Lesbók Morgunblaðsins - 21.04.2001, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 21.04.2001, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. APRÍL 2001 11 hvöt sína. Hann var mikill demónólóg og sérstak- lega þóttu honum vampýrur og demónar ill- skeyttir í kvenlíki. Hann er líka frægur fyrir að hafa skrifað inngang að nýrri þýðingu á Norna- hamrinum góðkunna sem munkarnir Sprenger og Kramer skrifuðu 1490, sem handbók um hvernig finna á nornir, en árið 1928 er Summer enn sannfærður um tilvist norna. Slavneska þjóðsagnavampýran er frægasta þjóðsagnavampýran og það er í gegnum hana, eða af hennar völdum, sem áhugi á vampýrum gaus upp í Evrópu, áhugi sem á endanum fann sér leið inn í bókmenntir og listir. Snemma á 18. öld upphófst hin svokallaða vampýruplága í Aust- ur-Evrópu, en þá fóru að berast fréttir af und- arlegu hegðunarmynstri líka og grafara. Dæmigert ferli þjóðsagnavampýru er eitthvað á þá leið að fyrst deyr einn þorpsbúi skyndilega og er grafinn. Kona hans fær hann í óvænta heim- sókn og deyr sjálf. Hún heimsækir síðan börn sín og þannig rúllar þetta áfram þangað til allt þorpið er á leið í vampýruklúbbinn. Vampýrisminn er jú alltaf bráðsmitandi. Þreyttir þorpsbúar skunda nú að gröf mannsins sem dó fyrst, grafa hann órotnaðan upp, rauðþrútinn í framan með nýjar neglur og húð og blóð á vörunum. Ýmist er stika negld í gegnum hjarta hans, sem orsakar blóðflóð og öskur og læti af hálfu líksins, eða hann brennd- ur eða bara höggvinn í spað. Og síðan endurtekið með hina sem dóu. Vampýrum er semsagt helst fyrirkomið í gröfum þeirra en ekki ofanjarðar, og úr gröfinni eru helstu heimildir fengnar, útlitslýs- ingin og ýmis einkenni, svo sem hugmyndin um blóðdrykkjuna, því heimildir um blóðdrykkju vampýrna í þjóðsögum og goðsögum eru fáar, hugmyndin kemur frá blóðugum vörunum í gröf- inni, blóðið er því einskonar táknmynd sem vísar á lífið sem vampýran saug úr fjölskyldunni. Það er greinilegt að Stoker hefur þekkt til þessara austur-evrópsku þjóðsagna, enda stað- setur hann kastala Drakúla á landsvæði sem er þekkt fyrir þjóðsögur af þessu tagi. En hinn að- alsættaði og glæsti Drakúla Stokers er með öllu ólíkur þjóðsagnavampýrunni eins og hún birtist í lýsingum Perkowskys. Bæði hann og annar vam- pýrufræðingur, Paul Barber, leggja áherslu á að þjóðsagnavampýran sé venjulegi maðurinn, ná- granninn. Sumir eru samt líklegri en aðrir til að hljóta þessi örlög, t.d. illmenni, glæpamenn, nornir, þeir sem fremja sjálfsvíg eða hafa dáið vo- veiflega, þeir sem hafa ferðast, samkvæmt Per- kowsky, svikular barstúlkur og alkóhólistar. Vampýrunum mátti verjast, þeim var komið fyrir t.d. með helgum dómum, vígðu vatni eða krossi, með því að negla stiku gegnum hjarta þeirra eða afhöfða þær, besta og öruggasta leiðin er samt alltaf bruni. Það mátti líka reyna að koma í veg fyrir að ofangreint fólk færi að bægslast upp úr gröfum sínum, oddhvassir hlutir svo sem sigð eða þyrnir í kistunum þóttu heppilegir, virkuðu þá eins og stikan og einnig voru t.d. bönd með hnútum eða grjón sett í kistuna eða á grafarbakk- ann og var þá ætlast til að vampýran dundaði sér við að leysa og tína og kæmist aldrei lengra. Þetta er dæmi um táknrænan galdur, eða samsvörun- argaldur, þarsem böndin, þyrnarnir og grjónin standa fyrir hindranir í vegi vampýrunnar, líkt og hún væri bundin eða stungin. Eitt ráðið er svo að borða mold úr leiði tilvon- andi vampýru eða drekka blóð hennar, því hvort sem þjóðsagnavampýrur hafa drukkið blóð úr mönnum eða ekki, þá er alveg ljóst að menn hafa drukkið blóð vampýrna. Íslenskir ættingjar Það er frá þjóðsagnavampýrunni sem hug- myndin um vampýruna sem lifandi dauða, eða lif- andi lík, kemur, þjóðsagnavampýran er lík sem deyr ekki, heldur rís frá dauðum og heldur sér „lifandi“ eða gangandi með því að soga í sig blóð lifenda. Eins og ljóst má vera af ofantaldri skilgrein- ingu á þjóðsagnavampýran sér skyldmenni á Ís- landi. Íslenska afturgangan er um margt lík þjóð- sagnavampýrunni en líkt og þjóðsagnavampýran er íslenska afturgangan lifandi lík sem rís upp úr gröf sinni til að ásækja hina lifandi. Í formála Jóns Árnasonar að kaflanum um afturgöngur nefnir hann sem líklega kandidata; útburði, menn sem áttu ekki við auðsæld að búa, þá sem dóu vo- veiflega, illmenni og ástfangna. Og svo segir Jón: „Ef manni er grunsamt um að dauðir menn gangi aftur, er það ráð að reka nálar eða odd- hvassa nagla neðan í iljar þeim ... það er og annað ráð að reka nagla ofan í leiði þeirra ... og var manni nokkrum ráðlagt að gera það við leiði móð- ur sinnar, því hún sókti að sonardætrum sínum ... og dugði það honum vel.“ Þarna er á ferðinni svipuð aðferð og hjá Slöv- um, nema hinir praktísku Íslendingar taka að- ferðina skrefi lengra með því að stinga nálunum í iljar líksins svo það eigi óhægt um að standa í fæt- urna. Nálin í leiðið minnir einnig nokkuð á stegl- inguna, en sú aðferð að koma vampýru fyrir með stjökun er upphaflega komin til af þeirri hug- mynd að negla líkið við jörðina, nálin er því eins- konar táknræn útfærsla á því. Reyndar má geta þess hér að hugmyndin um legsteininn er talin koma til af svipuðum ástæðum, þ.e. að halda hin- um dauða niður með því að leggja á gröfina farg. „Djákninn á Myrká“ er gott dæmi um vamp- ýru að hætti Slava, hann ferst voveiflega, kemur að vitja heitkonu sinnar dauður og sýgur úr henni vitið, tekur geðheilsu hennar með sér í gröfina, „Guðrún varð aldrei söm síðan“. Sambærilega vampýrusögn er að finna hjá Rússum. „Mikla- bæjar-Solveig“ er annað frægt dæmi, hún fremur sjálfsmorð og tekur svo Odd allan með sér í gröf- ina, en slíkt háttalag er einnig þekkt úr þeim þjóðsögum Austur-Evrópu sem kenndar eru við vampýrur, og er þetta þá iðulega spurning, líkt og í þessum íslensku dæmum, um að uppfylla loforð eða koma fram hefndum. Einhverju er ólokið og þessvegna gengur vampýran aftur, til að ganga frá lausum endum í sínum málum. Svona sem smáinnskot um félagslegt raunsæi, þá má minna á hér að margir telja draugatrú og vampýrutrú einmitt tilkomna af ótta við slíka lausa enda, fólk einfaldlega hræðist að hinn látni myndi ekki þola að skilja við óuppgerð mál. Þess má einnig geta að íslenski tilberinn er vampýrískur, þarsem hann nærist á blóði úr inn- anlærisvörtu tilberamóðurinnar. Í Íslendingasögunum eru líka vampýruminni, Glámur í Grettissögu er þjóðsagnavampýra sem berst við Gretti, dáleiðir hann með augunum á banastundu og sýgur þannig úr honum kraft, geðheilsu og gæfu og gerir hann myrkfælinn: „Nú í því er Glámur féll, rak skýið frá tunglinu en Glámur hvessti augun upp í móti. Þá sigaði svo af honum [Gretti] af öllu saman, mæði og því er hann sá, að Glámur gaut sínum sjónum harð- lega, að hann gat eigi bruðgið saxinu ... En því var meiri ófagnaðarkraftur með Glámi en flest- um öðrum afturgöngumönnum ... því má ég ráða [segir Glámur] að þú verðir aldrei sterkari en nú ertu ... Þá legg ég það á þig að þessi augu séu þér jafnan fyrir sjónum ... og mun þér þá erfitt þykja einum að vera og það mun þér til dauða draga.“ Glámur leikur hér hlutverk sálrænu vampýr- unnar, að því leyti sem hann sogar kraft úr Gretti, en eins og áður sagði þá minna aðferðir þjóðsagnavampýrunnar mikið á þá sálrænu. Áherslan á augun minnir einnig mikið á dávald það sem Stoker úthlutar Drakúla sínum, en augnaráð hans lamar fórnarlömbin. Þetta tema um augnaráð hefur síðar verið gernýtt af kvik- myndagerðarmönnum, enda einstaklega sjón- rænt. Fróðárundrin úr Eyrbyggju eru vampýruferli, þar sem Þórgunna galdrakona deyr og drepur mann og hann annan og þannig koll af kolli og all- ir ganga aftur en eru endanlega hraktir á brott með því að brenna lokrekkjutjöld Þórgunnu – upphaflegu vampýrunnar/afturgöngunnar – og helga húsið með vígðu vatni og helgum dómum. Þórgunna er galdranorn, en galdranornir þóttu líklegar til að verða vampýrískar. En skyldleiki Íslendinga við vampýrur nær lengra, því greifinn sjálfur, Drakúla, rekur ættir sínar til íslenskra berserkja, og segir að í æðum sínum renni blóð þjóðflokks sem hafi flutt með sér baráttuanda Þórs og Óðins frá Íslandi, líkt og berserkirnir séu til vitnis um, en baráttugleði þeirra hafi verið slík að fólk hafi haldið að um varúlfa væri að ræða. Þess má geta að varúlfa- minnið er náskylt vampýruminninu. Af einhverj- um ástæðum fellir þýðandi Makta Myrkranna úr þessa vísun til Íslands, kannski hefur hann ekki viljað smita sína ástkæru fósturjörð af vampýr- isma? Þessi grein er unnin upp úr fyrirlestrum og styttri greinum um vampýruna, sem fluttir/ birst hafa á árunum 1995-1999. Önnur af fyrirmyndum Stokers af Drakúla, Erzebet Báthory, fylgist ánægð með pyntingum á ungum stúlkum. Ein af fyrirmyndum Stokers af Drakúla, stjaksetjarinn Vlad Tepes, útskurð- armynd(ir) frá 16. öld. Höfundur er bókmenntafræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.