Morgunblaðið - 25.10.2002, Page 10
FRÉTTIR
10 FÖSTUDAGUR 25. OKTÓBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
„ÉG er mjög undrandi á því
hversu frjálslega oddviti minni-
hlutans í borgarstjórn, Björn
Bjarnason, umgengst sannleikann
í viðtalinu um eigið fé Orkuveitu
Reykjavíkur [sem birtist í Morg-
unblaðinu á miðvikudag],“ segir
Alfreð Þorsteinsson, stjórnarfor-
maður Orkuveitu Reykjavíkur.
Í viðtalinu hafi Björn fullyrt að í
milliuppgjöri OR sem unnið var af
endurskoðunarskrifstofunni Del-
oitte & Touche, komi fram að eigið
fé fyrirtækisins í ársbyrjun 2002
hafi verið 34.934 milljónir króna.
„Þetta er hrein fölsun af hálfu
Björns Bjarnasonar því í milliupp-
gjörinu kemur fram að þetta sé
staðan 31. desember 2001,“ segir
hann.
Eigið fé jókst verulega
um áramót
Fyrir liggja andstæð lögfræði-
álit um skyldu stjórnar OR til að
bera ákvarðanir vegna kaupa á
ljósleiðarakerfi Línu.nets fyrir um
1,8 milljarða króna undir eigendur
fyrirtækisins. Borgarlögmaður
Reykjavíkur telur að ekki hafi ver-
ið þörf á fyrirfram samþykki. Lög-
maður Garðabæjar telur á hinn
bóginn að samþykkis hafi verið
þörf þar sem skuldbindingar OR á
árinu hafi farið yfir 5% af eigin fé
fyrirtækisins.
Alfreð bendir á að hinn 1. janúar
2002 hafi verið stofnað nýtt sam-
eignafélag um OR. „Við það eykst
eigið fé fyrirtækisins verulega,
meðal annars vegna innkomu
Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu
Akraness og Borgarfjarðar og
verður um 38 milljarðar króna.
Það er því grundvallarmunur á
eiginfjárstöðu 31. desember 2001
sem er miðað við gamla borgarfyr-
irtækið og 1. janúar 2002 þegar
nýja sameignarfélagið var stofn-
að,“ segir Alfreð.
Drög að stofnefnahagsreikningi
hafi legið fyrir við stofnun sam-
eignarfélagsins um síðustu áramót
og hann fær ekki séð að önnur
réttari viðmiðun sé til fyrir stöð-
una í upphafi árs. Alfreð telur að
Björn Bjarnason hafi vegið ómak-
lega að borgarlögmanni í fyrr-
nefndu viðtali. Stjórn OR hafi ver-
ið sammála um að leita
lögfræðilegs álits á kaupum á ljós-
leiðaraneti Línu.nets.
Hefði niðurstaða borgarlög-
manns orðið önnur, þ.e. að OR
hefði þurft að bera kaupin undir
sveitarfélögin sem eiga fyrirtækið,
hefði það að sjálfsögðu verið gert.
„En af því að Birni Bjarnasyni lík-
ar ekki lögfræðilegt álit borgarlög-
manns kýs hann að atyrða hann.
Ég verð að segja að mér finnast
það ekki stórmannleg viðbrögð af
hálfu oddvita minnihlutans.“
Í ljósi þeirrar gagnrýni sem
komið hefur fram á kaupin á ljós-
leiðarakerfinu, var Alfreð spurður
að því hvort rétt hefði verið að
bera kaupin fyrirfram undir eig-
enduna. „Það eru alveg skýr
ákvæði um hvenær á að leggja
svona skuldbindingar fyrir eigend-
ur og hvenær ekki. Ef upphæð-
irnar fara ekki yfir þessi mörk, þá
er það ekki gert,“ sagði hann.
Gerði ekki athugasemdir
við þjónustuskála Alþingis
Þá segir Alfreð að það sé athygl-
isvert að Björn geri athugasemd
við byggingarkostnað nýrra höfuð-
stöðva Orkuveitu Reykjavíkur þar
sem fermetraverð sé um 180–
190.000 krónur. „Nýleg viðbygging
alþingishússins kostaði um það bil
270.000 krónur fermetrinn. Ég
minnist þess ekki að Björn Bjarna-
son hafi gert nokkrar athugasemd-
ir við byggingarkostnað hússins.
Þessi stjórnmálamaður er því
ósamkvæmur sjálfum sér og ekki
trúverðugur,“ segir Alfreð.
Í fyrrnefndu viðtali við Björn
Bjarnason segir hann að skjalfest
sé að kostnaður vegna flutnings
starfsemi OR í nýjar höfuðstöðvar
verði um 3 milljarðar en ekki séu
þó öll kurl komin til grafar varð-
andi kostnað. Upphaflega var gert
ráð fyrir að kostnaðurinn yrði 2,3
milljarðar. Aðspurður segir Alfreð
að skv. nýjustu áætlunum verði
kostnaðurinn 2,5 milljarðar og
hann segist engin skjöl hafa séð
sem bendi til þess að hann verði 3
milljarðar eins og Björn heldur
fram.
„Það veit svo sem enginn hver
heildarbyggingarkostnaður verður
fyrr en upp er staðið. En það er
ekkert í spilunum nú, sem breytir
núverandi kostnaðaráætlun, að
minnsta kosti er ég ekki með það í
höndunum,“ segir Alfreð.
Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður OR,
um gagnrýni Björns Bjarnasonar
Umgengst sann-
leikann frjálslega
JAFNRÉTTISRÁÐ veitti í gær
Orkuveitu Reykjavíkur viðurkenn-
ingu ráðsins fyrir árið 2002.
Meginástæðurnar eru þær að
ráðið telur að OR hafi sett sér skýra
jafnréttisstefnu, fyrirtækið hafi
gert athugun á launum starfsfólks
og ákveðið að grípa til aðgerða til
að grípa til viðeigandi aðgerða ef
fram kæmi óútskýrður launamun-
ur. Það leggi áherslu á möguleika
beggja kynja á að sinna bæði fjöl-
skyldu og starfi, hafi gert viðhorfs-
könnun meðal starfsmanna um af-
stöðu þeirra til jafnréttis- og
starfsmannamála, tekið þátt í
nokkrum verkefnum sem stuðla að
jafnari hlut kynjanna og í sex ár
veitt konum í verkfræði- og tækni-
námi námsstyrki.
Þetta var í ellefta sinn sem þessi
viðurkenning er veitt.
Morgunblaðið/Jim Smart
Páll Pétursson félagsmálaráðherra virðir fyrir sér viðurkenningu jafnrétt-
isráðs árið 2002. Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykja-
víkur, og Elín R. Líndal, formaður jafnréttisráðs, fylgjast með.
Orkuveita Reykja-
víkur fær viðurkenn-
ingu jafnréttisráðs
MORGUNBLAÐINU barst í gær
eftirfarandi yfirlýsing frá Jóhanni Óla
Guðmundssyni:
„Í ljósi gerbreyttra aðstæðna frá
því samningur var gerður um kaup
Lyfjaverslunar Íslands hf., nú LÍF
hf., á Frumafli ehf. í janúar 2001, hef
ég ákveðið að láta kaupin ganga til
baka.
Á þeim rúmlega tuttugu mánuðum,
sem liðnir eru frá því að samkomulag-
ið var gert, hefur framtíðarsýn og
rekstrargrundvöllur LÍF, sem fyrir-
hugað var að greiddi fyrir eignarhald
á Frumafli með eigin hlutabréfum,
breyst verulega. Meðal annars hefur
verið horfið frá markmiðum um leið-
andi hlutverk LÍF í lyfjaframleiðslu
bæði innanlands og erlendis í sam-
starfi við undirritaðan, sbr. nærri
helmingseign þessara aðila, á sínum
tíma, í hlutabréfum í Delta hf . Eins
og íslenskum fjármálamarkaði er vel
kunnugt um hefur sá gífurlegi fjár-
hagsávinningur, sem í umræddri
lyfjaframleiðslu og framtíðaráform-
um var falinn, nú fallið öðrum í skaut
en hluthöfum LÍF hf. Sömuleiðis er
ljóst að fyrri áætlanir um forystuhlut-
verk í einkarekinni öldrunarþjónustu
á Íslandi rúmast illa innan núverandi
viðskiptastefnu LÍF hf. Báðir þessir
þættir hafa að mínu mati haft veruleg
áhrif til hins verra á tækifæri félags-
ins til vaxtar og aukinnar verðmæta-
sköpunar. Að sama skapi hefur verð-
gildi þeirra hlutabréfa, sem voru
umsaminn greiðslueyrir, lækkað
verulega, en það á að sönnu einnig við
um öll önnur hlutabréf í LÍF.
Ég tel einnig með hliðsjón af þeirri
þróun, sem átt hefur sér stað innan
veggja LÍF, að það sé heppilegra og
til muna ábatasamara að varðveita
sjálfstæðan rekstur Frumafls, sem nú
er að hasla sér völl erlendis með nýj-
um verkefnum, jafnhliða því að vera
framsækið og leiðandi fyrirtæki á
sínu sviði hérlendis. Eitt meginhlut-
verk þess félags er að standa vörð um
framgang langtímasamnings dóttur-
félagsins Öldungs ehf. og ríkisvalds-
ins um rekstur hjúkrunarheimilis fyr-
ir aldraða í Sóltúni. Ábyrgðin
gagnvart viðsemjendum okkar og
skjólstæðingum á því sviði er mikil og
með áframhaldandi vönduðum og
traustum rekstri leggjum við vonandi
lóð á vogarskálar aukins einkarekstr-
ar innan heilbrigðisgeirans á komandi
árum.
Á grundvelli framangreinds hef ég
ákveðið að falla frá varnarbaráttu
gegn málarekstri á hendur mér vegna
málsins og fella úr gildi þann samning
sem LÍF óskaði eftir lögbanni á og
verið hefur til meðferðar dómstóla
um nokkurt skeið.“
Samningur LÍF um
kaup á Frumafli
felldur úr gildi
Yfirlýsing frá Jóhanni Óla Guðmundssyni
HÆSTIRÉTTUR dæmdi í gær Vá-
tryggingafélag Íslands til að borga
konu, sem missti sambýlismann sinn
og barnsföður í flugslysinu í Skerja-
firði í hittifyrra, rúmar 3,2 milljónir
króna auk dráttarvaxta og hnekkti
þar með dómi Héraðsdóms Reykja-
víkur frá 9. nóvember 2001.
Konan og hinn látni áttu saman
einn dreng en dóttir hins látna var
einnig á heimili þeirra. Eftir slysið
fór konan ein með forsjá beggja
barnanna. Meðan á sambúðinni stóð
keypti hún svokallaða F-plús fjöl-
skyldutryggingu hjá VÍS. Trygg-
ingafélagið vefengdi ekki að því bæri
að greiða dánarbætur samkvæmt
vátryggingunni vegna dauða manns-
ins og að hann hafi fallið undir skil-
greiningu tryggingarskilmálanna
um það til hverra vátryggingin tæki.
VÍS taldi hins vegar börnin eiga
tilkall til bótafjárins, þar sem sam-
kvæmt tryggingarskilmálunum
skyldi greiða „nánustu vandamönn-
um“ hins látna bæturnar. Maðurinn
og konan hafi ekki verið í hjúskap en
samkvæmt lögum um vátryggingar-
samninga væri maki, sem hinn látni
hafi verið í hjúskap með, nánasti
vandamaður, en að honum frágengn-
um væru það börn hins látna.
Hæstarétti fannst hins vegar
óumdeilt að maðurinn hefði verið
hluti fjölskyldu konunnar og að vá-
tryggingin hefði af þeirri ástæðu
tekið til hans. Talið var að ekki yrði
horft framhjá því sérstaka einkenni
tryggingarinnar að vera fjölskyldu-
trygging. Vátryggingarverndin
hefði beinst að fjölskyldunni sem
einingu, sem aftur leiddi til þeirrar
niðurstöðu að rétthafar bóta væru
þeir sömu í því tilviki að dauðaslys
raskaði getu fjölskyldunnar til að
afla fjár til framfærslu sinnar með
vinnu.
Var fallist á með konunni að skýra
yrði skilmálana svo að hún væri rétt-
hafi dánarbótanna eftir manninn.
Komu skýringarreglur laga um vá-
tryggingarsamninga því ekki til álita
við úrlausn um það hver væri rétt-
hafi dánarbótanna.
Héraðsdómur sýknaði VÍS af
kröfum konunnar í fyrra.
Málið dæmdu hæstaréttardómar-
arnir Markús Sigurbjörnsson, Garð-
ar Gíslason og Gunnlaugur Claes-
sen.
Lögmaður konunnar var Einar
Gautur Steingrímsson en lögmenn
stefndu, VÍS og barnanna tveggja,
Jakob R. Möller hrl., Þorsteinn Ein-
arsson hrl. og Páll Arnór Pálsson
hrl.
Sambýliskonu en ekki börnum fórnarlambs
flugslyssins í Skerjafirði dæmdar dánarbætur
Sambýliskonan talin
rétthafi tryggingar
LÖGREGLAN í Reykjavík kallaði
karlmanninn sem hún grunar um
íkveikju við Laugaveg aftur til yfir-
heyrslu í fyrradag eftir að Hæstirétt-
ur sleppti honum úr gæsluvarðhaldi.
Hinn grunaði neitar sök í málinu en
lögreglan segir að hann eigi eftir að
gera grein fyrir ferðum sínum inni í
portinu aftan við Laugaveg 40 þar
sem eldurinn kom upp á nokkrum
stöðum að því er ýmislegt bendir til.
Lögreglan á eftir að kanna sann-
leiksgildi þeirra skýringa sem hinn
grunaði hefur gefið en vitni munu
hafa séð grunaða fara inn um ólæstar
dyr að portinu.
Að sögn Harðar Jóhannessonar
yfirlögregluþjóns er þess beðið að
lokið verði við hreinsun á bruna-
staðnum til að ljúka vettvangsrann-
sókn. Ekki er séð fyrir endann á
þeirri vinnu.
Verslunin Misty og gleraugna-
verslunin Sjáðu brunnu til grunna í
eldsvoðanum ásamt íbúðum á Lauga-
vegi 40 og 40b. Skemmdir í Ecco-skó-
búðinni, sem taldar voru mjög litlar,
reyndust meiri en talið var í fyrstu og
segir Svavar Júlíusson, eigandi
verslunarinnar, að hún verði opnuð
upp úr miðri næstu viku en ekki í
dag, föstudag, eins og að var stefnt.
Þá hefur söfnun vegna tjóns
þriggja kvenna sem misstu aleigu
sína í brunanum gengið vel. Safnast
hafa yfir 200 þúsund krónur. Reikn-
ingur vegna söfnunarinnar er enn
opinn. Númerið er: 1150-05-409500,
kt.: 180374-5079.
Grunaði yfirheyrður á ný
Morgunblaðið/Júlíus
Laugavegur 40a. Dyrnar að portinu, sem vitni sáu mann fara í gegnum,
sjást á miðri mynd.