Lesbók Morgunblaðsins - 13.09.1997, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 13.09.1997, Blaðsíða 13
_ >. DAGBÓKARSLITUR FRÁ SUDUR-FRAKKLANDI I SÓLIN í PROVENCE EFTIR SVEIN EINARSSON Provence á sumrin er ekki bara sól, heldur list. Hver borg, hver bær, hvert þorp leggur sitt af mörkum, allsstaóar eru listrænar uppákomur eóa annaó til aó gera lífió skemmtilegra og innihaldsríkara. MYND van Goghs af garðinum í Maison de Santé í Arles. VIÐ komum akandi frá Mar- seille. Það er kvöldsett og sólin er farin að roða himin- inn og leirlitu húsin hans Césannes eru að breytast í dökkar þústir. Enn hefur sólin völdin, sólin, sem verm- ir vínekrurnar og ólifulund- ana og rísakrana og litlu hnetutrén, sem Provence er svo frægt fyrir, sólin, sem dreg- ur að sér alla þessa ferðamenn með fögrum lokkandi loforðum um eilífa hlýju. Að baki eru fyrstu kynni af Marseille, þessari undarlegu borg, sem er eins og göm- ul og vitur kerling, sem allt hefur upplifað og öllu kynnst og þó til í eitt ævintýri í við- bót, ef því væri að skipta. Og auðvitað er því að skipta. Önnur stærsta borg í Frakk- landi samkvæmt opinberum skýrslum (frá Marseille að minsta kosti); áttunda stærsta höfn í heimi. Það er að segja: nýja höfnin með krönum og dokkum og vörugeymslum svo langt sem augað eygir; gamla höfnin er hins vegar í miðbænum og þar leggja engir fátækir fiskimenn að lengur, heldur auðkýf- ingar á lystisnekkjum sínum. En samt heldur hún áfram að látast vera gömul fiskihöfn, þar er markaður enn á morgnana og þar eiga menn að borða sína Bouillabaisse, fiski- súpuna, sem er frægari en allar aðrar fiski- súpur veraldar, hvað sem líður fínasta hrá- efni norðurslóða í ómengaðasta sjó sem sög- ur fara af. Að baki er líka le Panier, gamla hverfið, þar sem heimarnir mætast, Armenar og Ma- rokkóbúar, gyðingar og Spánveijar að ógleymdum próvensölum sjálfum. Hverfið teygir sig frá gömlu höfninni að dómkirkjunni í áttina að nýju höfninni, og sú hliðin sem að gömlu höfninni snýr með reglulegum sviplitl- um byggingum, þar sem gamla ráðhúsið er eina undantekningin, lætur fæsta gruna þá skuggalegu rangala sem kallast götur nokkr- um föðmum fjær og heita nöfnum eins og Rue des Refugés, Gata flóttamannanna. A þessu er skýring. Á stríðsárunum, þegar Frakkland var hernumið, létu nazistar sprengja hluta af hverfinu til að útrýma þeim gyðingum, sem þeir þóttust vissir um að væru faldir í þeim skuggalegu skúmaskotum, sem borgarskipulag aldanna hafði fært þessu hverfi. Og höfðu víst eitthvað fyrir sér í því. Miðsvæðis er La Charité, fátækrahælið gamla, sem nú er orðið menningarmiðstöð, þar sem verið var að æfa blökkusöngva með sveiflu. Að baki var líka ganga upp hæðina hand- an gömlu hafnarinnar upp að basilíkunni Notre Dame de Garde, sem mætti útleggjast Vor frú á verði. Og vissulega stendur þessi makalusa áheitakirkja á slíkum stað, að varla gefst annar eins varðturn til að vaka yfir veikum og syndugum sálum, til verndar gegn sjóræningjum og plágum með því útsýni að borgin öll, sem er þó ekkert smásmíði þar sem hún liggur í sólbaði við sjávarkambinn, er ein sjónhending. Sól, sól og aftur sól. Reyndar fylgir sólinni vargur í dag. Hann heitir Mistral eins og Friðrik höfuðskáld þeirra Provence-manna, en getur öllu verið óþýðari en skáldið. Þetta er norðangarri, sem ætlar nærfellt að svipta okkur til flugs á kirkjutröppunum í sólbirt- unni, en sagður sýnu illskeyttari, þegar hann ber dyra á veturna; sagan segir að þá hverfi Provence-búar af yfirborði jarðar, gangi til rekkju og breiði upp fyrir haus uns vágestur- inn er um garð genginn. Og sólin komin aft- ur. En nú er þetta þó landbúnaðarhérað og hér þarf því líka vökvun. Þetta vita Provence- búar auðvitað eins vel og aðrir þeir sem upp- skeru vænast. En þó er afstaða þeirra undar- lega tvíbent. Satt að segja líta þeir á rign- ingu, svona skvettur, sem þeir í Mýrdalnum myndu ekki einu sinni taka eftir, sem meiri háttar uppákomu. Cést un malheur, segja þeir, þetta er hremming. En reyndar er sólin sjaldan langt undan. Þegar sól og héraðið Provence í Suður- Frakklandi eru nefnd í einni andrá, dettur mörgum væntanlega í hug van Gogh og sól- blómin hans, þessar endalausu gulu ekrur, þetta heita, gula loft, þessi sólarheimur, sem manni finnst eins og hann hafi að lokum gengið inn í og sameinast, líkt og við Islend- ingar göngum í fjöllin okkar, ef við erum þannig stemmd. Ef menn leggja leið sína til Aries, þar sem hann eyddi sínum siðustu árum, er að minnsta kosti margt sem á van Gogh minnir, meira en um hans daga, að mann grunar, því sagan segir að hann hafi ekki selt eina einustu mynd um dagana. Nýlega kom upp sá kvittur í listaheiminum að helmingurinn af verkum hans væri falsað- ur og voru rekin upp ramakvein og greip um sig mikil skelfing. Hver gat skorið úr því löngu eftir að hann var allur, kornungur maðurinn? Sennilega eru þó verkin flest eftir hann sjálfan með sín sterku höfundarein- kenni, þegar allt kemur til alls. En þau eru ekki í Arles. Þar er að vísu lítið van Gogh- safn, en meira ber á vasaklútum, regnhlífum, skyrtubolum með mynd málarans, van Gogh- tertum; m.ö.o. jafnlítið og verk hans voru söluvarningur um hans daga, er þeim mun meira gert af söluvarningi í hans nafni í dag. Meira að segja Maison de Santé -vitfirr- ingahælið sem hann dvaldist á síðustu ævi- dagana er orðið að skrauthýsi með glæstum veitingastöðum og blómunum í garðinum er vandlega raðað upp á nákvæmlega sama hátt og á frægri mynd meistarans. Svona hossast þetta upp í lífinu og listinni. En auðvitað státar Arles af fleiru en málar- anum góða. Gamli bærinn er heillandi eins og gömlu bæjarkjarnarnir eru víðast í borgum Provence, og sagan gerir alls staðar vart við sig. Hér voru sem sagt Grikkir og Rómveijar forðum daga og skildu eftir sig minjar sem enn draga að sér augu og eftirtekt fleiri en það sem nú er byggt, bogadregnar vatns- leiðslubrýr, leikvang, leikhús og þar er mikið um að vera hvert einasta sumar. Á leikvang- inum er nautaat og keppt um hylli við leik- vanginn í öðrum Provence-bæ, Nimes, sem líka dregur að sér hundruð þúsunda ferða- manna vegna síns leikvangs. Og í leikhúsinu eru tónleikar og leiksýningar. Frægast þess- ara hellensk-rómversku leikhúsa er þó í bæn- um Orange, skammt norður af Avignon. Þar eru fluttar og sviðsettar heilar óperur og þar fór á kostum í ár ný bandarísk stórsöng- kona, Kathleen Cassello í hlutverki Luciu hinnar gölnu frá Lammermoor. Satt að segja er Provence á sumrin ekki bara sól, heldur list. Hver borg, hver bær, hvert þorp leggur sitt af mörkum, alls staðar eru listrænar uppákomur eða annað til að gera lífið skemmtilegra og innihaldsríkara. LISTAVERK eftir Amado eru á þremur sýn- ingarstöðum í Aix í sumar. Ef það er ekki markaður með fommuni eða skrýtna hluti, þá er það matvara eða blóm, sápur frá Marseille, lavendilsvendir, blóðberg og basilikum og annað krydd héraðsins, að ógleymdri ólífuolíunni frægu á jómfrúar stigi - og svo vínið: Cóte de Rhone, hið dökka Chateauneuf de Pape (seinna förum við þang- að í vettvangskönnun) - og Couteux d’Aix og þar erum við búin að koma okkur upp eftirlætisvíni: Chateau de Callisanne á 39 franka flaskan, sem myndi kosta tífalt á okkar vínmenningarlausa Islandi. Svo eru það geitahlaup, sýningar á gömlum skrautbílum, þjóðdansar og þjóðsöngvar allar götur aftur af tólftu öld, þar sem þeir brúka hljóðfæri, sem nefnd eru eins og töfraþula í íslensku riddarasögunum, eins og t.d. sym- fónn, sem snúið er með sveif og hjarðpípur og lútur, vínsmökkun, harmonikkukeppni, hundasýningar, villisvínaveiðar, svo fátt eitt sé nefnt. Og svo auðvitað myndlistarsýning- ar, dans, leiklist, bókmenntir, kvikmyndir og tónleikar. í einum smábænum leikur sjálfur Rostropovitsj og í öðrum syngur Charles Trenet, sem er ekki orðinn nema 84 ára. í Aix kveður við tónlist eða önnur list úr öðru hveiju húsi. Þar er ul dæmis núna mikil jass- hátíð, meðal annars til minningar um þann ágæta Sidney Bechet, á þremur stöðum sýn- ing á verkum eins frægasta myndhöggvara þeirra, Jean Amado, meðal annars í hinu sögufræga Pavillion Vendome, sem frændi Mazarins kardinála byggði fyrir sína heitt- elskuðu, sem var ekki nógu fín fyrir selskap- ið i sínum hotel particulier, sem og þessar glæstu smáhallir 17. og 18. aldar kallast, og byggði því yfir hana utan borgarmúranna gömlu. Amado mátti upplifa það eins og fleiri, að frægð hans kom ekki að heiman heldur utan, en nú er hann dauður og nú er honum hampað í Provence. Myndir hans eru úr rauð- um, brenndum leir, undarleg og heillandi form, sem eru eins og náttúran hafi fundið þar bústað fyrir fantasíu og fólk um aldir. Aix er fræg fyrir gosbrunna sína og nú er þar kominn líka einn eftir Amado, sem gjarn- an lét vatn leika um listaverk sín. Okkur varð hugsað til himinmigans í Tjörninni, sem Sigurður Þórarinsson kallaði svo og enginn hefur ánægju af. Borgin ætti að fá Magnús Tómasson til að útbúa gosbrunn einhvers staðar í Reykjavík til að minna á, að torg geta verið fallin til einhvers annars en.æfa sig í brettalist. c Frægastar franskra sumarhátíða eru leik- listarhátíðin í Avignon og óperu- og danshá- tíðin í Aix og frá þeim segjum við lítilsháttar síðar; af þeim má gjarna fréttast til Islands. Og aðdáunarvert var hversu góð skil þeim menningarviðburðum voru gerð í fjölmiðlum, sjónvarpi, útvarpi og blöðum. Það lá við að sjálft Tour de France félli í skuggann og er það þó viðburður, sem snertir árlega þjóðar- stolt Frakka. En þetta er líka tími þjóðflutn- inga. í júlí og ágúst flykkjast Parísarbúar og aðrir borgarbúar nyrðra suður á bóginn á vit sólar og listar. Marseille er auðvitað- milljónaborg, en Aix er reyndar litlu stærri en Reykjavík. Á veturna eru þar 140 þúsund manns, þar af þriðjungur stúdentar við há- skólann, sem er í hópi hinna elstu; varð til í byrjun 15 aldar. Á sumrin fjölgar um helm- ing og fólk sest að um allt Provence; til eru þeir sem eiga sér þar vísan sumarstað ár- lega, aðra, einkum útlendinga, rekur þangað til dæmis til að hressa upp á frönskukunnátt- una. Viðbrögð heimamanna eru svolítið kostuleg. Víst þykir þeim gott að fá aura í vasann, en eru þó þeirri stund fegnastir, þegar engisprettufaraldurinn er yfirstaðinn. Maður hyllist til að endursegja hér eina af þeim sögum, sem Peter Mayle segir í einni af bókum sínum frá Provence. Hún er eitt- hvað á þessa leið: Bóndi seldi Parísarbúa lít- inn skika af landi sínu fyrir sumarbústað. Húsið reis og með vorsól komu glaðklakkaleg- ir borgarbúarnir til að njóta sveitasælunnar um helgi. Nákvæmlega klukkan 4 morguninn eftir vakti þau hani með miklu gali. Þau kvörtuðu svefnlaus, en fengu þau svör ein að í Provence gerðu allir skyldu sína, líka han- ar; hans hlutverk væri að vekja til nýs dags. Helgina eftir komu Parisarbúarnir aftur og höfðu með sér gesti. Sagan endurtók sig og allir fóru svefnlausir heim til Parísar. Þegar þetta hafði gengið svona sumarlangt, fóru sumarhúseigendurnir fram á að haninn yrði aflífaður, málið kom fyrir dóm og úrskurður- inn hljóðaði upp á það, að við þessu væri ekkert að gera, þetta væri sveitin með sína siði og hanagal væri sjálfsagður partur af sveitasælunni. Nú var Parísarbúanum nóg boðið og hann seldi bústaðinn langt undii* verði. Bóndinn keypti hann aftur fyrir milli- göngu þriðja manns og hélt svo stóra fagnarð- arhátíð. Á borðum var einn af þjóðarréttum Frakka: Coq au Vin, hani í vínsósu. En við erum á leiðinni frá Marseille til Aix í sólroða kvöldsins og á vit borgarinnar, sem hefur verið stolt Provence-héraðs og franskr- ar menningar um aldir, borgar lista og vatns eins og nútíma sölutækni ferðamennskunnar kynnir borgina í dag. Og víst er þar vatn, meira að segja heitt vatn og fræg böð í tvö þúsund ár, og kalt vatn með 16 gosbrunnum á 16 torgum. Og sem sagt: list á hveiju götu- horni, úr hveijum glugga, við hvert fótmál.. Framhald í næstu Lesbók. Höfundur er rithöfundur og fyrrverandi Þjóö- leikhússtjóri. -I- LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 13. SEPTEMBER 1997 1 3,

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.