Morgunblaðið - 18.02.2001, Side 35
þjálfuðu lögregluliði, dómstólum og
góðri stjórnsýslu, að mennta og
launa allt það starfslið sem til þarf,
reisa dómhús, stjórnsýslubyggingar
og fangelsi. Okkur Íslendingum er
engin vorkunn að leggja í þann
kostnað, en hann er ennþá mörgum
fátækum ríkjum ofviða, einkum ný-
lendunum fyrrverandi sem sátu uppi
að fengnu sjálfstæði fyrir aðeins 35–
40 árum svo til allslausar og hafa síð-
an átt við margháttaða innbyrðis erf-
iðleika að etja. Það kostar líka sitt að
halda lýðræðislegar kosningar fjórða
hvert ár. Það er því mikil einföldun
að tala um að skyldur ríkisins í þess-
um efnum séu útgjaldalausar taum-
haldsskyldur eins og gjarnan er á
tönnlast í umræðum um mannrétt-
indi; borgaralegum og stjórnmála-
legum réttindum fylgja einnig marg-
víslegar jákvæðar skyldur býsna
kostnaðarsamar.
Á merkilegum fundi þjóðréttar-
fræðinga, sem haldinn var árið 1986 í
Limburg-háskólanum í Maastricht í
Hollandi, voru samþykktar svo-
nefndar Limburg-reglur – the Lim-
burg principles – þar sem skýrðar
voru skyldur ríkja samkvæmt SÞ-
samningnum um efnahagsleg,
félagsleg og menningarleg réttindi.
Þar segir meðal annars, að aðildar-
ríkjunum sé skylt að hefjast þegar í
stað handa um ráðstafanir eða að
stíga skref í þá átt að efna réttindin
sem samningurinn kveður á um – og
þeim sé skylt, hvernig svo sem efna-
hag þeirra sé háttað, að tryggja öll-
um lágmarksréttindi (minimum sub-
stance right) – þeim beri að leggja
sérstaka áherslu á að bæta lífsskil-
yrði hinna fátæku og annarra sem
standa höllum fæti í samfélaginu.
Þessar reglur voru aftur ræddar og
endurskoðaðar á sama stað árið 1997
í ljósi þeirrar þróunar, sem orðið
hafði á sviði þessara réttinda. Á
fundinum voru samþykktar svo-
nefndar „Maastricht-leiðbeiningar
um brot á efnahagslegum, félagsleg-
um og menningarlegum réttindum“
þar sem lögð var áhersla á, að óum-
deilt væri orðið, að öll mannréttindin
væru óaðskiljanleg, samtvinnuð og
hvert öðru háð og jafnmikilvæg virð-
ingu manneskjunnar; þar af leiðandi
bæru ríki jafnríka ábyrgð á brotum á
þessum réttindum og á borgaraleg-
um og stjórnmálalegum réttindum.
Limburg-reglurnar og Maastricht-
leiðbeiningarnar eru vitaskuld ekki
bindandi fyrir einn eða neinn en þær
eru mikilvæg vísbending um mat
færustu sérfræðinga á því hvernig að
réttindum þessum skuli unnið. Eins
og áður sagði er ríkjum ætlað að efna
réttindin með lagasetningu þar sem
þess er þörf og séu sett lög verður að
gæta jafnræðisreglunnar, bæði við
gerð þeirra og framkvæmd, sbr. 2.
mgr. 2. gr. samningsins. Fræðimenn
hafa um árabil rætt og ritað um
hugsanlegar leiðir til að knýja fram
efndir þessara réttinda fyrir atbeina
dómstóla og hafa þá m.a. rennt aug-
um til jafnræðisreglunnar sem far-
vegs sem e.t.v mætti feta sig eftir í
tengslum við fyrirliggjandi löggjöf
hvers ríkis. Sum ríki hafa enga lög-
gjöf sem hægt er að tengja þannig,
hvorki jafnræðisreglu né nokkur
önnnur lög er varða þessi réttindi;
önnur ríki hafa ýmiss konar lög, þar
á meðal Ísland. Sum ríki hafa ákvæði
um þessi réttindi í stjórnarskrám
sínum (í mismiklum mæli), önnur
ekki. Við höfum slíkt ákvæði, t.d. í 76.
gr. stjórnarskrárinnar, svo og
skráða almenna jafnræðisreglu í 65.
gr. og úr því að við erum komin svo
langt í lagasetningu um þessi rétt-
indi sem raun ber vitni ber okkur að
beita þeim lögum, sem sett hafa ver-
ið með hliðsjón af jafnræðisreglunni
og dómstólum ber að beita öllum til-
tækum ráðum til að knýja fram efnd-
ir þeirra mannréttinda, sem þar er
kveðið á um. Hæstiréttur Íslands
sinnti þeirri skyldu í dómnum frá 19.
desember sl. Þar hefði vissulega
mátt færa rök að annarri íhaldssam-
ari niðurstöðu, sem þá hefði einnig
mátt túlka sem „pólitískt“ mat, en
dómarar meirihlutans sýndu það
hugrekki og þá framsýni að leggjast
á sveif með mannréttindum, túlka
fyrirliggjandi lög þeim í hag og nið-
urstaðan mun verða þeim til ævar-
andi sóma.
Höfundur er lögfræðingur LL.M.
SKOÐUN
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18. FEBRÚAR 2001 35