Lesbók Morgunblaðsins - 11.05.2002, Síða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 11.05.2002, Síða 12
12 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 11. MAÍ 2002 „LÍTIÐ barn horfir hugfangið á óróann yfir vöggunni sinni. Litskrúðugar litlar verur hanga í þráðum, leika alls kyns jafnvægisleiki og bærast við minnstu hreyfingu andrúms- loftsins. Ímyndið ykkur nú svona óróa þar sem litlu verurnar eru orðnar fullvaxnar manneskur, trommuleikarar af holdi og blóði og óróinn hangir neðan úr stórum krana. Í miðjum óróanum sýnir loftfimleikamaður ótrúlegar listir mitt í kraftmiklum, flæðandi taktmynstrum trommuleikaranna.“ Þannig kynnir Listahátíð Óróaseggina, eða Mobile Homme, franska götulistamenn sem sýna listir sínar við Reykjavíkurtjörn á morg- un kl. 14.00. Jón Þórisson stjórnar þessu verkefni Listahátíðar og hefur meðal annars haft með höndum að útvega þeim krana. „Þetta eru götulistamenn, trommuleikarar, sem við ætlum að hífa upp í um 30–40 metra hæð. Þar hanga þeir skrautlega klæddir í óróa, en með þeim er líka loftfimleikakona sem gerir sínar kúnstir úr rólu, undir trommuleiknum. Þetta verður mikið fyrir augað, og kannski svolítið skuggalegt. Ég er einmitt að fara með þau núna niður í Hljóm- skálagarð að kanna aðstæður. Þetta lítur allt vel út í dag, en það er nú svo með Ísland að hér eru bara sýnishorn úr veðri. Þau segjast nú þola talsverðan vind, en allt hlýtur þetta þó að hafa sín mörk. Það má þó varla vera al- veg logn, eitthvað verður óróinn að hreyfast.“ Mobile Homme er hópur listamanna sem starfa með Transe Express-fjöllistahópnum í Frakklandi. Hópurinn var stofnaður árið 1987 af Gilles Rhode og Brigitte Burdin sem enn starfa sem listrænir stjórnendur hópsins. Með Transe Express starfa nú um 60 lista- menn sem einkum koma fram á götum úti, á svölum og syllum hárra bygginga eða hang- andi niður úr turnum og krönum. Hópurinn vakti heimsathygli um árþúsundamótin í Par- ís þegar hann stóð fyrir tilkomumiklu sjón- arspili við Pompidou-nýlistasafnið. Það er sama hvar borið er niður í umfjöllun um sýn- ingar Óróaseggjanna, „mikið undur“ og „til- komumikið sjónarspil“ segja þeir sem séð hafa. Hópurinn hefur komið fram við ólíkustu tækifæri um allan heim, en listamennirnir eru tíðir gestir á listahátíðum og eins við opnanir og vígslur húsa, þar sem þeir hanga gjarnan eins og bjargfugl í klettavegg meðan þeir leika listir sínar. Allir sem vilja ættu að geta notið sjónarspils Óróaseggjanna á Listahátíð, því sýning þeirra við Reykjavíkurtjörn er að vonum öllum opin. Óróaseggirnir Mobile Homme „ÞAU SEGJAST ÞOLA TALSVERÐAN VIND!“ Óróaseggir í sjöunda himni. E IGUM við ekki bara að hittast á Gráa kettinum? Það á hvort sem er alveg eftir að setja sýn- inguna upp,“ segir Ólafur Elías- son þegar blaðamaður nær af honum tali eftir komuna til landsins. Þegar þetta samtal á sér stað er mjög farið að líða að sýningaropnun í galleríi i8 en Ólafur er hinn rólegasti. Þegar við hittumst síðan á umræddu kaffihúsi á föstudagsmorguninn virðist sýning- in enn vera til að mestu leyti í höfði Ólafs, sem dregur upp blað og blýant, og fer að skissa upp grunnmynd af galleríi i8. „Sko,“ segir hann og byrjar á því að byrgja algerlega fyrir glugga gallerísins með þunnum viðarvegg. „Ég bý til nokkurs konar kassa úr sýningarrýminu á efri hæð gallerísins, sem verður alveg myrkvaður. Innan þessa rýmis eru síðan þrjú verk sem fjalla á einhvern hátt um það hvernig við sjáum og skynjum. Sýningin er þannig hugsuð sem ein heild, þó svo að hlutarnir fjalli um ólíkar hliðar viðfangsefnisins.“ Hér mundar Ólafur blýantinn og teiknar gat á viðarvegginn, sem safnlinsu verður komið fyrir í, með það í huga að varpa ljósinu utan af götunni inn á skjá í myrkvuðu sýningarrým- inu. „Þetta er útfærsla á hugmyndinni um hina frumstæðu myndavél eða „camera obscura“, tækni sem fyrst var notuð á endurreisnartím- anum. Vegna myrkursins í gallerírýminu varp- ast götumyndin fyrir utan glugga i8 í gegnum safnlinsuna á skjáinn þar inni. Þetta er því nokkurs konar bein útsending (eða innsetn- ing!) á veruleikanum úti fyrir,“ segir Ólafur. „Í gluggaveggnum hinum megin verður síðan kviksjá, sem speglar götumyndina í nokkurs konar sjónhverfingu (Ólafur teiknar nokkur óregluleg form til skýringar og lýsir því með nokkurs konar krassi hvernig speglar hring- sjárinnar magna upp og brengla götumynd- ina). Í þriðja verkinu er ljósi varpað á vegg inni í galleríinu sem skapar tilfinningu fyrir þrívíðu veggjarými. Í gallerínu reyni ég að skapa ákveðna metafóru fyrir mannshöfuðið. Við get- um litið á rýmið sem höfuð, gluggana með lins- unum sem augu og skynjun áhorfenda sem heilastarfsemi,“ segir Ólafur og horfir hugsi á teikninguna fyrir framan sig. Myndlist sem sjálfsathugun Í myndlist sinni hefur Ólafur mjög beint sjónum að því hvernig við upplifum veru- leikann og þáttum sem hafa áhrif á þá upplifun. Sýningin í i8, er að sögn Ólafs tengd því sem hann hefur verið að sýna að undanförnu, þó svo að útfærslan sé önnur og í raun afmörkuð við þrjár hliðar á skynjunarferlinu. „Camera obscura-verkið í i8 fjallar um virkni sjónarinn- ar, kviksjáin vísar til sjónhverfinga og muninn á því hverju við trúum og hvað við sjáum og þriðja verkið þ.e. veggmyndin, fjallar um þann þátt sem heilastarfsemin á í að skapa þær myndir sem við sjáum. Með því að leiða áhorf- andann í gegnum þessar upplifanir, vil ég virkja hann til að leiða hugann að eigin stöðu sem skynjanda umheimsins,“ segir Ólafur. „Þannig er þátttaka sýningargestsins ómiss- andi þáttur í verkum mínum. Án áhorfandans er sýningin ekkert, því verkin hafa takmarkað gildi sem myndverk í sjálfu sér.“ – Tengist áhersla þín á sjónræna skynjun, þar sem notast er við ýmiss konar tækni frá ár- dögum ljósmynda og kvikmynda, að einhverju leyti því vægi sem sjónræn menning hefur í nú- tímasamfélagi? „Á vissan hátt já, en kannski mætti frekar lýsa þessum áhuga sem nokkurs konar grunni fyrir víðtækari athuganir á hlutum sem eru að gerjast í samtímanum og birtast samtímis á ólíkum þekkingarsviðum. Með notkuninni á camera obscura, er ég líklegast fyrst og fremst að líta aftur til endurreisnartímans, þegar þessi tækni var virkjuð í teiknivélum og við þróun ákveðinnar rýmishugsunar. Á þessum tíma, þ.e. í kringum upplýsinguna, fær mað- urinn nefnilega áhuga á sjálfum sér, og að kanna eigin virkni. Það er kannski fyrst á þess- um tíma sem maðurinn verður ekki aðeins fær um að hugsa, heldur fær að hugsa um það að hugsa. Í byrjun tuttugustu aldar birtist við- leitnin til sjálfsathugunar á mun sterkari hátt í áhrifamiklum pælingum bæði sviði sálgrein- ingar og ljósmyndunar,“ segir Ólafur og hug- leiðir orð sín um stund. Hvað er listahátíð? „Lykilhugtak í því sem ég er að reyna að koma hér orðum að er þáttur sjálfsskoðunar í þekkingarleit,“ segir Ólafur. „Það er ekki nóg að beina sjónum að nýjum uppgötvunum og framþróun, samfélög verða að geta staldrað við og spurt sig hvert þau eru í raun að stefna og hvernig þau sjái hlutina í kringum sig. Hlut- verk listarinnar hefur kannski alltaf falist í því að meira eða minna leyti standa fyrir slíkri sjálfsathugun. Ég vinn að minnsta kosti að minni myndlist á þessum forsendum, enda er ég myndlistarmaður, ekki eingöngu vegna þess að ég hef áhuga á listum, heldur fyrst og fremst vegna þess að ég hef áhuga á samfélag- inu,“ segir Ólafur. „Ég held að íslenskt samfélag, með allri sinni atorku og uppbyggingu, þurfi mjög á vandlegri sjálfsskoðun að halda. Margir eru ef- laust hæfari til að leggja mat á þetta umræðu- efni en ég, en að mínu mati skortir Íslendinga dálítið þennan þátt. Þetta orsakast vafalaust af því hversu lítil áhersla er lögð á það frá hendi stjórnvalda að skapa hér grundvöll fyrir menn- ingu og listsköpun til að virkilega vaxa og dafna, á þann hátt að hún geti látið til sín taka á hugmyndafræðilegum og efnahagslegum grundvelli. Ég held til dæmis að Listaháskól- inn sé stærð sem búi yfir miklum möguleikum en hann fær einfaldlega ekki nógu mikla pen- inga til að fá að blómstra og skila verðmætum út í samfélagið í umbreyttu formi. Þetta eru einmitt spurningar sem við ættum að velta fyr- ir okkur í kringum Listahátíð. Við þurfum að spyrja okkur hvers vegna verið er að efna til listahátíðar, hvað við viljum fá fram með slík- um viðburði og hvernig hann getur skapað okkur frekari möguleika á að efla sjálfsskoðun og listsköpun í samfélaginu.“ Ef allt gengur að óskum og teikning Ólafs tekur á sig áþreifanlega mynd í galleríi i8, mun hann hverfa til síns heima, sem skipt er milli Berlínar og Feneyja, strax eftir helgi – og hef- ur tæp vikudvöl hans hér á landi þá verið vel nýtt. „Sama dag og sýningin er opnuð í i8, verður opnaður Mýrargarður, verk sem ég vann í samvinnu við Landform inn í nýjar höf- uðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar í Vatns- mýrinni. Þá sé ég um sýningarstjórn myndlist- arsýningar í Galleríi Gangi sem verður opnuð um helgina. Þar sýna fimm vinir mínir af ýms- um þjóðernum sem allir búa í Berlín. Þá sýn- ingu kom ég með í tösku til Íslands,“ segir Ólafur. Sýning Ólafs Elíassonar er framlag gallerís i8 til Listahátíðar í Reykjavík. SÝNINGIN ER EKKERT ÁN ÁHORFANDANS Ólafur Elíasson, Íslendingurinn, Daninn, Berlínar- og Feneyjabúinn, hefur á undanförnum árum unnið sér sess sem eftirsóttur myndlistarmaður á alþjóðavettvangi. Fyrir helgi kom hann til Reykjavíkur með stóra sýningu í höfðinu, aðra í töskunni og þá þriðju úti í mýri. HEIÐA JÓHANNSDÓTTIR spjallaði við Ólaf um sýninguna sem opnuð verður í i8 á morgun í tengslum við Listahátíð í Reykjavík. Morgunblaðið/Ásdís Ólafur Elíasson ætlar að leiða sýningargesti í gegnum sjónhverfingar og sjálfsskoðun í myrkv- uðu rými sýningarsalarins í gallerí i8. Hér leggur hann drög að því að smíði nokkurs konar stað- bundinnar útfærslu camera obscura-tækninnar. heida@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.