnetti
lifandi á litlum bletti.
Leitarmenn þó taka vara
fyrir von um vissu snara.
Virðast þar í sínum rétti,
er þeir mæna klett af kletti,
kanna för og leita svara.
Vindar kafaldsklökkum hranna,
kólgu upp úr dölum sjóða.
Neðar þynnist þokumóða.
Þá má greina milli fanna
ókunnugleg spor er spanna
spöng á milli jökulflóða,
fótatraðk og troðinn slóða,
táknræn för, er virðast sanna
einmitt það, sem átti að kanna,
undanfara vorra þjóða,
týnda ættarhlutann hljóða,
hlekkinn milli apa og manna.
Gnæfa hvítir tröllatindar,
tætast ský á veðramótum.
Jökulsúgur gnýr í gjótum,
gnauða í skörðum monsúnvindar.
Árla morguns roðna rindar,
rennur dögg af klakaspjótum.
Vætla eftir urðarhnjótum
undir holds og beinagrindar
fjallsins. Þegar birtan blindar
birtist sýn í skriðurótum.
Einn þar gengur fimum fótum
feiknaspor í snjóinn myndar.
Öslar hann um kaldan krapa
kafaldið í förin drífur.
Undravel hann krappan klífur
klettinn, þar sem flestir hrapa.
Þar sem jökulgljúfrin gapa
greiðlega hann yfir svífur.
Upp úr hjarni röskur rífur
ræfil, þar sem aðrir snapa
bjargarlaust og lífi tapa.
Lík þeirra hann með sér þrífur
loðinbrýndur, bartastífur
blendingur af manni og apa.
Fram um herðar hárið síða
hangir líkast ullartrafi.
Eins og flóknir lokkar lafi
lausir yfir togið stríða.
Manni virðist veran skríða,
vaða fannir hálf í kafi.
Þá er sem hún gryíju grafi
gegnum skafla undirhlíða.
Þessi sýn var lengi að líða
leikur á því enginn vafi,
að veruleiki verið hafi -
Vitrun milli kafaldshríða.
Höfundur er náttúrufræðingur, sem áður starfaði við Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Kvæðið er
ort við rætur Himalajafjalla. Er það úr bókinni Ljóð langföruls, sem út kom 1988. Kvæðið er birt til
gamans í tilefni af fyrsta sigri islendinga á Everestfjalli.
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 31. MAÍ 1997 15