Lesbók Morgunblaðsins - 10.05.2003, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 10.05.2003, Blaðsíða 5
ljóð, nema síður sé. Ég var staddur á ljós- myndasafni í París á dögunum. Aðgangseyr- irinn sex evrur og ég rétti starfsmanni vísa- kortið mitt. Þetta er ungur maður, líklega á þrítugsaldri, hann er annars hugar og virðir mig varla viðlits, tekur á móti kortinu án þess að líta upp. Rennir því gegn, les á það, líklega af gömlum vana. Skyndilega birtir yfir svip hans, hann lítur upp, ákafur. Ertu frá Íslandi? spyr hann á ensku. Ég gengst við því, og óttast eitt andartak að hann ætli að fara að atyrða mig fyrir stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar við stríðið í Írak; ég bý mig undir að þvo hend- ur mínar af því. Þá segir hann eitt nafn, mjög bjagað en ég átta mig strax: Sigurður Páls- son?! The poet? spyr ég á móti, og drengurinn spennir greipar, brosir mjög breitt og segir, yes! yes! Hann hafði lesið ljóð eftir Sigurð í frönskum þýðingum og fullyrti að þau hefðu breytt heiminum fyrir sér – og ég sá ekki bet- ur en það væri alveg rétt hjá honum. „Endurnýjun skáldskaparins kemur úr ýmsum áttum,“ skrifar Óskar Árni Óskarsson í nýlegri grein þar sem hann minnir okkur á mikilvægi ljóðaþýðinga; við þurfum á annar- legum tungum að halda, bætir hann við og vís- ar í fræga bók, Annarlegar tungur sem inni- heldur ljóðaþýðingar eftir Jóhannes úr Kötlum. Óskar nefnir fleiri bækur sem án efa hafa haft áhrif á þróun ljóðsins hér á landi; Er- lend nútímaljóð sem kom út 1961 (þar má finna Skógarhöggsmann Neruda og kvæði Nezvals), Ský í buxum eftir Majakovskí í þýð- ingu Geirs Kristjánssonar; Nokkur amerísk ljóð, þýdd af Degi Sigurðarsyni. Allt bækur sem skipta máli, sem fólk ætti að leita uppi í fornbókabúðum, lesa og sjá veröldina taka breytingum. Og það má bæta við yngri bókum; Hækuþýðingum Óskars sjálfs; þýðingum Að- alsteins Ásbergs á Orkneyingnum George Mackay Brown; Að snúa aftur, þýðingum Gyrðis Elíassonar á nokkrum ólíkum úrvals- skáldum; þýðingum Njarðar P. Njarðvíks á Edith Södergran eða Svíanum Werner Aspenström, Aspenström sem er engum líkur: Nú er sá tími sólarhringsins þegar dráttarbáturinn Rex fer út í skerjagarðinn að sækja sólarupprásina. Ég gæti nefnt fleiri dæmi, en þið sem lítið á ykkur sem unnendur skáldskapar en eigið samt ekki þessar bækur, þið eigið brýnt verk- efni fyrir höndum, það þolir litla bið, ég sendi ykkur af stað; farið og finnið þær. Þrjú Eins og tungl sem fylgir sólinni, þetta er snjöll líking en hún upphefur höfundinn á kostnað þýðandans. Það er mikið starf að þýða, og góður þýðandi getur haft drjúg áhrif á umhverfi sitt. Ég leyfi mér að nefna Ingi- björgu Haraldsdóttur sem hefur fært okkur Dostojevskí, verk á borð við Meistarann og Margarítu eftir Búlgakof og tvær af óviðjafn- anlegum skáldsögum Manuels Scorza. Hér mætti líka nefna Brautigan-þýðingar Gyrðis, Marquez-þýðingar Guðbergs Bergssonar, þýðingar Þorgeirs Þorgeirsonar á Heinesen; farið ögn lengra aftur í tímann og staðnæmst við þýðingu Júlíusar Havsteen á Moby Dick eða Jóns frá Kaldaðarnesi á Hamsun. Já, ég gæti á örskömmum tíma bætt verulega við listann, en það sem ég vildi sagt hafa: Með vali sínu á höfundum getur góður þýðandi ef ekki breytt landslaginu þá alltént sett svip sinn á það. Gerum því ekki lítið úr þeim, við skulum ekki líta á framlag þeirra sem sjálfsagt mál. Auðmýkt, já, en þýðandinn verður líka að hafa stolt, það vinnst fátt með auðmýktinni einni saman. En hvaða mælikvarða á að nota á þýðingu? Hvað ef öndvegisþýðing er „fullsjálfstæð“ gagnvart frumtextanum? Já, hvað ef þýðingar Halldórs Kiljans á Ernest Hemingway væru að koma út í dag, yrði hann þá talinn lita þýð- inguna um of með eigin stíl, eða hrósað fyrir að skapa nýtt verk? Ég er ekki viss um að ég hefði viljað kynnast A Farewell to arms og A Moveable Feast öðruvísi en í þýðingum Hall- dórs – ógleymanleg lestrarupplifun. En hversu auðmjúkur, hversu mikið tungl Hall- dór er í þýðingum sínum er annað mál. Ein fyrstu skrif Ástráðs um þýðingar snerust um þýðingu Halldórs Kiljans á A Farewell to arms, þar sem hann gagnrýndi Halldór fyrir skort á nákvæmni og að sveigja fullmikið frá frumtextanum; af þessu spruttu athyglisverð- ar deilur sem hugsanlega segja þó öllu meira um innviði íslensks bókmenntalífs en ólíkar skoðanir á þýðingum. Ég segi bara tvennt; þýðingar Halldórs á Hemingway eru góðar, en sá sem les til dæmis Veislu í farángrinum kynnist í einni bók stíl tveggja nóbelshöfunda; Halldórs og Hemingways. Ég get alltént ekki séð annað en að Halldór skrúfi stílinn upp um eitt stig, ég á þá ekki við gæði heldur látleysi: You got very hungry when you did not eat enough in Paris … Það tekur fljótt innanúr manni í París ef leingist á milli mála … En gleymum því ekki að tímarnir hafa breyst; krafan um trúnað við frumtextann er meiri í dag en fyrir nokkrum áratugum, þegar þýðandi gat leyft sér að sleppa úr fyndist hon- um höfundurinn teygja lopann fullmikið. Fræg dæmi um það eru þýðingin á Stríði og friði eftir Tolstoj, þar vantar tugi síðna, og svo á Frú Bovary eftir Gustave Flaubert þar sem lykilatriðum var sleppt. Það er búið að bæta skaðann með Bovary; Pétur Gunnarsson þýddi hana alla og gerði það vel fyrir nokkrum árum, en Tolstoj bíður enn. Sigfús Daðason benti á að langlífi liggi „ekki fyrir nema fáum þýðingum. Þær ganga úr sér þó að frumritið lifi. Þetta er örðugt að skýra, en er einhver augljósasta sönnun þess að hver þýðing er varla nema tilraun“. Örðugt að skýra og ég segi pass, nema þarna liggur hugsanlega grundvallarmunurinn á þýðingu og frumtexta. Hér er ekki verið að tala um vandann, eða möguleikana við að þýða „Tåget har stannat“, heldur miklu fremur einhver hulin lögmál sem valda því að þýðingar eru flestar bundnari samtíma sínum en „frumrit- ið“. Úti í hinum stóra heimi er stöðugt verið að þýða verk upp á nýtt; þeir eru til dæmis ófáir sem hafa þýtt Töfrafjallið eftir Thomas Mann yfir á ensku. En því miður getur tæplega 300 þúsund manna þjóð ekki tekið upp hætti millj- óna þjóða, verk eru sjaldan þýdd oftar en einu sinni hérlendis og liggur því mikið við að vel sé gert þegar ráðist er í stórvirkin; ef Töfrafjallið kæmi út í ófullburða þýðingu færum við á mis við töfra verksins um ókomin ár. Við höfum náttúrlega úrvalsþýðingar á öðrum tungumál- um, en eins og þar stendur: maður kemst næst skáldverki í gegnum móðurmál sitt – sé þýð- ingin góð. Fáir eru svo vel kunnugir í öðrum málum að þeir lesi það til jafns við eigið mál, það eru alltaf fyrirstöður, smáar eða stórar og sumar djúplægar. Og ég segi bara; einhver ætti nú að taka sig til, loka Kristján Árnason inni og ekki hleypa honum út fyrr en Töfra- fjallið er þýtt. Maður lifandi, og þegar bókin kæmi út myndir þú leigja sumarbústað í heila viku, bara þú, Töfrafjallið í þýðingu Kristjáns – og hugsanlega svo sem ein viskíflaska. Fjögur Það er umhugsunarvert hversu ómarkviss, jafnvel máttlaus eða andvaralaus, umræðan um þýðingar er stundum hjá okkur. Árið 1998 kom út þýðing Arnórs Hannibalssonar á ein- um af stórvirkjum Dostojevskís; Hinir óðu, gefin út af honum sjálfum. Tveimur árum síð- ar gefur Mál og menning út þýðingu Ingi- bjargar Haraldsdóttur á sömu bók, og nefnist nú Djöflarnir. Þetta eru afar ólíkar þýðingar, varla að nokkrar setningar sé eins hjá þeim í þessu verki upp á ríflega 600 síður. Í þýðingu Arnórs er Dostjoevskí (eða Dostoévskí, eins og hann skrifar nafnið) heldur þunglamalegur en villtur, jafnvel dýrslegur stílisti. Sumar setningar Arnórs eru óþjálar, en á móti finnur maður fyrir óhömdum, villtum krafti. Hjá Ingibjörgu er Dostojevskí eins og við þekkjum hann úr fyrri þýðingum hennar; talsvert fág- aðri og þó að krafturinn sé sannarlega til stað- ar er hann ekki eins dýrslegur. Ef einhvern tíma hefur verið ástæða til að bera saman þýð- ingar, þá er það hér. Maður hefur kannski heyrt því fleygt að sumum Rússum þyki Dost- ojevskí hálfgerður göslari í stílnum, er það rétt og fer þá „gölluð“ þýðing Arnórs nær frumtextanum? Af hverju eru kirsuberjatrén að springa út í þýðingu Arnórs þar sem hegg- urinn blómstrar á sama stað hjá Ingibjörgu? Og hvort þeirra fer nær Dostojevskí í þessari línu: „Þeir fóru með mig einsog gamla bómullarhúfu.“ (Ingibjörg) „Þeir fóru með mig eins og skítuga nátthúfu.“ (Arnór) Aukin umræða um þýðingar, vegleg þýð- ingaverðlaun, þetta myndi eflaust örva áhuga og um leið sölu á þýðingum. Það hlýtur að telj- ast varasöm þróun ef sala og áhugi á þýð- ingum dragast svo saman að bækur eftir klassíkera á borð við Tsjekhov og Proust ná varla þrjú hundruð eintökum – inni í þeirri tölu eru þá nokkrir tugir eintaka sem bóka- söfnin kaupa – og lofaðir erlendir samtímahöf- undar eru á svipuðu róli, nema þeir komi þá út í bókaklúbbum. Hlýtur að vera umhugsunar- vert ef glamorinn kringum íslenskar bók- menntir, hávaðinn og andvörpin, ýta þýddum skáldverkum út í jaðarinn, út í þögnina. Und- anfarna tvo eða þrjá áratugi hefur komið út fjöldi góðra þýðinga, en það er mikið verk óunnið, listinn er langur, ef ekki endalaus; öfl- ug þýðingarútgáfa lífsnauðsyn fyrir tæplega 300 þúsund manna smáþjóð. Sá sem les góða þýðingu gengur á fjöll hér á Íslandi en hefur samt útsýni yfir framandi slóðir. Já, við lesum þýðingar til að kynnast ólíkum viðhorfum til lífsins, skáldskaparins; lesum þýðingar til að múrast ekki inni. Höfundur er rithöfundur. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. MAÍ 2003 5 Það er eitthvað milli hunda og hrafna úr hyldýpi alda sem tókst ekki að jafna ágreiningur, öndvert geð og ef til vill sitthvað fleira með. Öll þeirra samskipti um þetta snúast það er ekki skynsamlegt við því að búast að málefnalega þau fari fram frekar en yfirleitt krunk og gjamm. Umsvifalaust þegar aðilar mætast ýmist þeir gera að fyrtast og kætast annar byrjar að erta hinn og átökin leita í farveg sinn. Vér skiljum það ekki, þetta er bara svona og ósköp tilgangslítið að vona að þetta breytist, batni senn þá blekkingu aðhyllast sumir menn. Svo er að skilja að sumir haldi að það sé hægt að laga allt með góðu eða valdi með því að veðja á hrafn umfram hund og halda svo með þeim sáttafund. Þeir menn eru vissir um vísindi hrafna en vitsmunastarfsemi rakkanna hafna. Menn láta þar gabba sig goðsagnaflóð gamla hjátrú og barnaljóð. Trygglyndi er hundum til heimsku metið en hröfnum til gáfna krunkið og fretið. En er víst að hrafna- og mannamál megni að skilgreina hundasál? Hún stefnir að allt öðru marki og miði menning þeirra er á öðru sviði. Vér höfum ekki aðstöðu til þess né tól að túlka margt þeirra urr og gól. Slík æskiröð: Menning hrefning hynding er hugarleti og vanabinding. Þefmenntir hundanna þekkjum vér lítt hví þykjumst vér geta þær dæmt og nítt? Teikning/Sigrún Eldjárn ÞÓRARINN ELDJÁRN MENNING HREFN- ING HYNDING Höfundur er skáld.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.