Morgunblaðið - 14.11.2001, Qupperneq 22
LISTIR
22 MIÐVIKUDAGUR 14. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
TÓNVERK Þorkels Sigurbjörns-
sonar á velsóttum tónleikum Kamm-
ersveitar Reykjavíkur í Listasafninu
s.l. mánudagskvöld hefðu nærri
myndað snyrtilegan lógaritmískan
skala í tilurðartímaröð: 1976-88-93-
96-98. En sú fékk ekki að ráða á pró-
gramminu. Að markaðsvenju vorra
tíma var þvert á móti byrjað á
stytztu og hlustendavænstu verkun-
um. Hið fyrsta, Filigree fyrir kamm-
ersveit (strengi, flautu og hörpu),
var frá 1993; nr. 2, Dulcinea fyrir gít-
ar og strengjasveit, frá 1996. Fleira
áttu þau sammerkt en stuttleikann
og laggæzkuna, því í eyrum undirrit-
aðs sveif ekki ósvipaður márískur
móri yfir tóntaki beggja, sérstaklega
í Dulcineu, þar sem serkneskir gít-
arómar hnykktu á alhambraða and-
rúmsloftinu. „Víravirkið“ (nr. 1)
teymdi mann á rétta slóð strax með
nafngiftinni, sem leiddi hugann að
heimskunnum húsabaldýringum blá-
manna í marmara og alabastri.
Glært, ljóðrænt og velhljómandi lítið
strengjaverk, byggt á einskonar
morgunlenzkum blústónstiga sem
smám saman óf úr sér fljúgandi
teppi með litríkum hugboðum um
svalandi suðræna gosbrunna í klass-
ísku jafnvægi milli mínímalskrar
þrástefjunar og söngrænni rithátta.
Dulcinea, kennt við kjörást Dons
Kíkóta frá Toboso, var samið sem
n.k. „nafnspjald“ handa Þórúlfi
Stefánssyni gítarleikara sem búsett-
ur er í Svíþjóð. Eftir pentatónískt
plokkaðan inngang strengjasveitar
upphófst lágvær sagnamars con-
quistadóra í 5⁄8 við seiðandi epíska
dulúð, og gítarinn fékk undir lokin
smá einleikskadenzu með hvíslandi
strengjatremóló í bakgrunni. Hér
mátti heyra Guðmund Pétursson,
sem fyrir rúmum áratug debúteraði
með raflostaglans að hætti Paganin-
is blúsrokkgítarsins, Jimis Hendrix,
í nýju og settlegra hlutverki á klass-
íska spænska hljóðfærið, sem hann
útfærði af músíkölsku öryggi. Það
versta við þetta sjarmerandi stykki
var hversu naumt var skammtað.
Maður var rétt kominn í rómantísk-
ar stellingar þegar því var lokið, líkt
og lokkandi tálsýn sem æpir á fram-
hald.
Viðamestu verkin voru þó eftir.
Wiblo fyrir horn, píanó og strengja-
sveit var samið 1976 fyrir feðgana
Wilhelm og Ib Lanzky-Otto. Tón-
málið var hér oftast ágengara en í
undangengnu míníatúrunum í takt
við módernisma síns tíma, en rithátt-
urinn var samt hinn fjölbreyttasti og
kenndi stílgrasa úr ólíklegustu átt-
um, allt frá „poco alla Bartók“ yfir í
djassleita hljómabeitingu Gersh-
wins. Þrátt fyrir heldur rapsódískt
lunderni hékk verkið vel saman og
hélt athygli hlustandans glaðvakandi
allt til enda, ekki sízt fyrir spræka
spilamennsku (burtséð frá svolítið
ósamtaka col legno bogaslætti á ein-
um stað), þar sem leiftrandi píanó-
runur Önnu Guðnýjar Guðmunds-
dóttur og himinháar hornstrófur
Jósefs Ognibene skinu skært við
traustan hljómsveitarsamleik. Sér-
kennilegur þótti mér braghrynur
niðurlagskaflans er virtist vitna í
limru án orða, þótt hann hefði mátt
enda aðeins meira afgerandi.
Innlifun flytjenda lét ekki heldur á
sér standa í næsta númeri, Umleikur
fyrir fiðlu og kammersveit (þ.e.
strengjakvartett, kontrabassa og
tréblásarakvintett) frá 1998, samið
fyrir 25 ára afmæli Kammersveitar-
innar. Þetta var býsna þétt skrifað
verk, víða nærri sinfónískt að breidd,
og hefði jafnvægis vegna vel þolað
helmingi fleiri strengi. Það var líka
bráðskemmtilegt áheyrnar, enda
náðu hljóðfæraleikararnir hér lík-
lega beztu frammistöðu kvöldsins.
Margt bar á góma eftir Moldár-
kenndan 6⁄8 öldunið upphafsins (sem
víðar kom við sögu), m.a. skemmti-
legt dúó fagotts og einleiksfiðlu,
glertæran sicilianodans og gáska-
fullan prokofjefskan spiccatokafla.
Sönghæfur kódinn myndaði síðan
ómblítt en markvisst niðurlag á sér-
lega vel unnu verki, þar sem hnit-
miðuð kontrapunktísk raddfærsla
dýpkaði spennandi framvindu til
muna.
„Af mönnum“ nefndist síðasta at-
riði kvöldins fyrir blandaðan septett
(klarínett, fagott, trompet, básúnu,
slagverksmann, fiðlu og kontra-
bassa); balletttónlist samin 1988 að
beiðni Hlífar Svavarsdóttur og í sex
samtengdum þáttum. Kveikjan kom
að sögn tónskáldsins úr ljóðabók
Matthíasar Johannessen, Borgin
hló. Þar er m.a. talað um dans „eftir
öskrandi básúnum og hjáróma fiðlu-
tónum“, og vissulega skorti hvorki
krassandi liti né súrrealískt and-
rúmsloft í þessu ágenga verki. Víða
slitrótt áferð þess og ör takttegunda-
skipti útheimtu mikla einbeitingu af
bæði spilurum og stjórnanda, og var
flest leyst af hendi með eftirtektar-
verðri nákvæmni. Engu að síður
þótti manni á mörkum að tónlistin
næði að standa ein án sjónræns
áreitis í núverandi mynd, hvað sem
orðið gæti úr frekari vinnslu síðar
meir. Allt um það náðu aðskiljanleg
óvænt litbrigði að ginna eyrað (að
ógleymdu stöku hröslulegu andar-
kalli), þó að seinni hlutinn drægist
heldur á langinn.
Þrátt fyrir þennan svolitla antí-
klímax var ósvikið bragð að brúkun-
artónlist Þorkels. Leikur Kammer-
sveitarmanna var eldhress og
nákvæm stjórn Bernharðs Wilkin-
son hvetjandi og hljómgæði salarins
nánast sem sköpuð fyrir ólíkar
áhafnir verkanna. Enda úrvals tón-
listarvettvangur – að frátöldum
vondum stólum og farþegaþotunið
úr loftræstingu.
Leikurinn var eldhress og nákvæm stjórn Bernharðs Wilkinson hvetjandi og hljómgæði salarins nánast sem sköpuð fyrir ólíkar áhafnir verkanna.
TÓNLIST
L i s t a s a f n Í s l a n d s
Þorkell Sigurbjörnsson: Filigree;
Dulcinea; Wiblo; Umleikur;
Af mönnum. Guðmundur
Pétursson, gítar; Jósef Ognibene,
horn; Anna Guðný Guðmunds-
dóttir, píanó; Rut Ingólfsdóttir,
fiðla. Kammersveit Reykjavíkur
u. stj. Bernharðs Wilkinson.
Mánudaginn 12. nóvember kl. 20.
KAMMERTÓNLEIKAR Bragð-
mikil brúk-
unartónlist
Ríkarður Ö. Pálsson
FÉLAG íslenskra
fræða stendur fyrir
rannsóknarkvöldi í
kvöld kl. 20.30 í Sögu-
félagshúsinu í Fischer-
sundi. Þar flytur
Sveinn Einarsson leik-
hússfræðingur erindi
um leikgerð Kristni-
halds undir Jökli eftir
Halldór Laxness.
Árið 1970 komst
Kristnihaldið fyrst á
svið í leikgerð Sveins,
og sló rækilega í gegn.
Sú leikgerð verksins er
einmitt á fjölum Borg-
arleikhússins um þess-
ar mundir.
„Halldór er alltaf ofarlega á
baugi,“ segir Sveinn Einarsson, „og
nú styttist í hundrað ára afmæli
hans. Leikhúsin eru að halda upp á
það í vetur. Kristnihaldið tel ég vera
miðjuverk í öllum seinni skrifum
Halldórs Laxness og eitt hans per-
sónulegasta og dýpsta verk. Sú leik-
gerð sem ég gerði af
verkinu skömmu eftir
að bókin kom út, náði
hylli og hefur lifað
áfram með þjóðinni.“
Í erindi sínu talar
Sveinn Einarsson með-
al annars um muninn á
leikgerðum annars
vegar og hins vegar
leikritum. „Stundum
hef ég þóst verða var
við fordóma hjá bók-
menntamönnum í garð
leikgerða, sem við leik-
húsmenn tökum nú
ekki gilda. Ég gladdist
þegar ég var beðin um
að flytja þetta erindi
vegna þess að mér hefur oft fundist í
bókmenntaumræðunni að leikhús-
hliðin og íslensk leikritun verði út-
undan. Það er eins og menn haldi að í
leikritum geti ekki birst jafnt hugs-
anir og endurspeglun samtímans
eins og í hverju öðru skáldverki. Ég
ætla einnig að segja svolítið frá til-
drögum þess að við Halldór fórum að
fást við þetta og hvernig við unnum
saman. Ég kem líka til með að fjalla
um skilning minn á verkinu og
kannski eitthvað smávegis um sýn-
inguna og viðtökur á verkinu. Ég vil
gjarnan útskýra hvað ég vildi sagt
hafa með sýningunni, því þegar mað-
ur tekur að sér að setja skáldsögu á
svið, verður maður að lesa hana með
sínum gleraugum. Það kemst ekki
allt efnið með, og maður verður að
velja og hafna, og þá þýðir það það,
að maður verður að gera sér grein
fyrir því hvaða stefnu maður vill
taka. og hvað maður vill segja með
því; – hvað maður hefur fengið út úr
bókinni og vill að aðrir fái líka.“
Sveinn Einarsson og Halldór Lax-
ness unnu mikið saman og að sögn
Sveins gerir hann ráð fyrir að spurt
verði um þá samvinnu að erindi hans
loknu. „Halldór notaði mig sem eins
konar ráðgjafa í leiklistarmálum.
Mér var heiður að því og ég hafði
mjög gaman af. Það er alltaf gaman
að umgangast afburðamenn.“
Kristnihald undir Jökli á Rannsóknarkvöldi
„Eitt persónulegasta og
dýpsta verk Laxness“
Sveinn
Einarsson
KATRÍN Sigurðardóttir myndlist-
armaður setti upp verk á horninu á
Rauðalæk og Brekkulæk í Reykja-
vík á dögunum. Verkið er án titils
en er tilvísun í húsagerð eftirstríðs-
áranna einsog hún birtist í Laug-
arnesinu.
Verkið samanstendur af ör-
smáum húsum sem steypt eru niður
í gangstéttarbrúnirnar á horninu á
áðurgreindum gatnamótum.
Nokkrum klukkustundum eftir að
verkið var sett upp var helmingur
þess – önnur gangstéttarbrúnin –
algjörlega eyðilagður af vegfar-
endum. Hinn helmingur verksins
stendur enn.
Verk Katrínar eru til sýnis í Cor-
coran-safninu í Washington DC í
Bandaríkjunum um þessar mundir,
sem hluti af sýningunni „Confront-
ing Nature“, íslensk myndlist á 20.
öld. Hún undirbýr nú sýningu í Gale
Gates Gallery í New York-borg.
Verkið á gangstéttarbrúninni er
hluti af vettvangsverkefninu
„Listamaðurinn á horninu“ sem
staðið hefur yfir í Reykjavík frá því
í ágúst og er verkefnið styrkt af
Menningarborgarsjóði.
Verk Katrínar Sigurðardóttur á gangstéttarbrúninni.
Hús á gangstéttarbrún
LOKATÓNLEIKAR Tónlistar-
daga Dómkirkjunnar verða í kvöld
kl. 20.30 í Kirkju Krists konungs í
Landakoti.
Dómkórinn í
Reykjavík,
kammersveit og
einsöngvararnir
Marta Guðrún
Halldórsdóttir,
Anna Sigríður
Helgadóttir,
Finnur Bjarna-
son og Ólafur
Kjartan Sigurð-
arson flytja verk
eftir Hjálmar H.
Ragnarsson,
Benjamin Britt-
en, Knut Ny-
stedt og J.S.
Bach. Stjórnandi
er Marteinn H.
Friðriksson
dómorganisti.
Á efnisskránni
eru Sálmalagið
Jesús Maríuson
eftir Hjálmar H.
Ragnarsson við kvæði eftir Jó-
hannes úr Kötlum. Verkið var
frumflutt í Dómkirkjunni fyrir
tæpum áratug við fermingu sonar
tónskáldsins. Kórverkið A doro te
eftir Norðmanninn Knut Nystedt
samdi hann að beiðni Dómkórsins
fyrir Tónlistardaga Dómkirkjunnar
árið 1986. A Hymn to St. Cecilia
eftir Benjamin Britten og Kantata
nr. 172 fyrir kór, einsöngvara og
hljómsveit eftir Bach.
Miðar eru seldir í safnaðarheim-
ili Dómkirkjunnar fram að tónleik-
um.
Dómkirkjan
Lokatón-
leikar Tón-
listardaga
Finnur
Bjarnason
Marta Guðrún
Halldórsdóttir