Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2001, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2001, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. FEBRÚAR 2001 T ÍÐARANDINN er draugur í tölvu. Og draugurinn er við. Mannkynið. Svona gæti dramatísk grein um tæknisamfélagið byrjað, í greina- flokknum Tíðarandi í aldarbyrjun. Og svona byrjar hún: Ég vil vera sæborg. Amma mín er 94 ára. Hún fæddist árið 1907 og nú er árið 2001. Ég er 32 ára og fæddist árið 1968. Hún býr í allt öðrum heimi en ég. Ekki þannig að hún sé orðin seníl eða neitt svoleiðis, nei, hennar heimur er bara ólíkur mínum. Þótt við deilum sama rýminu er upplifun okkar á því rými, umhverfi okkar og samfélagi, svo gerólík að ég veit að við búum hvor í sínum heiminum. Þegar ég hugsa um all- ar þær breytingar sem þessi gamla kona hefur þurft að laga sig að, kynnast og kynna sér í gegnum öldina, undrar það mig ekki að hún skuli ekki skilja talhólfið mitt. Sveitasímar, sím- ar, farsímar, tölvupóstur: allt þetta greip gamla konan og nýtti sér – kannski ekki beint farsíma og tölvupóst – en hún þekkir þær skepnur og sættir sig við þær. En ekki talhólfið mitt. Þar liggja mörkin. Hún skilur ekki að ég skuli geta hringt frá hennar síma í talhólfið mitt og vegna þessa virðist hún álíta að í talhólfinu búi kona. Hún veit samt að svo er ekki, en hún nálgast rafræna rödd símakonunnar með varúð og bið- ur hana vinsamlega fyrir skilaboð til mín: „viltu biðja hana að hringja í ömmu sína.“ Mér finnst það í sjálfu sér afrek að gamla konan skuli hafa hætt sér þetta langt, ég þekki yngra fólk sem harðneitar að tala inn á talhólf, en það breytir ekki því að hún samþykkir ekki þetta fyrirbæri, það nær ekki inn í hennar heim. Þegar ég er með ömmu finn ég svo vel hvað veruleikinn er sveigjanlegur og hvað það er fá- ránlegt að ímynda sér að til sé einn endanlegur veruleiki. Raunvera okkar er í stöðugri mótun og hún mótast í samræmi við það áreiti sem samfélagið býður uppá. Þannig er heimurinn stöðugt að breytast og þá um leið staða okkar í honum. Til dæmis hefur samneyti okkar mannvera við vélar haft varanleg áhrif á okkur, áhrif á stöðu okkar í heiminum, hvernig við skilgrein- um þá stöðu þekkingarfræðilega, og náin kynni okkar af vélum hafa haft áhrif á hvernig við skil- greinum mennsku og sjálf okkur sem menn. Stór hluti mannkyns hefur umvafið sig tækni í svo ríkum mæli að það er orðið fast í vefnum og hefur með því flækt allar hugmyndir um mennsku og vélmennsku. Við getum ekki leng- ur litið svo á að lífræn mennska okkar sé í öruggri fjarlægð frá líflausum vélum, and- stæðuhugsunin sem aðskilur mann og vél hefur verið brotin upp í linnulausum samgangi manna og véla. Vélar og menn þáttast saman, hvort sem við tökum til bókstaflegan samruna mannslíkama og tækni eins og í gangráðum, gervilíffærum eða ígræddum tölvukubbum sem gefa heyrn og sjón, eða skoðum málið útfrá samhæfni manns og vélar, sem birtist í því að vinna við tölvu, hafa rafræn samskipti gegnum farsíma og tölvupóst og stafræn viðskipti með peninga. Lífi okkar er stýrt af vélum sem gera hvorttveggja í senn að skilyrða hegðun okkar og móta hana í ákveðin mynstur og form, og að fylgjast með okkur, hafa okkur undir samhæfðu eftirliti. Kenningin um stýrikerfi, eða stýrifræði („cybernetics“), sem Norbert Wiener setti sam- an seint á fimmta áratugnum, gerði ráð fyrir að maðurinn og vélin virkuðu eins. Bæði maður og vél virkuðu samkvæmt flóknu kerfi stjórnunar og samskipta, þarsem „feedback“ er lykilatriði: hæfileikinn til að læra af reynslunni og nota sér þann lærdóm í næstu aðgerð. Vél þessi yrði þá að byggja á stýrikerfi en slíkar vélar urðu al- gengar um og eftir seinni heimsstyrjöld, þökk sé meðal annarra Wiener sjálfum sem þróaði stýrikerfi sitt upphaflega sem hernaðarmask- ínu. Orðið „cybernetics“ er leitt af gríska orðinu „kybernetes“ sem þýðir stýrimaður, eða lóðs- ari. Þannig eru mannlegar útlínur byggðar inn í hugmyndakerfi stýrifræðinnar frá upphafi; einskonar stýrimannsvofa, en sú vofa átti eftir að taka á sig skýrari mynd þegar Manfred E. Clynes og Nathan S. Kline komu fram með hugmynd sína um sæborgina („cybernetic org- anism“), sem sjálfstýrt kerfi manns og vélar, þarsem maður og vél starfa sem eitt. Með sæ- borginni kemur enn skýrar fram hin nýja sýn Wieners bæði á mann og vél og þá sérstaklega mannslíkamann og samskipti og samsvörun hans við vélar. Þegar ég hugsa um stýrimann Wieners sam- hliða sæborg þeirra Clynes og Kline þá dettur mér í hug staða mín sem bókaverja. Bent hefur verið á að Netið líkist einna mest Borgesísku bókasafni, bókasafni bókasafnanna þarsem allir heimsins gagnabankar koma saman og allar heimsins upplýsingar eru geymdar (og þarmeð við sjálf?). Þessu má vel snúa við og líta á bóka- safnið sem sæból („cyberspace“), flókið kerfi stýringar og samskipta þarsem „feedback“ reynsla hleðst upp. Hlutverk bókasafna í dag er ekki síst að vera upplýsingamiðstöðvar og stýra fólki og leiða það gegnum flókna vefi upplýs- inga. Þannig er bókaverjan einskonar sæborg sem gengur um bókasafnið, nátengd hinum fjölmörgu upplýsingamiðstöðvum tölva, bóka, mynda og tóna. Eitt af því sem gerir tæknimenningu sam- tímans að lifandi fyrirbæri fyrir bókmennta- fræðing er hversu mikil áhrif bókmenntir, kvik- myndir og álíka menningarafurðir hafa haft á mótun hennar, útlit, stefnu og svo auðvitað við- horf okkar til hennar. Og það eru ekki fagur- bókmenntir, heldur afþreyingariðnaðurinn sem hefur haft mestu áhrifin, vísindaskáldskapur, fantasíur og vísindakvikmyndir, sérstaklega sú undirtegund vísindaskáldsögunnar sem kennir sig við sæberpönk. Þannig er tæknilandslagið í dag spunnið úr þráðum hugvísinda jafnt sem raunvísinda, lauslátrar afþreyingar og agaðrar vísindaiðkunar. Það eru rithöfundar og sæberpönkarar eins og William Gibson og Neil Stephenson sem al- mennt eru taldir hafa skýrustu áhrifin á mótun tæknilandslagsins, en einnig má nefna til sögunnar kvikmyndir eins og Blade Runner (Ridley Scott 1982), Robocop (Paul Verhoeven 1987), Alien (Ridley Scott 1979) og nú síðast The Matrix (Wachowski-bræðurnir, 1999). Í skáldsögunni Snow Crash (1992) lýsti Stephenson umhverfi og útliti hjáveruleika sem götu þarsem avatarar (myndgenglar eða fylgj- ur notandans) ganga um og ná sér í upplýsingar og afþreyingu. Þessi götumynd er ekki ólík líf- legri miðbæjarímynd, þarsem öll helsta þjón- usta er við eina götu. Fyrirtæki sem hanna slík- an búnað hafa notfært sér sýn Stephensons og tekið upp orðið avatar sem nú er orðið að við- urkenndu hugtaki. Í annarri skáldsögu sinni, The Diamond Age (1995), heldur Stephenson áfram með pælingar sínar um sæborgir og samskipti manna og véla. Eða réttara sagt kvenna og véla, því nú er það kona – og konur – sem eru aðalsöguhetjurnar, konur sem alast upp með hjálp einskonar sæb- erbókar – sæbókar – sem talar við þær og segir þeim sögur og kennir þeim þannig í gagnvirku sambandi. Bók og barn verða samofin: mey- barnið verður sæborg. Að auki er bókin sér- staklega hönnuð til að stuðla að sjálfstæðri hugsun, jafnvel uppreisnargirni. Sú kynjafræðilega sýn sem einkennir Dem- antsöldina er einkennandi fyrir sæberpönkið, en bæði Neil Stephenson og William Gibson hafa sterkar kvenhetjur og leggja áherslu á upplausn hefðbundinna kynjahlutverka, og sterkar kvenhetjur birtast einnig í kvikmynd- um eins og Alien og Matrix. Hér blandast saman á óvæntan hátt vélbún- aður hannaður í hernaðarskyni og róttæk sýn á kyn, og kynþætti: því konur þær sem mest græða á sæbóklegu uppeldi Stephensons eru stúlkubörn þau sem Kínverjar bera út í þús- undum. Þær eru fóstraðar af þessum bókum í því skyni að gera úr þeim hermenn, en þær hafna valdi herforingja síns, og flykkja sér um aðalsöguhetjuna, stúlkuna Nell sem einnig er alin upp af sæbók. Svo tíðarandinn í aldarbyrjun í líki sæborgar er blönduð vera. Hún er samsett og fjölþætt, of- in saman úr ólíkum þráðum: eða þráðum sem við höfum hingað til álitið ólíka. Agaður hern- aður og uppreisnargjarnt pönk, maður og vél, bókmenntir og raunvísindi: öllu ægir saman í mótsagnakenndri sæborginni. Við amma erum báðar sæborgir. Hún er jafn- vel meiri sæborg en ég því hún er með heyrn- artæki og sérstillanlegan síma sem hjálpar henni að heyra og hún gengur við göngugrind. Ég er hinsvegar bara þessi tegund sem hef að- lagað mig tækniheiminum að því marki að ég er handalaus án hennar. Þessi grein er til dæmis skrifuð jafnhliða stöðugum net-umræðum um efni hennar við írskan verkfræðing í Man- chester, sem ég kynntist fyrir átta árum og hef haldið netsambandi við síðan (rifrildi um hvort raunvísindi séu hlutlaus og algild í bland við heimspekilegar vangaveltur um sæborgir og zombíur). Fyrir mér eru samskipti okkar í gegnum tölvupóst „eðlileg“ og ég upplifi enga fjarlægð í okkar skrifum – svo fullkomlega er ég samsömuð tölvunni minni og tölvupóstum að mér finnst ég meira að segja nákomnari honum með skrifunum en ef við til dæmis töluðum sam- an í síma. Munurinn á sæborgskri tilveru okkar ömmu er því líklega fyrst og fremst spurning um upp- lifun og skilgreiningu. Meðan ég lít á mína til- vist sem sæborgska, myndi ömmu aldrei detta neitt slíkt í hug, og meðan ég skynja þessa sam- stýringu við vél sem jákvæða og sjálfsagða myndi ömmu örugglega finnast hún varhuga- verð. Hvorug getum við þó talist til hinnar útóp- ísku sæborgar sem vísindasagnfræðingurinn Donna Haraway samdi manifestó fyrir árið 1985. Sú sæborg er vera sem er laus undan klyfjum samfélagsins: þarsem hún rís nýsköp- uð upp úr sæbóli er hún „saklaus“ af vanda- málum kynja og kynþáttar: líkt og kínversku stúlkurnar í Demantsöldinni drepur þessi sæ- borg sig úr dróma vafasamrar fortíðar sinnar í hernaði og leysir úr læðingi nýtt mannkyn: sæ- kyn sæborgarinnar. Og sú sæborg, það er sæ- borgin mín. T ÍÐARANDI Í ALDARBYRJUN Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson „Lífi okkar er stýrt af vélum sem gera hvorttveggja í senn að skilyrða hegðun okkar og móta hana í ákveðin mynstur og form, og að fylgjast með okkur, hafa okkur undir samhæfðu eftirliti.“ Á SÆBÓLI: AMMA, SÆBORGIN OG ÉG E F T I R Ú L F H I L D I D A G S D Ó T T U R Höfundur er bókmenntafræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.