Lesbók Morgunblaðsins - 08.12.2001, Qupperneq 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. DESEMBER 2001
ÞAÐ er meira en að segja það að rífa sigupp úr fannferginu í Mosfellsdalnum íófærð og hríðarbyl til að mæta til fundarvið blaðamann í yl upplýstrar borgarinn-
ar, þar sem snjórinn er bara þetta hvíta fyrir ut-
an gluggann, sem gatnamálastjóri verður
örugglega búinn að fjarlægja samviskusamlega
þegar maður sjálfur þarf að komast leiðar sinn-
ar þessa fáeinu metra heim til sín. En þetta ger-
ir Diddú, til að geta sagt okkur frá nýju plötunni
sinni. Sólskinsbrosið hennar hefur örugglega
hjálpað til við að bræða fönnina í dalnum, og
hingað kemur hún pelsklædd í lopapeysu, vel
skædd og með ullarleistana girta utanyfir, og
hreint ekki að sjá að þetta hafi verið nema svað-
ilför af miðlungssort fyrir þessa harðduglegu og
dáðu söngkonu. Maður þorir varla að segja „vel-
komin til byggða“, en býður dívunni þó kaffi-
sopa til að ná úr sér hrollinum og ylja sér á
höndunum áður en spjallið hefst. Hún tekur feg-
insamlega báðum höndum um bollann … og
brosir.
Sæl Diddú; þú ert enn að gefa út plötu, –
hvernig er þessi?
„Þetta er búið að vera lengi í bígerð. Upp-
haflega var þetta hugsað sem hluti af uppskeru
á samstarfi okkar Önnu Guðnýjar til margra
ára, og við ætluðum tvær að flytja íslensk söng-
lög. Útgefendurnir vildu hafa aðeins annað form
á þessu og því varð úr að Anna Guðný spilar
með mér um helming laganna, en svo var Atli
Heimir Sveinsson fenginn til að útsetja hin. Við
tókum upp helmingi fleiri lög en komust á disk-
inn, og við völdum svo úr það sem okkur fannst
skapa heillegasta blæinn. Við tókum lögin upp í
einu lagi og það var ekki mikið verið að pilla í
þetta eftir á. Sum laganna eru þess eðlis að þau
kalla á fylltari meðleik og útsetningar Atla eru
alveg hreint frábærar. Þannig varð diskurinn
aðeins öðruvísi en upphaflega stóð til.“
Hvernig ferðu að því að velja saman lög á
disk; – hvað hefurðu í huga við valið?
„Þetta eru allt íslensk sönglög og í gegnum
tíðina hef ég reynt að velja lög sem klæða mína
rödd. Það er nú þó þannig að þótt sum lög séu
samin fyrir háan sópran vil ég frekar syngja þau
í lægri tónhæð. Þetta fer líka eftir því hvernig
lagið liggur í mínum munni, og svo er ég nátt-
úrulega alltaf að fara með ljóð. Það er helst
þetta sem ég hef að leiðarljósi.“
Hvaða lög eru þetta?
„Ég er með Hjarðmeyna eftir Ragnar H.
Ragnars sem Atli útsetti, Maður hefur nú eftir
Gunnar Reyni Sveinsson, Hvert örstutt spor
eftir Jón Nordal, nokkur lög eftir Pál Ísólfsson,
þar á meðal Heyrðu snöggvast Snati minn, allt
frábærar útsetningar hjá Atla. Núnú, svo er ég
náttúrlega með Draumalandið, Svanasöng á
heiði og Erlu eftir Pétur Sigurðsson, Kirkju-
hvol, Litfríð og ljóshærð, Jeg elsker dig eftir
Jón Þórarinsson; – ætli þetta sé þá ekki komið,
svona langleiðina.“
Hvaða hljóðfæri notar Atli í útsetningarnar?
„Það eru strengjasveit, blásarar, harmónikka
og svo auðvitað Anna Guðný á píanóið. Þetta er
svona salon-hljómsveit, eða lítil kammersveit.“
En ertu þá ekki komin með efni á annan disk?
„Jújú, ég hefði hæglega getað tekið upp efni á
þrjá diska núna, – en við eigum að minnsta kosti
efni á annan disk. Ég hefði gjarnan viljað hafa
fleiri lög á þessum, en það eru einhver markaðs-
lögmál sem segja til um að það megi ekki vera
fleiri lög en þetta á diskum.“
Draumur að gefa út aríudisk
Diddú, ert þú ekki sá íslenski söngvari sem
gefið hefur út flesta diska?
„Jú, ætli það ekki, – í sígildri tónlist. Skífan
var svo almennileg við mig að fyrir um tíu árum
gerðu þeir samning við mig um útgáfu á sex
diskum, og nú er hringnum lokað, – því þetta er
sá sjötti. Þeir eru allir ólíkir. Það er draumur
allra söngvara að fá að gefa út aríudisk, og ég
hef fengið að gera tvo slíka. Það er dýrt, því það
þarf að kaupa heila sinfóníuhljómsveit til að
spila með manni. Þeir hafa alltaf lagt mikið í
þessa diska.“
En liggur þá ekki beint við að það verði fram-
hald á samstarfi þínu við Skífuna?
„Jú, kannski. Hann var nú einmitt að spyrja
mig stjórnarformaðurinn hvað mig langaði að
gera næst.“
En gaman, það hlýtur að vera góð tilfinning
fyrir söngvara.
„Jújú, það er það. En ég ætla nú að bíða að-
eins, – ég held ég leyfi fólki aðeins að hvíla sig á
mér.“
Hvað af þessu hefur þér þótt skemmtilegast
að gera?
„Í rauninni eru þessir diskar allir svo ólíkir; –
og maður fer alltaf í ákveðinn ham fyrir hvert
verkefni og aðkoman og undirbúningurinn fyrir
hvert verkefni er aldrei eins. Þetta er allt
skemmtilegt.“
Hér ertu að syngja íslensk sönglög sem þú
gjörþekkir og hefur sungið margoft á tónleik-
um; hvernig er það að skila þeim af sér á svona
fast form?
„Það er ekkert öðruvísi fyrir mig en að syngja
lögin á tónleikum. Maður verður bara að vera í
góðu formi upptökudaginn. Undirbúningurinn
er sá sami og fyrir lifandi flutning og ég syng
eins. Það skiptir bara máli að vera vel útsofinn
og hvíldur áður en maður ræðst í verkefnið.“
En eru íslensku sönglögin þá ekki farin að
eiga svolítið í þér?
„Jú, en það er svo skrítið að framan af söng
ég ekki mikið af íslenskum lögum. Það var ein-
hver hefð að vera alltaf með nokkur íslensk lög á
tónleikum og þá var maður kannski að syngja
sömu lögin. Svo fór Jónas Ingimundarson nú að
ýta öðrum lögum að manni, þannig að ég er
komin með heilmikið af lögum í safnið mitt. Ég
kaupi eiginlega öll íslensk sönglög, því mér
finnst það skylda íslenskra söngvara að eiga
þau öll, þótt þeir syngi þau ekki öll. Þetta er
okkar arfur, og margt fallegt hægt að gera ein-
göngu með íslenskum sönglögum. Mér finnst
líka mikilvægt að hugsa vel um ljóðin og fara vel
með textann. Ég hef verið skömmuð fyrir það
að missa niður línuna í laginu fyrir of skýran
textaframburð; – en ætli við höfum ekki hvert
okkar hátt á því að koma þessu frá okkur. Ég
vandi mig á það í dægurmúsíkinni að syngja
alltaf skýran texta; – þar var textinn alltaf í há-
vegum hafður og ég hef tekið það með mér í
þessa tónlist.“
Þú sagðist ætla að taka þér tíma áður en þú
gefur út næsta disk, en hvað myndi þig langa til
að gera þegar þar að kemur?
„Mig langar að taka upp aríudisk. Það er ým-
islegt sem ég er að læra núna sem gaman væri
að syngja. Röddin er að breytast talsvert og
þess vegna er ég að ganga í gegnum sérstakt
tímabil núna.“
Hvernig er röddin að breytast, er hún að
dökkna?
„Hún er kannski að fá meiri fyllingu; – ætli
það sé ekki bara lífsfyllingin sem kemur með
reynslu og þroska. En það er svo skrítið eins og
ég er búin að syngja mikið gegnum tíðina – og
söngkonur segja yfirleitt að það fyrsta sem fari
sé hæðin – en mín rödd hún er öll að styrkjast.
Það er alveg með ólíkindum, og stundum veit ég
ekkert hvaðan á mig stendur veðrið. Röddin er
að opnast bæði upp og niður. Háar kóloratúr-
raddir hafa alltaf haft svolítið þynnri botn, og ég
hef alltaf verið rög við að nota botninn, því ég
var svo hrædd um að missa þá toppinn. En svo
eftir að ég fékk hugrekki til að nota dýptina
meira hefur efra raddsviðið styrkst líka. Maður
er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt í röddinni
sinni. Og meðan þetta er, þá syng ég, en um leið
og ég fer að staðna lofa ég því að hætta.“
„Mér er í nöp við orðið
ævisaga“
Diddú, mig langar að spyrja þig að því hvers
vegna þú ert að gefa út ævisögu svona ung
manneskja?
„Já ég er búin að segja útgefandanum að mér
sé í nöp við þetta orð – ævisaga – en það er bara
þannig að svona bækur eru flokkaðar sem slík-
ar. Ég er heldur ekki fyrsta manneskjan sem
gef út svona bók þetta ung. Annars er ég nú að
nálgast fimmtugt, en fólk heldur bara alltaf að
ég sé yngri en ég er, sem er allt í lagi. Ég er bara
búin að vera svo rosalega lengi að; – alveg frá
því ég var fimmtán ára. Það hefur bara svo
margt drifið á daga mína sem mig langaði að
rifja upp og segja frá.“
Ertu þá ekki búin að vera á haus allt árið, að
undirbúa disk og bók?
„Ja, við Súsanna Svavarsdóttir byrjuðum
reyndar á bókinni í fyrra, og upphaflega stóð til
að hún kæmi út fyrir síðustu jól. Það reyndist
mikil vinna að undirbúa þetta, ákveða hvað ætti
að fara í bókina og það er búið að taka langan
tíma að raða þessu saman. Löng meðganga, en
afskaplega skemmtileg.“
Diddú, auk þess að gefa bæði út bók og disk,
þá ertu að syngja á fjölmörgum aðventutónleik-
um fyrir jólin. Hvaðan færðu alla þessa orku?
„Úr dalnum, það er alveg öruggt. Það er sagt
að uppi í Bringum, sem eru í beinni línu við hús-
ið okkar, þar sé einhver ofurkraftur, sérstak-
lega við Helgufoss. Stundum er ég alveg yfir-
buguð af þreytu og finnst ég ekki hafa örðu
afgangs í að gera nokkurn skapaðan hlut, en
þarf kannski samt að rífa mig upp og syngja
heila tónleika. Þetta blessast yfirleitt, og því er
ég sannfærð um að ég fæ kraft úr dalnum. Svo
er það auðvitað mjög gott að geta skilið borgina
eftir þegar maður fer heim til sín; – ég sé hana
ekki einu sinni frá heimili mínu. Þetta er ómet-
anlegt í svona erilsömu starfi. Maður getur nú
svosem lent í honum kröppum, en það eru bara
ævintýri.“
Og þar með kveður Diddú og siglir á ný út í
ævintýrin og friðinn í dalnum.
Auðvitað heitir hún Sigrún Hjálmtýsdóttir – en allir
kalla hana Diddú, stundum Diddú okkar – því hún
hefur rækilega sungið sig inn í hjörtu okkar.
BERGÞÓRA JÓNSDÓTTIR ræddi við hana.
Diddú: „Ég vandi mig alltaf á það í dægurmúsíkinni að syngja textann skýrt.“
begga@mbl.is
„ALLTAF EITT-
HVAÐ NÝTT Í
RÖDDINNI“