Lesbók Morgunblaðsins - 19.10.2002, Síða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 19. OKTÓBER 2002
B
ANDARÍSKI listamaðurinn
Matthew Barney hefur verið
kallaður fjöllistamaður í fjöl-
miðlum, hvað sem það á nú að
þýða á nútíma íslensku. Í huga
flestra okkar er orðið fjöllista-
maður haft yfir þá tegund sirk-
usleikara sem gleypa eld, kasta
keilum og grípa, draga kanínu upp úr háum
hatti, spranga um á einhjóli, saga í sundur
menn, eða láta þá hverfa eins og dögg fyrir
sólu með því að smella fingri. Þótt Matthew
Barney sé trúlega mikill aðdáandi slíkra
kappa og eigi sitthvað sameiginlegt með sirk-
usfólki, þá er hann enginn fjöllistamaður í
þeim skilningi. Það er engin ástæða til að
kalla hann annað en myndlistarmann því það
er hann, að minnsta kosti enn sem komið er.
Matthew Barney er þó enginn venjulegur
myndlistarmaður. Eftir rúmlega áratugar-
langan feril nálgast hann æ meir kvikmynda-
listina, draumaverksmiðjuna í Hollywood,
með öllum sínum lævíslegu Pótemkíntjöldum,
brellusmellum, innantóma glæsileik, áferðar-
hreinu stílfærslum, hnökralausu silkisloppum
og samæfðu fótleggjum sem mynda stjörnur
og kremtertur að baki hvítpúðruðu greppi-
trýni uppáklæddu sem rauðhærður dándis-
maður í hvítum kjól og blankskóm.
Þrautaganga glæsileikans
Barney er óvenjunæmur fyrir þeim óskrif-
uðu reglum sem gilda í mannlegu samfélagi
og ganga út á sýnd og sókndirfsku. Mennirnir
eru sýknt og heilagt að toppa sig og aðra með
einum eða öðrum hætti. Öll mannleg viðleitni
hnígur að samkeppni enda er það helsta
ástríða okkar eins og sannast á hetju- og goð-
sögnum frá örófi alda. Enginn er maður með
mönnum nema hann fari framúr sér og öðr-
um, eða reyni það að minnsta kosti. Þessi
óvenjulegi listamaður sló í gegn svo um mun-
aði árið 1991 þegar hann hélt tvær einkasýn-
ingar, þá fyrstu hjá Stuart Regen í Los Ang-
eles og síðan hjá Barböru Gladstone í New
York, undir heitunum „[facility of Incline]“ –
[auðvelt að beygja sig] – og „00“.
Í báðum sýningum mátti sjá mjög vandlega
mótuð rýmisverk, ásamt myndböndum af
listamanninum sjálfum innan um ýmis sér-
kennilega mótuð tæki og tól, prílandi með erf-
iðismunum í lofti sýningarsalarins og hang-
andi öfugur í títaníumboltum sem skrúfaðir
voru upp fyrir hann eins og fleygar í jökul-
sprungum. Gjörningana kallaði Barney Blind
Perineum – eftir svæðinu sem skilur kynfæri
frá afturenda manna – og „Mile High thres-
hold: Flight with the Anal Sadistic Warrior“ –
Míluhár þröskuldur: Flug með sódómsadíska
stríðsmanninum. Umhverfis kom hann fyrir
ýmsum höggmyndum í tengslum við gjörn-
ingana, svo sem „Bolus“ – Klumpur – frá
1989-91, „Delay of Game“ – Hægt á leik – frá
1991, „Transexualis (decline)“ – Kynskipt-
ingur (hnignun) – frá 1991 og „Repressia“ –
Kúgun – sömuleiðis frá 1991. Þessar högg-
myndir voru eins konar sviðsmunir í líki
íþróttatækja á borð við glímudýnur, mann-
hæðarstóran kæli, lyftingabekk, steyptan úr
olíuhlaupi og lyftingalóð úr olíuvaxi.
Á príli sínu um loft og veggi var listamað-
urinn kviknakinn nema hvað hann var gyrtur
nýjasta klifurbúnaði og fjallgönguskóm. Þessi
sérstæða þörf fyrir að leggja á sig ómælt erf-
iði var einkennandi fyrir list Barneys frá
fyrstu tíð. Sem fimleikamaður var hugur hans
teygður milli tveggja ólíkra heima, íþróttanna
og listarinnar, sem þó eiga sér fjölmarga
snertifleti, einkum hvað varðar þjálfun,
ástundun og ósérhlífni. Þegar frá 1990 var
hann mjög upptekinn af ruðningsboltahetj-
unni Jim Otto, sem lék með vesturstrand-
arliðinu Oakland Raiders – sem leikmaðurinn
00 í liðinu – og hefur verið kallaður síðasti
mikli jaxlinn í ameríska ruðningsboltanum.
Nú er þessi hetja á sextugsaldri, að jafna sig
eftir uppskurð við krabbameini í blöðruháls-
kirtli, sem Matthew Barney hefur varla séð
fyrir þegar hann nýtti sér nafn hans í marg-
vísleg Otto-verk, þar sem hetjan verður að
ganga í gegnum röð af erfiðum þrautum. Í
einu þessara verka, „Ottoshaft“, frá 1992,
takast á skoskir sekkjapípuleikarar, en skosk
minni, svo sem mynstrið á pilsum þeirra og
kápum birtast í verkum Barneys oftar en
einu sinni.
Draumaveröld úr smurðu
plasti og tapíóka
Matthew Barney fæddist í San Francisco, í
Kaliforníu, árið 1967. Eftir að foreldrar hans
skildu – hann var þá sex ára – ólst hann upp
hjá föður sínum í Boise í Idaho. Þar lék hann
ruðningsbolta með menntaskólaliðinu, en
heimsótti reglulega móður sína, sem bjó í
New York-borg, og lærði af henni að meta
myndlist á hinum fjölmörgu söfnum borg-
arinnar. Síðar stundaði hann framhaldsnám
við hinn þekkta Yale-háskóla, í New Haven,
þaðan sem hann útskrifaðist árið 1989. Það er
til marks um óvenjuskjótan frama hans að
einungis ári eftir fyrstu einkasýningar hans
var hann valinn á níundu Documenta-sýn-
inguna í Kassel – þar sem hann kynnti „Otto-
shaft“ – myndband sitt um ruðningshetjuna á
00-treyjunni – og árið eftir, 1993, sýndi hann
verk sitt „Drawing Restraint 7“ – Haldið aft-
ur af sér 7 – bæði á Whitney-tvíæringnum yf-
ir unga, bandaríska list, og á 45. Tvíær-
ingnum í Feneyjum.
„Drawing Restraint 7“ er sprenghlægilegt
verk sem fjallar um skógarpúka, eða satýra,
sem aka um New York-borg í glæsivagni og
gera þar allt vitlaust með kynferðislegri hvat-
vísi sinni og hömlulausri framkomu. Í þessu
verki, sem bæði er myndband, ljósmyndir og
höggmyndir, sýndi sig hve óvenjusnjall Bar-
ney var í hvers kyns búningagerð, förðun og
umbreytingum. Þá staðfestist sá óvenju
hreinlegi stíll hans að móta allt úr hvítum og
mjólkurhvítum efniviði, latex, og olíubornu
parafíni, að ógleymdu tapíóka-þykkninu, rétt
eins og veröld sú sem hann brá upp væri upp-
hafin innri verund, staðsett djúpt undir melt-
ingarfærunum, inni í sálrænum afkimum
draumheima. Reyndar á þessi sérkennilegi
satín- og silíkonheimur margt sameiginlegt
með fölleitum lýsingum Steins Steinarr í
ljóðabálknum „Tímanum og vatninu“, nema
hvað veröld Steins er sakleysisleg og upp-
runaleg í samanburði við straumlínulagaðan
og maníerískan gerviheim Barneys.
Það er nefnilega stór munur á draumum og
framtíðarmartröð þar sem hin ýmsu erfða-
fræðislys geta gerst með þeim afleiðingum að
menn og dýr renna saman í eitt, og sérkenni
kynjanna gufa upp. Hvergi lýsir Barney
framtíðarsýn sinni betur en í pentalógíu
þeirri – fimmhluta epíska stórvirki – í formi
kvikmynda sem hann kallar „Cremaster I–V“,
eftir vöðva þeim sem bindur hreðjar manna
við líkamann. Árið 1994 var fyrsta myndin af
fimm frumsýnd, undir heitinu „Cremaster
IV“, í Fondation Cartier, í París. Myndin var
að mestu tekin upp á Isle of Man, miðja vegu
milli Bretlands og Írlands. Hún fjallar um
kappakstur sérkennilegra formúluhjóla út um
eyna, og halda gulir vélfákar gegn bláum með
ökumönnum í stíl við ökutækin. Hið sér-
kennilega er að vélfákarnir stunda ekki kapp-
akstur í orðsins fyllstu merkingu heldur aka
hver í sína áttina eftir hringvegi Manar. Þeir
eru merktir skjaldarmerki, eða vörumerki,
mynduðu úr þrem hlaupandi fótleggjum.
Ferhyrndir hrútar og
fljúgandi loftskip
Á því er enginn vafi að val Barneys á Isle
of Man sem umgjörð um hugarsmíð sína
stendur í beinu sambandi við nafn eynnar.
Ólíkt því sem íslenska heitið Manarey gæti
gefið til kynna – man er mær, eða stúlka, en
getur þó jafnframt þýtt þræll, eða ambátt –
er enska heiti eyjarinnar rækilega vígt karl-
mennskunni. Þó má vera að Barney hafi ein-
mitt skilið heitið tvöföldum skilningi, því ekki
er allt sem sýnist í framvindu myndarinnar.
Ætlun aðalsöguhetjunnar er nefnilega sú að
umbreyta sér í hrút af Loughton-kyni, en sá
hrútur er ferhyrndur. Annað hornapar hrúts-
ins vísar til himins – háleitra hugsana – með-
an hitt leitar niður á við – væntanlega til
áþreifanlegrar tilveru.
Þessi táknræna tilvísun hornanna á sér ein-
mitt samsvörun í vélhjólunum gulu og bláu,
sem áður var getið. Þá eru ónefnd álfagerpin
ókyngreinanlegu sem bera Barney í gervi
dándismannsins – hins verðandi hrúts,
GERPI EÐA GA
Matthew Barney í hlutverki Risa Keð
„The Drone’s Exposition“, frá 1999 – Sýning suðandi flugunnar, en í „Cremaster 2“ finnur Gilm
E F T I R H A L L D Ó R B J Ö R N R U N Ó L F S S O N
„Matthew Barney er enginn venjulegur myndlistar-
maður. Eftir rúmlega áratugarlangan feril nálgast
hann æ meir kvikmyndalistina, draumaverksmiðjuna í
Hollywood, með öllum sínum lævíslegu Pótemkíntjöld-
um, brellusmellum, innantóma glæsileik, áferðarhreinu
stílfærslum, hnökralausu silkisloppum og samæfðu fót-
leggjum sem mynda stjörnur og kremtertur að baki
hvítpúðruðu greppitrýni uppáklæddu sem rauð-
hærður dándismaður í hvítum kjól og blankskóm.“