Lesbók Morgunblaðsins - 08.04.2000, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 08.04.2000, Blaðsíða 8
mundi drepa okkur þá frjálsbornu ef það gæti [...]" (1939,67). A síðari hluta fjórða áratugar þessarar aldar urðu nokkrar ýfingar milli sumra skálda og Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Jónasi þótti sum þeirra hvorki nægilega andleg né afskiptalaus um pólitísk álitamál. Pétur Þríhross átti einnig í nokkru stímabraki við skáldin á Sviðinsvfk af ekki ólíku tilefni. Síðara bindi skáldverksins Sjálfstætt fólk eft> ir Halldór Kiljan Laxness kom út árið 1935. I febrúar og mars árið eftir ritaði Jónas Jónsson nokkrar greinar í Nýja dagblaðið um skáld- verkið undir samheitinu „Fólk í tötrum". Þar segir Jónas Jónsson meðal annars: „Innan um gullfagra kafla af hrífandi skáld- skap koma almennar yfirlitsgreinar með komm- únistagagnrýni, sem vel gætu verið eftir óskáld- hæfa en greinda kommúnista [...]". í þessum greinum Jónasar leyndist hótun. Fram kom í greinunum að þessi skáldskapar- stefna Halldórs kynni að verka neikvætt á al- þingismenn en Alþingi úthlutaði þá höfundar- launum til skálda. Rithöfundarlaun hans væru því í hættu. í þeim orðum fólst einnig að yrði breytt um skáldskaparstefnu væri hættan liðin hjá. I heimsókn Péturs Þrfhross til Ólafs Kára- sonar varar framkvæmdastjórinn Ólaf við að eiga samskipti við þá ættjarðarlausu: „Segðu ekki fleira kalli minn, sagði fram- kvæmdastjórinn [...]. Það hefur einginn tekið ábyrgð á skáldum kalli minn. Hús skáldsins get- ur fokið. Það getur brunnið. Ef þú heldur að nú- tíminn, það sé að hafa í sig og á, þá skjátlast þér. Nútíminn, það er þegnskapur [...], það er að vera reiðubúinn að láta sinn síðasta blóðdropa fyrir sögu þjóðarinnar og framtíðarvonir" (1939,66). En Pétur Þrfhross bendir Olafi skáldi Kára- syni á undankomuleið: „Jæja kalli minn, ef þú venur þig af að vera með hugsunarlaust fleipur, þá kemur ekkert ílt fyrir sagði framkvæmdastjórinn" (1939,67). í jan.-mars-hefti Vöku árið 1939 ritaði Valdi- mar Jóhannsson grein í tímaritið sem hann nefndi: „Tveir menn". Þar ræddi hann um Rnút Arngrímsson skólastjóra, sem hann taldi hallan undir nasisma og Halldór Laxness sem hann taldi hallan undir kommúnisma. Til áherslu fylgdu myndir af báðum mönnunum. Ýmsum þótti líklegt að í grein Valdimars væru túlkuð viðhorf Vökumanna til Halldórs Laxness og skáldverka hans þar sem enginn þeirra hreyfði andmælum. í þessari grein Valdimars sagði meðal annars um Halldór Laxness: „Það hefur enginn neitt við það að athuga, þótt [...] Halldór láti gefa út eftir sig hverja bók- ina eftir aðra, sem beint eða óbeint túlka mál- stað húsbænda hans í austri. [...]. Hins vegar skilur almenningur ekki, hvers vegna hið opin- bera - rfkið sjálft - skuli veita þeim manni „heiðurslaun", sem vinnur að því að kollvarpa þjóðskipulaginu. [...] En ef einhverjir þeir, sem sjá hættuna af hálfu ofbeldisstefnanna og vara við henni, stuðla að áframhaldandi launagreiðsl- um úr rfkissjóði til Halldórs Kiljan Laxness, nú eftir að hið síðasta hnefahögg hans í andlit al- þjóðar, þá dregur þjóðin heilindi slfkra manna í efa"(Vakal939,10). Svo virðist sem Vökumannahreyfingin hafi talið árið 1939 að Halldór Laxness væri hættur að vera skáld. Krafan um að hann yrði sviptur skáldalaunum var jafngild því. Pétur Þríhross varð fyrir því áfalli að skáldið Ólafur Kárason skaut skjólshúsi yfir byltingar- manninn Örn Ulfar. Slíkri ögrun varð ekki svar- að nema á einn veg: „Ólafur Kárason, þú sem kallar þig skáld, ég er kominn hingað til að segja þér að þú ert ekki framar neitt skáld. Þú ert klámskáld, guðlastari og sorakjaftur sem eitrar hugarfar æskulýðs- ins. Of leingi er ég búinn að þola edjót og rottu eins og þig. Ég hef fyrirgefið þér þó þú hafir ¦sett blett á Sviðinsvík með því að skrifa sögur af fólki sem aldrei hefur þekst hér á eigninni [...] og aldrei þreyst á að gefa þér tækifæri til að verða gott skáld. En öll mín viðleitni til að gera þig að góðu sklödi hefur orðið árángurslaus. Nú er mitt lánglundargeð á þrotum kalli minn. Við vorum að vísu málkunnugir áður, en þegar þú gerist opinber útsendari þeirra ættjarðarlausu á móti innlendu stefnunni, á móti sjálfstæði þjóðarinnar, á móti mér, þá þekkjumst við ekki leingur, ég skal sýna ykkur það, ég skal kremja ykkur, ég skal mala ykkur, ég skal fletja ykkur" (1939,184-185). Þær greinar úr tímaritinu Vöku sem hér hef- ur verið vitnað í komu út fyrri hluta árs og síð- sumars 1939. Aftast íHúsi skáldsins tekur Hall- dór fram hvar og hvenær bókin var samin: „Laugarvatni, Þíngvöllum, síðsumars 1939". Bókin kom þó ekki út fyrr en 16. desember sama ár. Af þessu má ráða að skáldið gat haft þessar greinar í fórum sínum þegar hann skrif- aði Hús skáldsins og notað þannig tíðindi líðandi stundar í skáldverkið. Sérhvert skáldverk sem nær máli ber í sér tímann sem það er ritað á. Hinn rauði þráður Heimsljóss er samtíð höf- undarins. Höfundurinn er fyrrverandi menntaskólokennari. // SANNLEIKURINN ER ANNAD // Catherine Yass opnar sýningu í i8 í dag. FRIDA BJÖRKINGVARSDÓTTIR kom að máli við hana, en á sýningunni veitir Yass okkur innsýn inn í það sem flestum yfirsést. IKJÖLFAR þeirra breytinga sem áttu sér stað í viðhorfi manna til hefðarinn- ar og stofnana hennar á sjöunda ára- tugnum, hefur sjónarhorn listamanna verið að breytast, ekki einungis í myndlist, heldur einnig á öðrum svið- um lista. Á þessum tíma fóru margir þeir sem áður höfðu einungis fundið hljómgrunn fyrir list sína á jaðarsvæðum menningarinnar að hasla sér völl óháð þeim menningarlegu skorðum sem þeim höfðu áður verið settar. Fjölbreytileiki og könnun þess óþekkta sem oft virtist liggja á jaðri viður- kenndrar menningar var allt í einu ein mikil- vægasta forsenda listsköpunar. Mörkin á milli hámenningar og lágmenningar urðu óskýrari og hefðbundnar skilgreiningar á listformum röskuðust, jafnvel svo að mörgum fannst nóg um. Listamenn hófu umfjöllun um „hina hlið- ina" og reyndu um leið að skilgreina nýjan sannleika í tengslum einstaklingsins við um- hverfi sitt. í upphafi samtals okkar Catherine Yass um verk hennar urðum við ásáttar um að sam- tímakona hennar, breska skáldkonan Jeanet- te Winterson, hefði haft rétt fyrir sér þegar hún sagði: „Sannleikurinn er annað, eins og sannleikurinn alltaf er." Við vorum þá að ræða þá hlið ofangreindrar hugarfarsbreyt- ingar sem fram kemur á sýningu er Yass kall- ar „Cell" eða „klefa", en hún opnar í galleríi i8 í dag. Catherine Yass fæddist árið 1963 og stund- aði myndlistarnám við Slade School of Art í London og síðan við Goldsmiths College. Frá því hún lauk námi hefur hún sýnt víða um heim og er nú einn þekktasti listamaður sinn- ar samtíðar í Bretlandi. Hún er ein þeirra sem kom fram í kjölfar Freeze-hópsins marg- umtalaða með Damien Hirst í fararbroddi og segir sjálf að listsköpun þess hóps hafi valdið straumhvörfum í samtímalist í Bretlandi, sem allt í einu var tekin alvarlega. Tengsl einstaklingsins við umhverfi sitt Á sýningu sinni í i8 sýnir Yass átta lit- skyggnur sem festar eru á ljósakassa. Þær eru hengdar upp í tveimur röðum, fjórar og fjórar saman svo áhorfandinn gengur inn á milli þeirra, og endurskapar að hluta til það rými sem Yass er að fjalla um; ganga og klefa fangelsis í Birmingham. Yass hefur lengi fengist við að taka ljósmyndir af auðu rými stofnana af ýmsu tagi, þar sem hinn undir- liggjandi þráður virðist varða tengsl einstakl- ingsins við umhverfi sitt, hið persónulega and- spænis hinu opinbera stofnanavaldi - sem óneitanlega vekur upp óróleika innra með áhqrfandanum. Eg spurði Yass fyrst um fyrirsögn texta eftir Caryn Faure Walker, „Að horfa á það sem öðrum yfirsést", en hann birtist í bækl- ingi sem helgaður er sýningunni. „Norman Bryson skrifaði bók með þessum titli sem ég hafði ekki lesið er ég fór að vinna að þessum verkum," segir Yass. „En hann á mjög vel við, því í verkunum er sú hugmynd í forgrunni að verið sé að horfa á mann og hún birtist í ýmiskonar götum; ferköntuðum göt- um og kringlóttum götum þar sem horft er inn í klefa eða jafnvel inn á salerni. Hvað varðar það sem mönnum yfirsést þá er ég að fjalla um það líf sem er útilokað í bókstafleg- um skilningi, en einnig þær hliðar lífs okkar sem okkur sést yfir. I fangaklefanum er lífíð í afar þröngum skorðum; maður borðar, sefur, vakir. Og vegna þess hvernig ég kýs að beina sjónum að þeim þáttum mannlegs lífs sem við leggjum yfirleitt ekki mikla áherslu á, er ég auðvitað að leiða hugann að því sem okkur yf- irsést, - enda erum við oftast að reyna að ein- blína á það í fari okkar sem er á upphafnara stigi. Eg hef áhuga á stofnunum þar sem fólk er sett inn í rými sem er ekki þeirra eigið. Þar sem einkalíf þeirra verður hluti stofnunarinn- ar eða þar sem þeir sjálfir verða hluti stofn- anakerfisins." Morgunblaðio/Kristfnn Catherine Yass, sem hér situr á milli tveggja verka sinna í i8, leiðir áhorfandann í gegnum ókannað rými. „Svo þú ert að fjalla um þessa togstreitu milli hins persónulega og hins opinbera?" „Já, í rauninni. Fyrir nokkrum árum vann ég við að taka myndir inni á geðsjúkrahúsi og mætti þar álíka kringumstæðum. Sjúkling- arnir eru á slíkum stöðum af því þeir vita ekki hverjir þeir eru, eða vegna þess að þeir eiga við vandamál að stríða. Þjóðfélagið vegur að sjálfsímynd þeirra og þeir gera það jafnvel sjálfir. Um leið og maður er settur inn á stofnun af þessu tagi er stöðugt verið að fylg- ast með manni, - horfa á mann, svo maður á ekkert í einrúmi." „Að einhverju leyti fjalla þessi verk þannig um ákveðnar siðferðishugmyndir?" „Einmitt, því það sem lögin ákvarða að sé óheilbrigt eða glæpsamlegt markast einungis af sýn samfélagsins á hverjum tíma. Ég hitti t.d. konu á þessu geðsjúkrahúsi sem hafði verið þar í fimmtíu ár einungis vegna þess að hún hafði átt barn og var kaþólsk. Augljós- lega breytast hugmyndir samfélagsins um siðferði stöðugt og ég held að skilgreiningar á glæpsamlegu athæfi breytist einnig. Þessir fangaklefar sem ég var að Ijósmynda voru ætlaðir þeim sem höfðu framið minni háttar afbrot, kannski verið drukknir á almannafæri, - og ég veit ekki einu sinni hvort það er rétt- lætanlegt að læsa fólk inni fyrir slíkt. Þessi verk fjalla því vissulega um siðferðishug- myndir." Áhorfandinn fyllir upp í ákveðna eyðu í myndinni „En hvað með einstaklinginn í þessum verkum, nú er hann ekki til staðar nema óbeint í myndunum sjálfum?" „Eg tók reyndar andlitsmyndir í 5 ár áður en ég fór að vinna að verkefnum af þessu tagi. Þá var ég alltaf að fjalla um persónuleg tengsl einstaklinga við þá stofnun sem þeir voru í, - myndirnar voru aldrei bara andlitsmyndir. Á geðsjúkrahúsinu ætlaði ég líka að taka and- litsmyndir, en uppgötvaði að þar var ég í fyrsta sinn að taka myndir af fólki sem ekki var hægt að setja merkimiða á, eða skilgreina á venjulegan máta. Þjóðfélagið hafði auðvitað sett á það merkimiða, en það var ekki hægt að horfa á einstakling og skilgreina hann t.d. sem kennara eða lögreglumann. Þess vegna fór ég að taka myndir af göngum stofnunar- innar og uppgötvaði að þær voru í sjálfu sér mjög áhugaverðar vegna þessarar eyðu sem myndaðist þar sem manneskjan átti að vera. í þessu bakgrunnsrými var ákveðin dýpt og það var eins og áhorfandinn félli þar inn. Það rann upp fyrir mér að ef það er manneskja á myndinni er auðveldara fyrir áhorfandann að fjarlægja sig frá myndmálinu, hann þarf ekki að samsama sig því umhverfí sem hann horfír á þar sem einhver annar er þar fyrir. Með því að taka einstaklinginn út úr myndinni er áhorfandinn færður inn í rýmið. Það má kannski segja að um leið og maður fer að fjalla um rými og myndmál, sé maður farinn að hugsa um legu rýmisins. I þessari myndaröð sem ég sýni hér eru því margar hurðir sem loka mann úti, eða inni, eftir því hvernig maður lítur á það. Ég var því að leika mér að þeirri hugmynd hversu langt maður gæti komist inn í stofnunina og hvort mann langaði til þess eða ekki. Þegar rýmið sem um er að ræða er lögregluklefi getur það verið mjög ógnvekjandi, en kannski líka svolítið heillandi vegna þess að það gefst ekki oft tækifæri til að virða þann heim fyrir sér. Þarna er því um að ræða víxlverkun þess sem er fráhrindandi og þess sem er heillandi og forvitnilegt." „Kannski eitthvað sem vekur upp glugga- gæginn í áhorfandanum?" „Já," segir Yass og hlær, „og gerir hann jafnframt bæði að þeim sem horfir og sem horft er á. Honum gefst ekki færi á að vera hlutdrægur og halda því fram að hann sam- sami sig einstaklingnum gegn stofnuninni, vegna þess að myndavélin stillir honum upp sem áhorfanda, - og sá sem er áhorfandi inni á lögreglustöð er það í krafti stofnanavalds- ins. Ahorfandinn er því á vissan máta sekur, jafnvel áður en hann fer að hugsa. En þetta er flókið hringrásarferli, því sektin er náteng þeirri hugmynd að vera fórnarlamb í klefa, svo áhorfandinn situr beggja megin borðsins." Ljósmyndun hefur verið notuð til að viðhalda ákveðinni hugmyndafræði „Þú segir að myndavélin stilli áhorfandan- um upp, - er það þessi afstaða myndavélar- innar sem varð til þess að þú ákvaðst að taka ljósmyndir í stað þess að nota einhvern annan miðil?" „Það var nú eiginlega alveg öfugt. Allar þessar spurningar vöknuðu vegna þess að ég fékkst við að taka myndir. Mér varð ljóst að í sögu ljósmyndatækninnar hefur hún oft verið notuð til að flokka mismunandi hópa og gerðir manna. Fólki finnst Ijósmyndavélin vera vís- indalegt tæki og þess vegna hefur hún verið notuð í þeim tilgangi að staðfesta og viðhalda ákveðinni hugmyndafræði. En auðvitað er hægt að skilja hvað sem er eftir fyrir utan rammann, það er hægt að taka myndir frá hvaða sjónarhorni sem er, þó að myndir séu alltaf settar fram eins og þær séu eina hugs- anlega sýnin á myndefnið." „Nú fylgir þessum myndum mikil litagleði, kannski meiri en maður á von á í fangaklefa?" „Litirnir eru mjög mikilvægir í þessum myndum, blái liturinn er sterkur og þéttur og kemur eiginlega upp á milli áhorfandans og rýmisins. Þannig má segja að ég sé að reyna að afturkalla hið vísindalega sjónarhorn myndavélarinnar og breyta raunveruleika myndanna sem ekki er sjálfgefinn vegna þessarar óvenjulegu litadýrðar. Það hefur aldrei hvarflað að mér fyrr en nú í þessu sam- tali okkar, að kannski koma litirnir í stað fólksins sem er fjarverandi." „Ahrifín af myndunum eru sterk, ekki síst af því að þær eru í einskonar ljósakössum, er einhver sérstök ástæða fyrir því að þú vilt lýsa þær upp?" „Já," segir Yass, „mér finnst ákaflega mik- ilvægt að leggja áherslu á þá staðreynd að lit- irnir verða til úr ljósinu. ínni í kassanum er svo þetta innra rými, handan myndarinnar sem verður þess valdandi að myndin birtist eins og þunn himna á milli áhorfandans í sýn- ingarsalnum og einhverskonar innri heims. Sú afstaða hvetur áhorfandann til að velta því fyrir sér hvar hann er sjálfur staðsettur í því rými sem hann er að horfa á." „Það hlýtur þá að skipta miklu máli hvernig verkinu er stillt upp?" „Þar kemur líklega ákveðið frásagnarferli inn í myndina vegna þess að sjálf þekki ég skípan þeirra byggingar sem ég ljósmynda mjög vel, en áhorfandinn ekki. Ég ver því miklum tíma í að ákveða hvernig áhorfandi gangi inn í verkið, hvar ég eigi t.d. að setja dyr, sem túlka má sem vísbendingu um leiðir til annarra átta, hvort heldur sem er innra með áhorfandanum eða eitthvert allt annað." Hér var kominn tími til að leyfa Catherine Yass að huga að því hvernig rými hún gæti skapað með uppsetningu verkanna í i8. Af samtali okkar er Ijóst að áhorfandinn gegnir veigamiklu hlutverki sem sá er gægist inn í persónuleg rými ópersónulegra stofnananna, en ekki síður sem hefðbundinn könnuður framandi heima, er þreifar sig áfram af ótta- blandinni forvitni og löngun, - bæði til að sjá og líta undan. 8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS - MENNING/LISTIR 8. APRÍL 2000

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.