Lesbók Morgunblaðsins - 14.11.1998, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 14.11.1998, Blaðsíða 15
UM NOTT SMÁSAGA EFTIR EYSTEIN BJÖRNSSON Hann gekk þröngan gang inn í stóran sal. Rauðmálaðir veggir. Þykk, vínrauð gluggatjöld. Gyllt útflúr á gervi- súlum í veggjunum. Barinn var á hægri hönd þegar komið var inn. Rautt áklæði á stólunum við borðin. Ljóshærð, hávaxin stúlka, nakin að ofan, dillaði brjóstunum í takt við dempaða diskómúsík. Myndlýsing: Guðný Svava Strandberg HANN ráfar stefnulaust á mOli borðanna. Leitar að kunnug- legu andliti. Fólkið horfir ein- kennilega á hann, snýr sér svo undan. Hann sér engan sem hann þekkir. Sest að lok- um niður úti í horni. Fólkið tínist frá borðunum. Tekur fót sín í fatageymslunni og býst til brott- farar. Hann dottar. Þjónn hristir öxl hans. - Tími til kominn að tölta heim, kunningi. Hann hrekkur við, stendur á fætur, staulast fram að dyrum. - Varstu ekki í neinu? segir þjónninn. Hann stansar. Þreifar í öllum vösum. Kemur loks upp með krumpaðan miða. Fær frakkann og fer út. Unglingahópur við homið. Hann slangrar þangað. — Viljiði sígarettur? Hann dregur upp pakka. - Hvaða tegund reykirðu, gamli? segir ljós- hærður piltur. Winston. Hvílík lágkúra. Hann tékur pakkann, tæmir úr honum á malbikið og treður sígarettumar undir fótum sér. -Snautaðu burt, hommakvikindið þitt eða þú vaknar upp með glóðarauga á báðum. Fliss í hópnum. Maðurinn kippist við. Horfir sljóum augum á hópinn. Gengur síðan hægum skrefum niður götuna. Hann varð að fá eitthvað að drekka. En hvar? Það var alls staðar búið að loka. Nokki-ir leigubílar fóru hjá, enginn þeirra laus. Hann þrammaði áfram, vélrænt, hugsunar- laust. Varð að fá eitthvað. Veifaði öllum bílum. Enginn stansaði. Það var komin slydda. Blautt hárið klesstist niður á enni hans og fyrir aug- un. Hann hlaut að fá leigubíl fyn- eða seinna. Bara að halda áfram. Hann var kominn langleiðina niður i miðbæ þegar leigubíll með LAUS merkið kom á móti honum. Hann fór út á götuna og veifaði og veif- aði. Bíllinn stansaði og hann hljóp að bílhurð- inni, opnaði og klöngraðist inn. - Uff, það var aldeilis gagn að þú birtist. Ég var að verða úti. - Hvert var það? spurði bflstjórinn? - Heyrðu, áttu ekki flösku? - Nei, sagði bflstjórinn. Ég sel ekki áfengi. - En veistu ekki um einhvern? Geturðu ekki komið mér í samband við — ? - Ég er ekkert í þessum bransa, sagði bfl- stjórinn kuldalega. Hvert ætlarðu að fara? - Ég verð að fá eitthvað að drekka, tautaði maðurinn, annars — Veistu ekki um neina staði sem eru opnir núna? sagði hann svo og horfði biðjandi framan í bflstjórann. - Það mætti athuga það, sagði bflstjórinn ól- undarlega og ók af stað. Hann hallaði sér aftur á bak í sætinu og horfði út um bflrúðuna. Þeir voru á leið í vesturátt með sjónum. Götuljósin vörpuðu annarlegum bjarma sínum á öldurnar við landið, síðan tók myrkrið við. — I helköldum svörtum sjó sofa muntu í ró sofa muntu í sælli ró — Þetta kom allt í einu upp í huga hans þegar hann starði út í sortann, bergmálaði aftur og aftur — sofa muntu í sælli ró, sofa muntu — Bflstjórinn hægði ferðina. Þeir voru komnir inn í verksmiðjuhverfi. Ryðgaðir tankar og vél- arhlutar á stangli, gömul bflhræ. -Viltu gjöra svo vel að stoppa hér. Ég þarf að pissa. Bflstjórinn stöðvaði bflinn. Hann staulaðist út með erfiðismunum, gekk nokkur skref. Húsveggur - Vélaverkstæði Sig- urjóns - Stafli af steypurörum meðfram húsinu. Hann gekk bakvið staflann. Stundi. Fann óum- ræðilegan léttinn þegar bunan stóð niður af honum. Hann hlustaði á söng bununnar og frussið þegar hún lenti á jörðinni. Starði eins og í leiðslu á skítugan, útkrotaðan vegginn — Siggi trunta sýgur pung — Baddi brandur — Stína með stóra — peace merkið á hvolfi ofan í síðasta orðinu. Hann renndi upp rennilásnum á buxnaklaufinni og fór aftur inn í bflinn. Bflstjór- inn var að tala í talstöðina — er að losna við fyllib— verð kominn eftir tíu mínútur, bless. Hann ók hægt af stað aftur. -Við erum að verða komnir, sagði hann. Þetta er í portinu þarna við endann á götunni. - Ertu viss um að það sé opið núna? spurði farþeginn. -Já, sagði bflstjórinn og það örlaði á brosvipra á vöram hans. Þarna er alltaf opið. Það er svona álíka öruggt og að Morgunblaðið kemur út á morgnana. -Já, tautaði farþeginn. Einhvers staðar verða vondir að vera, Guðmundur góði — ein- hvers staðar verða þeir að vera, Guðmundur minn. - Ha? Varstu að segja eitthvað? spurði bfl- stjórinn. -Nei, nei, ég var bara að hugsa upphátt. Það var svo sem ekkert. Bflstjórinn staðnæmdist við flangt báru- járnshús á tveimur hæðum. Jarðhæðin virtst vera vörugeymsla. Á efri hæðinni loguðu ljós bakvið dökk gluggatjöld. Járngrindastigi með trétröppum lá að rammgerðri hurð á annarri hæð. - Þú ferð bara þama upp stigann, sagði bíl- stjórinn um leið og hann tók við greiðslunni og ók af stað. Hann stóð eftir með veskið í hendinni og horfði á eftir bílnum sem silaðist áfram og hvarf fyrir homið. Hann þreifaði í veskið. Gáði í öll hólf. Átti hann virkilega svona lítið eftir af peningum? Hann mundi ekki betur en hann hefði tekið með sér heilmikla fúlgu. Vonandi var ekki mjög dýrt héma inn. Hann varð að fá eitthvað að drekka. Var alveg að þynnast upp, krampinn ekki langt undan. Hann stakk vinstri hendinni með veskinu í frakkavasann. Með þeirri hægri tók hann um handriðið og hélt upp stigann. Fætur hans voru þungir sem blý en höndin sem hélt um kalda járnpípuna togaði hann áfram. Hann hafði alltaf verið sterkur í hægri handleggnum. Það var gægjugat á hurðinni. Daufur ómur af tónlist barst að eyrum hans. Hann barði að dyrum. Ekkert svar. Hann barði aftur. Beið. Eftir drykklanga stund opnuðust dyrnar og ungur og kraftalegur maður í gallabuxum og ljósbláum jakka leit á hann rannsakandi augnaráði. - Ert þú meðlimur hér? spurði hann. - Nei, sagði gesturinn. Mig langaði bara að fá mér í glas. Ungi maðurinn virti hann fyrir sér góða stund. - Það kostar tvö þúsund krónur, sagði hann svo. Gesturinn ætlaði að segja eitthvað en beit sig í vörina, tók tvo seðla úr veskinu og rétti dyraverðinum. Ungi maðurinn tók við seðlunum, opnaði dyrnar upp á gátt og hneigði sig með ýktum tilburðum. - Vertu velkominn og láttu fara vel um þig. Hann gekk þröngan gang inn í stóran sal. Rauðmálaðir veggir. Þykk, vínrauð glugga- tjöld. Gyllt útflúr á gervisúlum í veggjunum. Barinn var á hægri hönd þegar komið var inn. Rautt áklæði á stólunum við borðin í stfl við dúkana og gluggatjöldin. í hinum enda salarins var lítill pallur, lagður glansandi parketi. Ljós- hærð, hávaxin stúlka, nakin að ofan dillaði brjóstunum í takt við dempaða diskómúsík sem kom úr tveimur hátölurum í loftinu fyrir ofan pallinn. Slangur af fólki að drykkju við borðin. Nokkrir karlmenn sátu á gólfinu við pallinn og störðu áfergjulega á stúlkuna sem dansaði sinn hæga, tilbreytingarlausa dans. Hann gekk að barnum. -Tvöfaldan vodka í kók, með sítrónusneið, takk. Sá sem afgreiddi var lágvaxinn, grannur, miðaldra maður. Hann var ljós yfirlitum, þunn- hærður með há kollvik. Nefið var bogið og var- irnar þunnar. Augun litlaus og flöktandi. Hann skellti í sig úr glasinu í tveimur sop- um. Bað um annan, borgaði og settist við autt borð nálægt barnum. Hann var búinn með pen- ingana, átti ekki einu sinni fyrir sígarettum. Hann litaðist um í salnum. Sá engan sem hann þekkti, saup á glasinu. Ekki of stóran sopa. Hann varð að láta þetta endast þangað til honum dytti eitthvað í hug. Það var klappað i hinum endanum á salnum. Stúlkan á pallinum hafði lokið dansinum og hvarf á bakvið tjald. Nokkrir kölluðu — Meira, meira — neðri hlut- ann næst — bravó — þvflíkar túttur. Skjálftinn var að hverfa úr líkama hans. Víman læstist um hann allan. Fyrirheit um ei- lífa sælu. Eins og draumur þar sem allt var svo friðsælt og gott. Engin togstreita eða djöful- gangur. Ekkert nema fógnuður í sálinni yfir heiminum, mannfólkinu. Það birti í salnum. Fólkið við borðin var fallegt. Glæsilega klætt. Gleðin skein úr augum þess. Þetta var frábær staður. Stórkostlegt að geta setið hér í friði yf- ir glasi og notið lífsins. Stúlkan var aftur farin að dansa á pallinum með eitthvert dinglum-dangl á brjóstunum og pjatlan um mjaðmir hennar virtist enn hafa skroppið saman. Hann bar glasið að vöram sér. Hvað var þetta? Það var tómt. Hann stóð á fætur, gekk að barnum og bað um annan. Á meðan sá þunnhærði blandaði drykkinn virti hann fyrir sér flöskurnar í hill- unum. Gulur, rauður grænn og blár. Allir regnbogans litir - regnbogi - hann sá fyrir sér risastóran bogann sem teygði sig upp frá foss- inum. Hann hafði staðið við ána endur fyrir löngu og óskað sér. Hvers hafði hann óskað? Einhvers sem enginn mátti vita. Alsælu. Hafði það ekki ræst? Hann brosti. Var hann ekki al- sæll núna? - Gjörðu svo vel. Hann hrökk við. - Ha? Hvað? - Gjörðu svo vel, sagði sá þunnhærði. Hérna er drykkurinn. Hann seildist í vasa sinn, ætlaði að taka upp — mundi um leið að hann var búinn með pen- ingana, leit snöggt á glasið fyrir framan sig. Gosið perlaði í yfirborðinu og hann fékk ómót- stæðilega löngun til þess að hvolfa því í sig. Sá þunnhærði stóð og horfði á hann meðan hann leitaði í veskinu. -Ég skil bara ekkert í þessu. Ég hélt ég ætti nóga peninga. Hann leitaði í öllum vösum. Ekkert. Ekki ein einasta króna. Hann leit framan í manninn sem beið bakvið barinn. Bogið nefið, þunnar varirnar. Augun einkennilega litlaus. Auga- steinarnir örsmáir, sáust varla. -Þetta er óskiljanlegt, sagði hann aftur. Heyrðu, get ég ekki skrifað upp á skuldaviður- kenningu og borgað þetta svo strax á morgun? Ég er með skilríki. Sá þunnhærði hélt áfram að horfa á hann þessum vatnsbláu augum. Hann fann kaldan svitann spretta fram undir höndunum. Skjálft- inn var ekki langt undan. - Hvað segirðu um það? Er það ekki allt í sómanum? Hann rétti út höndna eftir glasinu. Sá þunnhærði varð fyrri til. Tók glasið og setti það undir bai’borðið. -Mér þykir það leitt, sagði hann. Við af- greiðum aðeins áfengi gegn staðgreiðslu. Það er ófrávíkjanleg regla. Ungt par kom að barnum. Stúlkan í svörtum blúndukjól. - Góði Siggi minn, stattu ekki þarna eins og þvara heldur gefð’ okkur eitthvað að drekka. Röddin var skræk, frekjuleg. Hún geiflaði munninn, rak út úr sér tunguna. Varaliturinn var kominn út á kinnar. - Tvo kúba líbra, sagði pilturinn og dró upp veskið. Hann var lágvaxinn og samanrekinn. Hend- ur hans, stuttar og þykkar, handléku veskið. Digrir puttarnir drógu upp seðlana. Neglumar með sorgarröndum, nagaðar upp í kviku. Hann stóð eins og negldur við barinn á með- an sá þunnhærði afgreiddi unga manninn og starði án afláts á flöskurnar í hillunum. Hvað átti hann að gera? Hann var ekki með neitt fémætt. Urið? En það var orðið svo gam- alt, fengist ekkert fyrir það. Ef hann gæti að- eins fengið nokkur glös í viðbót þá yrði allt í lagi. Hann varð að fá eitthvað og það fljótt, annars — hann fann svitadropa leka niður eft- ir bakinu. Þeir voru aftur orðnir einir við barinn. Sá. þunnhærði virti hann ekki viðlits. Sneiddi sítrónur, sýslaði við flöskur og glös, fékk sér kaffi. Hann ræskti sig. - Héma, hm, viltu tala aðeins við mig? Sá þunnhærði leit upp. - Ert þú þarna enn þá? sagði hann eins og undrandi. - Geturðu ekki látið mig hafa eitthvað fyrh’ þetta úr? Hann tók af sér úrið og lagði það á borðið. Sá þunnhærði leit varla á það og hristi höf- uðið. - Ertu ekki með ávísanahefti eða kort? - Nei, ekkert svoleiðis. Er þá ekkert hægt að gera? spurði hann með örvæntingu í rödd- inni. Sá þunnhærði starði aðeins á hann þegjandi. Svo sagði hann: - Ég gæti kannski látið þig hafa nokkur glös fyrir hann þennan. Hann benti á vinstri hönd hans. Hann leit niður. Sá hringinn á baugfingrin- um. Kipptist við og stamaði einhverju út úr sér. - Ha? Já, það er einmitt það. Hvar er sal- emið? Sá þunnhærði benti fram ganginn. Hann sneri frá barnum og gekk eins og í leiðslu fram ganginn. Sá merkið á hurðinni, fór inn. Hann pissaði, þvoði sér um hendur og andlit. Þegar hann var búinn að þurrka sér tók hann ofan hringinn. Lagði hann í lófa sér og virti hann fyrir sér góða stund. Tók hann svo upp með vísifingri og þumalputta og sneri honum svo ljósið skein inn í hringinn Þín Lilja. Höfundurinn er kennari. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 14. NÓVEMBER 1998 1 5'

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.