Morgunblaðið - 23.01.2002, Síða 14
HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ
14 MIÐVIKUDAGUR 23. JANÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
VERKEFNIÐ „Hættu áður
en þú byrjar“ er samstarfs-
verkefni Lögreglunnar í
Reykjavík, Félagsþjónust-
unnar í Reykjavík og for-
varnar- og hjálparstarfs
Marita á Íslandi og er ætlað
að fræða nemendur um af-
leiðingar fíkniefna.
Þegar blaðamaður og ljós-
myndari koma í Laugalækj-
arskóla þar sem fræðslu-
fundur dagsins er haldinn
hafa nemendur í 9. bekkjum
skólans safnast fyrir á bóka-
safninu, ljósin eru slökkt og
kvikmynd dagsins sett af
stað. Myndin sem er í boði
heitir Marita II og er heim-
ildamynd með viðtölum við
fíkla og aðstandendur þeirra
um hættur og afleiðingar
fíkniefnaneyslu. Inn á milli
viðtalanna eru sýnd atriði úr
daglegu lífi fíkniefnaneyt-
enda og margir nemendanna
líta undan þegar nálaför
sprautufíklanna eru sýnd og
morgundópskammturinn
blandaður rétt eins og verið
sé að hella morgunkorni í
skál. Hér er sannleikurinn
ekki sykurhúðaður heldur
settur beint í æð.
Boðskapur myndarinnar
er sterkur eins og sjá má af
viðbrögðum nemendanna.
Það heyrist ekki pískur frá
hópnum allan tímann sem
myndin er sýnd nema ein-
staka upphrópanir „oj þetta
er ógeð!“ Sumir naga á sér
neglurnar og allir eru djúpt
hugsi þegar myndin klárast.
Magnús Stefánsson starf-
ar í Marita, en hann er aðal-
fyrirlesari í fræðsluverkefn-
inu. Magnús er sjálfur
fyrrverandi fíkniefnaneyt-
andi og tekur til máls að
sýningu myndarinnar lok-
inni. Það fær á krakkana í
níundu bekkjum A og U í
Laugalækjarskóla að sjá að
þessi „venjulegi“ maður sem
kominn er í heimsókn á
bókasafnið sé fyrrverandi
fíkill. Hann vinnur strax
traust þeirra þegar hann
segist í fyllstu hreinskilni
hafa verið „edrú í fjögur ár,
fimm mánuði og fjóra daga“,
eins og hann segir sjálfur
eftir langa og mikla hass-
neyslu. „Það eru þrír þættir
sem allir dópistar eiga sam-
eiginlega; fólki líður öm-
urlega, það verður þrælar
fíknarinnar og á ekki lengur
sitt eigið líf og í þriðja lagi
ætlar ekkert okkar að vera
dópisti,“ segir Magnús með
þunga og segir hvern ein-
stakling bera ábyrgð á sjálf-
um sér.
„Þið verðið sjálf að taka
afstöðu á móti fíkniefnum og
vera tilbúin að velja og
hafna. Það er næstum 100%
öruggt að ykkur verði boðið
dóp einhvern tímann,
kannski í næsta partíi, á
næstu vikum eða næstu
mánuðum. Það eruð bara þið
sem getið valið hvort þið
segið já eða nei, bara þið
sem berið ábyrgð á þessari
ákvarðanatöku. Eina örugga
leiðin til að verða ekki háður
fíkn er að prófa ekki dóp,
þess vegna verðið þið að
hætta áður en þið byrjið!“
Magnús leggur þannig í
fyrirlestri sínum mikla
áherslu á að unglingarnir
geri strax upp hug sinn
gagnvart fíkniefnum og taki
ákvörðun um að neita að
prófa fíkniefni verði þeim
boðið slíkt.
„Það er ekkert mál að
segja nei við dópista sem
býður ykkur eiturlyf. Dóp-
istinn er oft sjúskaður og í
raun væri frábært að hafa
einn steiktan gæja í hverjum
skóla því þeir eru lifandi við-
vörunarskilti gegn neyslu.
En það er miklu auðveldara
að segja já við vini sína og
miklu meiri líkur á að maður
prófi í vinahóp en þiggi af
dópista,“ segir Magnús og
spyr krakkana hvernig þau
myndu bregðast við ef kær-
asti eða kærasta myndi
bjóða e-töflu. Krakkarnir
færast undan að svara en
kliðurinn í stofunni er á þá
leið að þau myndu nú alveg
örugglega segja nei.
Ein stelpan réttir upp
hönd og segist vita af einum
kunningja sínum sem sé að
fikta. Hún segist vilja gera
eitthvað en hún viti ekki
hvernig hún eigi að haga
sér, hvort hún eigi að segja
einhverjum frá fiktinu og þá
hverjum. Magnús bendir
henni á að tala við foreldra
sína, skólayfirvöld, lögreglu
eða félagsþjónustuna því það
sé nauðsynlegt að koma við-
komandi til hjálpar. Krakk-
arnir taka undir orð bekkj-
arsystur sinnar og segjast
yfirleitt ekki vita hvert þau
myndu snúa sér ef svona
vandi kæmi upp og það væri
örugglega auðveldara að
þegja heldur en segja eitt-
hvað. Þau eru á viðkvæmum
aldri og vinirnir spila stóra
rullu í lífi þeirra, þau vilja
því ekki hætta á að spilla
kunningjahópnum.
Önnur stúlka spyr um
skaðsemi rítalíns, örvandi
lyfs sem notað er við of-
virkni. Hún segist hafa heyrt
einhvers staðar að lyfið
gangi kaupum og sölum á
skólalóðum og langar að vita
um áhrif þess á þá sem ekki
eru ofvirkir. Henni bregður
þegar hún fær þau svör að
rítalín virki eins og amfeta-
mín, læknalyf notað sem eit-
urlyf hjá skólakrökkum.
Öllu fórnað fyrir fíknina
Magnús segir hass vera
aðalefnið sem herji á krakka
á þessum aldri og segist að
fenginni reynslu vera al-
gjörlega ósammála þeim
sem vilji lögleiða kannabis-
efni. Hann predikar ekki yf-
ir unglingunum heldur beitir
fyrir sig tungutaki ungling-
anna sjálfra, notar orð og
frasa sem þeim eru töm.
Fyrir vikið er andrúmsloftið
afslappað jafnvel þótt verið
sé að ræða mál sem annars
gætu virst viðkvæm og jafn-
vel hallærisleg í augum
krakkanna. Sjálfur segir
hann afleiðingar hassreyk-
inga miklar á líf sitt,
skammtímaminnið sé ónýtt
og hann verði fyrir þung-
lyndisáhrifum svo sem
kvíða- og hræðsluköstum.
„Þetta eru áhrif sem fara
ekkert, því meira hass sem
maður reykir því minna líf á
maður,“ segir Magnús og
segir krökkunum frá hvern-
ig hassreykingarnar lögðu
fjölskyldu hans í rúst. „Ég
átti konu og tvær dætur.
Þegar konan mín setti mér
úrslitakosti og sagði við mig
að annaðhvort færi ég í með-
ferð eða hún myndi skilja
við mig þá var ég fljótur að
svara og sagðist auðvitað
velja skilnað því hún gæti
ekki tekið af mér það sem
mér þætti best í lífinu. Þann-
ig fórnaði ég konunni sem
ég elskaði og dætrum mín-
um tveimur fyrir hassið.“
Magnús segist enn þurfa
að takast á við fíknina á
hverjum degi, sumir dagar
séu auðveldari en aðrir, en
sá dagur hafi enn ekki kom-
ið þar sem fíknin sé ekki það
fyrsta sem kemur upp í hug-
ann. „Ég get því ekki annað
en verið algjörlega ósam-
mála þeim sem segja hass
skaðlaust, það er mjög skað-
legt og ávanabindandi.“
Rík áhersla er lögð á að
nemendur taki virkan þátt á
fræðslufundnum. Spurðir
hvort þeir þekki einhvern
sem hefur prófað fíkniefni
koma nokkrar feimnislegar
hendur á loft. Krakkarnir
segjast sumir vita af jafn-
öldrum sem hafa prófað að
reykja og það fer hrollur um
strákana í hópnum þegar
einn þeirra deilir vitneskju
sinni með þeim um áhrif
hassreykinga á kynfæri
ungra stráka. Magnús tekur
undir þetta og segir rétt að
hassreykingar hafi neikvæð
áhrif á karlhormóna-
starfsemina en reykingarnar
hafi jafnframt áhrif á
þroskaferli móðurlífsins hjá
stúlkum. Það eru þessar af-
leiðingar og aðrar og verri
sem Magnús leggur áherslu
á að unglingarnir horfist í
augu við. „Dópistar velja
sjálfir hvaða leið þeir fara
og þess vegna eigið þið ekki
að vorkenna dópistum!“ seg-
ir hann og ítrekar enn einu
sinni mikilvægi þess að
„hætta áður en þú byrjar“.
Þegar tæplega tveggja
tíma fyrirlestri um fíkni-
efnaforvarnir lýkur virðist
engum vera farið að leiðast,
krakkarnir eru áhugasamir
og þegar þau streyma út af
bókasafninu er mikið rætt
um það sem fyrir augu og
eyru bar. Sunna Sigurð-
ardóttir, nemandi í 9. A, seg-
ir fyrirlesturinn hafa verið
fræðandi. „Það er gott að fá
svör... þetta kemur öllum
við,“ segir Sunna aðspurð
hvernig henni hafi þótt þessi
óvenjulega morgunstund á
bókasafninu. „Mér brá samt
því þetta var svo ógeðslegt,
það er eiginlega ekki hægt
að lýsa þessu og það eina
sem ég get eiginlega sagt er
að ég ætla ekki að gera
þetta.“ Númi Sigurðsson í 9.
U tekur undir orð skólasyst-
ur sinnar. Honum er líka
brugðið en segist ánægður
með hversu hreinskilin og
opinská fræðslan var. „Við
erum orðin alveg nógu göm-
ul til að fá að vita sannleik-
ann, hvernig eigum við ann-
ars að geta tekið afstöðu ef
okkur verða boðin eiturlyf?“
Að kveldi dags er svo
haldinn fundur með kenn-
urum, foreldrum og for-
ráðamönnum unglinganna
þar sem þeim er kynnt það
sem rætt var við börn þeirra
fyrr um daginn. Anna El-
ísabet Ólafsdóttir, verkefn-
isstjóri fræðsluverkefnisins,
segist telja það helsta styrk-
leika verkefnisins að börn
og foreldrar fái sömu
fræðsluna, með ólíkum nálg-
unum þó, og verkefnið sé
þannig ein heild sem skapi
góðan umræðugrundvöll
milli barna og foreldra um
þetta málefni sem snertir
svo mörg heimili í landinu.
„Þið verðið sjálf
að taka afstöðu
á móti fíkniefnum“
Morgunblaðið/Júlíus
Sunna og Númi, nemendur í 9. bekk Laugalækjarskóla,
voru sammála um að forvarnarfræðslan skilaði árangri,
þau ætluðu í það minnsta ekki að prófa eiturlyf.
Morgunblaðið/Júlíus
Magnús Stefánsson segir fíkniefnadrauginn fylgja sér enn í dag.
Laugarneshverfi
HITT HÚSIÐ, menningar-
og upplýsingamiðstöð ungs
fólks, flyst í Pósthússtræti
3–5 1. mars næstkomandi
samkvæmt leigutilboði sem
samþykkt var í borgarráði í
gær. Forstöðumaður Hins
hússins segist hæstánægður
með þessa lausn á húsnæðis-
málum miðstöðvarinnar.
Talsverð óvissa hefur ríkt
um framtíðarhúsnæði Hins
hússins eftir að ljóst varð að
leigusamningur þess í Geys-
ishúsinu yrði ekki endurnýj-
aður en hann rennur út í
haust. Sú óvissa er nú á enda
því tilboðið sem borgarráð
samþykkti í gær gerir ráð
fyrir 10 ára leigusamningi.
„Við erum með þessu að
festa Hitt húsið í sessi í mið-
borginni sem er gott fyrir
stafsemina því það er alltaf
vont að vera með svona hluti
í uppnámi,“ segir Steinunn
Valdís Óskarsdóttir, formað-
ur íþrótta- og tómstunda-
ráðs. „Við höfum verið að
leita að húsnæði í miðborg-
inni og það má segja að þetta
hafi verið mjög góður kostur.
Ég held einnig að það styrki
jákvæða ímynd miðborgar-
innar í hugum ungs fólks að
fá húsnæði á þessu horni.“
Leiga um 1.250.000
krónur á mánuði
Steinunn segir að með
þessu gefist tækifæri til að
þróa starfsemi Hins hússins
enn frekar. „Á sínum tíma
var aðaláherslan í Hinu hús-
inu á atvinnumálin en svo
datt sá þáttur upp fyrir með
bættu efnahagsástandi og
minnkandi atvinnuleysi.
Núna er kannski lag að leita
að nýjum verkefnum og fara
í stefnumótunarvinnu um
það hvað það er sem við vilj-
um leggja áherslu á í starfi
ungs fólks í framtíðinni.“
Húsnæðið í Pósthússtræt-
inu er rúmlega 1.500 fer-
metrar að stærð. Í bréfi
framkvæmdastjóra ÍTR til
borgarráðs segir að sam-
kvæmt leigutilboði sé gert
ráð fyrir að húsaleiga verði
13 milljónir fyrir árið 2002
og síðan 1.250.000 krónur á
mánuði frá fyrsta janúar
2003. Gert er ráð fyrir ein-
hverjum leigutekjum á móti
þar sem Hitt húsið mun geta
leigt frá sér hluta rýmisins.
Að sögn Steinunnar er eftir
að útfæra nánar með hvaða
hætti það verður.
Þá kemur fram í bréfinu
að áætlaður kostnaður vegna
breytinga og flutningsins sé
um 3 milljónir króna.
Starfseminni sýnd
virðing með þessu
Markús H. Guðmundsson,
forstöðumaður Hins hússins,
segist vera mjög sáttur við
þessa lausn. „Þetta er flott
hús og frábær staðsetning.
Nú er verið að vinna í að-
gengi fyrir fatlaða þannig að
við erum sátt og í rauninni
hæstánægð. Mér finnst að
þessari starfsemi hafi verið
sýnd mikil virðing með
þessu.“
Hitt húsið flytur í gömlu lögreglustöðina
Morgunblaðið/Ásdís
Pósthússtræti 3 er betur þekkt sem gamla lögreglustöðin
en að auki verður Hitt húsið að hluta til í gamla pósthúsinu
sem er í Pósthússtræti 5.
Miðborg