Lesbók Morgunblaðsins - 03.10.1998, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 03.10.1998, Blaðsíða 15
„SÖRLI RIÐUR GARÐ" EFTIR STEINGERÐI STEINARSDÓTTUR ARIÐ 1928 birtist í Lesbók Morgunblaðsins kvæðið Vikivaki eftir Guð- mund Kamban. Fróðir menn þóttust strax kenna að skáldið hefði sótt sér innblástur í Sörla þátt Brodd- Helgasonar. Líkt og margir aðrir ís- lendingasagnaþættir er hann ákaflega stuttur og frásögnin kannski ekki eins tæmandi og æskilegt væri. Þar segir af kvonbænum Sörla Brodd-Helgasonar til Þórdísar dóttur Guðmundar rika á Möðruvóllum. Guðmundur var höfðingi og goðorðsmaður og hélt jafnan heima á Möðruvöllum mikið lið ungra manna af göfugum ættum. Sörla hittir Guðmundur á þingi eitt árið og hefur með sér heim enda maðurinn hinn siðmannlegasti eins og segir í sögunni. Brátt fór að bera á því að Þórdís og Sörli höfðu meira og oftar að ræða saman en eðli- legt gat talist millum heimilisfólks. Guðmundur segir ekkert við Sörla en sendir dóttur sína til Einars bróður síns sem bjó á Þverá í Eyjafirði. Sennilega hafa þau Sörli og Þórdís náð að kveðjast áður en hún fór í vist til frænda síns en þannig lýsir Guðmundur Kamban kveðjustund þeirra. Að ofan helkaldar stjörnur stara með strendu sjáaldri úr ís á funakoss milli kaldra vara svo kaldra að andi manns frýs. Og máninn skín á oss skyldurækinn, vill skilja milt okkur við. Við stöndum tvö hér við tunglskinslækinn ogteljumárannabið. Sagan segir svo að Þórdís hafi dvalið ár hjá frænda sínum áður en Sörli vitjaði hennar. Hún gengur út til lérefta sinna og tekur eftir manni einum miklum sem ríður í garðinn. Þá verður henni að orði: „Nú er mikið um sólskin og sunnanvind og ríður Sörli í garð." Sörli leitar síðan fulltingis góðra manna til að snúa föður Þórdísar og leyfa þeim að eigast. Hann snýr sér fyrst til Einars föðurbróður hennar en hann bendir honum á Þórarin tóka Nefjólfsson og segir hann bæði vitran mann og auk þess vin Guðmundar. Þórarinn tóki fer til Guðmundar og spyr hvers vegna hann vilji ekki gefa Sörla dóttur sína, hann sé bæði ættstór og vel menntaður. Guðmundur segist að sér gangi það eitt til að sér líki ekki það orð sem áður hafi farið af kynnum þeirra. En á þjóðveldisöld virðist al- mennt hafa ríkt mikil andúð gegn því að ástir tækjust með hjónaefnum áður en þau gift- ust. Guðmundi þykir það því blettur á virðingu sinni að ástæða hafi þótt til að slúðra um Þórdísi og Sörla. Þórarinn ræðir þetta örlítið lengur við hann en segir svo eitthvað á þá leið að líklegasta skýringin á tregðu Guðmundar til að gefa Sörla dóttur sína sé að hann vilji ógjarnan að út af honum (þ.e. Guðmundi) sem nú sé valdamestur í landinu komi dótt- ursonur honum enn meiri. Þessir ofurlítið lúmsku gullhamrar urðu til þess að Guðmundur gafst upp og samþykkti ráðhaginn enda þótti honum lofið gott. Sagan segir einnig að Þór- arinn hafi þekkt skap Guðmundar og vitað hvað þyrfti til samþykkisins. Lengri er Sörla þáttur ekki að öðru leyti en því að talið er upp eitthvað af afkomendum þeirra Þórdísar og Sörla. Skáldin hafa hins vegar tekið sér hið fræga skáldaleyfi og bætt í eyðurnar. Guðmundur Kamban gerir söguna að dæmisögu um ást, tryggð og trúfesti. Þór- dís bíður og efast aldrei eitt andartak um tryggð Sörla. Svo virðist þó að skáldið álíti tím- ann sem Þórdís bíður í festum langan. Sörlaþáttur þegir hins vegar um tímann sem leið þar til Sörli fékk jáyrði frá tengdaföður sínum en vitað er að ár var Þórdís hjá föðurbróður sínum. Kannski er Guðmundur hér að lýsa óþreyju ungra elskenda sem bíða þess að hitt- ast á ný með því að gefa þá hugmynd að tíminn virðist Þórdísi ósköp lengi að líða. Hann leggur kvæðið henni í munn og þar segir: „Sörla beið ég og síglöð undi við síðustu orð hans og heit..." og síðar „Brenni jörð undir berum fótum og blikni sól í þeim eim: Aldrei skipti eg við annan hótum því eitt sinn kemur heim." Guðmundur tengir Sörlaþátt og frásögnina þar öðrum og harmrænni ástarsögum í ís- lendingasögum. Hann talar um vantraust Guðrúnar Ósvífursdðttur og vonsvik Kjartans Ólafssonar sem með vopnum enduðu sinn fund en Þórdís mælandinn í ljóðinu yrkir um vissu hjartans og vonglaða íslenska lund. Hann notar tækifærið og minnir fólk á að já- kvætt hugarfar og bjartsýni auðveldar lífið og segir: Vappar ósyndur ungi á bakka með augun blikandi af þrá - en sumir þora ei til þess að hlakka, sem þeim er annast að fá. Gegn svo mörgu, sem guð þeim sendir, menn gera kvíðann að hlíf, og kvíða oft því sem aldrei hendir, ogendaíkvíðasittlíf. Guðmundur er hins vegar ekki eina skáldið sem heillast hefur af sögu þeirra Sörla og Þórdísar og hinum einföldu en fallegu orðum hennar þegar hún sér ástvin sinn ríða heim að bænum og verður þess vör að sólskinið og sunnanvindurinn fylgja honum. Jakob Jó- hannesson Smári yrkir í kvæðinu Á Möðruvöllum um syngjandi sunnanvindinn sem svífur um fjallaskarð og gárar gullhár Þórdísar. Að lokum segir hann: Hlæja nú teigar og tindur túnið, lækur og barð: „Sólskin og sunnanvindur - Sörli ríður í garð." Sörla Brodd-Helgasonar er einnig getið í Njálu og þar er hann sagður giftur Þórdísi dóttur Guðmundar ríka. Þau bjuggu á Valþjófsstöðum í Fljótsdal og líklegt er að Sörli hafí þegið goðorð í arf frá ömmu sinni Asvöru Þórisdóttur, Graut-Atlasonar en Graut-Atli var meðal sex landnámsmanna sem göfugastir voru taldir í Múlaþingi. Ólíklegt er líka að Guð- mundur ríki hefði samþykkt að gefa dóttur sína manni sem ekki var goðorðsmaður. Sörli var af ætt Hofverja frá Hofí í Vopnafirði en Bjami bróðir hans fór með Hofverjagoðorð. Njála segir að Flosi Þórðarson hafi leitað til Sörla eins og annarra höfðingja á Austurlandi eftir liðveislu á Alþingi eftir að hann brenndi Bergþórshvol og ljóst var að Kári Sölmund- arson hafði komist lífs af. Sörli neitar honum þó um atkvæði sitt á þeirri forsendu að hann þurfi fyrst að komast að hvern tengdafaðir hans hyggist styðja. Flosi hreytir þá í hann að hann muni búa við konuríki. Síðar leitar Flosi til Hólmsteins Spak-Bessasonar sem heitir honum liðveislu en þegar Flosi segir honum að allir höfðingjar Austurlands hafi tekið sér vel nema Sörli svarar Hólmsteinn þvi til að helst komi það til að Sörli sé enginn ofstopa- maður enda varla við því að búast af manni sem tekur með sér sólskinið og sunnanvindinn þegar hann fer í heimsókn til elskunnar sinnar. Höfundurinn er blaðamaður í lausamennsku. ORÐAFORÐI 12 dittó, diktur, Benedikt og predika EFTIR SÖLVA SVEINSSON DITTÓ er stundum notað til þess að tákna sama, sömuleiðis, einkum í rituðu máli. í skrá gæti til dæmis staðið sem svo: „Tvær ferðabækur í bandi. Einnig tvær dittó óbundnar." Orðið er komið til okkar frá ítalíu. Þar merkir ditto það sem var ný- lega sagt. Það er dregið af latnesku sögninni dicere sem merkir að segja. Ditto er gjarnan skammstafað do., einkum í bókhaldi, en þar eru oft upptalningar og til hægðar- auka að skammstafa. Eða eins og skáldið orti: Hundurinn Snati úr hnerra dó og haninn á fjalhöggi do. En það er fleira sem hangir á þessari spítu. Danir segja dikt í merkingunni ljóð, kvæði. Það lærðu íslendingar snemma á öldum og hét diktur, kvæði. En orðið fékk líka merking- una upplogin frétt, enda eru slíkar fregnir skáldskapur með sínum hætti. Menn dikta upp fréttir ef þeir eru ósannsöglir. Á latínu merkir dictio það sem er sagt, orð. Þess vegna heitir orðasafn nú dictionary á ensku og fleiri útlendum málum. Dicere, að segja, tekur með sér fjöldamörg forskeyti sem gefa sögninni sérstaka merkingu hverju sinni. Þær hafa flestar skilað sér til Eng- lands um Frakkland, og mörgum þessum orðum er ýmist slett í íslensku máli eða þau hafa hlotið þar þegnrétt. Benedicere var að segja fagurlega, blessa. Af því er komið mannsnafnið Benedikt, dregið af benedictus, hinn blessaði. Menn hafa heitið Benedikt á íslandi síðan á 12. öld. Eitt afbrigði nafnsins er Bengt og tíðkast á Norðurlöndum. Praed- icare merkir á latínu að lýsa yfir, staðhæfa. Predika skilaði sér til íslands snemma á öld- um og merkir nú oftast að halda ræðu við guðsþjónustu, en orðið er líka notað þegar menn boða ákveðnar skoðanir af hjartans sannfæringu. Höfundurinn er cand. mag. í íslensku. VETRARSOLHVÖRF I LEIFSBUÐUM LEIÐRETTING I SKYRINGARMYND af vetrarsólhvörfum í Leifsbúðum sem birtist á bls 5 í grein Guð- mundar Hansen í Lesbók 19. okt. sl. urðu þau mistök að eykt var auðkennd sérstak- lega með lit, en of breitt. Eykt er eins og hér er sýnt samkvæmt Grágás: „Þá er eykt, er útsuðurátt er deilt í þriðjunga, og hefur sól gengna tvo hluta en einn ógenginn." Leið- réttist þetta hér með. ATHUGASEMD í LESBÓKARGREIN h. 19. september skrif- ar Guðmundur Hansen um hvernig megi finna hnattbreidd Leifsbúða eftir staðhæfmg- unni frægu í Grænlendingasögu: ,;Meira var þar jafndægri en á Grænlandi eða Islandi. Sól hafði þar eyktarstað og dagmálastað um skammdegi." Höfundur túlkar orðið eyktarstað sem tímabilið milli kl. 15.30 og 16.30 eftir sóltíma. En eyktarstaður er alls ekki ákveðinn tími og því síður tímabil dagsins, heldur tiltekinn staður á láréttum sjónbaug eins og orðið bendir til, 52,5 gráðum vestar en hádegisstað- ur. Þetta má ráða á augljósan hátt af ákvæð- um í Grágás, bls. 24 og 33-34 í útgáfunni frá 1992. Þegar sólin er komin yfir eyktarstað hefur hún gengið tvo þriðjunga af útsuður- sátt. Og sólin er alls ekki alltaf á sama tíma dags yfir þessum stað, en í því meðal annars felst skekkjan í greininni. Sólin er yfir (eða undir) eyktarstað meira en klukkustund fyrr um hásumar en í skammdegi og sá munur eykst mjög þegar suður dregur frá f slandi. Þegar þetta er orðið ljóst er hægt að reikna eftir stjörnufræðiformúlum að hnattbreidd Leifsbúða hafi verið rétt rúmlega 50 gráður, nærri því eins og hjá fornleifunum sem Helge Ingstad uppgötvaði í L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi. Þar hefur þó ekki verið Vín- land sjálft, heldur þýðingarmikill dvalarstað- ur á leiðinni til Vínlands, og á leiðinni þaðan áður en fært var vegna hafíss til Grænlands að lokinni vetursetu. En auðvitað hefur at- hugunin á sólargangi skammdegis verið gerð í vetursetunni. Um frekari röksemdir vísa ég til bókar minnar Vínlandsgátunnar, bls. 144-147. En þetta tækifæri er rétt að nota til að benda á að Þorsteini Vilhjálmssyni prófessor verður á nærri eins slæmur misskilningur og Guðmundi, í ritdómi um Vínlandsgátuna í tímaritinu Sögu. Hann lætur eyktarstað vera 45 gráður frá hádegisstað en ekki 52,5 og fær því fráleita útkomu, svipaða og Arngrímur Jónsson lærði fékk fyrir fjórum öldum. Fyrst- ur til að leysa þetta dæmi á rökréttan hátt með aðstoð stjörnufræðings var Gustav Storm, norski sagnfræðingurinn sem meðal annars gaf út Vínlandssögur og forna íslenska annála á nftvjándu öld. En hann vissi auðvitað ekki um vetursetustaðinn í L'Anse aux Mea- dows og vísaði réttri niðurstöðu sinni þess vegna á bug nema sem mjög lauslegri bend- ingu. Nú er engin ástæða lengur til að gera lítið úr þessari frumherjarannsókn Gustavs Storms. En hún bendir aðeins á Leifsbúðir, ekki Vínland sjálft. Páll Bergþórsson LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 3. OKTÓBER 1998 15

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.