Morgunblaðið - 24.04.2002, Page 25
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 24. APRÍL 2002 25
LAXNESSÞINGI var fram haldið á
sunnudag í Háskólabíói. Málstofur
sunnudagsins voru fjórar. „Samvirk
framníng þjóðreisnar“ – Pólitískar
skoðanir, var yfirskrift fyrstu mál-
stofu. Jón Ólafsson fjallaði um Lax-
ness í Sovétríkjunum. Hann vitnaði í
Skáldatíma, þar sem Halldór Lax-
ness fjallar um eigin skrif í bókunum
Í austurvegi eftir fyrstu ferð hans til
Sovétríkjanna þrjátíu árum fyrr og
Gerskum ævintýrum sem kom út
nokkrum árum síðar, en í Skálda-
tíma gagnrýndi hann ýmsilegt er
hann skrifaði um Sovétríkin í fyrri
bókunum og taldi bjánalegt. Jón
sagði Laxness ekkert hafa átt ógert í
uppgjöri við pólitískar skoðanir sín-
ar, en hins vegar hefði honum verið
erfiðara að vinna úr persónulegri
reynslu úr ferðunum austur.
Í erindi sínu, Myrkri heimsins,
fjallaði Hannes Hólmsteinn Gissur-
arson meðal annars um pólitík Hall-
dórs Laxness. Í upphafi vitnaði hann
í orð Bjarna Benediktssonar við
Matthías Johannessen þegar
Matthías átti að taka viðtal við
skáldið: „Farðu upp að Gljúfrasteini
Matthías, en farðu ekki skríðandi“
og sagði að þessi orð ættu enn við,
ekki ætti að nálgast Halldór Lax-
ness skríðandi. Hannes tók dæmi
um hvernig rússnesk skáld lýstu
hörmulegum aðstæðum í Rússlandi
á þeim tíma sem Halldór Laxness
ferðaðist þangað, og bar saman við
fegraðar lýsingar Halldórs sjálfs af
ástandinu. Hannes talaði ennfremur
um það hvernig Halldór Laxness
hefði útskýrt síðar meir það sem
hann áður hafði skrifað um Sovétrík-
in í ferðabókunum og sagði Halldór
hafa gert það með þrennum hætti;
hann hefði verið blekktur; hann
hefði talið að Eyjólfur myndi hress-
ast, og að hann hefði talið að valið
hefði staðið á milli Stalíns og Hitlers.
Hannes taldi rétt að Halldór hefði
verið blekktur, og víst að Halldór
hefði sjálfur trúað því að Eyjólfur
myndi hressast. Hins vegar hefði
Halldóri skjátlast um þriðja atriðið,
á Íslandi hefði aldrei verið spurning
um val á milli Stalíns og Hitlers.
Danski sagnfræðingurinn Morten
Thing fjallaði í erindi sínu um áhrif
pólitískra skoðana Halldórs Laxness
á danska menntamenn og rithöf-
unda. Hann sagði að Halldóri hefði
verið fagnað sem miklu skáldi í Dan-
mörku og gaf fróðlega innsýn í sam-
skipti hans við Nexø, Gelsted, Kirk,
William Heinesen og aðra mennta-
menn á vinstri væng stjórnmálanna.
Hann sagði að verk Laxness hefðu
fljótt verið þýdd á dönsku og þýðing-
arnar og sú auglýsing sem Laxness
fékk fyrir tilverkan danskra komm-
únista hefði síðan átt mikinn þátt í að
farið var að þýða verk hans um alla
Skandinavíu og síðan á enska tungu.
Thing sagði líka að danskir komm-
únistar hefðu haft mikil áhrif á Hall-
dór þegar pólitískar skoðanir hans
voru að mótast á þriðja áratugnum.
Þá sagði hann að íslenskur diplómat
hefði reynt að koma í veg fyrir að At-
ómsstöðin yrði þýdd á dönsku og að
íslenskir stjórnmálamenn hefðu átt
þar hlut að máli. Eins sagði hann að
þegar ljóst varð að bókin yrði þýdd
hefði verið reynt að hafa áhrif á
hvaða nafn hún fengi á dönsku. Er-
indi Things vakti mikla forvitni
fundargesta.
Eldingu svarað með
Aftureldingu
Önnur málstofa bar yfirskriftina
„Hvor í annars draumi“ – Samband
bóka og bóka, höfundar og höfundar.
Þar töluðu þrír fræðimenn um
samband bóka Halldórs Laxness við
aðrar bækur. Helga Kress kallaði
sitt erindi „Á hverju liggja ekki vor-
ar göfugu kellíngar,“ þar sem hún
fjallaði um Halldór Laxness og Torf-
hildi Hólm. Helga talaði um hand-
ritasöfnun Árna Magnússonar,
tengslin við Íslandsklukku Halldórs
Laxness og hlutverk og samband
kvenna og bóka í sögum skáldsins.
Hún sagði frá sögu sem Halldór
skrifaði tólf ára gamall á móti end-
urlausnarkenningunni, en Halldór
miðaði hana að stærð við Eldingu
eftir Torfhildi Hólm, sagnfræðilega
skáldsögu um sigur kristninnar á Ís-
landi. Halldór kallaði sína bók Aftur-
eldingu. Helga rakti feril Torfhildar
og benti á að hún hefði verið fyrsta
íslenska konan sem hefði haft at-
vinnu af ritstörfum og fyrsti Íslend-
ingurinn til að skrifa sögulega skáld-
sögu. Helga vitnaði í Halldór
Laxness sem sagði að Jón Helgason
hefði bent sér á sögu Jóns Hregg-
viðssonar sem efnvið í Íslandsklukk-
una, en sagði ennfremur frá því að
Eiríkur Jónsson hefði haldið því
fram að Halldór hefði ennfremur
stuðst við sögu eftir Torfhildi Hólm.
Halldór hefði neitað því en sagt þær
byggast á sömu heimildum.
Hjörtur Pálsson leitaði í sínu er-
indi svara við spurningunni um það
hvort Vikivaki Gunnars Gunnars-
sonar og Kristnihald undir Jökli eft-
ir Halldórs Laxness væru hliðstæð-
ar táknsögur. Hjörtur dró fram
líkindi með Umba í Kristnihaldinu
og Jaka Sonarsyni í Vikivaka og
sagði að báðar sögurnar mætti túlka
sem táknsögur um skáldið og innri
glímu þess við þær persónur sem
það vekur upp. Þannig svaraði hann
þeirri spurningu sem lagt var af stað
með, játandi.
Soffía Auður Birgisdóttir kallaði
erindi sitt Skálduð ungsjálf, – Sjálfs-
myndir Laxness og Þórbergs í skál-
dævisögulegum verkum þeirra. Hún
lagði til grundvallar bækur Halldórs
Laxness, Í túninu heima, Sjömeist-
arasögu, Ungur ég var og Grikk-
landsárin og Ofvitann eftir Þórberg.
Hún sagði meðal annars frá grein-
ingu Kristins E. Andréssonar á fyrri
hluta Ofvitans, þar sem Kristinn tal-
ar um kynlegt samband vísindalegra
og skáldlegra frásagnaraðferða Þór-
bergs í vanda sínum við að flokka
söguna til ákveðinnar bókmennta-
greinar. Soffía Auður taldi þó grein
Kristins, sem gefin var út snemma á
fimmta áratug 20. aldar eina skil-
merkilegustu tilraun á prenti til að
skilgreina hvað felst í hugtakinu
skáldævisaga. Síðasti mælandi í ann-
arri málstofu var Lars Lönnroth
sem fjallaði um það hvernig Halldór
Laxness hefði með Gerplu gert bylt-
ingu gegn íslenska sagnaarfinum.
Eftir erindi Lars Lönnroth spunn-
ust fyrirspurnir um það hvort Fóst-
bræðrasaga væri hetjusaga eða sat-
íra. Erlingur Gíslason leikari kom
fram með þá skemmtilegu ábend-
ingu og miðaði við eigin reynslu, að
sú spurning ylti algjörlega á því
hvernig sagan væri lesin upp, væri
hún lesin upp mjög hátíðlega væri
hún hetjusaga, en væri upplesturinn
eðlilegur yrði hún að bullandi satíru.
Helga Kress bætti því við að sama
mætti segja um Eyrbyggju, Lax-
dælu og Njálu, og virtist fundargest-
um mjög skemmt við þessa umræðu.
Krapamissir – Paradísarmissir
Gestum á þinginu fjölgaði er á
daginn leið, góð stemning var í saln-
um, þótt heldur reyndist erfitt að fá
gesti aðra en dygga fræðimenn til að
bera fram fyrirspurnir
Þriðja málstofa á Laxnessþingi á
sunnudag bar yfirskriftina Glæpur
og dyggð – Siðferði. Vésteinn Ólason
nefndi erindi sitt: „Mikið undur
hversu mart þú kant ljúga,“ – Lygi
og sannleikur í verkum Halldórs
Laxness. Vésteinn talaði meðal ann-
ars um ástir Steins Elliða í Vefaran-
um mikla frá Kasmír og sálarstríð
hans um það hvernig hann gæti lifað
lífinu í sannleika. Vésteinn vék að því
tilvistarlega sannleikshugtaki sem
Halldór Laxness glímir við í sögunni
og afstöðu einstaklings sem gerir
skilyrðislausa kröfu um það að vita
hverju lífið eigi að þjóna.
Að missa og finna aftur sína Para-
dís var heitið á erindi Dagnýjar
Kristjánsdóttur. Paradísarheimt var
viðfangsefni fyrirlestursins. Dagný
sagði frá Eiríki á Brúnum og ævi
hans sem var fyrirmynd Halldórs
Laxness að verkinu, en gat þess
hversu lítið Halldór hefði stuðst við
persónu Eiríks í Steinari undir
Steinahlíðum sem var gjörólíkur Ei-
ríki að lunderni. Sem dæmi tók hún
góðhestinn Krapa sem Steinar kaus
að gefa Danakonungi en neitaði að
selja, öfugt við það sem Eiríkur á
Brúnum gerði. Dagný velti vöngum
um það hvað fyrir Steinari hefði vak-
að, og hvers hann hefði vænst frá
Danakonungi í staðinn. Gjörningur
Steinars hefði verið í anda þeirra
fornhetja sem hann gjarnan bar sig
saman við og því hefði hann mátt
trúa því að líf sitt tæki aðra og betri
stefnu eftir að hafa gefið kóngi gjöf.
Dagný sagði missi Krapa hafa verið
fyrsta Paradísarmissi Steinars
Steinssonar.
Ármann Jakobsson kallaði erindi
sitt Nietzche í Grjótaþorpinu: Sið-
ferði manns og heims í Atómstöð-
inni. Ármann fjallaði um organist-
ann í Atómstöðinni og setti fram
kenningu um að persóna hans væri
undir mun meiri áhrifum frá kenn-
ingum Nietzches en Taóisma, sem
margir hafa talið organistann sprott-
inn úr. Ármann tók dæmi úr orð-
ræðu organistans þar sem hefð-
bundnum gildum um fjölskyldu og
fleira er snúið á haus og sýndi fram á
tengsl við heimspeki og kenningar
Nietzches.
Forn stíll með púlsinn
á nútímanum
„Ekkert orð er skrípi,“ – Mál og
stíll var yfirskrift fjórðu málstofu.
Guðrún Kvaran fjallaði um orða-
forða í skáldverkum Halldórs Lax-
ness og sagði meðal annars frá orða-
söfnun skáldsins. Halldór skráði hjá
sér í glósubók orð og orðasambönd
sem hann heyrði hjá íslensku al-
þýðufólki víðs vegar um landið og
notaði í verk sín. Guðrún sýndi mörg
dæmi um sérstaka orðnotkun
skáldsins og vék einnig að notkun
Halldórs á enskum og dönskum orð-
um í verkum sínum.
Þorleifur Hauksson vitnaði í grein
Halldórs um tísku og menningu, þar
sem Halldór sagði hvert skáld barn
síns tíma sem hlyti að taka mið af
tíðaranda og tísku. Þorleifur gerði
Gerplu og Íslandsklukkuna að um-
fjöllunarefni og sýndi fram á hvernig
Halldór notaði nútímaleg stílbrigði
við skrif þessara bóka sem báðar eru
byggðar á sagnfræðilegum grunni,
bæði hvað varðar efni og stíl. Hann
talaði einnig um hugmyndir Hall-
dórs sjálfs um eigin stíl og málfar
bæði á yngri árum og þegar skáldið
eltist og skoðanirnar breyttust. Þor-
leifur kallaði fyrirlestur sinn Að
hugsa í öðrum myndum.
Síðasta erindi dagsins flutti Hel-
ena Kaeckova. Erindið kallaðist Að
þýða Laxness, og í því fjallaði hún
um reynslu sína af því að þýða
Brekkukotsannál yfir á tékknesku.
Frjó umræða
um Laxness
Morgunblaðið/Kristinn
Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og danski sagnfræðingurinn
Morten Thing hlusta af athygli á erindi Jóns Ólafssonar á Laxnessþingi.
begga@mbl.is
Laxnessþingi í Háskólabíói var fram
haldið á sunnudag. Bergþóra Jónsdóttir
sat þingið og stiklar á stóru yfir þau þrettán
erindi sem þá voru flutt.