Lesbók Morgunblaðsins - 06.07.2002, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 06.07.2002, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. JÚLÍ 2002 N ÝSKIPAÐUR sendiherra Kanada á Íslandi, Gerald R. Skinner, opnar í dag sýningu á verkum kan- adíska landslagsmálar- ans Davids Alexanders í aðalsal Hafnarborgar, menningar- og lista- stofnunar Hafnarfjarðar. Sýningin er jafn- framt fyrsti stórviðburðurinn í menningarleg- um samskiptum Íslands og Kanada í kjölfar stofnunar sendiráðs Kanada á Íslandi. David Alexander er meðal þekktustu núlif- andi listamanna í Kanada og eru verk hans reglulega til sýnis á helstu söfnum og galleríum þar í landi. Í litríkum og kraftmiklum málverk- um sínum túlkar hann stórbrotna náttúru Saskatchewan, Skotlands, Mexíkó, Suðvestur- ríkja Bandaríkjanna, Grænlands og síðast en ekki síst Íslands. Alexander er einnig þekktur sem sýningarstjóri, m.a. hefur hann sett saman sýningar á verkum frumkvöðla hins kanadíska landslagsmálverks, Sjömenninganna svoköll- uðu, í heimalandi sínu. Flökkuþráin og ferðirnar á vit hins óþekkta eru drifkraftur Davids Alexanders, en lista- maðurinn forðast þó að túlka landslagið sem ferðamaður heldur er honum efst í huga jarð- söguleg, goðsagnaleg og tilfinningaleg merk- ing þeirra náttúrukrafta sem hann stendur frammi fyrir hverju sinni. Að hans mati eru þessir kraftar hvergi gegnsærri og áhrifameiri en á norðurslóðum. Þessum kröfum kemur hann á framfæri í stórum málverkum og með miklum andstæðum forma og lita, setur þannig af stað röð sjónrænna árekstra sem halda áhorfandanum hugföngnum. Málverkin í Hafn- arborg eru afrakstur Íslandsdvalar Alexand- ers sumarið 2000, er hann var með vinnuað- stöðu í Straumi. Hann varð altekinn af hraunlandslaginu bæði á Reykjanesskaganum og víðar á Suðurlandi, og um leið af því hvernig Jóhannes Kjarval túlkaði þetta landslag hér á árum áður. Þessar myndir hafa nú verið sýnd- ar víða um Kanada við afar góðar undirtektir. Orkideur í óbyggðum „Ég byrjaði á þessari myndaröð fyrir um sex árum,“ segir David Alexander. „Í myndunum er ég að vinna með hugmyndina um það hvern- ig við mennirnir horfum á náttúruna og hvern- ig við um leið temjum hana að eigin reynslu með aðskotahlutum sem sem eru okkur venju- legir og tamir. Ég kom hingað til Íslands fyrst árið 1999 og dvaldi hér í mánuð; ferðaðist um landið og teiknaði landslagið. Mér var þá boðið að sýna hér í Hafnarborg og ég sagði strax já.“ Hlutirnir sem David Alexander setur í lands- lagið vekja eftirtekt; – það eru þeir sem draga okkur að því. Fjallgarður með bambusstól í forgrunni; lækir og fossar umvafðir orkideum; dalir bak við frumskóg af kaliblómum. Það þarf að horfa djúpt inn í myndirnar til að finna landslagið. „Þetta er mín leið til að sýna hvern- ig við eignum okkur allt á jörðinni. Stóllinn er eitthvað sem okkur langar að setjast á til að njóta okkar og þess sem við sjáum. Hann hefur praktískt gildi. Þessi framandi blóm vekja hins vegar upp spurninguna hvað þau séu að gera þarna, því við vitum að þau þrífast ekki í þessu landslagi. Blómin hafa mismunandi merkingu allt eftir því hver áhorfandinn er. Hvítt blóm í vestrænni menningu er tákn hreinleikans, meðan það táknar dauðann í asískri. Þannig horfir hver og einn á landslagið og út frá eigin forsendum, því blómin hafa ólíka merkingu eft- ir því hvaðan þú kemur og hver þú ert. Þetta eru spurningarnar sem ég velti fyrir mér, og þannig set ég þær upp í myndmálinu. Blómin eru líka öll í forgrunni, þannig að þú þarft að taka þér tíma til að komast inn í landslagið og leita það uppi bak við þessi menningarlegu tákn. Helg jörð eða vígaslóð Þessa mynd kalla ég Eldhús jarðar. Þannig er Ísland fyrir mér. Það er eins og að ganga á eggjaskurn, gæti brotnað hvenær sem er. Mað- urinn þarf að fara varlega og og tilfinningin er sú að maðurinn fái aðeins að vera á þessari jörð svo lengi sem honum er ætlað. Landið hér er svo ungt og viðkæmt og mér finnst að mað- urinn geti brotið það hvenær sem er. Ég las eitt sinn mjög áhugaverða bók eftir Simon Shama sem heitir Landslag og minning (Landscape and Memory). Þar segir hann með- al annars frá hugmynd sinni um hinn eina nátt- úrulega skóg sem eftir er í Evrópu. Hann er í Póllandi [Katynskógur]. Eina ástæðan fyrir því að þessi skógur hefur fengið að lifa er sú að harðstjórar margar aldir aftur í tímann eign- uðu sér hann sem griðastað. Á hinn bóginn voru ótal gyðingar drepnir og grafnir í þessum skógi. Þannig er sama jörðin einum manni vígaslóð meðan hún er helg í augum þeim næsta. Þetta sjáum við hvarvetna í sögu mannsins; – í dag sjáum við þetta í Ísrael. Landið hefur táknræna merkingu sem mað- urinn gefur því, og hún fer eftir því hver þú ert. Tvíburaturnarnir í New York voru tákn í landslagi borgarinnar. Hvaða tákn getur komið í staðinn fyrir þá? Þetta eru hugmyndir mínar um það hvernig fólk horfir á landið með ólíku hugarfari og með ólíkan bakgrunn, sögu og menningu. Iðnaðarsamfélagið horfir öðrum augum á landið en þeir sem vilja hlú að því. Ís- land er lítið land og það þarf að hugsa vel um það. En það er alltaf von, og ég held að blómin í landslaginu mínu séu einmitt vonin.“ David Alexander fæddist árið 1947 í Van- couver. Árið 1985 útskrifaðist hann frá Sask- atchewan-háskólanum í Saskatoon. Hann hef- ur sýnt verk sín víða um heim, t.d í Englandi, Skotlandi, Bandaríkjunum og Tékklandi, fyrir utan fjölda sýninga í heimlandi sínu. Ætar konur og eimaðar sálir Í Sverrissal Hafnarborgar verður opnuð sýning á verkum sjö listamanna sem kalla sig Distill. Þetta er alþjóðlegur hópur sem vinnur rýmisverk sem rannsaka mannlega reynslu í myndverkum unnin í ýmis efni. Hópurinn skír- skotar til skynjunar líkamans frá menningar- legu og skynrænu sjónarhorni. Þótt nálgunin og aðferðirnar sem listamennirnir nota til að skýra hugmyndir sínar séu mismunandi, nota þeir oft sameiginlegt stef endurtekningarinn- ar. Þeir draga út og umbreyta innsta kjarna mannlegrar reynslu. Einn Íslendingur er í hópnum, Hrafnhildur Sigurðardóttir. „Við sem í hópnum erum, lærðum saman í Colorado í Bandaríkjunum. Við sýndum einu sinni saman og það gekk svo vel, að við ákváðum að stofna þennan hóp. Síðan erum við búin að sýna einu sinni í Chicago og erum með aðra í farvatninu í Colorado, og hugsanlega eina á Ítalíu. Við erum öll með rýmisverk, og erum öll útskrifuð úr skúlptúr og keramik- deildum skólans. Um það leyti sem við útskrif- uðumst vorum við öll að vinna textílverk í rými, en annars erum við öll með blandaða tækni; – leir eða textíl, – bara það sem hentar hverju sinni.“ Enska sögnin to distill, þýðir að eima eða þjappa saman og segir Hrafnhildur lista- menn hópsins eiga það sameiginlegt að stunda eins konar eimingu eða samþjöppun á mann- legri reynslu, tilfinningum og mannslíkaman- um út frá ýmsum sjónarhornum. Húmorinn er áberandi í verkum hópsins, en undirtónninn er alvarlegur. „Verkið mitt, Sweet Sugar Candy er bakki með því sem lítur út fyrir að vera konfektmolar. Þegar þú horfir nánar á molana sérðu að þetta eru kvenmannsbrjóst og skaut. Þú hlærð þegar þú sérð það, en svo kviknar hugsunin á bakvið. Það er alltaf verið að bera okkur konurnar saman við sælgæti, – eins og við séum ætar og nota kvenlíkamann í alls kon- ar samhengi, eins og auglýsingum fyrir eitt- hvað sem tengist honum ekki neitt.“ Listamennirnir í Distill eru: Maria Patricia Tinajero-Baker frá Equador. Draumar og töfrar eru uppistaðan í verkum hennar og hún bræðir saman manneskjur og landslag. Amy Barillaro er bandarísk. Hún notar sama tjáningarform og notað er í leikjum barna. Í verkum sínum skráir hún og kortlegg- ur leiki sem tilheyra fortíðinni og leiðir þannig áhorfandann inn í veröld barnsins. Ann Chucv- ara er einnig frá Bandaríkjunum. Í verkum hennar er engin saga og enginn þráður. Þar sem þau verða ekki túlkuð með orðum þarf að skynja þau beint og án tengiliða. Tsehai John- son er fædd í Eþíópíu. Hún rannsakar hvernig leirnytjahlutir geta endurspeglað menningu, einkalíf manneskjunnar og félagslegt um- hverfi. Julie Poitras Santos er bandarísk. Skúlptúrar hennar eru könnun á tengslum lík- amlegrar, innri reynslu og veröldinni sem um- lykur okkur. Feminismi og staða konunnar er umræðuefni Hrafnhildar Sigurðardóttur. Verk hennar tengjast því hvernig líkami konunnar hefur verið notaður í auglýsingaskyni og hvernig dæmigert handverk kvenna hefur yf- irleitt verið skoðað sem dægradvöl. Jaeha Yoo er bandarískur og karlmaðurinn í hópnum. Hann bendir á að hlutir hafi í sjálfu sér enga sögu. Sagan komi frá þeim sem skoðar verkið, áhorfandinn sæki sögur í sameiginlega vitund okkar og tengi þær verkinu. Sýningarnar í Hafnarborg verða opnaðar kl. 15 í dag. Þær eru opnar alla daga nema þriðju- daga frá kl. 11 til 17 og lýkur 22. júlí. „MÍN LEIÐ TIL AÐ SÝNA HVERNIG VIÐ EIGNUM OKK- UR ALLT Á JÖRÐINNI“ Morgunblaðið/Sverrir David Alexander við Eldhús jarðar. Morgunblaðið/Sverrir Hrafnhildur Sigurðardóttir, Jaeha Yoo og Julie Poitras Santos í Distill.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.