Lesbók Morgunblaðsins - 22.03.2003, Page 6

Lesbók Morgunblaðsins - 22.03.2003, Page 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. MARS 2003 L ÍKT og titill þessarar greinar gefur til kynna er ætlunin að sigla á óræð og óútreiknanleg mið. Það þýðir ekki að umfjöllun um sam- band hvatalífs og samfélagssýnar sé gerð flókin. Öðru nær: Þrátt fyrir ítrekaðar og á köflum mik- ilfenglegar tilraunir í menningar- sögu Vesturlanda hefur engum tekist að koma böndum yfir hvatalífið. Það breytir því ekki að samfélagið eins og við þekkjum það byggist á tilteknum kenningum um sama fyr- irbæri. Í lífinu er hægt að bindast samtökum gegn kenningum um hvatalífið, en inntak þeirra er oftar en ekki siðferði hvatalífsins með tilheyrandi boðun um rétta og ranga kynhegðun, hlutverkaskipan kynjanna og æskilegt sambúðarform. Baráttan gegn ofríki slíkra kenninga einskorðast ekki við almenn og opin félagasamtök, heldur hefur fræða- samfélagið – á síðari tímum – lagt henni lið, t.d. í nafni kynja- og hinseginfræða, að ógleymdum femínisma. Eins og koma mun í ljós er við ramman reip að draga. Hæst ber kenningarkerfi kristni, sem flaggar tvíhyggju holds og anda. Tilraun Freuds er líka kapítuli út af fyrir sig. En hvað með nýjustu kenningarnar, sem eiga sér upp- haflega rætur í almennri og opinni baráttu gegn ofríki kenninga um siðferði hvatalífsins? Frá sjónarhóli skáldskaparins virðast þær stundum hafa tilhneigingu til að taka á sig mynd fyrirframgefins sannleika um hvatalíf- ið, ekki aðeins í lífinu heldur einnig og ekki síður í túlkun á skáldskap. Þetta er mikilvægt atriði, því hér er ekki ætlunin að dvelja við baráttuna gegn ofríki kenninga öðruvísi en með hliðsjón af og í samræðu við möguleika skáldskaparins hvað efnið varðar. Í skáldskap er nefnilega hægt að slá tvær flugur í einu höggi; að þreifa á óræði hvatalífsins annars vegar og skoða kenningar um siðferði þess hins vegar. Skáldsögur Guðbergs Bergssonar svara löngum kallinu. Hér verður fjallað um tvær þeirra, sögurnar Hjartað býr enn í helli sínum (1982) og Þá kvöldu ást sem hugar- fylgsnin geyma (1993). Afrakstur slíkrar nálgunar er ekki endilega brúklegur þegar á hólminn er komið; í sjálfu lífinu. Ef marka má höfund þeirra skáldsagna sem fjallað verður um dugar leiðsögn lista eða skáldsögunnar þar skammt: Lömbin geta lifað eftir lögmáli eðlishvata rollanna, börn eftir reglum foreldra sinna, en ég held að hjálp guðs nægði ekki til bjargar lesanda ef hann ætlar að lifa daglegu lífi eftir leiðsögn lista eða skáldsögunnar, því fagurfræði þeirra og siðferðið í innihaldi ritaðs texta eru svikul í hversdagslífinu og engin leið að leggja að jöfnu daglega hegðun manns sem myndar þjóðfélag og siðferði persónu innan fagurfræði orða, setningarskipunar eða byggingar í skáldsögu.1 Slíkt sjónarmið þarf ekki að útiloka þá hug- mynd að listin sé möguleiki, vilji einhver halda á dýpið án fyrirframgefins sannleika. Og í hugsun um hvatalífið og óræði þess gæti fólk þurft á slíkum möguleika að halda. Í þessu samhengi kemur Ágústínus kirkjufaðir upp í hugann, en í Játningum hans má lesa eftirfarandi orð: „Einn og einn eru tveir, tveir og tveir eru fjórir“ – þetta þótti mér viðbjóðs- legt stagl“2. Í samanburði við skáldskapinn og það sem Ágústínus kallar „unaðslegt töfraspil hans“ eiga „þarflegu greinarnar“ sem hann kallar svo litla möguleika. Undir þetta er tek- ið, en með fyrirvara þó. Eftir að vegurinn til guðs varð Ágústínusi fær sneri hann ekki að- eins baki við skáldskap, heldur einnig kynlífi og unaði þess. Slík áform búa hér ekki að baki. Stefnan er í það minnsta tekin á mögu- leika skáldskapar, kannski vegna þess að þar er hægt að þreifa á jafn heillandi þverstæðu og óræði hvatalífsins andspænis áráttu- kenndri kenningasmíð. Hjartað býr enn í helli sínum Í Hjartanu sem býr enn í helli sínum hittir lesandi fyrir nafnlausan mann í Reykjavík nú- tímans, sem er umvafinn myrkri jarðar, lands og mannlífs. Skammdegið ríkir og í sólar- hring leitar maðurinn (sem er sálfræðingur) eftir leiðum hugarins og borgarinnar að ein- hverjum sannleik um sig og sambönd sín. Sagan byrjar á hádegi og maðurinn sem er nýfluttur (í sjötta sinn á tæpu ári) í leigu- herbergi hefur komið dótinu sínu fyrir í haug á gólfinu. Eftir samtal við konuna sem leigir honum heldur hann af stað niður í miðbæ Reykjavíkur, friðlaus af þrá til Dóru fyrrver- andi konu sinnar (sem er félagsfræðingur) og tveggja dætra. Á Hlemmi hittir hann þær en eftir fremur mislukkaðan fund hellir maður- inn í sig og gerir um kvöldið aðra tilraun til að „sigra“ Dóru. Hún hringir á lögguna, mann- inum er stungið inn og um eða eftir miðnætti situr hann aftur í fangaklefa fyrir misskilning og hugsar: Guð, þú veist það, djöfullinn þinn, jafn vel og ég sjálfur og bankarnir að ég geymi hvergi fé á leynireikningi. Dóra og þú, þið misskiljið mig hrapallega, guð, ef þið haldið virki- lega, nema þið ljúgið, að ég steli undan af kaupinu mínu og eyði því í kvenfólk. Hvar eru hórur hér? Hvenær fengi ég tækifæri til að eyða eyri í aukakonu? Ef maður leigði sér herbergi kæmist það strax upp í smáborg eins og þessari þar sem allir njósna um alla. Framhjáhaldi eru takmörk sett sökum smæðar borgarinnar þótt löngunin sé meiri hér og þörfin en í miljónaborg. Hér í þessum þrönga mús- arholuheimi. Ég sóa síst meira fé en Gunni til dæmis, í áfengi og tóbak. Guð, þú veist líka að ég fer strax að atast í Dóru verði ég drukkinn, en það er ósjálfrátt og merkir ekki neitt. Þið eruð bæði helvítis fábjánar, hún og þú, ef þið haldið að ég leyni ykkur ýmsu. Eftir ávarpið létti manninum, en honum hafði hitnað í hamsi, og hann geiflaði sig ógurlega á ný og hugsaði: „Nei, svona bænir ná engri átt. Þetta er eymingjaleg framkoma og guð væri alger asni ef hann tæki mark á mér.“ Eftir þetta var eymd mannsins alger, hann gat ekki trúað nein- um fyrir því sem honum bjó í brjósti, bæði vegna þess að þar ríkti eintómur óskapnaður sem var á sífelldri hreyf- ingu og breyttist stöðugt, og svo trúði hann hvorki ákaft né innilega á neitt. Maðurinn starði vanmáttugur og lítill fram fyrir sig á hina auðu veggi, hann gat ekki rætt við guð og fyllt tómið í kringum sig og kom ekki orðum að eymd sinni af því orðin urðu ósönn og óeðlileg og fölsk; en allar lærðar bænir til guðs eru fastmótaðar og hafa fæðst hjá öðrum og í annars konar huga en hans sjálfs, á löngu liðn- um og óskyldum tímum, og þær krefjast að þær séu settar fram á skipulegan hátt og oft af ósannri undirgefni. En maðurinn þekkti af reynslu að þegar örvæntingin grípur huga fólks og guðs er kannski þörf, þá liðast öll form sund- ur og hin sanna bæn ætti því að vera sundurlaust taut og bull. Af þessu þráir hinn ráðlausi að geta leitað andartak til skapara og skipuleggjara lífsins, svo hann komi ein- hverri heillegri mynd á ólguna í þeim huga sem borinn er villuráfandi og ruglaður fyrir hann. Þá líkist hugsanaólgan helst mislitri bandaflækju úr ótal hespum sem hinn hrjáði kann ekki að vinda saman í hnykil, enda finnur titrandi hugur hans hvergi enda. Einmitt þess vegna fer sá sem biður í raun og sannleika ekki með bæn í venjulegum skiln- ingi heldur með rugl, en hinn sem biður af ráðnum huga og með rólegri hugsun er gæddur ísmeygilegri ágirnd og heimtar gjafir af guði án þess hann gefi nokkuð sjálfur í staðinn nema kannski hégómleg orð og einskisnýt loforð.3 Maðurinn stendur ráðþrota andspænis rök- leysunni sem við honum blasir og hver nema „skipuleggjari lífsins“ getur svarað fyrir jafn- ófullkomna smíð? En tímarnir eru breyttir og hafi menn getað snúið sér til guðs efast þessi maður um möguleika á raunverulegu sam- bandi: Tómið er allt um kring, eymd manns- ins alger og hið innra ríkir „eintómur óskapn- aður“ á „sífelldri hreyfingu og breytist stöðugt“. Væri maður til friðs, hvort heldur í hjónabandi eða utan þess, ætti tilraun kristn- innar nefnilega að hafa heppnast, þessi hug- mynd að trúin á guð eyði vantrú manns á sjálfum sér, öðrum og sambandinu þar á milli. Eftir situr þó eldri hugmynd, þessi hugmynd um sálina og ævarandi flökt hennar, hver geti átt hana og hvernig maður lifi með öðrum í skugga hennar. Þar við bætist ósefandi til- finning mannsins fyrir tóminu og innri óskapnaði sem er á sífelldri hreyfingu og breytist stöðugt: tilfinning mannsins fyrir efni sínu. En hvað er þá hjartað? Það sem vekur lesanda til vitundar um margræðni sögunnar er þessi kynlega sviðsetning á leit mannsins: Í ríki Hjartans er fráskildi mað- urinn ekki einvörðungu leiðsögumaður les- anda um öngstræti nútímasamlífs og þá síð- kapítalísku hagsmunabaráttu sem einkennt hefur umræðu seinustu áratuga um mögu- leika fólks í samlífinu, heldur einnig um óljós mörk grískrar og kristinnar menningar, hið innra. Þessi „sviðsetning“ er í takt við höf- undarverk Guðbergs, eins og ég fjalla nánar um á öðrum stað4. Hér er sjónum beint að fyrra atriðinu, eða samfélagsættuðum kenn- ingum um hvatalífið í nútímasamlífi. Í sög- unni má þreifa á hugsun um minnst eina þeirra, en sú kenning á upptök sín í opinni og almennri baráttu gegn ofríki kenninga; kven- frelsishreyfingunni, en hefur á síðari tímum stundum tilhneigingu til að taka á sig mynd fyrirframgefins sannleika í nafni fræðilegs femínisma. Sú kenning segir einnig til sín í nýlegri túlkun á sögunni. Önnur samfélags- ættuð nútímakenning kemur einnig við sögu, ekki þó í skáldsögunni heldur nýlegri túlkun á henni. Þar er einnig á ferð kenning sem átti upptök sín í opinni og almennri baráttu gegn ofríki kenninga; baráttu samkynhneigðra, en sem hefur á síðari tímum – í nafni hinseg- infræða – stundum tilhneigingu til að sýna of- ríki í umfjöllun um skáldskap. Þegar sagan kemur út í byrjun 9. áratug- arins fer talsvert fyrir umræðu um samband kynjanna, kvenfrelsi og kvennabókmenntir. Fyrrverandi kona mannsins, félagsfræðing- urinn Dóra, hefur tekið trúna. Hún stendur keik á sínum rétti, meðan sálfræðingurinn treður helveg í lífi sínu, í leit að einhverjum sannleika um sig og sambönd sín. Í þessu samhengi kemur ritdómur Þorvalds Kristins- sonar, „Þetta eru vorir tímar“, upp í hugann5. – Þar bendir Þorvaldur á vissa þverstæðu: Hjónin í sögunni teljast til þeirra sem ætlað er að ráða fram úr tilfinningalegum og fé- lagslegum vanda samferðamanna sinna. Hvað sem segja má um „trúarþátt“ Dóru og hvern- ig hann gagnast samferðamönnum hennar bíður það hins vegar lesandans, eins og Þor- valdur bendir á, að fylgja manninum á „enda- lausu flakki í örvæntingu og ofsóknarbrjál- æði“. „Útmálun örvæntingarinnar“ er hins vegar markvissari en svo að hún eigi skylt við „útúrsnúning eða hótfyndni“. Hversu svört sem heimssýn skáldsins kann að birtast í þessari sögu – en það er ekki aðeins borg- aralegur femínismi sem er gagnrýndur fyrir yfirþyrmandi yfirborðsmennsku, sbr. leiðar- ljós baráttunnar: Kvinde, kend din krop, heldur fjölskyldulífið á tímum eignarréttar, valdaáráttu, græðgi og neysluæðis hverfist sagnaheimur Guðbergs ekki um sjálfan sig, bætir Þorvaldur við. Að mati Þorvalds ætlar Guðbergur mönnum ekki „að kveða sig í sátt við eymdina“. Undir það sjónarmið er tekið. Líkt og Ástráður Eysteinsson benti einnig á í umfjöllun um skáldsöguna á 9. áratug liðinnar aldar felur kvenfrelsisumræðan (hvort heldur í stjórnmálum, bókmenntaumfjöllun eða öðr- um sviðum) í sér kosti og galla. Umræðan kemur vissulega heilbrigðu raski á hugi manna, segir hann. Hitt er svo annað mál „að þegar lítur út fyrir að kvenfrelsisbarátta eða kvennabókmenntir hafi leitt fólk út í kreddur eða einhvern ófrávíkjanlegan „sannleika“, þá er kominn tími til að vefengja þann sannleika og ögra honum“.6 Að mati Ástráðs gerir Guð- bergur einmitt það með sögu sinni Hjartað býr enn í helli sínum. Á sínum tíma voru ekki allir sammála slíkum lestri. Og enn lesa sumir annað úr sögunni. Nýverið birti til að mynda Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur grein- ina „Um meintan dauða femínismans“ þar sem hún ræðir m.a. umrædda skáldsögu, eða öllu heldur „lýsingar Guðbergs Bergssonar“ á femínistum og „skilning hans“ á femínisma. Í lýsingum Guðbergs, segir Sigríður, birtist femínismi einungis sem kenning um kúgun kvenna. Samkvæmt hans skilningi, heldur hún áfram, gengur allur femínismi út á að sýna konur sem fórnarlömb. Máli sínu til stuðnings vísar hún ekki aðeins í kvenlýsing- ar Hjartans, heldur einnig þeirrar skáldsögu sem fjallað verður um hér á eftir, Þá kvöldu ást sem hugarfylgsnin geyma.7 Grein Sigríðar er ítarleg. Hún fjallar annars vegar um „nei- kvæð viðhorf til femínisma“ þar sem grein- arhöfundur leitast við að varpa „gagnrýnu ljósi á femínisma sem pólitískt og fræðilegt fyrirbæri“ og svara að einhverju leyti „ásök- unum á hendur honum og velta fyrir sér framtíð hans“. Í síðari hluta greinarinnar snýr Sigríður sér hins vegar að „heimspeki- legum forsendum hinnar fræðilegu femínísku nálgunar“8. Hér verður ekki spurt um efni greinarinnar í held sinni. Umræddri túlkun Sigríðar á sögu Guðbergs (sem byggist eins og fram er komið á hugmyndum greinarhöf- undar um afstöðu mannsins Guðbergs til fem- ínisma) kallar hins vegar á viðbrögð. Vilji fólk huga að afstöðu þessa skáldsagnahöfundar er ekki úr vegi að huga að afstöðu hans til skáld- skaparins (sbr. brotið hér að framan). Í fram- haldi má spyrja: Er persónan Dóra kúguð? Er hún fórnarlamb? Lesendur sögunnar geta velt þessu fyrir sér. Sé það reyndin má skoða kenninguna sem persónan lifir lífi sínu eftir frá og með „trúskiptunum“. Í því ljósi eru það ekki endilega karlmenn sem kúga Dóru og gera hana að fórnarlambi. Kannski hefur fyrrum kvenfrelsishreyfing snúist upp í and- stæðu sína í formi fyrirframgefins sannleika um ekki aðeins konur, heldur einnig karl- menn og hvernig þeim beri að haga samlífi sínu, ef ekki skáldskap. Þótt umræddur skáldsagnahöfundur kjósi að glíma við ráð- gátuna manninn, flöktandi kynhneigð hans og illhöndlanlegt tilfinningalíf – og það í djúp- stæðri hugsun um og samræðu við stefnur og strauma menningar og samfélags – er ekki þar með sagt að maðurinn Guðbergur Bergs- son sé ábyrgur fyrir hugsanlegum umskipt- um kvenfrelsishreyfingarinnar í þessu tilfelli. Víst er að umrædd glíma þessa skáldsagna- höfundar vekur með reglulegu millibili óþol þeirra sem kunna að gera ráð fyrir fyrirfram- gefnum sannleik um hvatalífið og óræði þess. Á árum áður voru það ekki síst prestar á Ís- landi sem létu í sér heyra. Um þessar mundir (eða frá og með 9. áratug 20. aldar) er það oft- ar en ekki íslenskt menntafólk í baráttuhug sem verður fyrir óþolinu. Áður en við skiljum við sálfræðinginn í Hjartanu sem býr enn í helli sínum og snúum okkur að öðrum jafn leitandi manni í skáldsögunni Þeirri kvöldu ást sem hugarfylgsnin geyma vil ég staldra við flöktandi kynhneigðina. Eins og komið hefur fram atast maðurinn í Dóru án nokk- urrar merkingar, í skjóli Bakkusar. Þar með er hugsun hans um kynhneigð sína og mögu- leikana í samlífinu ekki úr sögunni. Hann leit- ar líka viðstöðulaust ráða hjá öðrum per- sónum í rás sögunnar, t.d. hjá mömmu sinni (sem er fremur víðsýn ef ekki tálsviptandi kona), en það er hún sem segir við son sinn: „[a]ð spyrja er að vilja vita og deyða“9, hjá Gunna vini sínum sem er nuddari og jafn- opinn fyrir báðum kynjum, hjá óbrotnu al- þýðumönnunum Jóa stóra og Jóa litla, sem búa saman með einni konu og barni þeirra allra, svo ekki sé minnst á konuna sem leigir manninum herbergið, hún sem spyr hvort hann vilji vera „pabbi [hennar] um stund“10 en hjálpar honum í lok sögunnar við að deyja. Því má heldur ekki gleyma að þessi maður reynir líka við ímyndaða konu. Er kynhneigð þessa manns kannski í ætt við síbreytilegan óskapnaðinn sem maðurinn segir að ríki innra með sér? Ég veit það ekki. Til eru lesendur sögunnar sem sjá sterka vísbendingu um dulda samkynhneigð persónunnar. Geir Svansson ræðir til að mynda titil sögunnar í grein sinni „Ósegjanleg ást“ og segir að „hjartað“ sé „ekki enn komið út úr hellinum“, að maðurinn „standist freistinguna“ og að það verði hans bani.11 Lítum á brot úr sögunni: Eftir að nokkrar klukkustundir hefðu drattast áfram yrði um stund kominn dagur sem opnaði hellisopið svo að í hell- ÓRÆÐI HVATALÍFSINS Í ÓÚT- REIKNANLEGUM PERSÓNUM Í skáldsögum Guðbergs Bergssonar er fjallað um hvatalíf mannsins og kenningar um siðferði þess. Í þessari grein eru tvær sögur hans skoðaðar út frá þessu sjónarhorni, Hjartað býr enn í helli sínum (1982) og Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma (1993). E F T I R B I R N U B J A R N A D Ó T T U R

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.