Morgunblaðið - 28.06.2004, Side 10

Morgunblaðið - 28.06.2004, Side 10
FORSETAKOSNINGAR 10 MÁNUDAGUR 28. JÚNÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ Ó lafur Ragnar Grímsson, forseti Ís- lands, segist mjög þakklátur fyrir það afgerandi traust sem þjóðin veitti honum í kosningunum. „Ég er í senn auðmjúkur og hrærður að fá svo afgerandi umboð, sérstaklega í ljósi þess að þetta kemur í kjölfar einhverrar erf- iðustu ákvörðunar sem forseti Íslands hefur nokkru sinni tekið. Ég met það mjög mikils að þjóðin skuli hafa gefið mér þennan styrk að veita mér 85% stuðning af atkvæðum í landinu eins og þau hafa jafnan verið mæld.“ Kveðst hann aðspurður vísa til þess að í kosningum á Íslandi hafi ávallt verið miðað við gild atkvæði. Það sé alveg nýtt að miða við eitthvað annað. „Ef tekið er mið af öllum þeim sem gengu á kjörstað, eru það um það bil tveir þriðju, sem veita mér stuðning af öllum þeim hópi. Það er mikil traustsyfirlýsing. Mér þykir líka sér- staklega vænt um hve mikið fylgi var í lands- byggðarkjördæmunum. Mér hlýnar um hjartarætur að vita af þessum trausta stuðn- ingi fólksins í hinum dreifðari byggðum lands- ins.“ Ólafur segir að auðvitað sé það ljóst að stór hópur manna hafi kosið að skila auðu og að það setji ákveðinn svip á kosningarnar. „Ég tel að það eigi sér ákveðnar skýringar,“ segir hann, „sem byggjast fyrst og fremst á þeirri ákvörð- un sem ég tók varðandi málskotsréttinn. Ég gerði mér skýra grein fyrir því að sú ákvörðun yrði umdeild og það yrðu margir á móti henni; stjórnvöld, forystumenn ríkisstjórnar, áhrifa- ríkir fjölmiðlar eins og Morgunblaðið og aðrir. Ég taldi hins vegar nauðsynlegt bæði málsins vegna og samvisku minnar vegna að taka þá ákvörðun þótt ég vissi að það myndi kosta mig eitthvað töluvert í vinsældum og stuðningi. En forseti getur ekki látið það ráða gjörðum sín- um.“ Sérkennileg fyrirsögn Ólafur segir að öflugir og sterkir aðilar í þjóðfélaginu hafi barist einarðlega fyrir því að fólk færi á kjörstað og skilaði auðu. „Morg- unblaðið átti stóran hlut í því á kjördag með því að birta þessa skemmtilegu en um leið sér- kennilegu fyrirsögn – fimm dálka, tveggja hæða á forsíðu – sem yfirleitt er fyrirsagnastíll sem eingöngu er tengdur heimsviðburðum. Sá heimsviðburður sem þar var verið að segja frá, var að það yrði greint frá auðum seðlum jafn- óðum og talið var.“ Ólafur segir það alveg ljóst að í þessu fólust skýr skilaboð. Hann segir ennfremur að þegar á það sé litið hve öflugir aðilar hafi beitt sér gegn kjöri sínu, þar á meðal Morgunblaðið, sem hafi beitt sér sem áróðursmálgagn í þágu þess málstaðar, hafi sú herför skilað tiltölulega lítilli uppskeru. „Þegar ég met þessi úrslit, í ljósi þeirra væntinga sem ég hafði sjálfur, tel ég að ég hafi hlotið í þessum kosningum meiri stuðning en ég átti von á.“ Inntur eftir því hvort það sé ekki frétta- punktur að formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík lýsi því yfir að auð atkvæði verði birt sérstaklega segir Ólafur. „Mér finnst það vissulega vera fréttapunktur og alveg sjálfsagt að segja frá í frétt og jafnvel hafa hana á for- síðu. En að hafa hana á tveimur hæðum, fimm dálka, er fyrirsagnaráhersla sem Morg- unblaðið hefur notað eingöngu fyrir heims- viðburði eða risaatburði hér innanlands. Í þeirri áherslu birtust auðvitað skilaboð blaðs- ins til lesenda sinna um að skila auðu. Ég er ekki einn um að skilja það. Menn eru læsir í þessu landi og menn skilja fyrr en skellur í tönnum.“ Ólafur kveðst aðspurður ekki vera að gagn- rýna Morgunblaðið. „Ég er ekki að gagnrýna Morgunblaðið. Ég er bara að lýsa stað- reyndum. Ég er að lýsa því að í þessu máli og gagnvart forsetanum breyttist Morgunblaðið því miður í gamaldags áróðursblað – skrifað í þeim stíl sem við þekkjum í gömlu flokksmáls- gögnunum hér í gamla daga.“ Segir hann þetta spor afturábak. „Hins vegar er Morgunblaðinu og ritstjóra þess algjörlega frjálst að velja þessa leið,“ segir hann. „Það er alveg frjálst val.“ Segir hann þetta þó miður fyrir Morg- unblaðið og fjölmiðlun í landinu. „Það er alveg hægt að halda sínum skoðunum til haga í leið- urum, í Reykjavíkurbréfi og annars staðar. En þessi þröskuldur sem gengið var yfir í frétta- flutningnum, sérstaklega á kjördag, og ekki bara á forsíðunni, heldur líka í öðrum fréttum, það var spor afturábak að mínum dómi.“ Dylgjur um fjármálatengsl Inntur eftir því hvaða aðrar fréttir hann sé að vísa til segir Ólafur. „Það var annars vegar þessi forsíðufrétt og hins vegar það hvað sett var í fyrirsagnir í frásögn blaðsins af umræðu- þáttunum í sjónvarpinu og hvaða skilaboð voru þar sett í fréttir frá mótframbjóðendum mín- um, án þess að nokkur skilaboð kæmu frá mér. Það voru dylgjur þeirra um það að ég væri háður Norðurljósum og að ég væri háður stjórnmálaöflum. Morgunblaðið taldi rétt að setja þær dylgjur í fyrirsagnir.“ Ólafur segir aðspurður að dylgjurnar hafi verið um annarleg fjármálatengsl „og að ég hafi notið annarlegs fjármálastuðnings og ann- að í þeim dúr sem eru náttúrulega fullkomnar dylgjur og nánast rógur,“ segir hann. „Það er alveg ljóst að Sigurður G. Guðjónsson hefur ásamt hundruðum og þúsundum annarra Ís- lendinga verið stuðningsmaður minn og var fulltrúi minn þegar hann var lögmaður löngu áður en hann tók við þessu starfi á vettvangi Norðurljósa. En að láta liggja að því að það sé áhrifaþáttur í ákvörðunum mínum um það hvort ég beitti málskotsréttinum eða ekki er satt að segja slík vanvirða við heilbrigða skyn- semi, staðreyndir og réttan málflutning að ég kalla það bara róg og dylgjur.“ Bætir hann því við að hann telji úrslit kosninganna dæma þann málflutning dauðan. En var ekki Sigurður G. Guðjónsson mjög framarlega í þínu forsetaframboði? „Jú, hann var það ásamt mörgum öðrum. Hann var það ásamt Þórólfi Árnasyni borg- arstjóra. Er ég þar með háður Reykjavík- urborg? Hann var það ásamt Má Guðmunds- syni. Er ég þar með háður Seðlabankanum? Hann var það ásamt Kristjáni Einarssyni, for- stjóra Rekstrarvara. Er ég þá þar með háður Rekstrarvörum? Það hefur engum dottið það í hug. En auðvitað var hann [Sigurður G. Guð- jónsson] ekki þá forstjóri Norðurljósa. Hann var bara lögmaður hérna í borginni.“ Nýr mælikvarði Ólafur segir aðspurður að hann líti í sjálfu sér ekki á að einhver skilaboð séu fólgin í lágri kjörsókn, en hún var 62,9%, sú lægsta hingað til. „Þessi kjörsókn skýrist að mínum dómi fyrst og fremst af tvennu. Annars vegar af því að margir töldu að úrslitin yrðu ljós varðandi það hver yrði kosinn, þess vegna væri ekki um spennandi samkeppniskosningar að ræða. Við sáum til dæmis þegar hliðstæðar kosningar voru 1988 [þegar Vigdís Finnbogadóttir fékk mótframboð] minnkaði kjörsóknin frá fyrri forsetakosningum um 17%. Hún minnkaði núna frá fyrri forsetakosningum um rúm 20%.“ Segir hann „bilið“ m.ö.o. svipað nú og í tíð Vigdísar. Hins vegar, bendir hann á að kjörsókn sé al- mennt að minnka meðal Íslendinga eins og í öðrum ríkjum á Vesturlöndum. „Fólk er ekki eins tengt kosningum og áður. Þetta er þróun sem öll vestræn lýðræðisríki þurfa að glíma við og hjá sumum þeirra er þetta orðinn stór vandi.“ En hefur þátttakan ekki vaxið aftur hér á landi? „Það var í einum þingkosningum, ef ég man rétt, sem hún sveiflaðist upp aftur. Það eru líka einkenni sem menn sjá erlendis, þ.e. meiri sveiflur – ekki stöðugleiki. En þróunin er al- mennt á þann veg að í þingkosningum, sveit- arstjórnarkosningum og forsetakosningum hefur kjörsókn á síðustu tíu til tuttugu árum verið að minnka samanborið við það sem hún var á fyrri áratugum, þegar það var almenn regla á Íslandi að vera með yfir níutíu prósent kjörsókn.“ Ólafur segir í sambandi við þetta að hann hafi tekið eftir því að menn væru farnir að tala um úrslit kosninganna í hlutfalli við kjósendur á kjörskrá. Segir hann það mælikvarða sem aldrei fyrr hafi verið notaður í kosningum á Ís- landi. „Fylgi flokkanna væri ekki alltaf mikið ef sá mælikvarði væri notaður. En sé hann á hinn bóginn notaður sýnist mér fljótt á litið að þessi úrslit séu – á þeim mælikvarða – þriðju bestu úrslitin sem forseti hefur nokkru sinni fengið í sögu lýðveldisins.“ Segist hann djúpt snortinn og þakklátur fyrir þann stuðning sem birtist í þeim úrslitum. Engin helgimynd Þegar Ólafur er spurður hvort fjöldi auðra atkvæða gefi tilefni til að ætla að þjóðin standi ekki sameinuð að baki honum segir hann að forsetakosningar hafi ávallt verið tími átaka í okkar þjóðfélagi. Að slíkum kosningum lokn- um hafi þó bæði forsetinn og þjóðin haft lag á því að ná saman til góðra verka. „Ég tel að það muni eins gerast nú.“ Bætir hann því við að framundan séu mörg góð verk og spennandi tímar. „Ég tel mikilvægt að taka höndum sam- an við alla um að styrkja stöðu þjóðarinnar og skapa betri framtíð fyrir alla Íslendinga.“ Hann segir einnig í þessu sambandi að for- setaembættið sé ekki bara helgimynd sem eigi að gegna einhverju táknrænu hlutverki. „Þeg- ar menn eru að tala um sameiningartáknið mega þeir ekki tala um það eins og helgimynd í kirkju; að forsetinn eigi bara að vera geymd- ur hér á Bessastöðum og aðhafast ekkert vegna þess að hann sé hin táknræna helgi- mynd þjóðarinnar. Honum eru falin á akri stjórnkerfisins – og oft í hinum erfiðustu mál- um – mikilvæg hlutverk og á að vera reiðubú- inn að taka þeim örlögum sem því eru sam- fara.“ Ólafur ítrekar aftur skýringar sínar á auð- um atkvæðum og leggur áherslu á að aðal- atriðið sé það sterka og trausta umboð sem hann hafi fengið í kosningunum. „Ég greindi frá því – þegar ég hélt blaðamannafund og gaf kosta á mér til þessa embættis næstu fjögur árin – að það væru fyrst og fremst fjórar meg- ináherslur sem ég myndi hafa í huga, ef þjóðin fæli mér umboð á nýjan leik til þess að gegna þessu embætti. Í fyrsta lagi að ég myndi taka virkan þátt í samræðum þjóðarinnar um fram- tíð hennar og mikilvæg verkefni án þess að taka þátt í flokkspólitískri umræðu eða karpi á vettvangi stjórnmálanna,“ útskýrir hann. „Í öðru lagi að styrkja margvíslega starfsemi í landinu; í byggðarlögum, hjá samtökum, í fyr- irtækjum og hjá einstaklingum og rétta þar hjálparhönd. Í þriðja lagi að treysta stöðu Ís- lands í samfélagi þjóðanna með því að leggja lið útrás okkar á sviði menningar, viðskipta og vísinda. Og í fjórða lagi að efla tengsl við for- ystusveitir annarra ríkja. Þetta voru þær áherslur, sá boðskapur, sú yfirlýsing sem ég gaf þegar ég sóttist eftir umboði þjóðarinnar til að gegna þessu embætti á nýjan leik. Ég tel að með 85% atkvæða og tveimur þriðju af öll- um sem fóru á kjörstað og þriðju bestu út- komu ef miðað er við alla sem eru á kjörskrá, í sögu forsetaembættisins, hafi ég fengið afger- andi og sterkt umboð til þess að vinna í sam- ræmi við þessa yfirlýsingu.“ Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir Morgunblaðið hafa beitt sér gegn kjöri hans Þakklátur fyrir afgerandi traust sem þjóðin veitti Morgunblaðið/Þorkell Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á Bessastöðum. arna@mbl.is Ólafur Ragnar Grímsson var endurkjörinn forseti Íslands í forsetakosningum sem fram fóru á laugardag. Arna Schram ræddi við forsetann á Bessastöðum í gær.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.