Lesbók Morgunblaðsins - 06.04.2002, Qupperneq 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. APRÍL 2002
H
VE kyrfilega sést okkur
ekki yfir það – kannski sem
betur fer – að tilvera okkar
endanna á milli er samfellt
kraftaverk. Og undur. Bara
þetta: að efnið skuli geta
lifnað og öðlast vitund um
sjálft sig og heiminn, náð
síðan valdi á tækni til að miðla þessari skynjun
til samvera sinna sem meðtaka hana og bregð-
ast við henni. Þetta er svo lygilegt og samt svo
sjálfsagt að sá yrði settur á mjög sterk meðöl
sem færi að vekja máls á því sérstaklega.
En á þessum tyllidegi langar mig til að stað-
næmast við undrið lestur/skrift. Að það skuli
vera hægt með strikum og bogum og bugðum
að búa til skynjun sem lesandi nemur, óháð
rúmi og tíma.
Og þó erum við ekki fyrr búin að falla í stafi
yfir kraftaverki orðanna, en það rennur upp
fyrir okkur hve afföllin eru ótrúleg. Nærtæk-
ast væri að grípa til líkingar við sáðfrumurnar
sem milljónum saman leggja af stað í einu sæð-
iskasti, en mega sæta því að fara allar í súginn
– utan þegar getnaður verður – þá er ein úr
allri hersingunni útvalin – hinna bíða þau örlög
að farast.
Eins er um orðin, langsamlega fæst eiga fyr-
ir höndum að fanga athygli lesanda. Þau koma
kannski fram á sjónhimnunni sekúndubrot –
líkt og vegfarandi í milljónaborg – og síðan
ekki söguna meir.
Þeim mun stærra er undrið þegar tekst með
orðum að smíða far sem ferjar merkingu, hrif
og geðshræringar í gegnum öldurót tímans –
sækir jafnvel í sig veðrið eftir því sem tímar
líða fram.
***
Hér langar mig til að skipta um líkingu og
fara frá sáðfrumu og eggi yfir í eldflaug sem á í
vændum að sigla út í geiminn. Sú óstjórnlega
orka sem þarf til að leysa jarðfestar, yfirvinna
þyngdarkraft jarðar og hvað þau heita öll þessi
tregðulögmál sem vilja halda aftur af því sem
ætlar að lyfta sér til flugs.
Mér koma í hug greinarnar sem Halldór
skrifaði í upphafi síns ferils, á árabilinu 1925–
1927, samhliða vinnunni við Vefarann. Þarna
er hún komin kraftbirtingin, fítonið sem þurfti
til að leggja til atlögu við þessar kempur sem
sækja fram undir merkjum hins auðvitaða:
brjóstvitið, heilbrigða skynsemi, hyggindi
sem í hag mega koma og sjálfsagt mál.
Tökum til að mynda ræðuna sem
hann hélt á Íslendingadegi í Kanada, þá 25
ára gamall gestur frá gamla Fróni. Lá ekki
beinast við að fara með eitthvað gott eftir Stef-
án G (sem þá lá banaleguna) og leggja síðan út
af hetjusögu Klettafjallaskáldsins?
En hvað gerir Halldór? Hann tekur sig til og
fer að boða upplausn hefðbundnustu gilda, set-
ur spurningamerki við sjálfan hornstein sam-
félagsins, fjölskylduna, konan væri jafnoki
mannsins, börnin ættu að alast upp á sérhæfð-
um uppeldisstofnunum; nýir tímar yrðu að
segja skilið við glórulaust brauðstrit og í stað-
inn kæmi samvirkt átak til aukinnar menning-
ar – hugmyndir sem orkuðu á viðstadda eins
og þegar rafmagnstæki er stungið í samband
við of háa spennu, svartur strókur stóð upp af
háttvirtum áheyrendum, þetta fólk sem var
allt af vilja gert til að sýna hinum unga
gesti velvilja, von bráðar var það tek-
ið að gretta sig, einn og einn fann
sig knúinn til að kalla fram í, á
endanum ríkti upplausn og loks
lá við borð að viðstaddir legðu
hendur á hinn unga ræðumann.
Hér var eldflaug að leggja af
stað með tilheyrandi fyrir-
gangi: skotpallar splundrast,
stög hrynja og mökkurinn frá
eldsneytinu kaffærir um stund
sjálft farið sem sækir í sig
veðrið með sívaxandi hraða
uns það hverfur út í geiminn
þaðan sem það tekur að senda
upplýsingar um alheiminn.
Köllun sína orðar Halldór í
bréfi til Jóns Sveinssonar,
Nonna, árið 1925, en tilefnið
voru tilmæli hins aldna skáld-
klerks um að æskumaðurinn
Halldór gætti þess að ofbjóða
ekki lesendum.
Halldór svarar:
„Ég þakka þér firir þín góðu
ráð, en ekki líst mér nú samt í
alla staði vel á þau og verður þú
að firirgefa það. Einkum hef ég
mjög litla tilhneigingu í þá átt
að haga mér eftir óskum og
smekk públikkums; til þess álít
ég kall rithöfundarins sé of heil-
agt. Rithöfundurinn er spámaður vorra tíma,
hann er sá sem hefur köllun til þess að tala til
fólksins firir munn Jehóva, en ekki Witzmach-
er í varietéi (grínari í uppistandi, innskot PG),
sem sækist eftir lófaklappi fjöldans. Ég get
ekki varist þess að álikta að það væri andlegt
lauslæti, að ég ekki taki dípra í árinni, að gera
sér far um að rita þannig sem helst mundi kitla
eiru fólksins; en sé rithöfundurinn ekki maður
til að neiða públikum til að hlusta á sig sem
sagt nolens-volens (nauðugt viljugt)… þá má
hann sjálfum sér um kenna og ætti að velja sér
eitthvert annað lífsstarf. Hefur nokkurntíma
verið uppi ritsnillingur í heiminum sem spurði
um smekk og óskir lesendanna “
Og viðbrögð hinnar útvöldu þjóðar voru í
samræmi við það. Við getum gengið úr skugga
um það í hirslum Þjóðarbókhlöðunnar sem
geymir gulnuð blöð og tímarit sem eitt sinn
voru ný. Hér er til dæmis grein í Verði, viku-
blaði íhaldsmanna, 6. apríl 1929. Höfundurinn
skrifar úr nokkurri fjarlægð frá höfuðborginni,
gæti verið bóndi, og gat ekki orða bundist eftir
að hafa lesið ádrepu Halldórs um þrifnað á Ís-
landi þar sem höfundurinn hafði m.a. viljað
skipta út prestastéttinni í staðinn fyrir salern-
isskálar á sérhvern sveitabæ:
Bréfritarinn skrifar: „Mjer, sem hefi verið
orðlagður prestahatari, blöskrar svo, að jeg á
naumast nokkur orð til að lýsa viðbjóði mínum
á slíkum rithætti. Hvaða þörf er á því, að gera
svona upp reikning prestanna, þótt haldið sje
fram þörf á salernum?“
En Halldór svaraði fullum hálsi með því að
Íslendingar kynnu ekki að lesa: „Frá því ég var
um fermíngu og byrjaði að skrifa, hef ég stans-
laust verið ofsóttur af fólki sem kann ekki að
lesa…“ skrifar hann um líkt leyti og átti þá við
að mönnum hætti til að taka bókstaflega full-
yrðingum sem væri ætlað að koma hlutunum á
hreyfingu, ná inn úr vaðmáli vanans, peysuföt-
um forpokunarinnar, siggi sinnuleysins…
***
Með þeim árangri að það er
spurning að hve miklu leyti við
sem nú erum á dögum erum hug-
arburður Halldórs Laxness. Hann
er hnotubrjóturinn sem braut 20. öld-
ina til mergjar og gerði okkur innmat hennar
ætan. Og eins og hnotubrjótur er hann tví-
arma, annars vegar Kiljan og hins vegar Lax-
ness. Kiljan á meðan skurnin var brotin, Lax-
ness þegar kjarninn var kominn í ljós.
Sjálf baráttumálin eru mörg hver svo löngu
komin í höfn að átak þarf til að láta sér skiljast
að þau hafi ekki alltaf verið sjálfsagðir hlutir:
rafvæðing, salerni, bjartar og góðar vistarver-
ur, bækur, tónlist, útivera… Það væri efnileg-
ur vindmylluriddari sem færi að berjast undir
þessum vígorðum nú.
Er þá ekki lengur neitt til að keppa að, hafa
óskir okkar allar ræst? Að vísu ekki, einungis
verður æ flóknara að koma orðum að þeim. Sú
dægurmálabarátta sem nú fer fram á Vest-
urlöndum snýst ekki lengur um magn heldur
gæði. Í því sambandi er við hæfi að minnast
þess að enn hefur ekki verið orðuð fram-
sæknari stefnuskrá umhverfisvernd-
ar á Íslandi en sú sem Halldór
samdi árið 1970 og kallaði
„Hernaðinn gegn landinu“.
Og dulmögnuð er trúar-
játning sem hann leggur í
munn Jóni Prímusi í Kristni-
haldi undir jökli, sem jafnframt
var kveðja Halldórs til skáldsög-
unnar,: „Sá sem ekki lifir í
skáldskap, lifir ekki af
hér á jörðinni,“ segir
þar.
Það hlýtur að
vera keppikefli
allra sem unna
höfundarverki
Halldórs Kiljan
Laxness að það
haldi áfram að
vera lifandi
skáldskapur en
sæti aldrei þeim
örlögum að daga
uppi sem hillufylli
af fagurbók-
menntum.
Ávarp flutt
við opnun á sýn-
ingu helgaðri Hall-
dóri Laxness í
Þjóðarbókhlöðu 23.
mars sl.
Halldór Laxness árið 1928, ári eftir að hann hélt alræmda ræðu á Íslendingadegi í Kanada.
E F T I R P É T U R G U N N A R S S O N
Höfundur er rithöfundur.
„Hér var eldflaug að leggja af stað með tilheyrandi fyrirgangi: skotpallar splundrast, stög hrynja og mökk-
urinn frá eldsneytinu kaffærir um stund sjálft farið sem sækir í sig veðrið með sívaxandi hraða uns það hverfur
út í geiminn þaðan sem það tekur að senda upplýsingar um alheiminn.“
KRAFT-
BIRTING
HALLDÓRS