Pressan - 26.07.1990, Blaðsíða 4
4
Fimmtudagur 26. júlí 1990
litilræði
af útilegu
Mikið voðalega finnst mér gaman í útileg-
um.
Og ekki bara mér, heldur konunni minni líka.
Stundum er mér nær að halda að henni þyki
enn meira gaman í útilegum en mér.
Hún er svo mikið fyrir svoleiðis.
Vera útí náttúrunni í tjaldi, hlusta á fjallalæki,
mófugla, sauðkindajarm og þögnina.
Njóta þagnarinnar. Það er málið.
Og grilla til að koma á jafnvægi í sambúð-
inni.
Liggja svo úr sér streituna í tjaldi og láta
draumana rætast í svefni og vöku.
Eða einsog konan mín segir stundum:
— Maður sefur hvergi eins vært einsog í
tjaldi útí guðsgrænni náttúrunni fjarri skarkal-
anum í ómengaðri kyrrð.
Nei, það veit guð.
Og hvar hvílist maður betur?
Ég bara spyr.
Nú er ég á sjötugsaldri og konan mín á sex-
tugsaldri og þegar við hleypum heimdragan-
um til að ferðast um landið okkar segi ég
stundum ofur varlega áður en lagt er af stað:
— Eigum við nú ekki, elskan mín, að prufa
ferðaþjónustu bænda? Eða panta herbergi þar
sem við komum til með að eiga næturstað?
— Ég held þú sért ekki normal, segir þá kon-
an mín. Við verðum í tjaldi. Og hún meinar það.
Mikil ósköp.
Og það kemur einsog köggull fyrir brjóstið á
mér, þið vitið svona kvíðaköggull sem tekur
sér svo oft bólfestu í hjartabrjóstinu á gömlu
fólki.
Og þegar köggullinn er kominn verð ég
stundum svolítið spenntur, en af því ég er svo
ballanséruð og elskuleg manneskja hugsa ég
sem svo:
— Það væri nú lítið varið í lífið og tilveruna ef
engin væri spennan.
Svo fellst ég á að eyða nokkrum votviðra-
sömum sumardögum í tjaldi og hverfa til upp-
runa míns með því að brölta um í lágreistu
tjaldinu, á fjórum fótum í faðmi náttúrunnar,
einsog það er kallað, og til að kóróna alsæluna
Ijóslaus, síma- og salernislaus, hrjáður, kaldur
og kvalinn í rysjóttu veðri.
Þetta segir konan mín að sé toppurinn á til-
verunni og ég trúi því bara vel, svona að vissu
marki.
Því til staðfestingar segi ég ofur blíðlega:
— Ertu sýstematískt að reyna að drepa mig?
En hún svarar með því að skipa mér að fara
að ná í tjaldið.
— Það er framí geymslu, súlurnar, hælarnir
og allt, ef krakkarnir eru þá búnir að skila því.
Og nú vaknar hjá mér veik von, því krakkarn-
ir skila auðvitað aldrei nokkrum sköpuðum
hlut og ef þau skila einhvern tíma einhverju þá
er vísast búið að týna úr því bæði súlúm og
hælum.
Að sjálfsögðu er tjaldið á sínum stað, aldrei
þessu vant, súlur, hælar og allt og ég hugsa
sem svo:
— Fyrr má nú vera skilvísin.
Þegar ég kem framá hlaðið sé ég að konan
mín er að ferma bílinn minn og er greinilega
búin að prójentéra útgerðina, því hún sveiflar
fullum plastikpoka af „la-la-la-lamba" og öðr-
um af „sví-sví-sví-svína" inní skottið á bifreið-
inni við hliðina á ferðagrillinu sem notað er til
að brasa la-la-la-lamba og sví-sví-sví-svína
þegar maður er í tjaldi útí náttúrunni að hvíla
sig, slappa af og njóta kyrrðarinnar.
Og nú segi ég, ákaflega elskulega:
— Þú ert ekki normal.
Þá tekur hún svo til orða:
— Taktu grillhanskana, svuntuna þína og
Ali-húfuna með og gítarinn.
— Hvað ætlarðu að vera lengi með mig í
þessari útilegu? spyr ég fremur gætilega af því
mér er alltaf svo mikið í mun að halda friðinn.
— Bara svona nokkra daga.
— En ég sé ekki betur en þú sért með vistir
til fleiri mánaða.
— Æ þú veist nú hvað þau eru alltaf svöng
litlu greyin á þessum hestamannamótum.
Taka aldrei nokkurn skapaðan hlut með sér.
Og þá er mér orðið Ijóst að við erum að fara
á landsmót hestamanna til að vera þar í tjaldi,
hvíla okkur og slappa af með því að ég grilli la-
la-la-lamba og sví-sví-sví-svína fyrir mann-
skapinn og spili undir á gítar.
Og mér finnst ég ekki ungur í annað sinn.
Ég man hvað mér þótti himneskt, þegar ég
var yngri, að sofna á hestamannamótum í
tjaldi.
En það var þegar maður var og hét og fór að
sofa um ieið og hinir. Fyllikliðurinn var að
hljóðna og stöku hross hneggjaði innan hljóð-
máls, en fuglar svona umþaðbil að vakna.
Betra vögguljóð get ég í minningunni ekki
hugsað mér.
Ekki meir um það.
Við heiðurshjónin tjölduðum semsagt
gamla tjaldinu okkar á svæði sem merkt var
„fjölskyldusvæði" á hestamannamótinu og
varla var hún búin að tjalda þegar hún tók svo
til orða:
— Nú grillar þú.
Ég missti snöggvast stjórn á mér, en lét ekki
á neinu bera.
Maður af minni stétt og stöðu og kominn af
léttasta skeiði verður að gæta stillingar þeqar
aðrir sjá til.
— A hestamannamótum ríður á að grilla,
sagði maðurinn í næsta tjaldi og hló rosalega
þegar hann sá að ég fattaði ekki brandarann.
Hann var einmitt að grilla með vinstri en
drakk úr vodkaflösku með hægri.
Konan hans og börnin lágu íyrir inní tjaldinu
og grétu.
Svo komu gestir og einn heimilisvinur hjón-
anna þarna í næsta tjaldi barði húsráðandann
í höfuðið með tómri brennivínsflösku.
Svo fóru allir að slást, æla og elskast. Kódel-
etturnar og glóandi viðarkolin dreifðust útum
víðan völl og eitthvað af tjöldum stóð í björtu
báli og brann til kaldra kola.
Fjölskyldubúðirnar höfðu á svipstundu
breyst í blóðugan vígvöll, menn veltust um í
forinni, konur og börn grétu, en uppá hól sat
þrefaldur kvartett og söng fjórraddað „Inní
heiðanna ró".
Þá var það að ég sagði við konuna mína:
— Eigum við ekki bara að fara að leggja okk-
jr?
Svo gerðum við það.
Og hvílík nótt.
NÝIR BÍLAR Á HAGSTÆÐU VERÐI
HRINGDU OG VIÐ KOMUM MEÐ BÍLINN TIL ÞÍN
Sudurlandsbraut 16, Reykjavík,
gengið inn frá Vegmúla.
• Nissan Micra, Mazda 323, Toyota Cor-
olla, Nissan Sunny, Lada 1500 Station
• FJÓRHJÓLADRIFSBÍLAR: Subaru Sta-
tion, Toyota Tercel, Lada Niva, Range
Rover, Mitsubishi Pajero, Nissan Patrol,
Toyota Landcruiser, Ford Econoline
• 5—12 SÆTA: Mitsubishi Pajero (5—7),
Nissan Patrol (7), Toyota Hiace (11),
Toyota Litace (8), Ford Econoline (12)
BILALEIGAN
ÍGfYSn
sími: 688888