Morgunblaðið - 22.05.2004, Qupperneq 41
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 22. MAÍ 2004 41
✝ Páll Sigurjóns-son fæddist á
Nautabúi í Hjaltadal
16. febrúar 1917.
Hann lést á Heil-
brigðisstofnuninni
Sauðárkróki 10. maí
2004. Foreldrar hans
voru Sigurjón Benja-
mínsson, f. 15.4.
1878, d. 9.1. 1956,
bóndi á Nautabúi, og
kona hans Elínborg
Pálsdóttir, f. 9.1.
1887, d. 25.6. 1966,
húsfrú á Nautabúi.
Systkini Páls voru:
1) Elinborg, f. 15.9. 1911, d. 6.7.
1994, gift Ágústi Sigurmunds-
syni, myndskera í Reykjavík, f.
28.8. 1904, d. 28.6. 1965, og áttu
þau þrjú börn, Auði, Elínu Sig-
urborgu og Sigurð Björn. 2) Sig-
rún, f. 1.12. 1913, d. 26.10. 1978,
gift Ísak Jónssyni skólastjóra í
Reykjavík, f. 31.7. 1898, d. 3.12.
1963, og áttu þau fimm börn,
Gylfa, Andra, Ragnheiði Sigur-
björgu, Elinborgu Sigrúnu og
Sigurjón Pál. 3) Anna, f. 10.8.
1926, d. 29.10. 1958, gift Þórarni
Jónassyni, bónda í Hróarsdal í
Hegranesi, f. 8.3. 1910, d. 18.2.
1989, og áttu þau tvær dætur,
Lilju og Elínborgu.
Páll var ókvæntur
og barnlaus. Hann
ólst upp á Nautabúi í
Hjaltadal. Haustið
1935 fór Páll í
bændaskólann á
Hólum og varð bú-
fræðingur þaðan
vorið 1937. Hann
var kaupamaður á
Hólum sumarið
1937, og var þar við-
loðandi til vors
1941, síðast fjár-
maður frá ársbyrjun
1940. Á þessum ár-
um fékkst Páll við ýmislegt ann-
að, húsbyggingar o.fl. Á árunum
1940–47 var Páll í vegavinnu hjá
Kristjáni Hansen vor og haust, en
fékkst við bústörf sumar og vet-
ur. Haustið 1945 fluttist hann
með foreldrum sínum að Ingveld-
arstöðum í Hjaltadal og bjó þar til
1964, að hann fluttist til Sauðár-
króks. Vann hann fyrst hjá Vega-
gerð ríkisins 1963–1971, en síðan
hjá byggingavörudeild Kaup-
félags Skagfirðinga, þar til hann
komst á eftirlaun um 1984.
Útför Páls fer fram frá Hóla-
dómkirkju í dag, laugardaginn
22. maí, kl. 14.00.
Mesta tilhlökkun mín á æskuár-
um var að komast í sveit til ömmu
og Palla á Ingveldarstöðum í
Hjaltadal. Eftir skóla á vorin var
farið að undirbúa norðurferð. Vega-
kerfið var þá annað en nú, lagt var
af stað úr Reykjavík klukkan 8 að
morgni, og komið í Hjaltadalinn um
kvöldmatarleytið, þar sem urðu
fagnaðarfundir. Á Ingveldarstöðum
iðaði allt af lífi, kindur, kýr, hestar,
hænsni, fuglasöngur í lofti, flugna-
suð, silungar í lækjum, gróður að
taka við sér og sauðburður á loka-
stigi. Og yfir öllu einhver ró og frið-
ur. Á Ingveldarstöðum dvaldi fjöl-
skyldan yfir sumarið við leik og
störf, uns skóli hófst á ný að hausti.
Þar kynntumst við systkinin Hjalta-
dalnum, þar sem rætur okkar í móð-
urætt voru, einnig sveitastörfum og
gömlu íslensku alþýðumenningunni,
sem þau afi, amma og Palli miðluðu
okkur. Á sínum tíma leit maður á
þetta sem sjálfsagðan hlut, en eftir á
að hyggja voru það þau amma og
Palli sem áttu mestan þátt í að
skapa þennan heim fyrir okkur. En
þó að við ættum þeim mikið að
þakka þá hygg ég að þau hafi líka
hlakkað til að fá okkur á vorin. Eftir
fásinni vetrarins fylltist húsið allt í
einu af fólki, fjörmiklum krökkum
og unglingum. Og talsverð hafa við-
brigðin einnig verið á haustin þegar
við fórum, og þau amma og Palli
voru tvö ein eftir.
Búskapurinn á Ingveldarstöðum
var eins konar félagsbú. Foreldrar
mínir áttu jörðina, og svolítinn bú-
stofn, en Páll stóð fyrir meginhluta
búsins og annaðist skepnurnar fyrir
okkur á veturna. Aldrei bar skugga
á samstarf foreldra minna við Pál.
Faðir minn, Ísak Jónsson, var fram-
kvæmdamaðurinn í því samstarfi,
byggði upp íbúðarhús og útihús og
stóð fyrir ræktunarframkvæmdum.
Páll sá um búskapinn með sóma,
fékk sér reyndar aldrei dráttarvél,
en eftir að vélvæðing var orðin al-
menn var vélavinna jafnan keypt að
frá nágrönnum í dalnum. Við systk-
inin tókum þátt í bústörfum eins og
við höfðum getu til, en þar kom að
þau eldri úr okkar hópi réðu sig í
launaða sumarvinnu annars staðar.
Páll var nærfærinn við skepnur,
hafði reyndar mestan áhuga á sauð-
fjárbúskap, enda frábærlega næmur
á því sviði. Einnig voru í búi kýr til
heimilisnota og nokkrir hestar.
Páll var með ólíkindum fjárglögg-
ur maður. Hann þekkti kindurnar af
svipnum eða fasinu, eins og við
mennirnir þekkjum kunningja okk-
ar og vini. Til marks um þetta er eft-
irfarandi saga af Páli, skráð af Birni
H. Jónssyni frá Bakka í Viðvíkur-
sveit: „Það var eitt sinn í haustgöng-
um, er við feðgar vorum að draga í
réttinni, að þar kom fram ær er
hafði farið að heiman um vorið óbor-
in. Nú vissum við ekki hvort hún
hefði átt eitt lamb eða tvö, og hjá
henni, þar sem ég hélt í hana voru
engin lömb er hún sýndi áhuga, svo
að við vorum heldur vandræðalegir
yfir þessu og líklega eitthvað rauna-
legir. Allt í einu kemur Páll til okkar
og segir: „Átt þú þessa á, Jón?“
Faðir minn játar það. „Hún er tví-
lembd“ segir Páll. „Ég sá hana í
safninu er ég kom með. Ég skal ná í
þau.“ Síðan gekk hann svolítið um
réttina, greip tvö lömb samtímis og
kom með þau, og ærin móttók þau
með fögnuði. Ekkert mál! Ég vissi
engan leika svona eftir.“
Seinni búskaparár Páls var hann
orðinn illa haldinn af heymæði, og
mun það hafa verið aðalástæða þess
að hann hætti búskap að mestu vor-
ið 1963 og fór í vegavinnu. Hann var
samt á Ingveldarstöðum veturinn
1963–64. Sumarið 1964 fluttist Páll
alfarinn til Sauðárkróks, keypti íbúð
á Lindargötu 5 (Borgarey), en
amma fór til dóttur sinnar í Reykja-
vík. Var Páll í vegavinnu árin 1963–
1971, fyrst hjá Árna Hansen og síð-
ar hjá Svavari Jónssyni vegaverk-
stjórum. Um 1971 réð hann sig hjá
byggingavörudeild Kaupfélags
Skagfirðinga, úti á Eyri, og vann
þar til um 1984, að hann komst á eft-
irlaun. Afgreiddi hann þar timbur
og fleiri byggingavörur. Var hann
þar mikils metinn, því að hann var
tölvuheilinn í þeirri deild og hafði í
kollinum nákvæmt yfirlit yfir hvað
til var af hverri vörutegund. Þessi
starfsár hans á Króknum vann hann
yfirleitt ekki yfir háveturinn, enda
var vegagerð og að nokkru af-
greiðsla byggingarefnis árstíða-
bundið starf. Þá naut Páll þess að
eiga hauka í horni hjá frænda sínum
Hallgrími Péturssyni á Kjarvals-
stöðum í Hjaltadal, og konu hans
Svövu Antonsdóttur. Var hann í ára-
raðir hjá þeim um jól og áramót, og
oftast eitthvað fram eftir vetri, gekk
með Hallgrími í fjárhúsin til að gefa
fénu, og hélt þannig tengslum við
heimahagana og sveitastörfin.
Páll var meðalmaður á hæð og
samsvaraði sér vel, en varð nokkuð
þéttvaxinn á efri árum. Hann var
myndarlegur, gráeygur og hafði
mikið jarpt hár, sem hann hélt til
æviloka, en gránaði eðlilega með
aldrinum. Hann var alvörugefinn og
frekar fáskiptinn, en við nánari
kynni ræðinn og gamansamur. Eru
eftirminnilegir matar- og kaffitímar
á Ingveldarstöðum, þar sem Palli
náði sér oft vel á strik í frásögn af
mönnum og málefnum.
Páll var skarpgreindur og fróður
vel, enda vel lesinn. Hann var feng-
inn til að skrifa þætti í Skagfirskar
æviskrár fyrir tímabilið 1890–1910,
alls 11 þætti í annað bindi og einn
þátt í þriðja bindi. Skrifaði hann þar
um gamla Hjaltdælinga, sem hann
hafði haft bein eða óbein kynni af.
Einnig var hann betri en enginn
sem heimildarmaður um örnefni og
mannlíf í Hjaltadal, og var stundum
leitað fanga hjá honum í þeim efn-
um. Hefði þurft að skrifa meira upp
eftir honum, meðan hann var í fullu
fjöri.
Páll var mikill sjálfstæðismaður
og andvígur kaupfélagsvaldinu. Um
1960 tók hann þátt í stofnun versl-
unarfélags á Sauðárkróki, til mót-
vægis við kaupfélagið, en tapaði
nokkru fé þegar verslunarfélagið
varð gjaldþrota. Páll var ekki mikill
trúmaður og gantaðist stundum
með það. Eitt sinn fór móðir hans að
ræða það við hann, að hann sýndi ei-
lífðarmálunum ekki nægan áhuga.
Þá stóð Palli upp frá borðum og
sagði: „Gjörðu rétt, og þá munt þú,
ei þurfa að skrifta nokkra trú.“
Um skeið átti Páll í nokkrum
átökum við Bakkus konung. Aldrei
snerti hann þó vín meðan á sum-
ardvöl fjölskyldunnar stóð fyrir
norðan, en nokkuð mun hafa borið á
því eftir að hann fluttist til Sauð-
árkróks. Eitt sinn gekk kunningi
Palla fram á hann þar sem hann, við
skál, hallaði sér upp að gamla kaup-
félagshúsinu Gránu á Sauðárkróki.
Vegfarandinn spurði í gamni, hvort
hann sæi rétt, að Páll, sjálfstæðis-
maðurinn, væri farinn að styðja
kaupfélagið. „Ekki er það“, svaraði
Páll. „Sérðu ekki að ég er að reyna
að velta því!“
Um 1990 seldi Páll íbúðina sína á
Lindargötu 5 og fluttist á dvalar-
heimili aldraðra á Sauðárkróki, fékk
þar rúmgott herbergi. Líkaði hon-
um brátt dvölin þar vel innan um
gamla Skagfirðinga, sem sumir
hverjir voru sveitungar hans. Var
ánægjulegt að heimsækja hann og
finna hvað hann fylgdist vel með því
sem var að gerast í héraðinu og uppi
í dal. Hann spurði gestinn hverjir
væru byrjaðir að slá, hvar fram-
kvæmdir stæðu yfir, hvaða tíðindi
væru af mannlífinu o.s.frv. Var
raunar ótrúlegt hvaða yfirsýn hann
hafði. Manni varð þá ljóst hvaða
gæfa það var fyrir hann að fá að
eyða elliárunum á þessum stað.
Heilsu Páls smáhnignaði, einkum
var hann slæmur í fótum. Seinnipart
árs 2001 varð hann fyrir áfalli, virt-
ist hafa fengið væga heilablæðingu.
Fór hann þá á sjúkradeild sjúkra-
hússins og hresstist nokkuð, en
treysti sér ekki til að fara aftur á
dvalarheimilið. Sumarið 2002 varð
hann fyrir því óhappi að detta og
lærbrotna. Brotið greri illa og var
hann að mestu rúmfastur eftir það.
Seinasta árið gat hann lítið sem ekk-
ert tjáð sig, en virtist þó vera alveg
með á nótunum.
Ég vil að lokum fyrir hönd okkar
systkinanna þakka starfsfólki
sjúkradeildarinnar, fyrir frábæra
umönnun um Palla síðustu árin.
Einnig viljum við þakka Bjarna
Haraldssyni, kaupmanni á Sauðár-
króki, fyrir áratuga vináttu og
tryggð við frænda okkar.
Nú hefur Palli frændi fengið
hvíldina, og skal hann nú kvaddur
með þökk fyrir liðna vegferð gegn-
um lífið. Sumardvölin á Ingveldar-
stöðum, hjá afa, ömmu og Palla
frænda, var okkur systkinunum
dýrmætt veganesti sem við búum
ætíð að.
Sigurjón Páll Ísaksson.
PÁLL
SIGURJÓNSSON
Fleiri minningargreinar um Pál
Sigurjónsson bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu daga.
Innilegar þakkir til allra þeirra, sem sýndu mér
samúð og hlýhug við andlát og útför sam-
býlismans míns,
AÐALSTEINS HJALTASONAR,
Vallargerði 4b,
Akureyri.
Guð blessi ykkur öll.
Ásta Valhjálmsdóttir.
Innilegar þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur
samúð, vináttu og hlýhug vegna andláts og
útfarar ástkærs eiginmanns míns, föður okkar,
tengdaföður, afa og langafa,
JÓNS KRISTINS HAFSTEIN
tannlæknis.
Sérstakar þakkir færum við starfsfólki hjúkr-
unardeildar 4B á Landspítalanum í Fossvogi.
Sigrún Kr. Tryggvadóttir,
Þórunn Hafstein, Harald Snæhólm,
Tryggvi Hafstein, Auður Bjarnadóttir,
Kristín Ásta Hafstein, Ingólfur Jörgensson,
barnabörn og barnabarnabörn.
Elskuleg eiginkona mín,
GUÐLAUG BJÖRG SVEINSDÓTTIR,
lést á Landspítalanum Fossvogi föstudaginn
7. maí.
Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar
látnu.
Árni Gunnar Sveinsson.
Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlý-
hug við andlát og útför elskulegrar móður
okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu
ÖNNU ELINÓRSDÓTTUR,
Björk,
Mývatnssveit.
Sérstakar þakkir til starfsfólks Heilbrigðis-
stofnunar Þingeyinga fyrir einstaka alúð og
góða umönnun.
Hermann Kristjánsson,
Elín S. Kristjánsdóttir, Helgi Kristjánsson,
Þórhallur Kristjánsson, Þuríður Helgadóttir,
Jóhann Friðrik Kristjánsson, Ingunn Ásta Egilsdóttir,
barnabörn og barnabarnabarn.
Minningarkort
Hjartaverndar
535 1825
Gíró- og greiðslukortaþjónusta
Hamarshöfði 4, 110 Reykjavík, s: 587 1960, www.mosaik.is
MOSAIK
Veljið fallegan legstein
Vönduð vinna og frágangur
Sendum myndalista
Legsteinar