Lesbók Morgunblaðsins - 03.03.2001, Blaðsíða 19
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. MARS 2001 19
INGUNN Ósk Sturludóttir söngkona ogbóndi í Vigur heldur söngtónleika í tón-leikasalnum Ými við Skógarhlíð í dag kl.16. Með henni leika Guðrún Anna Tóm-
asdóttir píanóleikari og Þórunn Ósk Marínós-
dóttir víóluleikari. Efnisskráin verður fjöl-
breytt, en þar verða m.a. fluttar þjóðlaga-
útsetningar eftir Brahms og ljóðasöngvar eftir
Granados, Tsjajkovskíj, Sigvalda Kaldalóns og
Atla Heimi Sveinsson.
„Þessir tónleikar eru tileinkaðir minningu
systur minnar, Snjólaugar G. Sturludóttur, en
hún lést úr krabbameini á síðasta ári,“ segir
Ingunn. „Hún var mikil áhugamanneskja um
tónlist og hefur alltaf verið mér mikill hvati í
því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Til stóð
að halda þessa tónleika fyrir ári, en var frestað
þar til nú vegna veikinda Snjólaugar. Engu að
síður má segja að efnisskráin sé dálítið tilfinn-
ingaþrungin.“
Á gúmmíbát á tónleika
Ingunn Ósk býr í Vigur í Ísafjarðardjúpi þar
sem hún stundar búskap og rekur ferðaþjón-
ustu ásamt eiginmanni sínum, Birni Baldurs-
syni, í félagsbúi við bróður Björns og konu
hans, jafnframt því sem hún leggur stund á
tónlistina. Hún hefur kennt við Tónlistarskól-
ann á Ísafirði og tekið þátt í tónlistarlífi bæj-
arins. Ingunn flutti vestur árið 1995, en hafði
skömmu áður lokið prófi frá ljóða- og óperu-
deild Tónlistarháskólans í Amsterdam. Ingunn
segir að það hafi aldrei verið ætlunin hjá sér að
verða bóndi vestur á fjörðum. „Ég hafði aldrei
stigið fæti í sveit fyrr en ég kynntist mann-
inum mínum. Þetta æxlaðist þannig að ég kom
sem gestur í Vigur ásamt systur minni Snjó-
laugu, en heillaðist svo af bóndasyninum, að ég
átti ekki afturkvæmt. Þetta er kannski dálítið
sérstök samsetning að vera bóndi og söng-
kona, en það má eiginlega segja að ég hafi látið
hjartað ráða för.“
Þegar Ingunn er spurð hvernig gengið hafi
að samræma bústörfin og sönginn segir hún
það kosta mikinn sjálfsaga. „Hvað sem á hefur
gengið hef ég sótt söngtíma reglulega til að
halda mér við, og hef farið í bæinn til þess. Ég
hef verið hjá Sigríði Ellu Magnúsdóttur og
Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur. Þær hafa verið
duglegar að halda mér við efnið.“ Þá bendir
Ingunn á að Ísafjörður sé mjög blómlegur og
rótgróinn tónlistar- og menningarbær. „Það
eru því hæg heimatökin að bregða sér yfir
djúpið á gúmmítuðrunni til að syngja við ýmis
tækifæri. Maður fær sér bara heitt te eftir sjó-
ferðina og drífur sig svo í sparifötin,“ segir
Ingunn en bætir því við að hún sé reyndar
mjög háð veðri með þessa hluti. Annars segir
Ingunn það yndislegt að búa í Vigur, sérstak-
lega á sumrin, enda geti veturnir orðið nokkuð
harðir. Hún hefur þó tekið sér dálítið hlé frá
söngnum undanfarið þar sem hún hefur staðið
í barneignum, eignaðist tvö börn á tveimur ár-
um. „Nú er ég hins vegar að fara af stað aftur,“
segir Ingunn.
Þjóðlög og ljóðasöngvar
Ingunn og Guðrún Anna hafa þekkst frá því
að þær stunduðu nám í Tónlistarháskólanum í
Amsterdam. Þær héldu saman tónleika á Ísa-
firði á þriðjudaginn síðastliðinn og fluttu nokk-
uð af þeim lögum sem eru á efnisskrá tón-
leikanna í Ými á morgun. „Það bætast við
nokkur lög sem samin eru fyrir söng, píanó og
víólu og fengum við Þórunni Ósk til að leika
með okkur,“ segja þær Ingunn og Guðrún.
Tónleikarnir munu hefjast með spænskum
ljóðasöngvum eða „Tonadillas“, eins og það út-
leggst á frummálinu. „Tonadillas eru léttir og
alþýðlegir skemmtisöngvar sem tíðkaðist að
flytja í hléum í leikhúsum við gítarundirleik.
Granados samdi þessa tónlist í þeim anda um
1913 fyrir söng og píanó, og endurlífgaði þann-
ig þessa stemmningu,“ segir Ingunn. „Síðan
förum við út í Brahms og leikum þjóðlagaút-
setningar og tvö sönglög fyrir alt, píanó og
víólu. Brahms mun hafa litið til gömlu barokk-
aríunnar í þessu verki og lagað það form að
sínum eigin stíl. Hann fær víólunni obligato-
hlutverkið og úr verður afar „brahmsískt“
kammerverk. Því næst verða fluttir rússneskir
ljóðasöngvar eftir Tsjajkovskíj. Þeir eru allir
mjög tilfinningaþrungnir og dramatískir,“ seg-
ir Ingunn, en hún mun syngja lögin á frönsku,
þýsku og rússnesku. „Með rússneska fram-
burðinn naut ég leiðsagnar nágrannakonu
minnar í næstu eyju, Æðey, en hún er rúss-
nesk og hefur þar vetursetu ásamt manninum
sínum. Þau eru bæði myndlistarmenn. Ég
skaust bara yfir í kaffi og fékk þar stranga
framburðarkennslu. Þetta eru svoddan heims-
borgarar sem búa í Ísafjarðardjúpinu,“ segir
Ingunn og hlær. Tónleikunum lýkur með ís-
lenskum sönglögum eftir Atla Heimi Sveins-
son, sem eru í miklu uppáhaldi hjá þeim Guð-
rúnu Önnu, og Sigvalda Kaldalóns, „og þar er
komin tengingin við Vestfirðina“, segir Ingunn
að lokum.
Ingunn Ósk Sturludóttur á söngtónleikum í tónleikasalnum Ými í dag kl. 16
TÓNLEIKAR Í MINNINGU SYSTUR
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðrún Anna Tómasdóttir og Ingunn Ósk Sturludóttir á æfingu.
VERKIÐ á myndinni nefnist Kona með slör
og er eftir listamanninn Louis Anquetin.
Kona með slör var málað árið 1891 en
myndin er nú í hópi um 70 listaverka á sýn-
ingunni Vincent van Gogh og listamenn Petit
Boulevard sem nú stendur yfir í Listasafni St.
Louis í Bandaríkjunum.
Kona
með slör
AP