Lesbók Morgunblaðsins - 31.03.2001, Side 19
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 31. MARS 2001 19
H
ANN rogast með málverk,
stóran fleka, þegar mig ber
að garði. Við erum staddir
á jarðhæð Gerðubergs og
hann leggur flekann glað-
beittur frá sér og heilsar,
strokinn og settlegur að
vanda. Það er bersýnilega í
mörg horn að líta. Sjón er að þessu sinni í
hlutverki sýningarstjórans.
Hér er þá drasl? get ég ekki stillt mig um
að spyrja og vísa í dularfulla yfirskrift sýn-
ingarinnar, Drasl 2000. Ég er með listann yfir
verkeigendur í jakkavasanum og kemst ekki
hjá því að hleypa brúnum. Sjaldan sett þessa
sveit í samhengi við drasl. Hvaða árás er
þetta eiginlega?
„Þetta er engin árás,“ svarar Sjón hlæj-
andi. „Ég er alls ekki að veitast að þessu góða
fólki. Drasl er bara þema sýningarinnar, verk
sem fjalla um eða unnin eru úr drasli ýmiss
konar. Það hefur lengi viðgengist í myndlist
að raða saman drasli, allar götur frá því dada-
istarnir byrjuðu á því á sínum tíma. Ég hef
líka alltaf verið spenntur fyrir þessu, leikið
mér með drasl frá því ég var lítill. Leikur er
raunar lykilorð í þessu öllu saman. Það er
ekki ónýtt að geta leikið sér. Leikur er líka
ómissandi þáttur í listsköpun. Ef listamaður
stendur ekki í gamansömu sambandi við til-
veruna er erfitt að fylgja honum eftir. Ekki
svo að skilja að leikur geti ekki verið gráglett-
inn líka.“
Í yfirskriftinni felst sum sé engin yfirlýsing
um gæði verkanna. Öðru nær.
Klippimyndir Ferrós
Það kemur strax í ljós á jarðhæðinni.
„Þegar ég var beðinn um að setja upp
þessa sýningu fór ég að hugsa um hvað ég
vildi sjá. Til þess er leikurinn gerður. Ég
mundi strax eftir verkum sem ég hafði
heillast af sem unglingur, gamlar klippimynd-
ir eftir Erró sem ég sá í bókum,“ segir Sjón
og staðnæmist við röð lítilla mynda. „Hérna
eru þær komnar. Myndirnar eru unnar úr
tímaritum og það sem mér finnst mest spenn-
andi við þær er hvað þær eru ósjarmerandi.
Erró hefur „ruslað þessu saman“ áður en
hann varð poppaður. Meðan hann hét enn þá
Ferró. Þetta eru hráslagalegar myndir en ná
tökum á manni. Þær hafa aldrei verið sýndar
opinberlega áður en Listasafn Reykjavíkur
var svo vinsamlegt að lána þær á þessa sýn-
ingu.“
Næst ber fyrir augu ljósmyndaröð Magn-
úsar Pálssonar, Sólskríkja, mús, kengúra.
„Magnús byrjar hér á því að gera sólskríkju
úr drasli,“ segir Sjón og rýnir í verkið. „Tínir
hana síðan í sundur svo úr verður mús og loks
kengúra. Í þetta verk fer ekkert nema hauga-
matur og hugvit listamannsins.“
Málverkið sem getið var í upphafi er eftir
Ómar Stefánsson og nefnist Sjálfraðandi rusl.
Allt á tjá og tundri í þeim heimi.
Þarna er líka ljósmyndaverk eftir Friðrik
Þór Friðriksson, Sería um kjúkling. „Friðrik
gerði þetta verk 1977 þegar hann var enn þá
að reyna að smygla sér inn í raðir myndlist-
armanna. Við sjáum hvar kjúklingurinn
klekst út, brot úr æviskeiði hans og loks hvar
hann endar í maganum á þremur þjóðþekkt-
um Íslendingum.“
En þau örlög!
Úr ryksugupoka Haralds Jónssonar kemur
verk unnið sérstaklega fyrir sýninguna.
Hanga sýni af ló, ryki, hárum og kuski í pok-
um á vegg. „Maður getur ímyndað sér að
þetta sé landakort,“ veltir Sjón fyrir sér.
„Kannski heimskortabók ruslsins?“
Annað ryksuguverk er þar skammt undan.
Höfundur þess er Kristinn G. Harðarson.
„Hann hefur unnið mikið með sígarettu-
stubba og ryk og hér getur að líta sýnishorn
þeirrar vinnu. Ryksugan er öflugt tæki til
listsköpunar,“ segir sýningarstjórinn.
Á jarðhæð er einnig gert ráð fyrir mynd-
bandsverki eftir Ásmund Ásmundsson en það
er ekki komið í hús. „Ásmundur er þarna uppi
á húsþaki að rífa kjaft. Ruslkúltúrinn holdi
klæddur.“
Þegar við göngum upp stigann ljóstrar
Sjón því upp að myndlistin sé hans önnur
ástríða. „Ég var á myndlistarsviði í Fjöl-
brautaskólanum í Breiðholti og stefndi að því
að verða myndlistarmaður. Ég hef alltaf haft
gaman af því að lita og teikna og fann mig
snemma í því að búa til hluti. Ég fékk líka
vitrun, 15-16 ára gamall, féll fyrir súrrealism-
anum og fór að fara á myndlistarsýningar.
Raunar steig ég skrefið til fulls á sínum tíma,
hef haldið þrjár einkasýningar um dagana.“
En hvað gerðist?
„Ljóðið náði yfirhöndinni. Það er auðveld-
ara og snyrtilegra. Maður þarf að vera svolítil
sóðabrók til að vera í myndlist. Ég er eig-
inlega of fínn með mig,“ segir hann og brosir í
kampinn. „Mér fer betur að sitja með blað og
penna í hönd. Myndlistarbakgrunnurinn hef-
ur hins vegar nýst mér ágætlega. Ég nota
ýmsar hugmyndir þegar ég er að skrifa,
teikna persónur og annað í þeim dúr, jafnvel
heilu senurnar. Mér lætur vel að sviðsetja.
Mikið af ljóðunum sem ég hef skrifað eru
smámyndir. Þannig get ég staðið í þessu án
þess að skíta mig út á höndunum.“
Safnarðu myndlist?
„Já, ég hef gert tölvert af því að safna
myndlist. Ætli ég sé ekki að bæta mér þetta
upp með því að fá eitthvað upp á veggina. Ís-
lensk myndlist er í mjög háum gæðaflokki.“
Hurðir og hugdettur
Á efri hæðinni blasa fyrst við hugdettur
Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur. Innsetning
sem hún vinnur gagngert af þessu tilefni.
Kennir þar margra grasa en verkið er enn í
mótun.
Þar á vegg eru myndverk eftir Magnús
Kjartansson og Sigurð Örlygsson frá áttunda
áratugnum þegar þeir unnu ásamt Ómari
Skúlasyni töluvert með tákn úr veruleika aug-
lýsinganna. „Þeir héldu mjög kraftmikla sýn-
ingu með hráum samklipptum myndum sem
sætti tíðindum á sínum tíma. Ég sá þessa
sýningu sem unglingur og langaði að sjá
verkin aftur.“
Og þau hafa fundist!
„Já, þetta hefur verið heilmikil spæjara-
vinna líka. Reyndar fékk ég Aðalstein Ing-
ólfsson listfræðing mér til halds og trausts en
hann hefur fylgst feikilega vel með íslenskri
myndlist gegnum árin.“
Af öðrum toga er duftuð reykjarpípa Ingu
Svölu Þórsdóttur. Vistuð í krukku. „Inga
Svala hefur stundað þessa duftunarþjónustu
um tíma. Ef þig vantar duftun skaltu leita til
hennar.“
Sólveig Aðalsteinsdóttir á einnig verk á
hæðinni, þar sem hún „finnur mikla fegurð í
annars ónýtum hlutum“.
„Litið við hjá Jóni Gunnari“, frægt hurð-
arverk Hreins Friðfinnssonar frá því á sjö-
unda áratugnum, er á sýningunni og Sjón
bregður á leik fyrir ljósmyndara Morgun-
blaðsins, setur höndina í gegnum eitt gat
verksins. „Ég ætti kannski ekki að vera að
þessu?“ spyr hann flóttalegur. „Þetta má
sennilega ekki. Ég get ekki hætt á að verða
handtekinn við opnun sýningarinnar.“
Ekki verður þó aftur snúið.
Þessar vangaveltur leiða aftur á móti hug-
ann að því hvort mörg af þessum gömlu verk-
um séu ekki viðkvæm?
„Svo sannarlega. Mig lang-
aði að sýna ýmis önnur verk
en gat ekki fengið vegna þess
að þau eru unnin úr forgengi-
legu efni. Ég er þannig ekki
að gleyma neinum. Mönnum á
borð við Kristján Guðmunds-
son.“
Mitt í öllu þessu „drasli“
vaknar líka sú spurning hvort
Sjón sanki sjálfur að sér miklu
prjáli?
„Já, það safnast að mér al-
veg gífurlegt drasl. Ég er
haldinn söfnunaráráttu og fer
í Kolaportið svo til um hverja
helgi. Ég verð að gæta þess að
fara ekki á hausinn. Ég leita
að hinum ýmsu hlutum en
ljóstra því ekki upp hér. Það
gæti einhver orðið á undan
mér. Annars er listin gullgerð.
Maður tekur úrganginn og
hefur í efri hæðir með hugar-
orkunni einni saman. Saur er
til dæmis eitt af því sem er al-
gjörlega ómissandi þegar
menn ætla að búa til sitt eigið
gull.“
Í betri stofunni verður
Bragi Ásgeirsson fyrstur á
vegi okkar. „Þetta er um það
bil þrjátíu ára gamalt verk
eftir Braga sem ég mundi eft-
ir, myndverk þar sem hann
notast við leikföng. Gott dæmi
um það hvað fallegir hlutir
geta orðið til úr rusli. Það er
gaman að hafa Braga hérna,
sjá hann í samhengi við hina
listamennina á sýningunni.
Hann mætti sjást meira.“
Á miðju gólfi stendur skúlp-
túr úr svampi og tveimur
vatnsfylltum blöðrum. Hann
er á ábyrgð Margrétar Blön-
dal. „Hún ætlar að gera tvo til
þrjá svona skúlptúra til við-
bótar og mælist til þess að
þeim verði komið fyrir í gang-
veginum hérna frammi þar
sem þeir þvælist fyrir manni,“
upplýsir Sjón.
Hann vekur athygli á því að
það sé ekki fyrr en á allra síð-
ustu árum að konur fara að
vinna með drasl í myndlist.
„Við Aðalsteinn Ingólfsson er-
um sammála um það að þær
séu nýfarnar að rusla til.“
Hvernig stendur á því?
„Ætli það sé ekki kvenna-
baráttan?“
Önnur kona, Helga Óskars-
dóttir, sýnir abstraktverk í
stofunni. Byggir það á leyfum
af naglalakki. „Eins og þú sérð
er ruslið hér skoðað frá ýmsum hliðum.“
Matur sem drasl
Loks heyra til Drasli 2000 tvö málverk eftir
Þorra Hringsson. „Fólki finnst skrýtnast að
ég hafi valið þessi verk eftir Þorra. Þau eru af
mat. Ef betur er að gáð er þarna hins vegar
lýst matreiðsluaðferðum sem hefur verið
hafnað.“
Sum sé algjört drasl?
„Já. En fallega málað hjá Þorra.“
Það er nú það. Þannig er draslið. En hvaða
2000-þáttur er þetta?
„Hann kemur til af því að á síðasta ári,
2000, var framleitt meira af drasli en á
nokkru öðru ári aldarinnar sem leið, bolir,
húfur, servíettur og hvað þetta nú allt heitir.
Ég læt ekki mitt eftir liggja og í tilefni af sýn-
ingunni hafa verið framleiddar Drasl 2000-
derhúfur og fá fyrstu hundrað gestirnir hana
ókeypis. Hönnuðir húfunnar eru Haraldur
Jónsson og Ásdís Sif Gunnarsdóttir.“
Það er skammt stórra högga á milli hjá
Sjón en hann er nýkominn frá Los Angeles
þar sem hann var, sem kunnugt er, tilnefndur
til Óskarsverðlauna.
„Ég var rétt lentur þegar ég byrjaði að
setja sýninguna upp. Fólk heldur sennilega
að ég sé orðinn athyglissjúkur. Svo er ekki.
Það er bara tilviljun að þetta ber upp á svo til
sama tíma.“
En hvernig var vestra?
„Þetta var ótrúleg upplifun. Eins og að
vera staddur í frétt um einhvern allt annan
mann. Samt voru þetta ekki svo mikil læti.
Það var miklu afslappaðra andrúmsloft þarna
en til dæmis í Cannes í fyrra. Þar eru menn
svo taugaveiklaðir út af viðtökum. Óskarinn
er í raun bara uppskeruhátíð. Ballið á eftir
var eins og góð árshátíð.“
Það var og! Þar með kveðjumst við Sjón í
svo til sömu sporum og við heilsuðumst.
Hringnum er lokað.
AF SJÓN-
LISTUM
Menningarmiðstöðin Gerðuberg verður
að sönnu vettvangur sjónlista á næstunni en skáldið
Sjón hefur valið myndverk á sýninguna Drasl 2000
sem opnuð verður þar kl. 15 í dag. ORRI PÁLL
ORMARSSON fékk fylgd Sjóns um sali og
komst meðal annars að því að skáldið ætlaði
upprunalega að verða myndlistarmaður. Sjón lítur við hjá Jóni Gunnari í Gerðubergi. Verkið er eftir Hrein
Friðfinnsson frá því á sjöunda áratugnum.
Ein af klippimyndum (F)Errós. Verk Braga Ásgeirssonar.
orri@mbl.is
Morgunblaðið/Árni Sæberg