Pressan - 17.12.1992, Blaðsíða 7
FIMMTUDAGUR PRESSAN 17. DESEMBER 1992
B 7
PRESSAN/JIM SMART
^ „Með þessari bók verða sættir inni í hausnum á mér."
BOKUM ER HENT,
ORÐUM ER HENT - OG FÓLKI
Vigdís Grímsdóttir í viðtali
Mérfinnst eins ogþú hafir ver-
ið lengi að skrifa þessa bók.
„Já, það getur vel verið að ég
hafi verið að því allan tímann.
Þess vegna get ég ekki sagt hvort
ég var þijá mánuði að skrifa hana
eða þrjú ár. Ég var að skrifa hana
allt frá upphafi. Mér finnst eins og
ég hafi verið að ljúka við eitthvert
ferli með þessari bók. Og eftir
þessa bók mun ég skrifa öðruvísi.
Ég get ekki alveg útskýrt þetta en
égveitþetta.“
Viltu skilgreina það nánar, ef
þúgetur.
„Ég á eftir að skrifa um annað
efni en áður. Það verður ekki þessi
sífellda barátta milli draums og
veruleika. Nú hef ég losað mig við
þá baráttu eða átök. Með þessari
bók verða sættir inni í hausnum á
mér.“
Þú ert þá ánœgð með bókina?
„Ég sé grænt tún þegar ég
hugsa um þessa bók. Ég er sátt við
hana. Já. Ég er ánægðust með
þessa bók.“
Efnið heillaði mig mjög, það að
bœkur skipti svo miklu máli.
„Já, menningin. Ég held að við
lifúm á tímum þar sem við verð-
um að gæta alveg sérstaklega vel
að henni. Það er bæði raunsætt og
óraunsætt að finna bækur í
ruslatunnu. Bókum er hent, orð-
um er hent — og fólki. Það verður
að huga að því hvort ekki sé
ástæða til að henda einhverju
öðru í tunnumar en því sem gerir
okkur að manneskjum hér í þessu
landi. Kannski kemur betri tíð
með blóm í haga og syngjandi
kúm og þá verður gaman að lifa.
Ég trúi því.“
Hvernig fékkstu hugmyndina
að konu sem leitar að bókum í
ruslatunnum?
„Það er hér fólk sem fer í tunn-
ur. Sjálfsagt er það að leita að ein-
hveiju að éta. Ég hef séð það. En
bók er fóður. Og þegar maður ótt-
ast að það séu að koma tímar þar
sem menningunni er ógnað, tung-
unni er ógnað og okkur er ógnað
þá kemur svona hugmynd. Og svo
er það eins og Kárason sagði um
daginn, hvað kallaði hann það, að
hann væri hlerari. Það er fyrir-
mynd að aðalpersónunni, hún er
tiL“
Nú hefurðu fengið mjög lof-
samlega dóma fyrirþessa bók.
„Mér finnst vitanlega mjög gott
að fá lofsamlega dóma. Mér finnst
bara gott að fólk segi það sem því
finnst og ég kippi mér ekkert upp
við það þótt það sé ekki eintómt
hallelúja."
Jafnvel þótt þú hafir lagt mikla
vinnu í verkið?
„Já, jafnvel. Ég er hreint ekki
fufikomin frekar en aðrir og ég
ætlast ekki til að öðrum finnist
það. Ég er ánægð með þá gagn-
rýni sem ég fæ ef hún er heiðar-
lega unnin. Og ég finn ef hún er
það.“
Lestu eldri bcekur þínar aftur?
„Já, ég les þær með reiði. Ég
bæti við og strika út í huganum.
Ég les þær til að læra af þeim að
gera betur, ekki til að emja af
ánægju yfir eigin ágæti.“
Falleg, djörfog
ógleymanleg
VIGDfS GRfMSDÓTTIR
STÚLKAN (SKÓGINUM
IÐUNN 1992
★★★★
QAðalpersónan í skáld-
sögu Vigdísar Gríms-
dóttur Stúlkan í skógin-
um heitir Guðrún Magnúsdóttir.
Hún er á fimmtugsaldri, er krypp-
lingur og stendur utan samfélags.
Guðrún skapar sér eigin heim,
með aðstoð bóka og drauma. Og
það má með sanni segja að í þeim
heimi ríki fegurð ein.
Draumheimur Guðrúnar er
skógur þar sem rauðir fuglar
flögra um. Og þar býr fuglastúlk-
an sem Guðrún kallar til sín þegar
hún þarf á félagsskap mannveru
að halda. Og þá eiga þær stöllur
saman kankvíslegar viðræður.
f þrá sinni eftir fegurð sækir
Guðrún einnig til bóka sem hún
finnur í ruslafötum. Hún hirðir
þær og lærir utan að nokkrar línur
úr hverri þeirra.
Setningar úr skáldverkum er
víða að finna á síðum bókarinnar
og eru þær prentaðar með ská-
letri. Höfúnda er ekki getið en
þama má meðal annars finna brot
úr skáldskap eftir Stein Steinar,
Hrafri Jökulsson, Dante, Þorstein
frá Hamri, Hannes Pétursson,
Svövu Jakobsdóttur og Jakobínu
Sigurðardóttur. Og Grámosi
Thors Vilhjálmssonar er hylltur í
verkinu í skemmtilega unnu sam-
tali tveggja manna.
Þetta er verk sem fjallar um
mátt orða og vald listarinnar.
Verkið fjallar reyndar um æði
margt, en ekki síst um þennan
mátt, þetta vald.
Guðrún er aðalpersóna verks-
ins og hún segir söguna. Söguna
af kaffiboðinu sem Hildur ná-
grannakona hennar býður henni
til og þeim eftirleik sem af því
leiðir.
Hildur er að flestu andstæða
Guðrúnar, fögur, grimm og metn-
aðargjöm brúðugerðarkona. Hún
þráir að drottna yfir öðrum og
listsköpun færir henni það vald.
„... minn vilji er sterkasti vilji
heimsins af því ég er skaparinn,"
segir hún við Guðrúnu. f full-
„Stúlkan ískógin-
um er ákaflega vel
skrifuð bók, áber-
andi best skrifaða
verk Vigdísar. “
komnu miskunnarleysi hyggst
Hildur notfæra sér líf annarrar
manneskju til að fullkomna list-
sköpun sína. Guðrún verður
strengjabrúða í leik hennar — og
reyndar einnig höfundar eins og
bréfið undir bókarlok sýnir.
Verkið er stef við effirlætis-
söguefni skáldkonunnar, hin
óljósu skil draums og veruleika.
Þetta er einnig, eins og áður hefúr
komið fram, verk sem fjallar um
tilgang listarinnar, ábyrgð lista-
mannsins. Og lesandinn spyr sig
hvor er meiri listamaður, sá sem
miðlar öðrum af græðgi vegna
þess að hann þráir viðurkenningu
eða hinn sem skapar eigin heima í
þrá eftir fegurð og til þess eins að
njóta?
Það má endalaust leika sér að
því að ráða í söguna, hún býður
upp á óteljandi túlkunarmögu-
leika. Eru Guðrún og Hildur ein
og sama persónan, tvær ólíkar
hliðar sömu persónu eða per-
sónugervingar ólíkra viðhorfa?
Lesandinn er knúinn til að svara
þeirri spurningu, seinni hluti
verksins gengur ekki upp nema
hann finni sitt svar.
Stúlkan í skóginum er ákaflega
vel skrifuð bók, áberandi best
skrifaða verk Vigdísar. Stíllinn er
ljóðrænn og býr yfir myndrænni
fegurð. Frásögnin er afar hæg en
þar sem verldð er svo fallegt og
áleitið verður hún aldrei leiði-
gjöm. Staðar- og dagsetningar em
afar nákvæmar og kunna að virka
truflandi því það liggur ekki ljóst
fýrir hvers vegna þessarar ná-
kvæmni er þörf en það skýrist í
lokalínum verksins.
Vigdís Grímsdóttir hefúr ævin-
lega verið ástríðumanneskja í
skáldskap í jákvæðustu merkingu
þess orðs. Lesandinn skynjar ætíð
miklar tilfinningar bak við text-
ann, djúpa réttlætiskennd og sam-
úð með þeim sem minna mega
sín. Þetta er mjög áberandi ein-
kenni á fsbjörgu og Stúlkan í
skóginum býr að þessum sömu
eiginleikum. En þar sem fsbjörg
leið nokkuð fyrir óagaðan stíl höf-
undar þá er það aðaf þessa verks
hversu stíllinn er slípaður og
fágaður.
Þegar gagnrýnandi hrífst af
verki leynist ætíð sú hætta að um-
fjöllun hans minni á ástarhjal, sem
vandræðalegt verði fyrir lesendur.
En ég get ekki álasað öðrum gagn-
Verk Vigdísar
Grímsdóttur
Tíu myndir úr lífi þinu
1983 ★★
Smásögur sem dansa og skransa á
mörkum úrvinda sósíalrealisma
(sem um þetta leyti var að ganga
sér til húðar í íslenskum bókmennt-
um) og þeirrar Ijúfu og kankvlslegu
grimmdar sem átti eftir að einkenna
verk höfundar. Tónar sem síðar áttu
eftirað óma ílsbjörgu.
Eldur og regn
1985 ★★★
Smásögur með mystísku yfirbragði.
Stíllinn er knappur og krefjandi. Bók-
in minnir á vandaða stílæfingu.
Kaldaljós
1987 ★★★
Fyrsta skáldsaga höfundar er metn-
aðarfullt verk sem fylgir söguhetju
frá æsku til fullorðinsára. Margt er
afar fallegt, heillandi og eftirminni-
legt en sagan er fullorðmörg og
fyrri hluti verksins er áberandi betri
en sá seinni.
Ég heitl fsbjörg. Ég er Ijón
1989 ★★
Dálltið banalt sálfræðidrama sem er
að vísu afar áhrifamikið fyrir þá sem
hrlfast með. Stíllinn kemur helst I
veg fyrir að það geti orðið. Hann er
fullur af endurtekningum og kemst
of oft hættulega nærri því að verða
þvælukenndur.
Minningabók
1990**
Ljóðabók I minningu föður skáld-
konunnar. Einlægnin er á köflum
hrífandi en sumt er svo persónulegt
og innhverft að lesandinn kemur að
læstum dyrum.
Lendar elskhugans
1991 ★
Langur samfelldur erótískur Ijóöa-
bálkur. Verkar tilgerðarlega. Skáld-
konan er ótrúlega margmál og end-
urtekningarsöm.
rýnendum fyrir að hafa lofað
verkið hástöfiim. Þetta er afar sér-
stök bók, falleg, djörf og ógleym-
anleg.
Kolbrún Bergþórsdóttir