Lesbók Morgunblaðsins - 19.10.2002, Qupperneq 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 19. OKTÓBER 2002
D
ANSKI myndlistarmaður-
inn Troels Wörsel hlýtur
fyrstu verðlaun í Carnegie-
myndlistarsamkeppninni
árið 2002. Hann er fæddur í
Árósum árið 1950, en býr
nú í Pietrasanta á Ítalíu.
Hann er sjálfmenntaður
sem listamaður, og flutti á miðjum níunda ára-
tugnum til München og tók þar þátt í mynd-
listarlífinu, sem þá var með alþjóðlegu sniði.
Troels Wörsel hefur sýnt verk sín í listhúsum
og söfnum víða í Evrópu, oftast nær í Dan-
mörku, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Verk
hans er að finna í virtum dönskum, þýskum og
bandarískum söfnum. „Í tímans rás hefur
Wörsel vitnað jafnt í „hámenningu“ sem „lág-
menningu“ í verkum sínum, en þau eru iðu-
lega tvíræð og uppfull af orðum, hlutum og
bútum úr nánasta umhverfi hans sjálfs, auk
þess sem hann vitnar iðulega í önnur verk.
Hann málar verk sín hratt til að missa ekki
samband við þau, en engu að síður er fyllstu
nákvæmni gætt. Málverkið opnar mönnum
óendanlega möguleika túlkunar, og þá mögu-
leika vinnur Wörsel með á meðvitaðan hátt,“
segir Ulrika Levén, sýningarstjóri Carnegie
Art Award, um verk Troels Wörsel.
Málverk um reynslu
Lena Cronqvist hlýtur önnur verðlaun í
Carnegie-myndlistarsamkeppninni í ár. Hún
fæddist árið 1938 og býr nú í Stokkhólmi og
New York. Á árunum 1958–59 stundaði hún
nám við Konstfack í Stokkhólmi og síðan við
Listaakademíuna í Stokkhólmi. Frá árinu
1997 hefur Lena Cronqvist verið meðlimur í
Konunglegu listaakademíunni. Hún málar,
teiknar og mótar skúlptúra. Verk hennar hafa
ætíð verið með sjálfsævisögulegu sniði, og
með áberandi sálfræðilegu inntaki. Í þeim
fjallar hún um tilvistarvandann, eigin reynslu,
tengsl sín við þá sem standa henni næst. Við-
fangsefnið er afar persónubundið, en hefur
um leið sterka skírskotun til hins sammann-
lega. Málverkin fjögur sem er að finna á
Carnegie-sýningunni segir hún fjalla um ákaf-
lega persónulegt og erfitt tímabil í sínu lífi.
Málverkin eru sjálfsmyndir, þar sem Cron-
qvist birtir okkur harm sinn í kjölfar andláts
eiginmanns síns, rithöfundarins Göran Tun-
ström. Hún segist ekki geta haft frekari orð
um þá reynslu sem hún reynir að tjá í mál-
verkinu. „Þetta hefur verið erfiður tími og veit
ég í raun ekki hvað mun taka við. Ég hef leitað
mikið í barnæsku mína á þessum tíma, en til
þess að geta málað þessar myndir varð ég að
komast burt frá Stokkhólmi. Þannig eru þessi
verk unnin í New-York þar sem við dvöldumst
gjarnan. Í myndunum reyni ég að tjá ekki að-
eins mína sorg heldur þann tómleika sem mik-
ill rithöfundur eða listamaður skilur eftir sig
þegar hann fellur frá,“ segir Lena Gronqvist.
Hvert málverk er heimur
út af fyrir sig
Tal R. er fæddur 1967 í Tel Aviv í Ísrael, en
er búsettur í Kaupmannahöfn. Á árunum
1986–88 var hann við nám við Billedskolen í
Kaupmannahöfn og á árunum 1994–2000 við
Konunglegu listaakademíuna í Kaupmanna-
höfn. Árið 2000 var hann gestaprófessor við
Listaakademíuna í Helsinki. Við upphaf tí-
unda áratugarins hóf Tal að sýna verk sín með
reglulegum hætti, aðallega í Kaupmannahöfn,
en á síðustu fimm árum hafa verk hans einnig
verið sýnd á Lousiana-safninu í Humlebæk, í
Aarhus Konstmuseum í Árósum, í DCA í New
York, Contemporary Fine Arts í Berlin, og
Victoria Miro Gallery í Lundúnum. Árið 1998
hlaut Tal R myndlistarverðlaun listasafnsins í
Horsens og árið 1999 hlaut hann Gauguin-
myndlistarverðlaunin í Kaupmannahöfn. Tal
R tók þátt í Carnegie-sýningunum 1998 og
1999, en í síðara skiptið hlaut hann myndlist-
arstyrkinn sem veittur er listamanni af yngri
kynslóð.
Verk Tal R. endurspegla hversdagslegar
aðstæður málverksins í dag. Áhrifa úr dag-
legu lífi hans gætir í tjáningarríkum málverk-
um hans, þar sem frásagnir skipta miklu máli.
„Í byggingu verkanna bý ég fyrst til ákveðinn
botn og byggi síðan ofan á þann grunn. Þann-
ig er búinn til ákveðinn raunheimur þar sem
ákveðin saga á sér stað, saga sem verður bara
til og gengur upp í akkúrat þessari mynd. Ég
gæti þess þó að skilja eftir dálitla rönd efst á
málverkinu þar sem skín í strigann. Þannig er
áhorfandinn minntur á að málverkið er tilbú-
inn heimur,“ segir Tal.
Málverkin á sýningunni virðast allt að því
bernsk og fantasísk og segir Tal það tengjast
því hvernig hann málar myndirnar. „Ég segi
sögur í málverkum mínum, og hvert verk er
eins og afmarkaður heimur. Þó svo að sög-
urnar í verkunum eigi sér upptök í raunheim-
inum, á sér stað ákveðin myndhverfing, eitt-
hvað gerist þegar ég er búinn að búa til
jörðina, eða grunninn í myndunum. Þá verður
til einhvers konar gáta sem ég þarf að leysa og
er hvert verk eins og þraut sem ég hef náð að
leysa,“ segir Tal R.
David Svensson hlýtur Carnegie-
styrkinn sem veittur er ungum
myndlistarmönnum ár hvert. Hann
er fæddur 1973 í Skillingaryd í Sví-
þjóð en er búsettur í Málmey. Hann
stundaði nám við HDK, grafíska
hönnunarskólann í Gautaborg, og
framhaldsnám við Listaakademíu
ríkisins í Ósló. Hann stundaði einnig
nám við Konunglega listmenntaskól-
ann í Stokkhólmi og við Listmennta-
skólann í Málmey. Árið 2001 hlaut
hann bæði menningarverðlaun
Málmeyjarborgar og verkefnastyrk
úr Menningarsjóði sænskra mynd-
listarmanna.
David Svensson hefur um nokkurt
skeið grennslast fyrir um mörkin
milli myndlistar og hönnunar. Hann
notar litrófið á áhugaverðan hátt í
verkum þar sem þetta tvennt skar-
ast. Í einu verkanna á sýningunni,
Veggskerminum, fléttar Svensson
net úr hreinum akrýllitræmum.
Verkið er þannig mjög bókstaflegt
málverk um leið og gæti einnig skilist
sem eins konar skilrúm í opnu rými.
Sjálfur segist Svensson skilgreina
sig sem málara, þó svo að hann vísi í
hönnun og arkitektúr í verkum sín-
um. „Ég hef áhuga á að kanna þan-
þol málverksins, og er misjafnt
hvernig litið er á verk mín fyrir vik-
ið. Skynjun og þátttaka áhorfandans
er mikilvægur þáttur í verkunum,
og reikna ég afstöðu hans iðulega inn í verk-
ið.“ Í myndinni Augu einblína tvö hringlaga og
kúpt málverk á áhorfandann, sem getur séð
endurspeglun sína og rýmisins í háglansandi
litnum. Málverk sem nefnist Illuminator er
jafnvel enn nýstárlegra. Þar er skærrauðum
lampa komið fyrir í miðju lítils herbergis, og
málar lampinn umhverfið því rauðum lit og
hefur þau áhrif á sjón áhorfandans að hann
skynjar umhverfið utan herbergisins í grænu
ljósi. „Mér finnst heillandi hvernig birtan af
lampanum málar umhverfið. Ég vinn talsvert
með áhrif birtu á verk og umhverfi, og reyni
að draga það fram að birtan í kringum okkur
er ekki hlutlaus eins og við hneigjumst til að
skynja hana.“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Lena Cronqvist vinnur „út frá forsendum sígildrar málarahefðar, en endurnýjar jafnframt mynd-
mál hennar. Sjaldgæfir hæfileikar hennar hafa aflað henni meiri vinsælda meðal almennings en
gengur og gerist meðal nútímalistamanna,“ segir í umsögn dómnefndar.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Í höndum Tal R verður striginn vettvangur fyrir hömlulausa listræna frásagnargleði, en á það
leggur hann sjálfur sérstaka áherslu með því að skilja eftir eyður efst og neðst á striganum þar
sem við sjáum ummerki málningarvinnunnar,“ segir m.a. í umsögn dómnefndar.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Af nákvæmni og ljóðrænu innsæi fjallar listamaðurinn um meint skil milli myndlistar og hönn-
unar. Samt eru myndir hans annað og meira en þurrlegar athuganir, heldur fjörlegt málverk í
þremur víddum,“ segir Carnegie-dómnefndin um verk David Svensson.
ÓENDANLEGIR
MÖGULEIKAR
TÚLKUNAR
Fjórir myndlistarmenn hlutu verðlaun í Carnegie Art
Award árið 2002 og er gerð grein fyrir verðlauna-
höfunum hér að neðan. Þrír listamannanna, þau Lena
Cronqvist, Tal R og David Svensson, voru viðstödd
setningu Carnegie-sýningarinnar í Hafnarhúsinu í
gær og gáfu þau sér tíma til að spjalla um verk sín.
„Troels Wörsel hlýtur Carnegie-myndlistarverðlaunin fyr-
ir röð málverka sem eru liður í linnulausri viðleitni hans
til að yfirstíga viðteknar hugmyndir um stílbrigði og verk-
lag í málaralist... Verkin, sem máluð eru á ógrunnaða
bakhlið strigans, verða að sérstökum upplýsingamiðli –
og vettvangi fyrir umræðu um – myndlistaruppákomu
sem listamaðurinn nefnir ’the flow of paint in the flow of
painting’,“ segir í umsögn Carnegie-dómnefndarinnar.