Morgunblaðið - 24.04.2002, Blaðsíða 10
FRÉTTIR
10 MIÐVIKUDAGUR 24. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐ
ÖNNUR umræða um frumvarp
ríkisstjórnarinnar um ábyrgð
skuldabréfa vegna nýrrar starf-
semi Íslenskrar erfðagreiningar
fór fram á Alþingi í gær. Þar kom
fram að ekki myndu allir stjórn-
arandstöðuflokkar þingsins styðja
framgang frumvarpsins, auk Pét-
urs H. Blöndal, þingmanns Sjálf-
stæðisflokksins. Eins og fram hef-
ur komið er með frumvarpinu verið
að leita eftir heimild til handa fjár-
málaráðherra, fyrir hönd ríkis-
sjóðs, til að veita einfalda ábyrgð
vegna útgáfu móðurfélags Ís-
lenskrar erfðagreiningar ehf., de-
CODE Genetics Inc., á skuldabréf-
um að fjárhæð allt að 200
milljónum Bandaríkjadala eða tæp-
um 20 milljörðum íslenskra kr. til
uppbyggingar nýrrar starfsemi Ís-
lenskrar erfðagreiningar á sviði
lyfjaþróunar. Umræðan stóð yfir í
allan gærdag og er búist við því að
henni verði fram haldið í dag.
Efnahags- og viðskiptanefnd þings-
ins er þríklofin í afstöðu sinni til
frumvarpsins.
Vilhjálmur Egilsson, formaður
efnahags- og viðskiptanefndar Al-
þingis, mælti fyrir meirihlutaáliti
nefndarinnar á Alþingi. Meirihlut-
inn leggur til að frumvarpið verði
samþykkt með nokkrum orðalags-
breytingum sem þó eru ekki efnis-
legar. Vilhjálmur sagði að ríkið
væri með ábyrgðinni að taka
ákveðna áhættu en velti því fyrir
sér hvort eðlilegt væri að ríkið
tæki slíka áhættu. „Það má segja
ef allt fer á versta veg í þessu þá
sé verið að taka 200 milljóna doll-
ara áhættu, ekki bara fyrir ís-
lenska ríkið heldur myndi líka til
viðbótar tapast allt eigið fé Ís-
lenskrar erfðagreiningar,“ sagði
hann en kvaðst styðja það að ríkið
tæki þessa áhættu. Að öðrum kosti
myndi móðurfélag Íslenskrar
erfðagreiningar, deCODE, leita
samstarfs við fyrirtæki í öðrum
löndum. Það væri hins vegar óhag-
stætt fyrir deCODE vegna þess að
verðið á hlutabréfum þess væri á
útsöluverði.
Síðar sagði Vilhjálmur að rík-
isábyrgðin yrði að hafa annan til-
gang en beina aðstoð við Íslenska
erfðagreiningu, þ.e. tilgang sem
þolir það að allt fari á versta veg.
„Þannig að við getum tekið
ákveðna áhættu á að allt fari á
versta veg og að stór hluti af þess-
um peningum tapist.“ Vilhjálmur
sagði að stjórnarmeirihlutinn væri
fyrst og fremst að sækjast eftir því
að hér á landi byggðist upp „klasi
af þekkingu á þessu sviði,“ eins og
hann orðaði það. „Mikið af fólki
setjist hér að; hasli sér hér völl á
því sviði sem hefur mikla þekk-
ingu, mikla menntun og vinnur í
hálaunuðum störfum á þessu sviði.
Fólk sem borgar háa skatta; legg-
ur mikið af mörkum til þjóðfélags-
ins, bæði peningalega og eins á
öðrum sviðum.“
Í nefndaráliti meirihluta efna-
hags- og viðskiptanefndar segir að
töluvert hafi verið rætt um það í
nefndinni hvort veita ætti öðrum
fyrirtækjum sambærilega fyrir-
greiðslu og hér um ræddi til Ís-
lenskrar erfðagreiningar og greint
frá því að fyrirtækið Lyfjaþróun
hf. hafi lagt fram upplýsingar þar
sem fram kæmi að það teldi sig í
sambærilegri starfsemi og Íslensk
erfðagreining. „Meirihlutinn bend-
ir á að þegar ákvörðun Eftirlits-
stofnunar EFTA liggur fyrir um
hvort ábyrgðin uppfylli skilyrði
ríkisaðstoðar til rannsóknar- og
þróunarverkefna verður grundvöll-
ur til að fjalla um það hvort ástæða
sé til að veita ábyrgð öðrum fyr-
irtækjum hér á landi sem fást við
lyfjaþróun á sambærilegum for-
sendum og Íslensk erfðagreining
hefur í hyggju,“ segir í áliti meiri-
hluta efnahags- og viðskiptanefnd-
ar en undir það rita Vilhjálmur
Egilsson, formaður nefndarinnar,
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður
Sjálfstæðisflokks, Kristinn H.
Gunnarsson, þingmaður Fram-
sóknarflokks, Sigríður A. Þórðar-
dóttir og Drífa Hjartardóttir, þing-
menn Sjálfstæðisflokks.
Pétur með
breytingartilllögu
Pétur H. Blöndal, þingmaður
Sjálfstæðisflokksins, hefur eins og
kunnugt er lagst gegn frumvarpinu
og spurði hann m.a. Vilhjálm Eg-
ilsson í andsvari sínu við ræðu
hans afhverju 20 milljarða kr. rík-
isábyrgð hefði ekki verið boðin út
til hvaða fyrirtækis í heiminum þar
sem það væri markmið Vilhjálms
að laða að hingað hámenntað fólk.
„Þar sem það er markmið hjá hátt-
virtum þingmanni (Vilhjálmi Egils-
syni) að ná hingað inn störfum á
þessu sviði, af hverju var ekki
hreinlega boðin út 20 milljarða rík-
isábyrgð, til hvaða fyrirtækis sem
er í heiminum sem gæti skaffað
þessi störf og þá hugsanlega með
miklu minnu áhættu? Af hverju var
það ekki gert? Þar sem það hefur
verið stefna ríkisstjórnarinnar að
bjóða sem mest út,“ sagði hann.
Þess má geta að Pétur hefur lagt
fram á Alþingi breytingartillögu
við umrætt frumvarp sem felst
m.a. í því að fjármálaráðherra
verði fyrir hönd ríkissjóðs heimilt,
í þeim tilgangi að stuðla að upp-
byggingu hátækniiðnaðar á sviði
lyfjaþróunar hér á landi, að veita
einfalda ábyrgð vegna útgáfu móð-
urfélags Íslenskrar erfðagreining-
ar ehf., deCODE Genetics Inc., á
skuldabréfum eða, eins og segir í
tillögu Péturs að „kaupa slík
skuldabréf, að fjárhæð allt að 200
milljónir USD til fjármögnunar
nýrrar starfsemi Íslenskrar erfða-
greiningar ehf. á sviði lyfjaþróun-
ar. Fjármálaráðherra veitir
ábyrgðina eða lánið að uppfylltum
þeim skilyrðum sem hann metur
gild.“ Þá leggur þingmaðurinn til
að heiti frumvarpsins verði í sam-
ræmi við tillögur sínar, þ.e. það
heiti: Frumvarp til laga um heimild
til handa fjármálaráðherra, f.h. rík-
issjóðs, til að ábyrgjast útgáfu eða
kaup skuldabréfa vegna fjármögn-
unar nýrrar starfsemi Íslenskrar
erfðagreiningar ehf. Pétur H.
Blöndal ítrekaði í umræðunni að
hann myndi greiða atkvæði gegn
frumvarpinu og sagði að það yrði
stórhættulegt fyrir ríkissjóð ef
frumvarpið yrði samþykkt. „En
verði svo að þetta frumvarp verði
samþykkt þá vona ég að það dæmi
gangi upp,“ sagði hann.
Jóhanna Sigurðardóttir, þing-
maður Samfylkingarinnar, mælti
fyrir nefndaráliti fyrsta minnihluta
efnahags- og viðskiptanefndar en
auk Jóhönnu stendur að því Össur
Skarphéðinsson, formaður Sam-
fylkingarinnar. Jóhanna gagnrýndi
ýmsa þætti frumvarpsins og sagð-
ist myndi greiða atkvæði gegn því.
Jóhanna gagnrýndi það m.a. hve
lítill tími hefði verið gefinn til að
kryfja málið í efnahags- og við-
skiptanefnd. „Þeim sem leitað var
til varðandi upplýsingar gafst í
fæstum tilvikum nægur tími til að
meitla þær í ritaðan texta,“ sagði
hún m.a. sem dæmi um það hve lít-
ill tími hefði gefist til þess að fara
vel yfir málið. Í áliti Jóhönnu og
Össurar segir m.a. að jafnaðar-
menn telji að við vissar aðstæður
sé réttlætanlegt að grípa til sér-
tækra tímabundinna aðgerða ef al-
menn samstaða næst um að þær
þjóni tilgangi sem er afar nauðsyn-
legur fyrir þjóðarbúið, áhætta
skattborgaranna sá viðunandi og
hana sé hægt að meta, nægur tími
gefist til að skoða slík mál út í
hörgul og óskráðar reglur um jafn-
ræði séu ekki brotnar. „Á þeim
skamma tíma sem þingmönnum
hefur gefist til að brjóta til mergj-
ar tillögu ríkisstjórnarinnar um 20
milljarða kr. einfalda ríkisábyrgð
til deCODE höfum við síður en svo
getað sannreynt að tillagan upp-
fylli þessi skilyrði,“ segir í álitinu.
Þar kemur einnig fram að áhættan
sem felist í umræddri ábyrgð virð-
ist vera mjög mikil. „Lyfjaþróun-
argeirinn er með áhættusömustu
atvinnugreinum veraldar miðað við
gögn sem lögð voru fram í nefnd-
inni. Þróun lyfs tekur að meðaltali
um tíu ár.“ Þá segir að frumskil-
yrði þess að hægt sé að fallast á
umrædda ríkisábyrgð sé að fyrir
liggi áhættumat af hálfu traustra
greinenda á markaði. „Gildir þá
einu þótt fjármálaráðuneyti telji
fjárhagsstöðu fyrirtækisins mjög
sterka og skuldsetningu litla.
Áhættumat er eigi að síður for-
senda upplýstrar ákvörðunar um
mál af þessum toga. Ekkert
áhættumat var lagt fram, þrátt
fyrir ítrekaðar óskir fulltrúa Sam-
fylkingarinnar í efnahags- og við-
skiptanefnd. Það er einfaldlega
óviðunandi þegar svo miklir hags-
munir eru í húfi fyrir skattborg-
arana.“ Aukinheldur segir í nefnd-
arálitinu að allsendis óljóst sé
hvort frumvarpið fullnægi jafnræð-
isreglum og þar með hvort það
komist í gegnum „nálarauga Eft-
irlitsstofnunar EFTA (ESA),“ eins
og þar segir. Þá kom fram í máli
Jóhönnu að fyrsti minnihlutinn
teldi umrædda ríkisábyrgð vera
fordæmisgefandi. Jóhanna gagn-
rýndi, eins og áður segir, ýmsa
þætti frumvarpsins og segir í lok
nefndarálits hennar og Össurar að
Samfylkingin geti af þeim ástæð-
um ekki stutt málið. „Aðdragandi
þess og eðli er með þeim hætti að
ríkisstjórnin verður ein að bera
ábyrgð á afdrifum þess á Alþingi.“
Engar
viðskiptaáætlanir
Ögmundur Jónasson, þingmaður
Vinstrihreyfingarinnar – græns
framboðs, mælti fyrir áliti frá öðr-
um minnihluta efnahags- og við-
skiptanefndar, en hann stendur
einn nefndarmanna að því áliti.
Ljóst er þó að þingmenn VG muni
allir leggjast gegn frumvarpinu. Í
áliti Ögmundar segir m.a.: „Enn
sem komið er hefur aðkoma Al-
þingis að málinu verið mjög yf-
irborðskennd og skortir nánast all-
ar upplýsingar til þess að
þingmenn geti fengið yfirsýn yfir
málið. Að áliti annars minnihluta
er fráleitt að veita fjármálaráð-
herra fyrrnefnda heimild og koma
þar nokkur atriði til, t.d. hefur
ekkert áhættumat verið fram-
kvæmt af óháðum fagaðila. Efna-
hags- og viðskiptanefnd hefur ekki
einu sinni fengið að sjá viðskipta-
áætlanir fyrirtækisins. Þá er
ástæða til að gagnrýna herðlega að
veigamiklum ákvæðum í lögum um
ríkisábyrgðir er vikið til hliðar.
Enda þótt full rök kunni að vera
fyrir því að styðja við atvinnrekst-
ur í landinu, jafnvel með sértækum
aðgerðum við vissar kringumstæð-
ur þá er eðlilegt að það sé gert
samkvæmt almennum reglum og
að vel athuguðu máli. Hvorugt á
við í þessu máli.“
Frjálslyndi flokkurinn hefur ekki
fulltrúa í efnahags- og viðskipta-
nefnd en Sverrir Hermannsson,
formaður Frjálslynda flokksins,
hefur lagst eindregið gegn frum-
varpinu. „Enginn Íslendingur,“
sagði hann, „enginn einstaklingur
myndi hætta fé sínu með þessum
hætti til síns málefnis. Ekkert fyr-
irtæki um víða veröld myndi held-
ur gera það. Ég skal þó ekki full-
yrða um það að til séu ríkisstjórnir
eins og ráðstjórn Íslands sem
myndi taka slíkt til bragðs.“
Ekki áhrif á lánshæfi
ríkissjóðs
Með nefndarálitum fyrsta og
annars minnihluta efnahags- og
viðskiptanefndar fylgja einstakar
umsagnir aðila um frumvarp rík-
isstjórnarinnar. Í umsögn Seðla-
banka Íslands segir m.a. að bank-
inn búi ekki yfir þeirri
sérfræðiþekkingu sem nauðsynleg
er til að meta áhættu sem um-
ræddri ríkisábyrgð fylgir. „Seðla-
banki Íslands hefur hins vegar áð-
ur lýst þeirri afstöðu sinni til
ríkisábyrgða að þær séu almennt
ekki heppilegar. Þegar þær eru
veittar er nauðsynlegt að ákvarð-
anir séu teknar á grundvelli ít-
arlegs mats á þeirri áhætt sem
þeim fylgir.“ Bankinn ítrekar hins
vegar að viðbrögð þeirra matsfyr-
irtækja sem meta lánshæfi ríkis-
sjóðs við frumvarpinu hafi öll verið
á einn veg, þ.e. að umrætt mál eitt
og sér hafi ekki áhrif á núverandi
lánshæfismat.
Í umsögn Samtaka fjárfesta
kemur fram að stjórn Samtakanna
lýsir sig mótfallna frumvarpinu í
núverandi mynd. „Ástæður þess
eru fyrst og fremst þær að með
frumvarpinu er horfið frá markaðri
stefnu um almennar aðgerðir í
efnahagsmálum og teknar upp sér-
tækar aðgerðir. Einnig eru teknar
upp aftur beinar og óbeinar rík-
isábyrgðir á rekstri almennrar at-
vinnustarfsemi á Íslandi. Óvarleg
veiting ríkisábyrgðar á lántökum
hefur valdið verulegu tjóni í ís-
lensku atvinnulífi.“ Samtökin vekja
jafnframt athygli á því að á ís-
lenskum fjármálamörkuðum séu
nokkur fyrirtæki sem vinni að at-
hyglisverðum rannsóknum og þró-
un. „Ríkisábyrgð á láni fyrir Ís-
lenska erfðagreiningu hf. raskar
starfsgrundvelli sumra þessara
fyrirtækja með óeðlilegum hætti
og getur beinlínsi skaðað þau og
fjárfesta sem að þeim standa.“
Að lokum má geta umsagnar
Bandalags háskólamanna, BHM,
en bandalagið leggur áherslu á að
Íslensk erfðagreining hljóti að
fenginni þeirri ríkisábyrgð sem um
ræðir að gera kjarasamning við
hlutaðeigandi stéttarfélög, þar með
talin aðildarfélög BHM. „Íslensk
erfðagreining hefur alfarið neitað
því að gera kjarasamning við Félag
íslenskra náttúrufræðinga og við
svo búið verður ekki unað – og enn
síður ef fjöldi starfsmanna eykst
eins og gert er ráð fyrir í kjölfar
samþykktar frumvarpsins.“ Minnt
er á að skv. lögum um atvinnurétt-
indi útlendinga beri að leita um-
sagnar hlutaðeigandi stéttarfélags
en stéttarfélögunum hefur veist
erfitt að gegna eftirlitshlutverki
sínu meðan ekki nýtur við kjara-
samnings við fyrirtækið.
Önnur umræða um ríkisábyrgð á skuldabréfum vegna nýrrar starfsemi ÍE fór fram í gær
Viðskiptaáætlanir ekki
kynntar þingnefnd
Morgunblaðið/Þorkell
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leggst gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð.
Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, horfir á Pétur, en Össur ætlar að sitja hjá.
ÞINGFUNDUR Alþingis
hefst kl. 10 f.h. í dag en þá
heldur áfram umræða um
ríkisábyrgð til handa Ís-
lenskri erfðagreiningu. Í
kvöld kl. 20 hefst svo eldhús-
dagsumræða.