Lesbók Morgunblaðsins - 03.03.2001, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. MARS 2001 7
una sem líkingu fyrir sálarástand mannsins,
yfir raunsæið um miðja öldina eins og það birt-
ist í verkum manna eins Courbet og til loka
nítjándu aldar með verkum impressjónistanna
eins og Monet, Pissarro og Sisley. Þá eru enn-
fremur verk eftir Cézanne á sýningunni,“ seg-
ir Ólafur.
Varpar ljósi á íslenska
landslagslist
Að sögn Ólafs er hér á ferð tímamótasýning,
ekki síst vegna þess að þetta er í fyrsta sinn
sem verk helstu listamanna Frakklands frá
þessu tímabili eru sýnd í íslensku safni. „Þessi
sýning hefur líka mikið gildi fyrir Íslendinga,
þar sem landslagslistin hefur svo sterka stöðu
og að vissu marki ætti sýningin að geta varpað
ljósi á þá íslensku landslagslist sem vex fram í
byrjun 20. aldarinnar,“ heldur hann áfram.
„Upphaf málsins var að við í Listasafni Ís-
lands höfðum samband við forstöðumann Petit
Palais fyrir um tveimur árum til að kanna
möguleika á því að sýna franska nítjándu ald-
ar list. Þá kom í ljós að þar var verið að móta
þessa sýningarstefnu vegna framkvæmdanna,
sem sé að senda sýningar til valinna safna víða
um heim undir yfirskriftinni Sendifulltrúar
Petit Palais. Sýningin fer einnig til Bergen og
Kaupmannahafnar enda ekki alveg eins dýrt
að flytja sýninguna milli landa þegar þrjár
stofnanir geta staðið að því í sameiningu. Ég
vonast til að þessi sýning verði upphafið að
aukinni samvinnu Listasafns Íslands við hin
stóru söfn í Evrópu og að við eigum í framtíð-
inni von á að fá hingað fleiri stórar listsögu-
legar sýningar,“ segir Ólafur og upplýsir að
hann eigi nú þegar í viðræðum við Tretyakov-
safnið í Moskvu um sýningu á rússneskri alda-
mótalist.
Í tilefni sýningarinnar Náttúrusýna hefur
verið gefin út vegleg sýningarskrá með grein-
um eftir Isabelle Collet, Marie-Christine
Boucher, Maryline Assante og Dominique
Boudon, listfræðinga hjá Petit Palais-safninu í
París, í íslenskri þýðingu Sigurðar Pálssonar.
Í sýningarskránni er að finna almenna texta
um stöðu landslagsmálverksins í evrópskri
myndlist frá 17. öld til 19. aldar ásamt stuttum
textum um hvert einstakt verk á sýningunni.
Sýningarskráin er gefin út í samvinnu við
Bergen Kunstmuseum í Noregi og er hún á
þremur tungumálum; íslensku, norsku og
frönsku.
Maurice Denis: Konur að baða sig, hluti af þriggja fleka samstæðunni Kvöld í Flórens, 1910.
Þemað í myndunum mun vera fengið beint úr Tídægru eftir Boccacio, einn helsta rithöfund Ítala
á fimmtándu öld. Í sýningarskrá segir frá því að Maurice Denis hafi fimmtán ára gamall fengið
hugljómun frammi fyrir mynd fra Angelico, Krýning Maríu meyjar, í Louvre-safninu. Þessi reynsla
beindi honum á braut listarinnar. Hann lærði myndlist í Julian-akademíunni og þar kynntist hann
Ranson, Bonnard, Sérusier, Vuillard og Roussel og með þeim síðastnefnda stofnaði hann Nabis-
hópinn svokallaða en „nabi“ merkir spámaður. Vinir hans kölluðu hann „nabi hinna fögru íkona“
og varð hann fljótlega málsvari hópsins. Árið 1890 birti hann í tímaritinu Art et Critique stað-
hæfingu sem átti eftir að hafa mikil áhrif í sögu nútímamálaralistar. Þar skilgreindi hann mál-
verk sem „sléttan flöt þakinn litum samkvæmt ákveðnu skipulagi.“ Þessi kenning hans varð til
þess að nú er litið á hann sem einn af fyrirrennurum abstraktlistar.
Alphonse Osbert: Kvöld í fornöld, 1908. Osbert gat sér snemma gott orð sem höfundur tákn-
rænna málverka og viðkvæmnislegra pastelmynda á svipuðum nótum og Puvis de Chavannes.
Hann tók reglulega þátt í sýningum Rósakrossins, sem Sâr Peladan stóð fyrir á árunum 1892–
1897, og tók brátt að líta á listina sem trúarbrögð fegurðarinnar. „Í myndum af ímynduðu lands-
lagi, þar sem listagyðjur fornaldar eru á kreiki, tekst Osbert með fínlegu birtu- og litaspili að
miðla angurværu andrúmslofti og þema sem var efst á baugi undir lok nítjándu aldar, þ.e. rás
tímans. Í þessari mynd leitar málarinn að tjáningu nýrrar andlegrar göfgi með því að leita í ein-
faldleika náttúrunnar og miðlar hér kvöldandakt við sólarlag. Í strangri myndbyggingu er stillt
upp sem andstæðum annars vegar höfuðskepnum, jörð, vatni, lofti og láréttu ofurefli þeirra, og
hins vegar lóðréttum hverfulleika hins skapandi anda sem listagyðjurnar eru fulltrúar fyrir. Sam-
spil andstæðra lita undirstrikar þessar táknrænu andstæður; appelsínugult og fjólublátt,“ segir í
sýningarskrá.
Alfred Sisley: Kastaníutrjágöng í Celle-Saint-Cloud, 1865. Í sýningarskrá segir um málverkið að
það sé ein elsta mynd sem varðveist hafi eftir Sisley. Stærðin sé óvenjuleg fyrir þennan málara
og bendi það hugsanlega til þess að hann hafi málað hana fyrir Salon-samkeppni og dómnefndin
hafnað henni, enda hafi menn þá lítinn áhuga haft á að opna sýningarnar fyrir ungum landslags-
málurum. „Sisley var búsettur í París til ársins 1870 og fór um allt nágrennið í leit að myndefni.
Þeir Renoir fóru oft saman út í þorpið Marlotte sem er í jaðri Fontainebleu-skógar. Celle-Saint-
Cloud er tuttugu kílómetrum vestan við París og varð fastur viðkomustaður raunsærra lands-
lagsmálara eftir að Paul Huet og Charles-Francois Daubigny byrjuðu að mála þar. Í augum Par-
ísarbúa er skógurinn útivistarstaður enda glittir í tvo menn á skemmtigöngu í skugga kast-
aníutrjánna ef vel er að gáð. Frumleiki myndarinnar felst í því að forgrunnurinn er næstum auður
og mynddýpt landslagsins næst fram með skuggasvæðum og ljósum svæðum en birtunni komið
til skila með stórri pensilskrift,“ segir í sýningarskrá.
Meindert Hobbema: Myllurnar, 1664-1668. Hobbema bjó alla tíð í Amsterdam og fékk ungur
inngöngu í vinnustofu Jacobs van Ruisdael og eignaðist hann að vini. Í sýningarskrá segir að
þetta málverk hafi notið þvílíkra vinsælda á nítjándu öld að árið 1873 hafi birst um það mikil
grein í Stóru alfræðibók Larousse, miklu lengri en sú sem fjallaði um listamanninn sjálfan. Hobb-
ema gerði margar eftirmyndir af þessu málverki. „Á þessum árum er list hans að verða sjálf-
stæðari og óháðari Ruisdael; litirnir eru sterkari, teikningin nákvæmari, stíllinn léttari og loft-
kenndari og andrúmsloft öðruvísi ljóðrænt. Eins og samtíðarmennirnir notar hann takmarkaðan
litaskala af grænu og brúnu sem miðlar tilfinningu fyrir einum lit, en ólíkt þeim lyftir hann þess-
um eintóni upp með skærrauða litnum á tígulsteinaþakinu. Ljómandi blár himinn með hvítum
skýjum leggur enn meiri áherslu á dökkan massa trjánna,“ segir í sýningarskrá.
LEIÐSÖGN verður um sýninguna í
Listasafni Íslands sem hér segir:
Sunnudaginn 11. mars kl. 15: Margrét
Elísabet Ólafsdóttir fagurfræðingur.
Sunnudaginn 18. mars kl. 15: Stella
Sigurgeirsdóttir, safnkennari og
myndlistarmaður.
Sunnudaginn 25. mars kl. 15: Margrét
Elísabet Ólafsdóttir fagurfræðingur.
Sunnudaginn 22. apríl kl. 15: Stella
Sigurgeirsdóttir, safnkennari og
myndlistarmaður.
Fyrirlestur og umræður
um franska myndlist
Fimmtudaginn 22. mars kl. 20.30:
Nathalie Jacqueminet, listfræðingur á
Listasafni Íslands, flytur fyrirlestur-
inn „Á slóðum Náttúrusýna: Straumar
og stefnur í franskri myndlist á 19.
öld.“
Fimmtudaginn 29. mars kl. 20.30: Pall-
borðsumræður í tengslum við sýn-
inguna um náttúrusýn íslenskra lista-
manna á 20. öld í samvinnu við
Listaháskóla Íslands.
Listasafn Íslands er opið þriðjudaga til
sunnudaga kl. 11–17, nema fimmtu-
daga, þá er opið til kl. 22, einnig á skír-
dag. Lokað mánudaga, nema hvað opið
verður á annan í páskum, 16. apríl nk.
Safnið er lokað á föstudaginn langa, 13.
apríl.
Kaffistofan á 2. hæð safnsins er opin á
almennum afgreiðslutíma.
Veitingar Sveins Kjartanssonar, mat-
reiðslumanns kaffistofunnar, verða
með frönsku ívafi meðan á sýningunni
stendur.
Sýningin verður opnuð almenningi á
þriðjudag kl. 11 og henni lýkur 22.
apríl.
LEIÐSÖGN
OG
UMRÆÐUR