Lesbók Morgunblaðsins - 10.05.2003, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. MAÍ 2003
Þ
AÐ var ánægjulegt að fá að opna
fyrstu opinberu sýningu ný-
stofnaðs Leikminjasafns Íslands
á Sauðárkróki á dögunum. Safn-
ið er enn húsnæðislaust, hefur
takmarkað geymslurými og
enga fasta sýningaraðstöðu.
Þörfin fyrir það er hins vegar
löngu orðin augljós öllum, sem eitthvað þekkja
til þessara mála, eins og best má sjá af þeim
mikla og almenna stuðningi sem það nýtur,
ekki aðeins meðal leikhúsfólks í þrengsta
skilningi, heldur allra sem láta sig málefni list-
greinarinnar með einhverjum hætti varða.
Þannig eiga ekki færri en fjögur félög tónlist-
arfólks sæti í fulltrúaráði safnsins, æðstu
stjórn þess. Það er vitaskuld afar brýnt að
safnið fái varanlegt aðsetur, helst í Reykjavík,
sem hefur alltaf gegnt forystuhlutverki í leik-
listarsögunni og er eðlilegasti starfsvettvang-
ur þess. Ræturnar á landsbyggðinni eru þó
einnig miklar og djúpar og vildi stjórn Leik-
minjasafnsins árétta það með því að efna þar
til fyrstu sýningarinnar.
Skagfirskir afreksmenn
Manni finnst það stundum tæpast einleikið
hversu margir af frumherjum íslenskrar leik-
listar hafa komið einmitt úr Skagafirðinum. Er
þar fyrstan að telja Sigurð Guðmundsson mál-
ara, sem minnst er með umræddri sýningu,
einn merkasta og að sumu leyti furðulegasta
brautryðjanda sem menningarsaga okkar
greinir frá. Helsti lærisveinn hans var einnig
Skagfirðingur, það var Indriði Einarsson sem
tók við merkinu úr hendi málarans og bar að
lokum fram til sigurs hinn mikla draum meist-
ara síns um þjóðleikhúsið – „nationala scenu“
eins og það hét á dönskuskotnu máli tímanna.
Hefur Indriði stundum verið nefndur „faðir
Þjóðleikhússins“ og ætti Sigurður þá sam-
kvæmt þeirri ættfærslu að kallast afi þess, því
að hann lagði ásamt nokkrum félögum sínum í
raun fyrsta hornstein þess með stofnun Kúl-
issusjóðsins svonefnda 1866, eins mikilvæg-
asta fyrirtækis íslenskrar leiksögu. Hlut Indr-
iða að framgangi Þjóðleikhússins má þó hvergi
rýra, því að fáir hafa þekkt betur sinn vitj-
unartíma í þeirri sögu allri en einmitt hann.
Þá er að nefna Harald Björnsson, sem fyrst-
ur leikara lauk formlegu prófi við erlendan
skóla og reyndi síðan um skeið að lifa af list
sinni hér á landi. Það tókst honum ekki fyrr en
löngu síðar, af ástæðum sem verða ekki rifj-
aðar upp hér. Haraldur gafst hins vegar aldrei
upp, þó á móti blési og hann teldi sig ekki alltaf
velkominn í Leikfélagi Reykjavíkur, lagði aldr-
ei leiklistina á hilluna, heldur fann sér sjálfur
verkefni þegar aðrir fundu honum þau ekki,
leikstýrði mikið, var leikfélögum úti á lands-
byggðinni innan handar með ýmsa útvegun,
vann í útvarpinu, tók nemendur í tíma og gaf
út fyrsta leikhústímaritið einn og óstuddur í
tíu ár. Haraldur var alltaf brennandi í and-
anum og þó að hann þætti alltakmarkaður leik-
ari framan af, átti hann merkilegt blómaskeið
á efri árum, eftir að hann loks gat helgað sig
listinni. Ekki má heldur gleyma því, og allra
síst hér og nú, að hann var manna áhugasam-
astur um sögu leiklistarinnar og hélt vandlega
utan um gögn sín og margt sem leikstarfinu
tengdist í því skyni að skapa fyrsta vísi inn-
lends leikminjasafns. Hefði það eitt verið
nægilegt tilefni til að halda fyrstu sýningu
Leikminjasafnsins í heimabyggð hans sem
hann, eins og flestir Skagfirðingar, hélt alltaf
mikilli tryggð við. En hún kemur vonandi síð-
ar.
En ekki er listinn yfir skagfirska afreks-
menn í íslenskri leiksögu tæmdur með þeim
þremur. Lárus Sigurbjörnsson, sem vel má
kallast fyrsti leikhúsfræðingurinn og leik-
söguritarinn, þó að hann hefði ekkert formlegt
akademískt próf, var einnig ættaður úr Skaga-
firði. Vill svo til að öld er liðin nú síðar í mán-
uðinum frá fæðingu hans og verður hans þá
minnst með viðeigandi hætti í samvinnu Leik-
minjasafns, Landsbókasafns, Árbæjarsafns og
Borgarskjalasafns. Lárus var fyrsti borgar-
skjala- og minjavörður Reykjavíkur, jafnframt
því sem hann vann ómetanlegt starf í þágu
fræðanna, gerði fyrstu skrárnar og ritaði um
leiklistarsöguna á alþýðlegan hátt. Einkum
var Sigurður málari honum hjartfólginn og um
hann skrifaði hann þær ritgerðir sem trúlega
lifa lengst verka hans.
Þó að Lárus yrði embættismaður fór því
fjarri að hann sæti í náðum, eins og stundum
vill víst henda slíka, því að ævistarf hans allt
ber vitni um dæmafáa ósérhlífni og athafna-
semi. Það er nánast eins og þessir Skagfirð-
ingar hafi ekki verið einhamir, svo stórbrotin
eru afköst þeirra og verk, og á það ekki síst við
um þann fimmta sem hér skal talinn og hefur
sá gefið leikhúsi okkar stærri og dýrmætari
gjöf en flestir, að ég ekki segi allir aðrir núlif-
andi menn. Þar er ég að sjálfsögðu að tala um
Helga Hálfdanarson sem með þýðingum sín-
um á helstu skáldritum leikbókmenntanna hef-
ur fært svo út landamæri leikhússins að hon-
um verður aldrei þakkað það sem vert væri.
Helgi, sem er Skagfirðingur í móðurætt, var
alinn upp á Sauðárkróki og á þar djúpar rætur,
eins og þeir vita sem hafa kynnst honum, og
hann hefur raunar oft vitnað um í riti.
Leiksagan á Sauðárkróki
Ég geri ráð fyrir að flestum, sem eru ættaðir
úr öðrum landshlutum, eins og t.d. undirrit-
aður, þyki þessi upptalning þegar orðin alveg
nógu löng. Þó verður ekki hjá því komist að
auka nokkuð við hana. Það er sem sé stað-
reynd að sjónleikahald hefur dafnað á Sauð-
árkróki allt frá því byggð hefst þar á síðustu
áratugum nítjándu aldar. Var þar fyrst leikið í
pakkhúsum hinna dönsku kaupmanna á staðn-
um, sem segja má að hafi lagt fyrsta grunninn
að þeirri leikhefð sem þarna átti eftir að
blómstra. Árið 1888 var stofnað sjálfstætt leik-
félag, Leikfélag Sauðárkróks hið eldra sem
starfaði talsvert fram á tíunda áratuginn en
mun hafa verið úr sögunni nokkru fyrir alda-
mót, enda þá mættur til leiks nýr og öflugur
aðili sem átti eftir að láta mikið að sér kveða,
ekki aðeins á Króknum, Góðtemplarareglan.
Eins og víðar á landinu reisti Reglan fyrsta al-
menna samkomuhúsið á staðnum og var þar að
sjálfsögðu leiksvið, líkt og mun hafa verið í
flestum, ef ekki öllum Góðtemplarahúsunum.
„Gúttó“ á Sauðárkróki var byggt árið 1897 og
var eina leikhús staðarins fram á þriðja ára-
tuginn að Ungmennafélagið kom upp Bifröst. Í
Bifröst starfar enn Leikfélag Sauðárkróks
sem var stofnað árið 1941 og á sér mikla sögu
sem hinn ágæti og mikilvirki fræðimaður
þeirra Skagfirðinga, Kristmundur Bjarnason á
Sjávarborg, rekur ítarlega í Sauðárkrókssögu
sinni. Þar stóð lengi á sviði mikið leikendaval
undir metnaðarfullri stjórn fagurkerans Ey-
þórs Stefánssonar sem bar einnig á herðum
sér tónlistarlíf staðarins. Þykir mér sérstök
ástæða til að nefna að á veggjum Bifrastar,
sem var gerð upp fyrir fáeinum árum, hanga
margar leikhúsljósmyndir af ýmsum hinna
gömlu stórleikara sem sýnir vel ræktarsemi
Sauðkrækinga við minningu horfins merkis-
fólks og vitund þeirra um nauðsyn þess að
minna sífellt á söguna.
Er ég þá kominn að því sem átti að vera að-
alerindi þessa greinarkorns, en það er að
minna á tilvist Góðtemplarahússins gamla á
Sauðárkróki. Svo blessunarlega hefur til tekist
að það stendur enn, þó að það sé að vísu orðið
æði hrörlegt og hafi reyndar um langt skeið
verið notað undir starfsemi sem vel gæti rýmst
annars staðar. Fá af hinum gömlu samkomu-
húsum Reglunnar standa enn og er trúlega
best varðveitt þeirra Góðtemplarahúsið í
Hafnarfirði, mikill menningarsögulegur dýr-
gripur sem alltof fáir vita af og Hafnfirðingar
þurfa sem allra fyrst að finna verðugt hlut-
verk. Hef ég þrátt fyrir nokkra eftirgrennslan
ekki rekist á fleiri dæmi um slík hús sem varð-
veist hafa, en geti einhver, sem þetta les, bætt
úr þeirri vanþekkingu minni væri það vel þeg-
ið. Gúttó í Reykjavík er t.d. löngu horfið, en
það stóð þar sem nú er bílastæði Alþingis norð-
an við Vonarstrætið gegnt Þórshamri. Hefði
þó ekki verið ónýtt að eiga það nú, húsið þar
sem Indriði Einarsson setti upp fyrstu Ibsen-
sýningu á Íslandi árið 1892 og Stefanía Guð-
mundsdóttir hóf ári síðar einstæðan listferil
sinn, aðeins sautján ára gömul. En því miður
höfum við Reykvíkingar ekki alltaf farið svo
með okkar byggingarsögulega arf á þessu sviði
að öðrum landsmönnum sé til fyrirmyndar.
Vanmetinn þáttur í byggingar-
og félagssögunni
Eins og Sveinn Einarsson bendir á í riti sínu
Íslensk leiklist skortir með öllu yfirlit yfir hús-
byggingar Góðtemplarareglunnar sem voru þó
hvort tveggja í senn: mikilsverður þáttur í
sögu leikstarfseminnar og um leið íslenskrar
félagahreyfingar almennt. Það var sem sé á
stúkufundunum sem fjölmargir fengu sína
fyrstu félagsskólun, lærðu að vinna saman.
Þannig varð Reglan vagga margra síðari sam-
taka af allt öðru tagi, ekki aðeins leikfélag-
anna, heldur einnig ungmennafélaga, verka-
lýðsfélaga o.s.frv. Þeir framsýnu menn, sem
mótuðu starf Reglunnar á fyrstu áratugum
hennar – en einn hinn öflugast í þeim hópi var
einmitt Indriði Einarsson sem var stórtemplar
í nokkur ár – skildu að það var ekki nóg að pre-
dika yfir æskulýðnum um skaðsemi áfengisins,
heldur yrði að finna honum einhver skapandi
verkefni sem leiddu hann frá hinum óæðri
nautnum. Með sjónleika- og skemmtanahaldi
slógu menn því tvær flugur í einu höggi:
beindu ungu fólki að heilbrigðum og góðum
skemmtunum og fundu stúkunum sjálfum
trausta fjáröflunarleið, því að alltaf mátti
treysta því að almenningur kæmi að sjá. Var
ekki síst svo á Sæluviku Skagfirðinga, þegar
jafnan var mikið um að vera á Sauðárkróki, og
er gott þegar slíkar hefðir haldast við og dafna
eins og Leikminjasafnið fékk að njóta góðs af
nú á dögunum.
Í ljósi hins skagfirska framlags til íslenskrar
leiklistarsögu er að sjálfsögðu sérlega
skemmtilegt að það skuli einmitt vera þarna
sem eitt örfárra Góðtemplarahúsa er enn við
lýði. Vill raunar svo til að bæði Haraldur
Björnsson og Helgi Hálfdanarson hafa fest á
blað minningar sínar um ógleymanlegar sælu-
stundir í því húsi. Er frásögn Helga af fyrstu
kynnum hans af Ævintýri á gönguför að finna í
bók hans, Molduxa, en Haraldur segir frá því í
hinni bráðskemmtilegu ævisögu sinni, Sá
svarti senuþjófur, er hann sá Skugga-Svein í
fyrsta skipti. Fyrir sviðinu hékk þá fortjald
sem Einar Jónsson frá Fossi, sem seinna varð í
nokkur ár aðalleiktjaldamálari Leikfélags
Reykjavíkur, hafði málað og sýndi útsýnið út
Skagafjörð og til hafs, baðað undurfögru
kvöldskini. Þessu tjaldi var rúllað upp, það
lyftist hægt og tignarlega, en fór ekki til hliðar,
því að það er hrein smekkleysa, segir Har-
aldur, að draga tjald til hliðar eins og gert er í
Þjóðleikhúsinu (hann var víst svolítið upp á
kant við sitt gamla leikhús þegar bókin kom út
árið 1963). Haraldur heldur áfram: „Og það
var leikið af slíku raunsæi að blóðið rann í
lækjum eftir sviðinu. Það var nefnilega barist
langa hríð, ekki bara sverðin dregin úr slíðrum
eins og nú er gert, heldur var raunverulega
barist á sviðinu. Leikararnir höfðu poka með
lit innan klæða og svo var stungið í pokana.
Svo lágu þeir í blóði sínu á sviðinu steindauð-
ir.“ (Sá svarti senuþjófur, bls. 25–26.) Það er
engin furða að maður, sem tók slíkar bernsku-
minningar með sér úr leikhúsinu, yrði ekkert
meðalmenni í listinni þegar hann var sjálfur
orðinn stór.
Sauðkrækingar hafa sýnt í verki að þeir
skilja gildi sinna gömlu húsa. A.m.k. þrjú af
hinum elstu húsum bæjarins hafa verið gerð
upp með mjög myndarlegum hætti á síðustu
árum: Villa Nova, hús Ludvig Popps kaup-
manns, sem verður 100 ára á þessu ári, gamli
barnaskólinn og Hótel Tindastóll. Þarf ekki að
ganga lengi um götur bæjarins til að koma
auga á fleiri byggingar sem myndu eiga sömu
meðferð skilið. Að sjálfsögðu kostar peninga
að gera upp gömul hús. En það kostar líka pen-
inga að láta þau drabbast niður, að ekki sé tal-
að um hvað það kostar að týna sögunni. Í leið-
ara Morgunblaðsins sl. þriðjudag var drepið á
það, í tengslum við umræðuna um menningar-
hús, hversu vel hefur tekist að finna nokkrum
gömlum húsum nýtt hlutverk á Ísafirði. Þó að
Sauðkrækingar séu meðal þeirra sem njóta
eiga góðs af áformum stjórnvalda um bygg-
ingu sérstakra menningarhúsa og þau eigi
vonandi, þegar upp er staðið, eftir að verða
menningarlífi sveitarfélagsins til blessunar,
þ.á m. hinu glæsilega safnastarfi þess, mega
þau alls ekki verða til að gamla Gúttó lendi í
skugganum. Í því húsi voru kveiktir eldar sem
við njótum öll enn og eigum eftir að gera um
ókomna tíð.
MENNINGARHÚS
Á SAUÐÁRKRÓKI
Ljósmynd/Björn G. Björnsson
„Sauðkrækingar hafa sýnt í verki að þeir skilja gildi sinna gömlu húsa.“
E F T I R J Ó N V I Ð A R J Ó N S S O N
Fyrsta opinbera sýning
nýstofnaðs Leikminjasafns
Íslands var opnuð á Sauð-
árkróki á dögunum. Hér
er fjallað um leikminjar og
leiksögu í Skagafirði.
Höfundur er forstöðumaður
Leikminjasafns Íslands.