Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 14.09.2002, Qupperneq 10

Lesbók Morgunblaðsins - 14.09.2002, Qupperneq 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 14. SEPTEMBER 2002 S UMARIÐ sem Magnús Ásgeirs- son andaðist stofnaði ég til þeirra kynna við ljóðaþýðingar hans sem vöktu hjá mér áhuga á honum og verkum hans sem hefur enst mér síðan. Ég var þá fjórtán ára gamall og ýmsar ytri ástæður urðu til þess að eitt fyrsta ljóðið sem heillaði mig í þýðingu hans var Þrá eftir Ricarda Huch: Til að vera hjá þér allt vildi ég bera, föðurlaus, vinalaus, félaus að vera. Mig langar til þín eins og lækinn til stranda, eins og svöluna á haustin til suðrænna landa, – eins og Íslending dreymi undir erlendum hlyni um mjallhvíta jökla í mánaskini – – –. Þegar Magnús Ásgeirsson var ungur stúdent í Reykjavík, nýbúinn að gefa út Síðkveld og far- inn að fást við þýðingar, komu þar út Erlend ljóð, nokkrar þýðingar eftir Guðmund Guð- mundsson sem þá var látinn fyrir fimm árum. Enginn vafi er á því að sú bók hefur ásamt fleiru getað beint huga Magnúsar að þýðingum þótt ekki sé hér rúm til að rekja það nánar. En í safni Guðmundar hefur Magnús séð þessa þýð- ingu hans á Þrá: Til að vera hjá þér, bæri’ eg hörmungar harðar, léti’ eg arin og vini og allsnægtir jarðar. Mig langar til þín eins og lá til stranda, eins og svöluna á haustin til suðrænna landa. – Eins og fjallanna son þráir heim af hjarta, er hann hugsar í tunglsljósi um tindana bjarta. Lesendur geta sjálfir borið saman þýðing- arnar, hver eftir sínum smekk, en þótt ég taki þetta lýsandi dæmi um skáldgáfu og aðferð Magnúsar Ásgeirssonar þegar á yngri árum og innsæisbundið næmi hans á það samband máls og skynjunar sem stíll er sprottinn af, er ástæðulaust að gera minna úr þýðingu Guð- mundar en efni standa til. Þó held ég að flestir ljóðavinir verði mér sammála um það fyrr en nokkuð annað að önnur braglína fyrsta erindis hjá Guðmundi og eina orðið í öðru erindi hans sem Magnús breytir hljóti undir eins að skipa þýðingu hins síðarnefnda æði miklu framar en hinni. En vitaskuld er það svo samanburður ljóðanna í heild og hugblær þeirra sem ræður úrslitum um viðtökur lesandans, og fellur þá at- kvæði mitt fljótt á ljóð Magnúsar. Ljóð hans, segi ég, vegna þess að hér er ekk- ert rúm til að ræða muninn á því að frumyrkja og þýða eða hvort það sé yfirleitt unnt, en geng- ið út frá samkomulagi um að útlent ljóð klætt í íslenskan búning sé nýtt kvæði, hvað sem fyr- irmyndinni líði, og fleira en nákvæmur mál- fræðilegur samanburður skeri úr um líf þess og ágæti og samband við fyrirmyndina. En lítum nú á frumtexta ljóðsins sem upphaf- inu olli og heitir á þýsku Sehnsucht – og báðir þýðendurnir kalla Þrá: Um bei dir zu sein, trüg’ ich Not und Fährde, liess’ ich Freund und Haus und die Fülle der Erde. Mich verlangt nach dir wie die Flut nach dem Strande, wie die Schwalbe im Herbst nach dem südlichen Lande, wie den Alpsohn heim, wenn er denkt, nachts alleine, an die Berge voll Schnee im Mondenscheine. Þó að mér þyki ljóð Magnúsar mun fegurra en Guðmundar hallast ekki mikið á um bók- staflega nákvæmni þýðendanna, ef farið er að athuga einstök orð og merkingu þeirra, og strangt tekið er Guðmundur nákvæmari í fyrsta og síðasta erindinu þótt það kosti hann „hörmungar harðar“ fyrir „Not und Fährde“ í því fyrsta og hann láti „arin“ tákna þar „Haus“. Þeir sem lesa þýsku sjá líka að lýsingarorð- anotkun Magnúsar í sama erindi á sér ekki fyr- irmynd á frummálinu samkvæmt orðflokka- greiningu og hvorki föðurleysi né féleysi er nefnt þar berum orðum. Með því að nota fyrstu línu Guðmundar óbreytta, en fara svo sína leið, nær hann hins vegar einkennilega sterkum seiði í fyrsta erindi. Þess njóta hin síðari – eins og á frummálinu – þegar þránni er til áherslu nánar lýst með þeim náttúrumyndum sem fólgnar eru í samlíkingunum. Í miðerindinu þræða báðir þýðendurnir frumtextann furðu nákvæmlega, en fara hvor sína leið þegar kemur að því að þýða þýska kvenkynsorðið „Flut“. Það merkir umfram annað sjávarflóð sem andheiti fjöru, en getur líka þýtt rennandi vatn, straum eða öldu. Þýð- ing þess er auk greinarmerkjasetningarinnar hið eina sem ekki er nákvæmlega eins hjá báð- um þýðendunum í miðerindinu. En sá munur skiptir þó býsna miklu máli. Merking orðsins sem Guðmundur velur fyrir „Flut“ felur að vísu í sér algengustu merkingu þýska orðsins, svo að ekkert skortir á ná- kvæmnina. Að því leyti er Magnús „ónákvæm- ari“ í bókstaflegum skilningi að „Flut“ í merk- ingunni straumur eða rennandi vatn er fátíðara en þegar það er bundið við sjóinn og haft um flóð eða öldu. En „lá“ er á hinn bóginn orð sem ratar ekki eins beint til lesandans og „lækur“. Það er lang- sóttara og sjaldnotaðra og merking þess af þeim sökum óljósari fyrir mörgum. Það er óheppilegt á þessum stað, og það sem skilur á milli feigs og ófeigs er að með því að skipta um „lá“ í þýðingu Guðmundar og setja „lækinn“ í staðinn losar Magnús erindið við orð sem þegar á dögum Guðmundar hefur sennilega verið orð- ið úrelt skáldskaparorð í vitund margra. Ýms- um nútímalesendum finnst það áreiðanlega dæmi um orð sem hefur dagað uppi í orðabók- um og ekki fellur að smekk þeirra að sjá í þýð- ingu þessa smákvæðis. Um leið gerir Magnús hrynjandina mýkri og háttbundnari en hún er hjá Guðmundi – en reyndar á það við um ljóðið allt. Loks má benda á það, þótt sumum þyki punktar og kommur litlu skipta, að úr grein- armerkjasetningu má hér lesa áherslu- og blæ- brigðamun sem varðar skilning á byggingu ljóðsins og túlkun þess. Guðmundi er varla ann- að ætlandi en að hafa litið svo á að það væri í megindráttum tvískipt og skilin að loknu fyrsta erindinu, en hin innbyrðis tengdari og hið þriðja nánast frekari árétting annars erindis með hægt vaxandi stígandi í endurtekningu og líkingum. Punktur og þankastrik Guðmundar á eftir öðru erindi rýfur hins vegar samfellda línu hugsunar og tilfinningar með óþarflega þungu og snöggu rofi á viðkvæmum stað. Frágangur Magnúsar, sem er í miklu meira samræmi við frumtextann, bendir aftur á móti til meira næmis á byggingu hans og blæbrigði. Komma Magnúsar og þankastrik eru eins og bending um létta, örstutta öndunaræfingu milli erinda! Hvorugur þýðandinn nefnir Alpana í þriðja erindi. Sá sem þýskan segir ala heimþrá til þeirra í brjósti verður aðeins „fjallanna son“ í þýðingu Guðmundar sem eykur líka í með því að blanda hjartanu í leikinn. Samkvæmt frum- texta er sonur Alpanna einn um nótt þegar hann hugsar heim, en hvorugt kemur ótvírætt fram í þýðingunum. Og snæviþakin fjöll, „Berge voll Schnee“, eru ekki heldur nefnd þar berum orðum þótt lesandinn hljóti að sjá þetta allt fyrir sér vegna þess að þau orð sem koma í staðinn, svo sem bjartir tindar og tunglsljós, kalla fram kvöld- eða næturmyndir. Guðmund- ur er hlutlaus gagnvart allri landafræði, en þeg- ar skáldkonan talar um „den Alpsohn“ stígur Magnús staðfærsluskrefið til fulls og gerir hann að Íslendingi sem dreymir um jökla í mánaskininu. Til þess að skapa fjarlægð og skerpa andstæður lætur hann það gerast „und- ir erlendum hlyni“. Hlynurinn á sér enga stoð í þýska frumkvæðinu, en fyrir vikið ratar þýð- ingin nær hjartarótum hvers Íslendings sem á annað borð tekur hana gilda sem nýtt kvæði af útlendri rót; ljóðið er komið heim. Engum dettur í hug að Magnús hafi ekki get- að fundið rímorð sín hjálparlaust um dagana, en staðreynd er það, sem vel má geta til gamans, að rímorð hans í þriðja erindi lágu í leyni fyrir honum í annarri þýðingu Guðmundar í Erlend- um ljóðum. Hann rímar þar hlyn á móti [mána- ]skin í Tunglsljósi eftir Verlaine sem Magnús þýddi tvö ljóð eftir. Þýðinguna birti Magnús ekki í söfnum sínum fyrr en í öðru hefti Þýddra ljóða 1931, hvort sem það hefur verið af því að hann var ekki nógu ánægður með hana fyrr eða af því að svo auðsætt er að hann fetar þar í fótspor annars þýðanda, en hafi hann hikað eitthvað af þeim sökum verður ekki annað sagt nú en að það hafi verið ástæðulaust. Annars er Guðmundur skólaskáld líklega nú um stundir gleymdasta skáld Íslendinga frá fyrstu tveimur áratugum síðustu aldar. Það er áreiðanlega ekki ofmælt að fáir liggi í bókum hans, og á það sér ýmsar skýringar aðrar en þá að tíminn grisji garðinn. Samt ræktaði hann þar sinn skika sem ekki var alls ómerkur á sinni tíð. Líkt er nú á komið með frumhöfundi þess smákvæðis sem ég hef hér rifjað upp gömul kynni við í þýðingu og runnið er af rót klass- ískrar ljóðhefðar og þýskrar rómantíkur með blæ af náttúrubundinni „Heimatdichtung“ í bestu merkingu þess orðs. Ricarda Huch var jafnaldri Einars Bene- diktssonar og lifði sjö árum lengur en hann. Kvæðið sýnir best lýríska skáldgáfu hennar þótt þessi fræga menntakona og mikli húman- isti væri um sína daga þekktari fyrir skáldsögur og fræðirit um sagnfræði og bókmenntir en ljóð sín. Þrátt fyrir uppruna sinn þreyði hún þorr- ann heima fyrir á dögum Þriðja ríkisins með svo mikilli andans reisn að hún varð tákn innri andstöðu og þess sem heilskyggnum löndum hennar þótti arfhelgast og dýrmætast í menn- ingu Þýskalands. Eftir stríð kaus fyrsta þýska rithöfundaþingið hana heiðursforseta sinn og hvað eftir annað lagði Thomas Mann til að henni yrðu veitt bókmenntaverðlaun Nóbels. En þrátt fyrir þetta segir Kindlers neues Liter- aturlexikon um hana tæpum 20 árum eftir að lauk 11 binda heildarútgáfu á verkum hennar, að sem skáld og rithöfundur sé hún nánast gleymd – „weitgehend vergessen“. Á Íslandi er nafn hennar tengt einu litlu kvæði sem varð á vegi tveggja þýðenda. Það lifir lengi í gömlum glæðum, og nú hefur þetta litla kvæði hennar sem Magnús þýddi ungur fylgt mér hátt á fimmta áratug. Alkunna er að snjall listamaður þarf ekki mörg strik til að gera góða mynd, nánast bara útlínurnar. Þegar Picasso teiknaði dúfu vantaði ekkert upp á. En það virtist ekki heldur neinu ofaukið. Og svo flaug hún! Mér finnst oft að Magnús hafi farið líkt að í þessu kvæði sem ann- ar hafði áður þýtt. Hann veit hvað stenst – fellir niður, eykur í – og ljóðið lifnar! Annars gerði hann ekki mikið af því að þýða það sem aðrir höfðu áður þýtt, en undantekning var þá líka ef hann breytti ekki til batnaðar. Næg dæmi eru hins vegar um það að eigin þýð- ingar endurskoðaði hann oft og breytti sumum verulega með sama árangri. Engu skal spáð hér um langlífi ljóðaþýðinga hans öðru en því að þegar þær sem bera í sér mest lífsmagn verða gleymdar hefur fleira farið forgörðum úr menningarsjóði Íslendinga en mér þykir nú gott til að hugsa. Um þýðendur, þótt misjafnir séu, er einatt komist svo að orði að þeir séu „bara þýðendur“. Við Magnús Ásgeirsson voru þeir samtíðar- menn hans, sem best kunnu að meta hann og starf hans, með réttu ósínkir á skáldnafn. Þótt frumsamin ljóð hans væru aðeins eitt æskuljóð- akver og fáein tækifæriskvæði sagði Bjarni frá Hofteigi um hann á útfarardegi: „Hann verður alltaf kallaður skáld á Íslandi. Hann verður allt- af kallaður mikið skáld.“ Í nóvember í fyrra var minnst aldarafmælis Magnúsar Ásgeirssonar og þessi hugleiðing beinlínis samin af því tilefni þótt hún hafi ekki birst fyrr en nú. Heimildir: Bjarni Benediktsson frá Hofteigi: Magnús Ásgeirsson skáld 9. nóvember 1901 – 30. júlí 1955. Þjóðviljinn 11. ágúst 1955. Erlend ljóð. Nokkrar þýðingar eftir Guðmund Guð- mundsson. Reykjavík 1924. Der ewige Brunnen. Ein Hausbuch deutscher Dichtung. Gesammelt und herausgegeben von Ludwig Reiners. München 1955. Kindlers neues Literaturlexikon. Rudolf Radler [aðal- ritstj.]. 8. bd. München 1990. Ljóð frá ýmsum löndum. Magnús Ásgeirsson íslenzkaði. Reykjavík 1946. Magnús Ásgeirsson: Þýdd ljóð II. Reykjavík 1931. AÐ BREYTA TIL BATNAÐAR HUGLEIÐING UM KVÆÐI OG TVÆR ÞÝÐINGAR ÞESS E F T I R H J Ö RT PÁ L S S O N Höfundur er skáld og bókmenntafræðingur. Magnús Ásgeirsson Ricarda Huch Guðmundur Guðmundsson

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.