Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2001, Side 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. FEBRÚAR 2001 9
L
ÉV Nikolajevítsj Tolstoj, greifi og
rithöfundur, var goðsögn í lifanda
lífi og fáir rússneskir rithöfundar
eru jafn mikið lesnir og hann. Næg-
ir þar að nefna verk á borð við Stríð
og frið og Önnu Karenínu sem gefin
voru út sem eins konar framhalds-
verk í „þykkum“ rússneskum tíma-
ritum sem svo voru nefnd. Verkum Tolstojs
hefur ekki að ósekju verið lýst sem skáldsög-
um sem „rúma allt“ og draga nafn sitt af um-
fangi þeirra. Tolstoj var jafnan tamt að styðj-
ast við eigið lífshlaup í bókum sínum og í Önnu
Karenínu er venjulega litið svo á að hinn fram-
sækni athafnamaður og sveitamaður, Ljovín,
sem kemur til Moskvu til að biðja um hönd
Kittýjar, sé höfundur sjálfur og málpípa skoð-
ana hans. Fyrir þá sem hafa fylgst með sjón-
varpsþáttaröðinni sem byggð er á Önnu
Karenínu í Ríkissjónvarpinu undanfarna
sunnudaga er fróðlegt að hafa þetta í huga.
Tolstoj var einnig mikilsvirtur smásagnahöf-
undur og þar gætir ýmissa áhrifa frá lífshlaupi
höfundar sem ekki hafa verið áberandi í skrif-
um um Tolstoj og verk hans enda trúlega gild
ástæða fyrir því.
Djöfullinn
Árið 1889, þegar Tolstoj var rúmlega sex-
tugur að aldri, skrifaði hann smásöguna Djöf-
ulinn sem er oftast nefnd í sömu andrá og tvær
aðrar sögur höfundar; Kreutzersónatan, sem
hefur verið þýdd á íslensku, og Faðir Sergí.
Saman mynda sögurnar trílógíu og er þema
þeirra tortímingarmáttur holdlegrar freistni
og fullkomið skírlífi sem eins konar svar við
þeirri vá en þessi mál voru höfundi hugleikin á
síðari hluta ferilsins. Djöfullinn var þó ekki til
þess fallin að vekja athygli eins og hinar sög-
urnar tvær. Í fyrsta lagi var hún samin í mikl-
um flýti, í henni gætir nokkurs ósamræmis og
eins hefur hún að geyma tvenn ólík sögulok. Þá
var hún ekki gefin út fyrr en að höfundi látnum
og því óljóst hvað Tolstoj ætlaði sér með sög-
una eða hvort hann vildi að hún yrði gefin út.
Þótt Djöfullinn teljist ekki til bókmenntalegra
afreka líkt og stærri verk höfundar varpar hún
engu að síður nýju ljósi á „manninn“ Tolstoj.
Sá maður er í reynd nokkuð ólíkur rithöfund-
inum Tolstoj sem þreyttist seint á að beina
mönnum á réttu brautina í átt að fullkomnara
líferni.
Í Djöflinum segir frá óðalsbónda nokkrum
sem hefur nýlega tekið við búi föður síns og
stofnar til náinna kynna við vinnukonu í þorp-
inu. Síðar, eftir að óðalsbóndinn er orðinn ráð-
settur maður, fara kenndir hans í garð vinnu-
konunnar að láta kræla á sér á nýjan leik.
Óðalsbóndinn þarf að taka á öllu sem hann á til
tilað láta ekki bugast og halda fram hjá eig-
inkonu sinni og lendir í miklu sálarstríði í kjöl-
farið sem hefur ófyrirséðar afleiðingar.
Hér hafa ýmsir ályktað að höfundur sé að
draga upp eins konar víti til varnaðar og
hvernig freistingin getur tortímt jafnvel bestu
mönnum eins og aumingja óðalsbóndanum.
Samúð höfundar er allan tímann með honum
og titill sögunnar vísar í kvendjöfulinn sem
vekur með honum þessar sterku kenndir og
dregur hann á tálar. Vert er að hafa í huga að á
þessum tímapunkti í skáldaferli höfundar hafði
Tolstoj í æ ríkari mæli snúið sér að róttækari
gildum. Hann hafnaði ríkisvaldinu og hefð-
bundinni kirkju, boðaði fullkomið skírlífi og af-
nám eignarhalds. Sé litið á ævi Tolstojs sjálfs
kemur hins vegar í ljós að furðu margt er líkt
með reynslu óðalsbóndans í sögunni um Djöf-
ulinn og reynslu höfundar.
Lýsti ástarfundum í dagbókum
Tolstoj er fæddur á ættarbúgarðinum Jasn-
aja Poljana í Túla-héraði árið 1828. Þar eyddi
hann mestum hluta ævi sinnar, skrifaði skáld-
sögur sínar, stýrði búi, rak skóla og bjó ásamt
eiginkonu sinni, Soffíu Andrejevnu, Sonju, en
þau eignuðust þrettán börn. Eins og jafnan var
um unga aðalsmenn á þeim tíma átti Tolstoj í
ástarsamböndum á sínum yngri árum, þá
ógiftur. Tolstoj var kominn vel yfir þrítugt
þegar hann giftist, árið 1862, en aðeins stuttu
fyrir hjónabandið hafði hann slitið öllu sam-
bandi við ástkonu sína, Aksinju. Áður en yfir
lauk eignaðist hún drenginn Tímofei sem að
öllum líkindum var lausaleiksbarn og sonur
Tolstojs.
Sonju, eiginkonu Tolstojs, var frá byrjun og
áður en þau giftust kunnugt um samband
bónda síns og Aksinju sem hafði staðið yfir í
fjögur ár. Reyndar var Aksinja sjálf gift en
fyrir afnám bændaánauðarinnar í Rússlandi
árið 1861 voru slík sambönd milli aðalsmanna
og ánauðugra kvenna ekki óalgeng. Sonju
gramdist mjög vitneskjan um Aksinju og
stuttu áður en þau gengu í hjónaband hafði
Tolstoj brugðið á það ráð að sýna henni dag-
bækur sínar sem höfðu meðal annars að geyma
lýsingar á ástarfundum þeirra. Þetta gerði
hann til að hreinsa loftið og „leyna hana engu“
eins og hann orðaði það.
Tolstoj átti eftir að eiga í basli með kenndir
sínar til kvenna síðar á lífsleiðinni. Rúmlega
fimmtugur að aldri, árið 1880, fór hann að veita
matráðskonunni á bænum sérstaka athygli.
Athyglin jókst stöðugt og varð að þráhyggju.
Til er skemmtileg frásögn af því hvernig Tol-
stoj „féll“ næstum fyrir matráðskonunni.
Hann hafði lengi vel látið sér nægja að horfa á
hana úr fjarlægð en eitt sinn kallaði hann á
hana, spjallaði stuttlega við hana og kom á
stefnumóti úti í skógi daginn eftir. Næsta dag,
á leið sinni út í skóg, þurfti Tolstoj að ganga
fram hjá skólastofu barna sinna en í sömu
andrá og hann gekk fram hjá stakk Ilja, sonur
hans, höfði út um gluggann og minnti föður
sinn á grískutímann sem hann hafði lofað að
kenna. Tolstoj lét sér segjast og kenndi grísku
í þetta sinn. Það var í raun ekki fyrr en hann
sagði matráðskonunni upp vistinni að hann
jafnaði sig fyllilega.
Þessi tvö atvik, samband hans og Aksinju á
sínum yngri árum og áhuginn á matráðskon-
unni, urðu að lokum efniviður í söguna um
Djöfulinn að viðbættu öðru atviki, svokölluðu
máli Friedrikhs, sem átti sér stað 15 árum áð-
ur en sagan var rituð skammt þaðan sem Tol-
stoj bjó þegar Friedrikh nokkur banaði fyrrum
ástkonu sinni en hann hafði þá gifst nokkru áð-
ur.
Tolstoj í Önnu Karenínu
Í upphafi var minnst á að Tolstoj hefði áður
notast við sjálfsævisögulega atburði í verkum
sínum og nægir hér að nefna Stríð og frið og
Önnu Karenínu. Í Önnu Karenínu er jafnan lit-
ið svo á að höfundur ljái Konstantín Dmítrítsj
Ljovín, óðalsbónda sem fer til Moskvu til að
biðja um hönd Kittýjar, skoðanir sínar og lífs-
viðhorf. Ástin sameinar þau að lokum á meðan
ást Önnu til Vronskís verður henni að falli.
Hvað óðalsbóndann í Djöflinum og Ljovín í
Önnu Karenínu varðar er þó varhugavert að
ætla að leggja þá að jöfnu. Báðir eiga þeir
reyndar kvennafortíð að baki og hafa óbilandi
trú á hjónabandinu. Þeir búa engu að síður við
ólíkar kringumstæður og hafa ólíkan bak-
grunn. Óðalsbóndinn er borgarbarn sem flyst í
sveitina á meðan Ljovín lifir fyrir sveitalífið og
fyrirlítur borgina. Þá er óðalsbóndinn vanur
því að hafa „átt í samböndum við konur af ýmsu
tagi“ á meðan Ljovín hefur einhverja reynslu
af konum en hefur aldrei sóst eftir kvennafari
sem sjálfsögðum hlut og finnst lauslæti fyr-
irlitlegt. Segja má að óðalsbóndinn í Djöflinum
sé því öðrum þræði Ljovín sem yrði fyrir því að
lostinn gripi hann heljartökum.
Kynhvötin: Verkfæri hins illa
Þegar Tolstoj var kominn fast að áttræðu
játaði hann fyrir ævisöguritara sínum, Birjú-
kov, að samband hans við ástkonu sína forðum
(Aksinju) ylli honum enn hugarangri. Með rit-
un Djöfulsins hafði Tolstoj í aðra röndina fylgt
kristinni játningarhefð en öðru fremur lá að
baki eindregin skoðun hans að telja kynhvöt-
ina verkfæri hins illa sem stæði í vegi manns-
ins í átt að siðferðilegri fullkomnun. Á hinn
bóginn er einnig ljóst að Tolstoj dró síðar meir
úr hörku þeirra kenninga er hann boðaði öðr-
um. Í þessu sambandi er forvitnilegt að hafa til
hliðsjónar bréf sem hann ritaði útgefanda sín-
um, Tsjertkov, dagsett 14. júlí, 1898 og varðar
m.a. mál Dúkhobora, rússnesks sértrúarsafn-
aðar, en Tolstoj hafði lofað þeim ágóðanum af
nokkrum óútgefnum sögum sínum.
Tolstoj skrifar: „Þessar sögur [Upprisan,
Faðir Sergí og Djöfullinn] eru skrifaðar á minn
gamla máta og sem ég er ósammála í dag. Ef
ég held áfram að endurbæta þær þar til ég er
ánægður með þær mun ég aldrei ljúka við þær.
Þar sem ég hef lofað þeim í hendur útgefanda
verð ég að láta þær af hendi eins og þær eru.“
Þess má geta að hvorki Djöfullinn né Faðir
Sergí voru gefnar út fyrr en að höfundi látnum.
Þegar öllu er á botninn hvolft er það ekki
eingöngu hviklyndi Tolstojs gagnvart eigin
kenningasmíð sem blasir við þegar verk hans
eru skoðuð heldur lifði skáldið aldrei fyllilega
sjálfur eftir þeim kenningum sem hann boðaði
öðrum sem vonlegt var. Þetta á m.a. við um
kenninguna um fullkomið skírlífi og tortíming-
armátt holdlegrar freistni sem minnst var á
áðan. Enginn vissi þetta betur en höfundur
sjálfur sem kaus að flétta eigin reynslu af
kvennamálum við eina af smásögum sínum.
Tolstoj hafði áður gert tilraun með slíkt í
stærri verkum sínum, einkum í Önnu Karen-
ínu, en aldrei jafn afdráttarlausa og í Djöfl-
inum.
Heimildir:
Christian, R.F. 1969. Tolstoy – a critical introduction.
Cambridge, University Press.
Foote, Paul. 1982. „Introduction“. Tolstoy, Leo. Mast-
er and man and other stories. [Great Britain], Pengu-
in Books.
Gifford, Henry. 1982. Tolstoy. Oxford University
Press.
Kolstø, Pål. Sannhet i løgn. Lev Tolstoj og den orto-
dokse tro. 1994. [Avhandling presentert for den filo-
sofiske doktorgrad ved Universitetet i Oslo].
Matlaw, Ralph E. (ritstj.) Tolstoy – a collection of
critical essays. 1967. New Jersey, Prentice-Hall, Inc.
& Englewood Cliffs.
Noyes, Georg Rapall. 1968. Tolstoy. New York, Dover
Publications, Inc.
Simmons, Ernest J. 1960. Leo Tolstoy. Volume I: The
years of Development, 1828–1879. New York, Vintage
Books.
Simmons, Ernest J. 1960. Leo Tolstoy. Volume II:
The years of Maturity, 1880–1910. New York, Vintage
Books.
Smírnova, E.S. (ritstj.) 1985. (s. 507–8). Tolstoj, L.N.
Povestí, rasskazy. Moskva, Sovetskaja Rossíja.
Tolstoj, Alexandra. 1955. Min far – Leo Tolstoj. Stock-
holm, Natur och Kultur.
Tolstoi, Leo. 1941–’44. Anna Karenina. Þýð. Magnús
Ásgeirsson og Karl Ísfeld. Reykjavík, Bókaútgáfa
Menningarsjóðs.
Tolstoj, L.N. 1985. „D’javol“. Povestí, rasskazy.
Moskva, Sovetskaja Rossíja.
Tolstoj var goðsögn í lifanda lífi. Eiginkona hans ritaði eftirfarandi í dagbók sína: „Ef þeir [les-
endur Tolstojs] gætu eitt augnablik litið augum það ástríka líferni sem Ljovotska [Tolstoj] lifir –
það eina sem gerir hann ánægðan og blíðan – þá myndu þeir steypa þessum litla guði sínum af
stallinum sem þeir hafa hafið hann upp á.“
KVENNA-
MAÐURINN
TOLSTOJ
E F T I R K R I S T J Á N G E I R P É T U R S S O N
Smásagan Djöfullinn eftir rússneska rithöfundinn
Lév Tolstoj varpar óvæntu ljósi á „manninn“ Tolstoj.
Sá maður er í reynd nokkuð ólíkur rithöfundinum
Tolstoj sem þreyttist seint á að beina mönnum
á réttu brautina í átt að fullkomnara líferni.
Djöfullinn kallast þannig á við líf Tolstojs
eins og skáldsagan Anna Karenína sem samnefnd
þáttaröð í Ríkissjónvarpinu byggist á.
Höfundur er BA í rússnesku og menningarfræðum
Rússlands og A-Evrópu og
nemi í hagnýtri fjölmiðlun.