Lesbók Morgunblaðsins - 24.11.2001, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 24.11.2001, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. NÓVEMBER 2001 5 hinsvegar fremur einfaldur náungi þannig séð. Þetta var því ekki létt verk. Stærsta vandamálið var að finna tóninn og finna jafn- vægið. Jafnvægið á milli HKL og E.J. Grim- son, jafnvægið á milli höfundarins og gömlu skáldsögunnar, jafnvægið á milli míns eigin stíls og stíls höfundarins. Þegar þú lest þessa bók, sem er bók um aðra bók, veistu ekki al- veg hvort þú ert að lesa þessa bók eða þá bók eða endursögn höfundarins á þeirri bók eða upplifun hans á henni nú þegar hann er dauð- ur. Þá er það einnig stóra spurningin: Er hann að skrifa þessa bók eða er það ég? Þetta er rammflókin djöfuls saga og mjög erfið að skrifa. Ég vona samt að það sé ekki alveg jafn erfitt að lesa hana.“ Ritvöllurinn er blóðvöllur – Sagan er eins konar samtal milli höfund- arins og persóna hans og ýmissa annarra sem tengjast honum og verkum hans. Gagnrýn- andinn Friðþjófur ásækir höfundinn til dæm- is mikið og raunar út yfir gröf og dauða. „Að lokum deyr gagnrýnandinn og vaknar líka í skáldsögunni, líkt og höfundurinn. Gagnrýnandinn lifir líka í verki höfundarins því hann tengist því, rétt eins og Kristján Al- bertsson tengdist Vefaranum og verður alltaf órjúfanlegur hluti af þeirri bók. Mér þótti spennandi að vinna með það hvernig bækur soga til sín alls konar hluti án þess að höfund- urinn fái við neitt ráðið. Einhver orð eru látin falla um bók og verða þar með hluti af henni það sem eftir er. Þú færð aldrei að lesa neina bók sem hlutlaus aðili. Þegar þú lest Kafka veistu að verk hans eru snilld vegna þess að þúsund gagnrýnendur eru búnir að segja þér það í 60 ár. Svo rankar þú kannski við þér á miðjum aldri og fattar að þetta er nú allt hálf stirðbusalegt og leiðinlegt hjá honum bless- uðum. Mér þótti líka spennandi að búa til óvini vegna þess að tuttugasta öldin var öld and- stæðna, vesturs og austurs, hægri og vinstri, öld öfganna og kaldastríðsins. Í þessu ástandi urðu margir höfundar mjög vænisjúkir. Ein- ar Jóhann heldur að Friðþjófur hati hann, sem hann gerir kannski, en hann heldur því líka stöðugt fram að Friðþjófur hafi reynt allt til að bregða fæti fyrir sig og hafi í krafti stöðu sinnar hér á Morgunblaðinu reynt að eyðileggja feril hans sem höfundar. Þetta er auðvitað unnið upp úr þeirri ónáð sem HKL var í hér á þessu blaði lengi vel, þar til Matth- ías Johannessen skrifaði hann inn í blað allra landsmanna með sögulegu sáttaviðtali. En þó kaldastríðið sé liðið er vænisýkin og hatrið enn til staðar. Um síðustu helgi sat ég kvöldverðarboð í Kaupmannahöfn ásamt mörgum af fremstu höfundum Dana. Þegar leið á kvöldið fann ég það betur og betur að maður sat á meðal óvina. Hvað eftir annað hvísluðu menn að mér: „Sjáðu þennan þarna sem er að fara út. Hann hatar mig og ég veit ekki útaf hverju. Hann skrifaði brjálaða níð- grein um mig í Politiken í síðustu viku.“ Það er fyndið að sjá að þetta er alls staðar eins. Ritvöllurinn er og verður alltaf blóðvöllur.“ Rollurómantík – Það er tvöföld merking í titli bókarinnar, Höfundur Íslands getur annarsvegar verið aðalhöfundurinn á Íslandi og hinsvegar höf- undurinn að Íslandi, því Íslandi sem við þekkjum. Laxness er auðvitað hvort tveggja. Þú ert á vissan hátt að skrifa gegn þeirri mynd af Íslandi sem Halldór dró, hann hæddist til dæmis að rollurómantíkinni sem þú gerir að gildum þætti í sögu þinni. „Halldór var alltaf að sýna okkur hvernig Bjartur tók rolluna fram yfir allt, hún var mikilvægari en börnin hans. Þetta var frum- legt hjá honum þá en er orðið klisja núna. Mín kynslóð er hinsvegar búin að missa öll tengsl við rolluna og landbúnað almennt. Ég var reyndar mörg sumur í sveit og þekki því nokkuð vel til sveitalífsins; veit það að minnsta kosti að Bjartur var enn á lífi árið 1972 og er kannski enn. En eftir að hafa skrifað 101 Reykjavík þurfti ég samt aðeins að flikka uppá sveitamanninn í mér og lagðist uppá bændur. Gekk með þeim í fjárhús. Það hafði geysileg áhrif á mig. Það vakti í mér einhverja rollurómantík. Ég var alveg búinn að gleyma því hvað sveitalífið er fallegt. Mér fannst eins og það væri ekki til neitt fallegra í heiminum en þrjú hundruð rollur að éta hey. Hitinn frá þeim yljaði manni og ærnar voru svo mennskar að sjá þegar þær litu upp um leið og maður gekk í salinn, og hættu að tyggja. Maður finnur í sér streng alveg aftur í Biblíusögurnar, til frummennskunnar. Maður finnur aftur fyrir LÍFINU Á JÖRÐINNI: skepnan lifir á jörð- inni og við lifum á henni. Ég vildi miðla þess- ari tilfinningu í bókinni og fannst það frum- legt að skrifa um íslensku sauðkindina á ný, íroníulaust. Ég vildi hylla sveitina og bónd- ann. Það er búið að skrifa svo illa um bændur og sveitalífið í bókmenntum síðustu áratuga að mér þótti nauðsynlegt að hafa samúðina alla með bóndanum í þessari sögu. Bóndinn missir bústofninn í mæðiveiki, horfir á ævi- starf sitt hverfa á einum degi. Það er trag- ískt. Síðan vildi svo til að þetta varð allt í einu mjög aktúelt efni, sem það var ekki þegar ég byrjaði að skrifa bókina. Allt í einu var ekki talað um annað en bændur og búfénað og niðurskurð í fréttatímum þegar gin- og klaufaveikifaraldurinn kom upp í Bretlandi í fyrra.“ Önugt gamalmenni – Höfundi sögunnar er ákaflega uppsigað við marga af samtímahöfundum sínum, bæði innlenda og erlenda. Þórbergur fær mikla út- reið og Hamsun, en Shakespeare er kannski stærsta bókmenntapersónan í bókinni fyrir utan Halldór. „Mér fannst það fyrst og fremst fyndið að honum væri svona illa við Þórberg,“ segir Hallgrímur. „Hann lítur á hann sem keppi- naut sinn og þykir honum hampað meira en ástæða er til. Ég er reyndar sammála þessu mati hans. Þórbergur á ekki sess við hliðina á Laxness. Hann var meira sérkennilegur penni en skáld, enda skáldaði hann nánast ekki neitt. Þessi reiði og afbrýðisemi milli rit- höfunda er mjög fyndin og spennandi, og mér þótti nauðsynlegt að höfundurinn í sögunni væri þessi önuglyndi eldriborgari sem sér keppinaut í hverju horni og er uppfullur af tómum hégóma. Einari J. er til dæmis mjög illa við Hamsun því sjálfum var honum líkt við hann í Berlingske Tidende. Laxness þoldi auðvitað aldrei að Sjálfstæðu fólki væri líkt við Gróður jarðar eftir Hamsun. Shake- speare-þátturinn er hinsvegar meira frá mér kominn. Ég man ekki til þess að Laxness hafi mikið tjáð sig um Villta Tryllta Villa. Í bók- inni er Shakespeare tunglið sem varpar sínu ljósi á atburði hennar og gerir allt að sínum skugga.“ Goðsagnirnar um tuttugustu öldina – Fjallað er um marga aðra þætti í menn- ingarsögu tuttugustu aldarinnar, vísinda- og tæknihyggjuna, framfaratrúna og fram- úrstefnuna. Er bókin uppgjör við tuttugustu öldina? „Kannski ég sé að reyna að „afbyggja“ goðsögnina um tuttugustu öldina sem merk- ustu öld mannkynssögunnar. Auðvitað var hún stórt framfaraskref en skrefið afturábak var auðvitað jafn stórt. Mistök tuttugustu aldarinnar voru stærstu mistök mannkyns- sögunnar. Þetta var öldin sem kastaði mannkynssög- unni til hliðar og þóttist ætla að skrifa sína eigin. Þetta var frek öld. Kannski er það vit- leysa í mér en mér finnst ég finna fyrir ákveðnu afturhvarfi nú í byrjun nýs árþús- unds. Ég er ákaflega feginn að tuttugasta öldin er liðin með alla sína tuttugustu aldar pólitík, tuttugustu aldar list og tuttugustu aldar dellu. Fólk var alltaf að finna SANNLEIK- ANN, finna ný form og nýjar aðferðir sem áttu að kollvarpa öllum fyrri hugmyndum. Það var alltaf verið að finna upp nýtt og full- komnara mannkyn sem átti að geta notið þessarar listar sem framleidd var í nafni framúrstefnunnar og er enn framleidd. Fólk er enn fast í tuttugustu öldinni. Í listrænum efnum stendur Berlínarmúrinn enn þá og fólk er duglegt að berja hausnum við hann. Úrelt fyrirbæri eins og til dæmis mínimal- ismi lifa enn góðu lífi hér á hjaranum. Alveg eins og kommúnisminn er þetta list sem minnihlutinn þvingar upp á meirihlutann. Framúrstefnan er fasísk í eðli sínu: „Þið skiljið þetta ekki vegna þess að þið eruð fífl og fávitar,“ segja postularnir með glotti. Við Íslendingar höfum auðvitað farið sérlega illa út úr þessu vegna þess að einhverra hluta vegna hafa margir lélegustu listamenn tutt- ugustu aldarinnar hópast hingað á und- anförnum árum og haft mikil áhrif á okkar ístöðulausu heimalninga.“ Í fullri lengd – Það er hverju orði sannara að það er eng- inn mínimalismi í Höfundi Íslands sem er 511 síður. Þú hefur oft verið gagnrýndur fyrir að vera of orðmargur. Gagnrýnendur hafa kall- að þetta vaðal en þú ert óhræddur. „Mér finnst þessi skáldsaga öðruvísi en fyrri bækur mínar. Hún er rólegri og agaðri í stílnum og bygging hennar er þéttari.“ – En þú leyfir þér samt að leika þér með tungumálið og það er enn þetta flæði í text- anum. „Fyrst átti þetta að vera smásaga en ég get ekki skrifað smásögu. Síðan átti þetta að vera dæmigerð íslensk skáldsaga upp á 180 síður með stóru letri og tvöföldu línubili. Mig hefur lengi dreymt um að skrifa svoleiðis bók en líklega get ég það bara ekki. Fyrir vikið er ég svolítið einmana hér á Íslandi. Það virðast fá- ir aðrir vera að skrifa stórar skáldsögur. Fáir kollegar. Jólabókavertíðin er eins og stutt- myndahátíð. Svo kem ég með mynd í fullri lengd og það er enginn salur til að sýna hana. Gagnrýnendur hiksta og mega ekki vera að því að lesa svona langa bók því þeir eru vanir að lesa skáldsögur á einu kvöldi. Og auðvitað segja þeir þá að hún sé of löng. Þó þjóðin sé smá þarf ekki allt hér að vera smátt. Hér tíðkast líka enn sá ósiður að gefa bækur út í smáskömmtum. Þetta tíðkast kannski enn í Noregi en í öllum alvöru löndum eru menn löngu hættir að gefa út bækur áður en þeir eru búnir að skrifa þær. Þó þessi saga mín sé 511 síður er ég samt að vona að mér hafi farið fram í því að reyna að hemja flauminn. Þegar maður er ungur er maður æstur og ræður ekki við orðaflauminn sem stendur út úr manni. Í Útvarp Manhatt- an hafði ég enga stjórn á orðaflæðinu, ég þurfti að tala á hundrað kílómetra hraða til þess að koma því öllu til skila. En með aldr- inum lærir maður að hemja sjálfan sig. Í þessari bók er ég líka að reyna að hlaupa undan kröfunni að vera alltaf fyndinn og þori kannski meira að vera alvarlegur og við- kvæmnislegur, ég vil ekki segja einlægur, því höfundar eru aldrei einlægir; alltaf að ljúga. En í þessari bók hleypi ég dramatíkinni inn. Og tilfinningaseminni. Þori að vera næstum því væminn. Tek mér Laxnessleyfi. Með hans hjálp er allt hægt. Með hans hjálp tekst mér að varpa af mér kúlinu og láta bóndann gráta þegar hann horfist í augu við eftirlætis ána sína sem er á leið í sláturhúsið. Þetta er aft- urhvarfið. Andófið gegn íróníunni og kuld- anum í sjálfum mér og tímanum. Eftir 11. september er hann líka orðinn allur meyr- ari.“ Morgunblaðið/Einar Falur „Þegar þú lest þessa bók, sem er bók um aðra bók, veistu ekki alveg hvort þú ert að lesa þessa bók eða þá bók eða end- ursögn höfundarins á þeirri bók eða upplifun hans á henni nú þegar hann er dauður.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.