Morgunblaðið - 08.06.2003, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 08.06.2003, Blaðsíða 10
10 B SUNNUDAGUR 8. JÚNÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ V IÐ Didda ákváðum að hittast á Prikinu en þar fær fallega tíkin hennar, hún Trygg, sem er jafnan í för með henni, aðgang en það var einmitt hún sem kenndi Diddu að ganga á háhæl- uðum skóm áður en hún fór til Cannes. „Ég horfði bara á tíkina og hermdi eftir henni. Ef einhver hefur gefið þér eitthvað fallegt, hermdu þá eftir þeim,“ segir hún með sinni dálítið hásu rödd. Það var líka á Prikinu sem Didda var „upp- götvuð“ af íslensk-franska leikstjóranum Sól- veigu Anspach sem var stödd hér á landi til að leita að leikkonu í annað aðalhlutverkið í kvik- mynd sinni Stormviðri (Stormy Weather) en þá atvikaðist það ... „að ég kom hingað á Prikið til að hitta kunningja minn. Ég sat við borð niðri og var að kaupa mér kaffi og sný mér við. Þá tek ég eftir að það er kona að virða mig fyrir sér. Hún hafði alveg magnað augnaráð en Sólveig kímir einhvern veginn með augunum þegar hún sér eitthvað sem henni líst á. Ég hugsaði með mér. Er þessi kona ekki að fara mannavillt? Mikið er það annars leiðinlegt vegna þess að hún er svo glöð á svipinn yfir að hitta mig. Svo vatt hún sér að mér og spurði hvort ég væri tilbúin til að koma í prufumyndatöku vegna kvikmyndar sem hún væri að fara að gera.“ Þannig lýsir Didda því hvernig fundum henn- ar og Sólveigar Anspach leikstjóra bar fyrst saman. - En vafðist það ekkert fyrir þér að taka að þér hlutverkið, þar sem þú hafðir aldrei leikið áður? spyr blaðamaður Diddu sem situr á móti honum við eitt kaffiborðanna á efri hæð veitingahússins. Hún er í svörtum bómullarbol með áþrykktri mynd af rauðu epli og gallabuxum. Rauðleitt óstýrilátt hárið kringir fremur fölt andlitið. „Ég á ekkert erfitt með að standa mig þegar ég hef lið sem ég held með. Ég er þó ekki búin til úr einhverju sérstöku efni en bara það að halda mínu striki í lífinu hefur krafist þess að ég hef oft þurft að leika. Ef horft er til þess hafði ég ágæt- an undirbúning fyrir hlutverkið. Það sem hjálpaði mér líka er að ég þekki svona fólk, sem af einhverjum ástæðum hættir að tala. Lóa á sér hliðstæðu í Kötlu, persónu í skáldsög- unni minni, Gullið í höfðinu, sem kom út árið 1999. Ég hélt að Sólveig hefði lesið bókina, en það hafði hún ekki gert. Dagur (Sigurðarson) sagði eitt sinn við mig, af því fólk fær alltaf svo rosalega í hnén þegar það þarf að koma fram – það er svo vont að láta horfa á sig. „Didda, taktu salinn og faðmaðu hann að þér í huganum. Þegar þú byrjar að lesa upp þá er allt í lagi. Láttu salinn finna að hann er í örugg- um höndum.“ Sólveig hefur bara fundið að Lóa litla var í öruggum höndum hjá mér.“ Það vilja allir eiga Lóu Áður en lengra er haldið er ekki úr vegi að rifja upp söguþráð kvikmyndarinnar Stormviðri svo lesendur átti sig betur á samtalinu. En það má geta þess að hér er um íslensk-fransk- belgíska framleiðslu að ræða. Sagan segir af sambandi Coru, sem er geð- læknanemi á sjúkrahúsi einhversstaðar í frönskumælandi Evrópu og mállausri konu, sem er komin á deildina þar sem Cora vinnur. Virðist sem Cora nemi einhvers konar „ákall“ frá henni sem verður þess valdandi að samband þeirra dýpkar. Samband sem skyndilega er klippt á þegar upp kemst að konan er frá Íslandi en þá er hún send heim án þess að Coru sé gert viðvart. Skynjun Coru á konunni lætur hana ekki vera, svo hún gerir sér ferð til Vestmannaeyja, þar sem konan á heima, til að halda meðferðinni áfram sem hún hafði byrjað á geðdeildinni. „Það vilja allir eiga Lóu,“ segir Didda þegar hún er spurð að því hvernig henni hafi geðjast að þessari þöglu konu sem hún leikur. „Þegar þú sérð kvikmyndina þá ert þú stolt af því að Lóa er Íslendingur. Ef þú ert frá Vestmannaeyjum þá verður þú enn þá stoltari. Það er þannig með Lóu að með þögn sinni verður hún okkar allra. Hún minnir okkur á með tilveru sinni að við er- um öll eyland en það er hafsjór á milli okkar og við getum ekki beðið eftir því að allt reki upp á strendur okkar. Hennar beygla er að skipið hennar drífur ekki yfir hafið. Ég tel mig heppna að hafa fengið að lána manneskju skrokkinn minn og um leið að fá að verja hennar heilindi. Það finnst mér stórkost- legt,“ segir hún eins og til skýringar á sínum eig- in tilgangi með leiknum. - En hvers vegna hættir fólk allt í einu að tala sem er undirstaða þess að við skiljum hvert ann- að? Didda víkur sér hjá því að svara spurningunni beint og segir: „Það geta allir ákveðið það hver fyrir sig hver ástæðan er. Af hverju verður maður svona „pisst“ út í heiminn, af hverju finnst manni stundum allt svo vonlaust og eins og maður fái engu ráðið? Þú ræður alla vega yfir sjálfri þér, hvort sem þú talar eða segir ekki neitt.“ - Einhverjir myndu telja þessa þögn bera vott um þunglyndi. „Er greining á geðsjúkdómum ekki komin út í öfgar? Af hverju má konan ekki þegja?“ spyr hún heldur hvasst. „Fólk fer í panik og tapar sér ef einhver er ekki hamingjusamur. Það er ekki búið að lofa okkur að þegar við fæðumst sé eitt- hvert garantí fyrir því að þetta líf verði eilíf sæla.“ Didda segir kvikmyndina Stormviðri gefa okk- ur pláss til að tala um þessa hluti og marga fleiri; Það sem við þurfum ekki endilega að tala um heldur skynja okkar á milli. Og hún fer að segja frá því hvernig hún til- einkaði sér þetta þögla hlutverk. „Hlutverkið var eitthvað sem ég kunni, það var hérna uppi,“ segir hún og vísar með vísifingri til heilabúisins, „og Sólveig bara treysti mér. Ég vissi líka að ég gæti þetta. Að vinna með sársaukann Didda bendir á að það sem hafi verið sérstætt við tökur myndarinnar Stormviðri er að kvik- myndatakan fór að hluta til fram á alvöru geð- sjúkrahúsi í Belgíu. Segir hún það hafa verið skemmtilega ögrun, að fá að vera innan um fólk sem var að vinna með sársauka sinn. Sjálf hefur hún unnið á Teigi, sem er fjölfíkladeild Landspít- alans - háskólasjúkrahúss og Tindum en þar var á sínum tíma meðferð fyrir unglinga. Á þessum stöðum segist hún hafa lært að hlusta á fólk og hætta að vera hrædd við að nema sársauka þess. Það hafi líka verið góður undirbúningur fyrir hlutverk Lóu. Hún segir jafnframt að sú reynsla að leika sjúkling inni á alvöru geðdeild hafi verið einstök. „Fólkið tók mig í hópinn og þá kannski ekki síst vegna þess að ég dvaldi þar yfir nótt í geðdeildarnáttfötunum – og mállaus af því ég tala ekki frönsku og tók þátt í daglegu pró- grammi. Nærvera okkar hafði ótrúlega góð áhrif á sjúklingana en þeir léku sjálfir sjúklinga í mynd- inni. Þeir sem voru órólegir urðu bara spakir meðan á tökum stóð. Sólveig Anspach er afskaplega traustvekjandi persóna sem fær fólk til að fylgja sér hávaðalaust við vinnuna. Þetta sýnir líka hversu langt hún er til í að ganga til að segja sanna sögu.“ Starfs- fólkið á spítalanum lék líka sjálft sig eins og ör- yggisverðirnir sem Lóa slóst við. Didda segir að að þarna hafi stundum átt sér stað töluverð átök. Á eftir var hún með marbletti á örmum og fót- leggjum. „Þarna kom reynsla mín af því að tak- ast á við dyraverði og lögreglumenn í Reykjavík hér áður fyrr mér til góða,“ segir hún og kímir. Það kom sér líka vel að geta haldið einbeitingu undir álagi og við undarlegar aðstæður, eins og þegar hún þurfti að dvelja nakin í frystiklefa Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum við mín- us 30 gráður. „Ég var inni í klefanum í 10–15 mínútur í einu en senan var tekin 6 sinnum. Með- an á þessu gekk hugsaði ég um litlu stúlkuna í Kanada sem skreið út um hundalúguna heima hjá sér um miðja nótt og sofnaði í snjóskafli á bleiunni einni saman í mínus 30 gráðum. Ef hún gat þolað þennan kulda, þá gat ég það líka!“ Við erum þessi eina eyja Flestir sem unnu að kvikmyndinni Stormviðri eru erlendir, bæði leikarar og tæknifólk. Didda segir það ekki hafa skapað nein vandkvæði í vinnunni. „Það er þannig að útlent fólk á það til að bera mikla virðingu fyrir okkur Íslendingum. Það er kannski af því hvernig við berum okkur. Við er- um þessi eina eyja á ferðinni og það finna það all- ir. Útlendingarnir umgengust mig af stakri virð- Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson Skiptir máli að ve ’ Ég var í sveit semkrakki og átti til að bregða mér í gervi gamals karls og skokka á milli bæja. Ég datt aldrei úr karkater, klæmdist og heimtaði í nefið! ‘ ’ Mitt hlutverk hefur fyrst og fremst verið fólgið í því að vera óþekki rithöfundurinn og fá aldrei listamannalaun. ‘ ’ Það var skrýtið að sjásjálfa sig í fyrsta skipti á breiðtjaldi. Ég hafði ekki séð myndina fyrr en í Cannes. Ég hafði ekki einu sinni séð sjálfa mig í heimavídeói áður. ‘

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.