Lesbók Morgunblaðsins - 27.07.2002, Síða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. JÚLÍ 2002 11
Hvers vegna varð Kína aldrei
heimsveldi eins og Rómaveldi?
SVAR: Kína hefur verið heimsveldi á sinn
hátt í brátt þrjú þúsund ár, að vísu með
smáhléum. Á vissum stuttum tímaskeiðum
leystist Kína upp í smáríki en alvarlegast
var þegar reynt var að drepa kínversku
þjóðina að mestu leyti eftir innrás mongóla
á 13. öld.
Rómaveldi var aldrei heimsveldi í þeim
skilningi að það næði yfir heim allan. Það
var voldugt ríki við Miðjarðarhafið sem réð
öllum löndum umhverfis þar, en náði aldrei
mjög langt þar fyrir utan og átti oft í mestu
erfiðleikum við að halda yfirráðum sínum í
löndum utan Miðjarðarhafssvæðisins.
Kína hefur verið fjölmennasta ríki jarðar
nær samfellt síðan 200 árum fyrir krist-
burð. Mismunurinn á Kína og Rómaveldi er
hins vegar margvíslegur. Í fyrsta lagi stóð
Rómaveldi stutt, hófst á 1. öld fyrir tímatal
okkar og lauk á 5. öld. Áhrif þess á Evrópu
urðu hins vegar mikil og varanleg, tungu-
mál margra urðu af rómverskum toga,
grísk-rómversk menning hafði víðast hvar
varanleg áhrif og síðast en ekki síst varð
síðasta ríkistrúin í Rómaveldi, kristnin, að-
altrúarbrögðin í Evrópu.
Í öðru lagi var Rómaveldi fyrst og fremst
herveldi, með Rómverja sem aðalyfirstétt,
en þar bjuggu alltaf margar ólíkar þjóðir
sem að vísu notuðu sín á milli tvö sameig-
inleg tungumál, latínu og grísku. Útþensla
kínverska heimsveldisins var hins vegar í
grundavallaratriðum útþensla einnar og
sömu þjóðar, með sameiginlegt tungumál
og sömu menningu, atvinnulíf og stjórn-
arfar, Han (eða Qin) þjóðarinnar, sem upp-
runin var í Norður-Kína. Þessari útþenslu
var lokið á svipuðum tíma og Rómaveldi
leið undir lok.
Þjóðir Evrópu, svo og Asíu og Afríku við
Miðjarðarhaf, bæði fyrir og eftir daga
Rómaveldis, hafa margar verið miklar sigl-
ingarþjóðir. Því valda landfræðilegar ástæð-
ur; tilvist Miðjarðarhafs og sú staðreynd að
strandlengja Evrópu er mjög löng miðað
við stærð álfunnar. Siglingar urðu mörgum
Evrópuþjóðum, og þar á undan Rómverjum
og fleiri þjóðum við Miðjarðarhaf, mikil lífs-
nauðsyn. Forsendan fyrir tilvist Rómaveldis
voru öruggar siglingar, alla vega um Mið-
jarðarhafið, og þær Evrópuþjóðir, sem
seinna, eða eftir 1500, gerðust heimsveldi í
fjarlægum heimsálfum, urðu slíkt vegna
reynslu sinnar í siglingum.
Kínverjar voru hins vegar fyrst og fremst
fólk hins fasta lands. Mestu siglingar þeirra
fólust margsinnis í því að byggja mikla
skipaskurði um landið þvert og endilangt.
Þeir voru sjálfum sér nægir um allt sem
hugur þeirra girntist, í kínverska ríkinu bjó
að jafnaði um þriðjungur allra jarðarbúa og
Kínverjar nefndu ríki sitt miðríkið, þar
væri í eðli sínu miðpunktur mannlegrar til-
vistar á jörðinni. Þegar evrópskar sigl-
ingaþjóðir fóru að heimsækja kínverskar
hafnir eftir 1500 komust þær fljótt af því að
þær höfðu nær engar vörur til að bjóða sem
Kínverjar ásældust, hins vegar höfðu Kín-
verjar mikið að bjóða Evrópumönnum sem
þeir vildu fá eins og silkivörur og postulín.
Viðskiptajöfnuður Kínverja og Evrópubúa
var því jafnan þeim síðarnefndu óhag-
stæður og varð að borga fyrir kínverskar
vörur með góðmálmum, silfri og gulli, sem
Evrópubúar náðu mest í með gripdeildum
og öðru ofbeldi í Ameríku. Englendingum,
sem urðu mesta siglingaþjóð heims á 18.
öld, tókst hins vegar að skapa eftirspurn
eftir nýrri vöru í Kína, var það ópíum sem
ræktað var á Indlandi. Þegar kínverski keis-
arinn ákvað að banna ópíum og ópíumsölu í
ríki sínu um 1840, brugðust Englendingar
ókvæða við og fóru í styrjöld sem lauk með
sigri þeirra.
Ópíumstríðið sýndi veikleika gamla mið-
ríksins. Meðan Evrópubúar, og þá einkum
Englendingar, höfðu eflt siglingar sínar um
heimsins höf og í framhaldi af því aukið
tæknimátt sinn, ekki síst í hernaði, allt frá
18. öld, höfðu kínversk yfirvöld reynt að
halda sem flestu óbreyttu í stóru ríki, voru
öruggir um yfirburði miðríkisins. Gallar
þessarar stöðnunar urðu æ ljósari þegar leið
á 19. öldina og síðan 20. öldina, evrópsk ríki,
og seinna einnig Bandaríkin og Japan,
skiptu Kína milli sín í áhrifasvæði. Kín-
verska stórveldið leið undir lok og raunar
varð sameinað Kína fyrst til aftur með
valdatöku kommúnista í landinu 1949. Nýju
valdhafarnir (sumir mundu segja nýja yf-
irstéttin) stofnuðu aftur öflugt miðstýrt ríki,
unnu afrek á sumum sviðum eins og í
menntamálum, en efnahagstilraunir þeirra
tókust misvel og sumar voru misheppnaðar
með öllu.
Kínverjar höfðu alla þá tækni sem þurfti
til siglinga um heimsins höf á 14. og 15. öld.
Raunar voru margar þær nýjungar sem
Evrópubúar tóku upp í siglingum upp-
haflega frá Kínverjum komnar, til dæmis
áttavitinn. Kínversk skip sigldu bæði til
Austur-Afríku og Ameríku löngu áður en
Evrópubúar gerðu nokkuð þvílíkt, þessar
evrópsku siglingar kölluðust síðar „landa-
fundirnir miklu“. En þessar siglingar Kín-
verja voru ekki þáttur í starfsemi gráðugra
stjórnvalda eða verslunarfélaga eins og
reyndin var í Evrópu enda voru ekki í Kína
tiltölulega sjálfstæðar borgir sem byggðu til-
vist sína á úthafssiglingum eins og var víða í
Evrópu. Í Kína ríkti einveldi keisarans jafnt
í borgum og sveitum og enginn fékk að yf-
irgefa miðríkið löglega nema með náðarsam-
legu leyfi hans.
Sem sagt: Kína er á sinn hátt heimsveldi
og hefur verið það í nokkrar þúsaldir en hef-
ur búið við misjafnan styrk í tímans rás. Þar
býr nú rúmur fimmtungur jarðarbúa og hag-
vöxtur er þar mikill ár hvert. Jafnframt eru
vandamál ríkisins mikil. Hins vegar er ljóst
að Kínverjar munu tæplega taka aftur upp
forna einangrunarstefnu sína. Þvert á móti
bendir margt til að áhugi þeirra á erlendum
ríkjum fari stöðugt vaxandi. Ef til vill er það
aðeins spurning um tíma hvenær Kína nær
aftur stöðu sinni sem miðríki mannlegs sam-
félags
Rómaveldi stóð stutt en skildi eftir sig
mikil áhrif í Evrópu, aðallega menningarlegs
eðlis. Því stafar af því meiri ljómi í hugum
margra Evrópubúa en raunverulegur styrk-
ur þess gefur ástæðu til.
Gísli Gunnarsson, prófessor í sagnfræði við HÍ.
Hvers vegna
varð Kína aldrei
heimsveldi eins
og Rómaveldi?
Á meðal spurninga sem hefur verið svarað á Vís-
indavefnum að undanförnu má nefna: Hvernig er
næringargildi matvæla fundið út, hvað er Talmúð og hvernig eru Elo-stig
í skák reiknuð út?
VÍSINDI
„Að síðustu bítur það sem höggormur og spýtir eitri sem naðra“
(Orðskviðir, 23:32).
Áfergju og áfengi
ei má saman stilla.
Rétt taumhald á því tvígengi
er tálsýn – regin villa.
Fikta ei við fagran drykk,
því flár hann kann að reynast,
er þér hann ljótan gerir grikk
og gjarnan vill því leynast.
Í hófdrykkju er hættan mest,
er hjartað vill sig gleðja –
því Bakkus notar brögðin flest,
og böl er hann að seðja.
Vini sína víst er þá
vont að þurfa’ að styggja.
En hitt er verra – sig að sjá
sjálfan drukkinn liggja.
Í boð er farið bílandi
og brátt er hönd á glasi.
Eitt varast: Það er vínandi!
Sú vá til baka’ ei slasi.
Í tækni veröld áfengi’ er
allra versti gikkur,
ef skert er aðgát illa fer.
Oft orsök þessi drykkur.
Svarti dauði sýki ber
oss sjúk í drykkju’ að gera.
Eins höggorms bitið bráðsjúkt er.
Þá báða látum vera.
Forðast máttu útspýting,
sér eiturnaðra’ er temur,
en brennivínsins vítahring,
víst þó öllu fremur.
Oft af hefð er áfeng skál
óbær fíknar vandi.
Með afþökk strax er auðleyst mál
og afgreitt svo það standi.
Lífið þarf sín boð og bönn
á brautum tímans hálum.
Verum allsgáð – ábyrg – sönn.
Það öldin boðar sálum.
PÉTUR SIGURGEIRSSON
Höfundur er biskup.
ÁFENGI AFHJÚPAÐ
Kató lssk krkj stóð
íspr engj umið juni
þasm atóm bomb baan
spsp praa akkk ödll
Spre ngjn smsp rkkk
vráð urbl eess uðaf
Kató lskm preh ssti
guði tihl dýrr ðhar
Múrs stst eins súla
sten duur þara lein
eftr afki rkju nnih
mnis vrði umöö öjðn
Heil agur sall eikr
heyr ðeta meir seja
ábje bésé ogað auki
lggé drng skpn undr
KÁRI TULINIUS
Höfundur stundar nám í bókmenntafræði við Háskóla Íslands.
KYRK JANÍ NAGA SAKI