Morgunblaðið - 24.04.2002, Page 35

Morgunblaðið - 24.04.2002, Page 35
UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 24. APRÍL 2002 35 Á KOMANDI hausti eru sjötíu ár liðin frá því að uppeldisfrömuð- urinn Ísak Jónsson hóf kennslu við Kennara- skólann. Sex árum fyrr hafði hann stofnað einkaskóla sinn. Ísak Jónsson var frum- kvöðull á sviði uppeldis og menntunar yngri barna á Íslandi og fyrsti æfingakennari í yngri barna kennslu við Kennaraskólann. Saga hins almenna barnaskóla á Íslandi er ekki löng. Í fræðslulög- um frá 1907 var kveðið á um almenna skólagöngu barna og þá miðað við að þau hæfu skólanám tíu ára gömul og nytu þar fræðslu til fjórtán ára aldurs. Engin hefð var fyrir því í byrjun síðustu aldar að yngri börnum væri kennt í hópi. Ætl- ast var til að heimilin sæju um að börnin kæmu nokkurn veginn læs í skólann. Skólaskyldan var svo færð neðar í áföngum. Það var lán fyrir land og þjóð að margir ágætir skólamenn, karlar og konur, komu að því að byggja upp skólastarf á fyrstu áratugum síðustu aldar. Samvinna milli allra þessara ágætu skólamanna leiddi til þess sem nú er. Hér verður eins þessara skólamanna minnst sérstaklega, Ís- aks Jónssonar. Ísak Jónsson fæddist 1898 á Gilsárteigi í Eiðaþinghá, sonur hjónanna Jóns Þor- steinssonar bónda og hreppstjóra og Ragn- heiðar Sigurbjargar Ís- aksdóttur, síðar ljós- móður. Ísak ólst upp við sveitastörf og hneigðist til búskapar og ætlaði hann sér að verða bóndi. Hann fór í Bændaskólann á Hvanneyri og tók bún- aðarskólapróf 1919. Fyrsta reynsla Ísaks af kennslustarfi var næstu vetur þegar hann var farkenn- ari fyrir austan. Síðan lá leiðin í Kennaraskólann og tók hann kennarapróf 1924. Ísak Jónsson fór tvisvar í námsför til Norðurlanda. Árið 1926 stofnaði hann einkaskóla sinn fyrir börn á aldrinum 5½–8 ára, Skóla Ísaks Jónssonar. Í skólanum, þá og síðar, þróaði hann og reyndi hugmyndir sínar um kennsluhætti og námsefni sem hentaði íslenskum yngri börn- um. Haustið 1932 tók hann að sér æf- ingar í kennslu yngri barna við Kennaraskólann. Urðu þá þáttaskil í starfsferli Ísaks og var starfið við Kennaraskólann eftir það aðalstarf hans. Ísak Jónsson var því lærifaðir allra íslenskra barnakennara frá því Kennaraskólinn byrjar að veita kennaranemum menntun í kennslu yngri barna. Því hlutverki gegndi hann allt til dauðadags. Ísak Jónsson lést 1963. Ísak hafði einnig mikinn áhuga á starfi með börnum á leikskólaaldri og tók þátt í starfi Barnavinafélagsins Sumargjafar og Uppeldisskóla Sum- argjafar sem er forveri núverandi leikskólaskorar Kennaraháskóla Ís- lands. Ekki er auðvelt í stuttu máli að gera grein fyrir störfum Ísaks Jóns- sonar og áhrifum hans í skólamálum. Ísak var eldhugi og áhugi hans á vel- ferð og þroskaferli barna einkennd- ist af eldmóði og óbilandi starfsgleði. Hann innleiddi og þróaði nýjar að- ferðir í kennslu yngri barna. Hann var framsækinn og hugmyndaríkur og tilbúinn að koma á framfæri öllum góðum hugmyndum sem hann komst í kynni við. Ég sem þessar línur rita átti því lána að fagna að eiga Ísak Jónsson að læriföður á námsári mínu í stúdentadeild Kennaraskólans 1961–’62. Á starfsárunum þróaði Ísak hug- myndir sínar um kennslu yngri barna. Í bókinni Átthagafræði, leið- beiningar fyrir kennara og foreldra gerir hann grein fyrir uppeldisfræði- legum hugmyndum sínum. Bókin kom út árið 1962. Átthagafræði- kennslu skilgreindi hann sem alhliða þroskandi kennslu, vitsmunauppeldi og æfingu í að beita öllum skynfær- um við þjálfun athygli. Raunhæf mannrækt er meginmarkmiðið. Hann leggur mikla áherslu á virð- ingu fyrir barninu, kennarinn skal kynnast barninu vel, aðstæðum þess og möguleikum og gefa því tækifæri til að uppgötva sjálft. Kennsluaðferð- in og viðfangsefnin ákvarðast af stund og stað, söngur og leikur alltaf nærri, börnin vinna skynrænt með viðfangsefnin, í áþreifanlegri snert- ingu við þau. Allt þetta þroskar skiln- inginn og hjálpar minninu. Hann lagði mikið upp úr því að kynna börn- unum þjóðararfinn, að þau fræddust um búshluti og verklag fyrri tíðar og aðstæður sem Íslendingar hafa búið við. Ísak aðlagaði lestrarkennsluað- ferð, hljóðaaðferðina, að hljóðkerfi íslenskunnar. Áður var stöfunarað- ferð almennt notuð. Hljóðaaðferðin þróaðist undir handarjaðri Ísaks, er þar mikil áhersla lögð á málörvun, börnin eiga sjálf að uppgötva tengsl- in á milli hljóða og bókstafa, að tal er runa hljóða og sérhvert hljóð á sér tákn, bókstaf. Lestrarnámið á að vera leikur og leikurinn er nám. Það er sungið og sögur sagðar, sagan er minnishjálp fyrir barnið. Börnin vinna með bókstafina á ýmsa vegu. Tenging bókstafa og hljóða er mik- ilvæg, barnið tengir hljóðin í orðun- um, rennir sér í gegnum orðin. Ég hef þá trú að þessi áhersla á mál- hljóðin komi síðar að gagni í námi í öðrum tungumálum. Í stærðfræði lagði Ísak áherslu á hugtakaskilning, skilning á tölugild- um. Hann lagði mikið upp úr því að börnin skoðuðu formin í umhverfi sínu og gekk út frá því þroskastigi sem barnið var statt á. Mér er minn- isstæð sýnikennsla sem hann hafði fyrir okkur kennaranemana. Þá var hann að kenna börnum í 6 ára bekk tölugildið 3 og notaði þá kennslugögn sem hann hafði sjálfur útbúið og setti á myndloðatöflu. Ég nefni þetta því að ég hafði ekki áður haft skilning á því að það þyrfti að byggja undir- stöðuna svona vel, og að nauðsynlegt væri að fá skilning á tölugildinu áður en tölustafurinn sjálfur kæmi inn í myndina. Kennsluaðferðir Ísaks Jónssonar hafa verið þróaðar áfram í starfi skól- ans sem við hann er kenndur. Í hans tíð var Ísaksskóli vettvangur æfinga- kennslu Kennaraskólans. Skólinn hefur lagt metnað sinn í að vinna áfram í anda Ísaks Jónssonar. Ein- kunnarorð skólans voru og eru enn: Starf, háttvísi, þroski, hamingja. Heimildir Gunnar M. Magnúss, Helgi Elíasson, Her- dís Egilsdóttir, Sigurjón Páll Ísaksson. 1979. Skóli Ísaks Jónssonar fimmtíu ára 1926–1976. Útg. Skóli Ísaks Jónssonar, Reykjavík. Ísak Jónsson. 1962. Átthagafræði. Leið- beiningar fyrir kennara og foreldra. Ríkisút- gáfa námsbóka, Reykjavík. Uppeldisfrömuðurinn Ísak Jónsson, frumkvöðull yngri barna kennslu á Íslandi Þórey Kolbeins Kennsla Ísak Jónsson var læri- faðir allra íslenskra barnakennara, segir Þórey Kolbeins, frá því Kennaraskólinn byrjaði að veita kenn- aranemum menntun í kennslu yngri barna. Höfundur er sérkennari við Skóla Ísaks Jónssonar. NÝLEGA lauk heimsráðstefnu um fá- tækt í heiminum, þró- unarsamvinnu og framlög velmegunar- ríkja til slíkra verk- efna í Monterrey í Mexíkó. Meðal ann- arra stórmenna sem puntuðu uppá ráð- stefnuna voru þeir Fidel Castro og Bush Bandaríkjaforseti. Ólíkt höfumst vér þó að. Castro las vest- rænum velmegunar- ríkjum pistilinn og skammaði fyrir kap- italískt arðrán á fá- tækum þróunarríkjum. Hann yf- irgaf svo ráðstefnuna skyndilega og segir sagan að það hafi verið til að rýma sviðið fyrir Texasmann- inum Bush sem gat illa hugsað sér að dveljast samtímis gamla mann- inum á ráðstefnunni. Vítt til veggja og hátt til lofts þar. Þó ráðstefnan marki að ýmsu leyti tímamót og hafi skilað árangri að ákveðnu marki veldur niðurstaðan einnig verulegum vonbrigðum. Viðhorf Bandaríkjanna Bush Bandaríkjaforseti reyndist eiga erindi nokkurt við ráðstefn- una. Hann beitti afli Bandaríkj- anna til að ýta út af borðinu áform- um aðstandenda ráðstefnunnar um að fá þróuð ríki til að tvöfalda framlög sín til þróunarsamvinnu. Bandaríkjamenn gáfu loðin fyrir- heit um að auka sín framlög um 50% en binda þau ýmsum skil- yrðum, væntanlega m.a. um greiðari aðgang að mörkuðum og aukið olnbogarými til fjárfestinga og auðlindanýtingar. Þessu til við- bótar slógu Bandaríkjamenn á gamalkunna strengi og töluðu um að treysta ætti einkaframtakinu (les. fjölþjóðafyrirtækjunum) fyrir því að byggja upp og bæta lífskjör í þróunarríkjunum. Til upplýsingar skal tekið fram að núverandi fram- lag Bandaríkjamanna til þróunaraðstoðar er nánast sama skamm- arlega lága hlutfallið og er hjá Íslending- um. Bandaríkjamenn hafa að undanförnu varið tæplega 0,10% af vergri þjóðarfram- leiðslu til þróunarað- stoðar en hlutfallið hjá okkur er 0,12%. Bandaríkjamenn, ein ríkasta þjóð heimsins á hvaða mælikvarða sem er, ætla sem sagt að auka sín hlutfallslega lágu framlög um 50%, eða í 16 milljarða dollara frá og með árinu 2006 að því tilskildu að þróunarríkin fari að þeirra skilyrðum. Hlutfallið hjá þeim kemst þá væntanlega í ca. 0,13% af vergri þjóðarframleiðslu. Bandaríkin eru langstærsta hag- kerfi heimsins en verja samt tals- vert minna fé til þróunaraðstoðar en hið kreppuhrjáða Japan og meira en helmingi minna en aðild- arríki Evrópusambandsins. Þess má geta að Evrópusambandsríkin stefna að því að ná meðaltalinu hjá sér í 0,39% fyrir árið 2006. Norð- urlöndin og reyndar nokkur fleiri lönd eins og t.d. Holland hafa skarað fram úr í þessum efnum. Þannig hafa Danmörk og Noregur lagt af mörkum fyllilega þau 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu sem viðmið Sameinuðu þjóðanna kveða á um og farið um og yfir 1,0% að viðbættum framlögum hjálpar- stofnana og einstaklinga. Því mið- ur er reyndar ný ríkisstjórn hægri manna í Danmörku að bregða nið- urskurðarhnífnum einmitt á þenn- an útgjaldaþátt danska ríkisins um þessar mundir. Framlag Íslands og afstaða utanríkisráðherra Viðhorf utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar til ráðstefnunn- ar og niðurstöðu hennar eru und- irrituðum nokkurt undrunar- og vonbrigðaefni. Utanríkisráðherra svaraði fyrirspurn minni þar að lútandi á Alþingi á dögunum. Þar ber ráðherra í bætifláka fyrir af- stöðu og framgöngu Bandaríkja- manna og upplýsti jafnframt að engin ný ákvörðun hefði verið tek- in um að auka framlög Íslands til þróunarsamvinnu í tengslum við ráðstefnuna. Þetta veldur miklum vonbrigðum því eins og áður sagði er frammistaða Íslands að þessu leyti afar bágborin. Fyrir nokkrum árum var mótuð sú stjórnarstefna að auka þessi framlög í áföngum. Þegar efndirnar eru skoðaðar kemur í ljós að framlög okkar hafa nánast staðið í stað sé miðað við hlutfall vergrar þjóðarframleiðslu sem er hinn viðurkenndi mæli- kvarði. Hlutfallið var 0,10% bæði árin 1995 og aftur 1997, en síðan þá hefur það verið 0,09% 1998, 0,09% 1999, 0,10% 2000, 0,12% 2001 og verður samkvæmt þjóð- hagshorfum einnig 0,12% á yfir- standandi ári. Þetta er eins og áð- ur sagði nánast sama umdeilda og skammarlega lága hlutfallið og Bandaríkin verja til málaflokksins. Ríkisstjórn Íslands hefur ekki einu sinni tekið ákvörðun um 50% hækkun eins og Bandaríkjamenn, hvað þá meir. Ríkisstjórnir þeirra Bush, og Davíðs og Halldórs, sitja því saman í skammarkróknum í þessu máli. Ísland og Bandaríkin í skammarkróknum Steingrímur J. Sigfússon Höf. er formaður Vinstrihreyfing- arinnar – græns framboðs og situr í utanríkismálanefnd Alþingis. Þróunaraðstoð Frammistaða Íslands að þessu leyti, segir Stein- grímur J. Sigfússon, er afar bágborin. SÚ staðreynd blasir við að húsnæðisekla og há húsaleiga á höfuð- borgarsvæðinu er ein aðalástæða þess að fólk sækir um fjárhagsað- stoð hjá Félagsþjón- ustunni í Reykjavík. Þessi staðreynd á einn- ig verulegan þátt í því að nú eru tæplega 600 manns á biðlistum eftir félagslegu húsnæði í borginni. Mikill skort- ur er á 2ja og 3ja her- bergja íbúðum og í Grafarholti, eina íbúða- hverfinu sem R-listinn hefur skipulagt, er lítið um slíkar íbúðir. Furðuleg skipulagsstefna Í ljós hefur komið að söluskilmálar vegna lóðanna í Grafarholti hafa beinlínis stuðlað að því, að framboð á minni íbúðum í fjölbýlishúsum hefur aldrei verið minna en nú. Bygging- arskilmálar undirstrika þetta. Þeir eru mjög leiðandi í þeim tilgangi að réttlæta hátt lágmarkssöluverð lóð- anna. Samkvæmt deiliskipulagsskil- málum í Grafarholti er meðalstærð íbúða í fjölbýlishúsum 130–150 fer- metrar. Í Grafarholti eru mjög fáar 2ja herbergja íbúðir og langflestar 3ja herbergja íbúðir eru mjög stórar, eða á bilinu 100–120 fermetrar og sumar stærri. Íbúðir í fjölbýli í Graf- arholti eru að jafnaði 10–30% stærri í fermetrum en í öðrum hverfum borgarinnar. Lóðaverð hækkað um 140% Þessi stefna R-listans hefur þær afleiðingar að sumir íbúðakaupend- ur hreinlega neyðast til að kaupa stærri íbúð en þeir hafa þörf fyrir. Stefna R-listans í skipulags- og lóða- málum hefur átt stóran þátt í þeirri verðsprengju sem orðið hefur á íbúðamarkaðnum í Reykjavík. Lóðaverð í Reykjavík hefur hækk- að um 140% á undan- förnum árum og í fram- haldinu hafa fasteignagjöld og húsa- leiga á almennum markaði stórhækkað. Vegna þessarar alvar- legu þróunar hafa íbúðakaupendur þurft að skuldsetja sig langt umfram það sem eðli- legt getur talist og eiga margir í miklum erfið- leikum með að greiða afborganir og vexti af húsnæðislánum. Burt með lóðaskortinn Breytt stefna í skipulag- og lóða- málum er algjör nauðsyn. Eitt helsta stefnumál sjálfstæðismanna í kom- andi borgarstjórnarkosningum er að tryggja nægt lóðaframboð, afnema lóðauppboð og innheimta gatnagerð- argjöld til samræmis við kostnað borgarinnar við gerð nýrra bygging- arsvæða. Stórfelldur vandi í húsnæð- ismálum Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Höfundur er borgarfulltrúi. Húsnæðismál Stefna R-listans hefur þær afleiðingar, segir Vilhjálmur Þ. Vil- hjálmsson, að sumir íbúðakaupendur hrein- lega neyðast til að kaupa stærri íbúð en þeir hafa þörf fyrir.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.