Lesbók Morgunblaðsins - 31.03.2001, Side 13

Lesbók Morgunblaðsins - 31.03.2001, Side 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 31. MARS 2001 13 beri af öllum öðrum málum. Og það græðir eng- inn neitt á því að við látum það fyrir róða. Ekki umheimurinn og ekki við. Máldýrkendur rangfæra oft frægar ljóðlínur eftir Einar Benediktsson og segja: Ég skildi að orð er á íslensku til um allt sem er hugsað á jörðu. Ég veit þið kannist við þetta, en því miður er þetta ekki svona, heldur: Ég skildi að orð er á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu. Munurinn er ef til vill ekki mikill, en seinni gerðin, sú rétta, heldur þó að minnsta kosti opn- um þeim túlkunarmöguleika að skáldið hafi meint að auk þeirra orða sem finna mætti í ís- lensku væri einnig á Landsbókasafninu gott úr- val erlendra orðabóka sem kynnu að dekka greiðlega ýmis afstrakt hugtök sem ekki eru til á íslensku, eða voru það að minnsta kosti ekki þegar ljóðið var ort. Hvað sem því líður er hitt þó alveg víst að þessar ljóðlínur fela í sér mikinn sannleik nú á dögum þegar allmikill fjöldi fólks af erlendum uppruna hefur góðu heilli sest hér að. Orðaforð- inn á Íslandi hefur ábyggilega aldrei verið fjöl- breyttari, þó ekki sé hann allur á íslensku. Nokkuð hefur verið rætt um viðhorf nýbúa til íslenskrar tungu og kröfur Íslendinga um ís- lenskuþekkingu þeirra sem setjast hér að til frambúðar. Ég ætla ekki að fjölyrða um það, en vonandi verður komið inn á þau mál betur hér síðar. Ég held að kröfur um íslenskukunnáttu séu mjög þarfar og eðlilegar fyrir alla aðila, en þeim verður auðvitað að fylgja raunhæft og öfl- ugt framboð á kennslu sem lagar sig að nem- endunum. Ég vil auk þess aðeins segja það, að ég held að Íslendingar séu almennt mjög já- kvæðir gagnvart öllum útlendingum sem leggja það á sig að læra þetta erfiða og örsmáa tungu- mál. Og til þess eru alveg ótrúlega margir reiðu- búnir, bæði af nauðsyn vegna búsetu hér, og eins algjörlega ótilkvaddir víða um veröld vegna áhuga á málinu og bókmenntum þess. Okkur ber að sjálfsögðu að örva slíkt og hlúa að því á alla enda og kanta. Íslendingar munu líka smátt og smátt gerast vanari því að heyra íslensku tal- aða með ýmiskonar erlendum hreim og stöku beygingarvillum hér og hvar án þess að þurfa endilega að stökkva upp á nef sér eða gera grín að því. Flestir munu þar taka viljann fyrir verk- ið. Þar er reyndar eins og hver sjái sjálfan sig, öll erum við útlendingar ef við bregðum okkur út fyrir landsteinana. Vandamálið er hinsvegar að Íslendingar eru núorðið alltof reiðubúnir að fara umsvifalaust að tala ensku við þetta fólk og átta sig stundum ekki á því að oft er það ákaflega illa að sér í þeirri tungu, ekkert síður en íslensku. Kannski er of djúpt tekið í árinni að segja að þannig sé stundum farið úr öskunni í eldinn, en að minnsta kosti er einatt farið úr öskunni í öskuna. Þarna erum við komin að því stóra vandamáli sem Jóhannes heitinn Birkiland kallaði á sínum tíma „sefjun enskufargansins“ en það hefur raunar aukist og magnast mjög síðan hann mælti þau frómu orð. Að þessu sögðu og áður en ég held lengra vil ég taka skýrt fram að ég er og hef alltaf verið mikill aðdáandi enskrar tungu og áhugamaður um allt sem að henni lýtur. Og svo ég haldi áfram með ástarlíkingar vil ég láta þess getið að ég hef reyndar mjög lengi haft hana ásamt sænsku sem hjátungu. Þegar ég var lítill var til tungumál sem hét út- lenska. Við reyndum oft að tala þetta mál. Seinna lærðist manni auðvitað að þetta var ekki eitt mál, heldur var um margar og mismunandi þjóðtungur að ræða. En nú má hins vegar segja að útlenskan sé komin aftur og að þessu sinni bara ein. Íslendingar halda upp til hópa að út- lönd tali ensku og aftur ensku og ekkert annað. Liggur þá ekki bara beinast við að bætast í hópinn? Fyrir nokkrum árum varð hér mikið rama- kvein út af meintri vanþekkingu Íslendinga í stærðfræði. Singapore varð um hríð að Paradís á jörð. Ég náði því að vísu aldrei í hverju þessi vá átti að vera falin. Sjálfur hef ég aldrei skilið af hverju 3+2 er 5, en ekki alveg eins eitthvað allt annað og hefur þó vegnað alveg ágætlega í líf- inu. Ég hef hinsvegar miklu meiri áhyggjur af lélegri málakunnáttu Íslendinga og hef oft sakn- að þess að vera ekki almennilega mælandi á fleiri erlend tungumál en raun ber vitni, þ.e.a.s. ensku og sænsku, það eru nú öll ósköpin, þrátt fyrir þokkalega meðalgreind og viðunandi stúd- entspróf úr máladeild í gamla daga þar sem öll- um bar skylda að nema fimm erlend mál frá tveimur og upp í fjóra vetur, þ.e.a.s. dönsku, ensku, þýsku, latínu og frönsku. Enn er ástandið svona í megindráttum, hefur bara versnað með auknu valfrelsi ef eitthvað er, því nú er einatt valið á milli þýsku, frönsku og spænsku með einhverjum hætti. Nemendur koma hér út úr framhaldsskólum talandi og skiljandi upp til hópa eitt erlent mál, þ.e.a.s. ensku, og hafa yfirleitt lært hana á flestum öðr- um stöðum en í skólanum. Er nokkur furða þó fólk haldi almennt að útlönd tali ensku og aftur ensku. Þá gleymist til dæmis að hér á næstu grösum í Evrópu eru til dæmis 100 milljónir manna sem hafa þýsku sem móðurmál og sjötíu og sjö milljónir sem tala frönsku, að ég minnist nú ekki á þær 358 milljónir um víða veröld sem hafa spænsku að móðurmáli. Mjög margt af þessu fólki hefur aldrei frétt það sem haft er fyr- ir satt hér á Íslandi að allir verði fyrst og fremst að kunna ensku og þar með sé tungumálabjörn- inn unninn í eitt skipti fyrir öll. Dönskukennslan er svo kapítuli út af fyrir sig. Nær allir Íslendingar sem ljúka framhalds- skólanámi hafa lært dönsku eða öllu heldur setið í dönskutímum í 7 vetur ef ekki 8. Danska er ágætt tungumál sem mér þykir vænt um, þó það geti reyndar verið alveg djöfullega og ergilega erfitt að skilja hana. Margt nytsamlegt hef ég lesið á því máli allt frá sjö ára aldri. Og þessi langa kennsla væri hugsanlega í lagi ef af henni leiddi eitthvert nám, þó danska sé auðvitað ekki ein af heimstungunum, ekkert frekar en ís- lenska. En ég held satt að segja að þetta hljóti að vera mislukkaðasta tungumálakennsluprój- ekt í víðri veröld og fer ekki ofan af því fyrr en einhver sýnir mér annað dæmi um árangurs- minna starf. Þegar fólk af þessum tveim þjóðum hittist nú á dögum fer það umsvifalaust að tala saman á einhvers konar ensku. Öld skandinav- ísku málanna lauk því miður á Íslandi upp úr 1983 þegar farið var að gefa Andrés önd út á ís- lensku. Það er stór spurning hvort ekki hefði átt að banna það. Mér finnst þetta mjög sárt, ég er eindreginn Norðurlandasinni og ég kafroðna af smán þegar ég heyri Íslendinga tala ensku við Norðurlanda- fólk. Og ég vil alveg endilega viðhalda því að við lærum norræn mál í skólum hér. Þessir nánustu frændur okkar og vinir í Evrópu eru þrátt fyrir allt hátt í tuttugu milljónir og margt til þeirra að sækja og tungumál þeirra svo lík hvert öðru að ef þessi lönd væru ein pólitísk heild væri talað um mállýskur en ekki mál. Um þetta má til dæmis sannfærast ef maður kaupir sér þvotta- vél þar sem leiðbeiningar á dönsku og norsku standa hlið við hlið. Ástandið er hins vegar orðið þannig hérlendis að það þykir ekki lengur neitt tiltökumál þó jafnvel hámenntaðir fréttamenn útvarps og sjónvarps tali ef því er að skipta ensku við Norðmenn og Færeyinga í fréttatím- um. Og viðmælendurnir svara þá iðulega með hrikalegri bjögun sinni á því ágæta máli. Allir hafa þessir fréttamenn þó væntanlega setið sín sjö ár í dönskutímum þægir og prúðir. Í stað þessara sjö árangurslausu dönskuvetra, legg ég til að sérhverjum íslenskum nemanda verði gert kleift og helst skylt að dveljast ein- hverntíma um miðbik námsferils síns sjö vikur samfleytt í einhverju Norðurlandanna til að læra mál viðkomandi þjóðar, en Íslendingar eru yf- irleitt mjög fljótir að því ef þeir neyðast til þess. Ég er viss um að þetta mundi spara mikið fé og skila um leið mun meiri árangri en núverandi dönskukennsla. En mest er þó um vert að losna mundi dýrmætur kennslutími í grunn- og fram- haldsskólum sem hægt væri að nota til að stórefla kennslu og einkum þó og sér í lagi nám í þýsku, frönsku og spænsku og jafnvel fleiri málum. Hluta af sparifénu mætti síðan nota til að senda dönskukennara í endurhæfingu til Frakklands, Þýskalands og Spánar. Þetta held ég gæti orðið mjög hollt til að sporna við hinum einhliða og alltumlykjandi enskuáhrifum sem margir hafa áhyggjur af um þessar mundir, jafnframt því sem það mundi opna og útvíkka sýn okkar á heiminn, og hafa þannig holl áhrif á okkar eigin mál og menningu. Ég er ekki frá því að þetta væri með því besta sem við gætum gert til að játa íslenskri tungu skilyrðislausa og brennandi ást okkar og færi vel á því á þessu ári tungumála sem nú stendur yfir. Greinin er lítið breytt erindi sem flutt var á málþingi um viðhorf til tungunnar á vegum Stofnunar Sigurðar Nordals 17. mars síðastlið- inn. Teikning/Andrés „... einmitt þannig ættu allir að elska móðurmálið sitt, hvort sem það er íslenska eða eitthvert annað mál.“ ÍSLENSKA OG ÚTLENSKA E F T I R Þ Ó R A R I N E L D J Á R N „Þegar ég var lítill var til tungumál sem hét útlenska. Við reyndum oft að tala þetta mál. Seinnaærðist manni auðvitað að þetta var ekki eitt mál, heldur var um margar og mismunandi þjóðtungur að ræða. En nú má hins vegar segja að útlenskan sé komin aftur og að þessu sinni bara ein. Íslendingar halda upp til hópa að útlönd tali ensku og aftur ensku og ekkert annað.“ Höfundur er rithöfundur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.