Lesbók Morgunblaðsins - 10.05.2003, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. MAÍ 2003 7
Á
SÍÐASTA áratug síðustu
aldar birti Francis Fuku-
yama grein um endalok
sögunnar, þar sem því var
haldið fram að með sigri
lýðræðisins og markaðs-
hagkerfisins hafi verið
bundinn endi á þau stór-
átök sem hefðu einkennt söguna hingað til, og
þar með væri sögunni í þeim skilningi í raun lok-
ið. Nokkrum árum áður hafði Paul Kennedy
gefið út bókina The Rise and Fall of the Great
Powers, þar sem hann reyndi að sýna fram á að
ris og hnignun stórvelda réðist fyrst og fremst
af langvarandi efnahagsþróun, og því skipti í
raun ekki öllu máli hver væri við stjórnvölinn í
hverju ríki fyrir sig eða hver vann hvaða orustu.
Jafnvel voldugustu einstaklingar hefðu lítið um
stóratburði sögunnar að segja. Hin svokallaða
mikilmennakenning, þar sem því er haldið fram
að helstu atburðir sögunnar væru afleiðingar
ákvarðana mikilvægra einstaklinga, átti ekki
mikið upp á pallborðið.
Var óhjákvæmilegt að Þýskaland tapaði
heimsstyrjöldunum, þar sem efnahagsgeta þess
var hvergi nærri jafnmikil og bandamanna? Var
það óhjákvæmilegt að Sovétríkin liðuðust í
sundur? Eða skiptu einstaklingar eins og Lenin,
Stalin og Gorbatsjov, Hitler, Churchill og
Roosevelt miklu máli um hvernig fór? Hefðu at-
burðir atvikast öðruvísi ef aðrir menn hefðu ver-
ið við völd?
Atburðir undanfarinna ára hafa sýnt fram á
að sagan er síður en svo liðin undir lok, og að
stórátök munu víst fylgja mannkyninu enn um
sinn. Skiptir þá máli hvort Bush eða Gore sé við
völd í Bandaríkjunum? Var það einstaklings-
framtak Osama bin Laden sem ýtti af stað ein-
hverri voveiflegustu atburðarás seinni ára? Eða
var slíkt á einhvern hátt óhjákvæmilegt?
Hvort sem það er vegna nýlegra atburða eða
ekki er að minnsta kosti mikil gróska þessa dag-
ana í svokallaðri sýndarsagnfræði (alternative
history eða virtual history á ensku), þar sem
menn velta því fyrir sér hvernig hefði farið
hefðu aðrir menn verið við völd eða aðrar
ákvarðanir verið teknar í sumum af lykilatburð-
um sögunnar.
Leiðtogarnir skipta máli
Spurningin um hvað hefði getað gerst er ef til
vill jafngömul manninum, og hafa margir líklega
velt því fyrir sér hvernig hlutirnir hefðu getað
farið öðruvísi hefðu aðrar ákvarðanir verið tekn-
ar, bæði í eigin lífi og í stærra samhengi. Sá at-
burður á liðinni öld sem hafði hvað mest áhrif á
hvað flesta var seinni heimsstyrjöldin, og hafa
því sumir velt vöngum yfir hvernig útkoman
hefði getað orðið öðruvísi. Árið 1992 kom bókin
Föðurland eftir Robert Harris út. Hún vakti
mikla athygli. Er það kannski ekki tilviljun að
hún kom út aðeins tveimur árum eftir samein-
ingu Þýskalands, þegar margir höfðu áhyggjur
af vaxandi veldi Þjóðverja á nýjan leik. Bókin
gerist árið 1964, á 75 ára afmæli Hitlers sem
drottnar yfir Evrópu. Hið þýska ríki nær til
Úralfjalla, þar sem enn geisar grimmilegt stríð
við skæruliða. Eðvarð VIII., sem í raun var
fremur hliðhollur nasistum, er konungur Bret-
lands í stað Georgs VI., sem í raun tók við af
honum. Kalt stríð ríkir við Bandaríkin, undir
stjórn Josephs Kennedy, sem var einnig fremur
hlynntur þriðja ríkinu. Bókin er skrifuð sem
reyfari, og fjallar um tilraunir SS-mannsins
Xavier March til að komast að því hvað varð af
gyðingunum sem fluttir voru austur. Þetta er
helsti galli bókarinnar, því að lesandi veit frá
upphafi hvað varð af þeim, og því kemur loka-
uppljóstrunin lesandanum ekki á óvart eins og
góðum reyfara sæmir. En Harris bendir á hinn
bóginn réttilega á að Þýskaland fer smám sam-
an halloka í kalda stríðinu við Bandaríkin, því að
nútímahernaður gengur að miklu leyti til út á
tækni, og alræðisríki eru ekki góður jarðvegur
fyrir nýjar hugmyndir. Er þetta kannski ein
ástæðan fyrir því að Sovétríkin þurftu að lúta í
lægra haldi.
Talsvert skemmtilegri lesning er bókin Mak-
ing History eftir Stephen Fry frá árinu 1996. Í
henni tekst söguhetjunni Michael Young að
ferðast aftur í tímann og gera föður Hitlers
ófrjóan. Þegar hann rankar aftur við sér í nú-
tímanum sem hann heldur að sé mun betri fyrir
vikið, kemst hann að því að seinni heimsstyrj-
öldin hefur ekki einungis átt sér stað, heldur var
Þýskalandi stjórnað af mun hæfari mönnum
sem leiddi til þess að það vann stríðið. Kalt stríð
geisar einnig í þessu tilfelli við Bandaríkin, en
Bandaríkin eru hér afturhaldssamt afl sem of-
sækir samkynhneigða og litað fólk.
Bókin er afskaplega skemmtilega skrifuð, en
niðurstaða hennar gæti komið illa við margan.
Ef uppgangur nasismans var ekki Hitler að
kenna, er þá öll þýska þjóðin sökudólgar? Þessi
spurning er umdeild innan sagnfræðinnar, og
hafa þýskir sagnfræðingar sérstaklega verið
feimnir við að velta því fyrir sér hvernig hefði
farið ef Hitler hefði ekki komist til valda. Árið
1997 gaf sagnfræðingurinn Daniel Goldhagen út
bók með titlinum Hitleŕs Willing Executioners,
þar sem hann hélt því fram að meirihluti þjóð-
arinnar hafi verið hlynntur útrýmingu gyðinga,
og varð sú kenning afskaplega umdeild. Hvort
svo var mun ekki vera leitast við að svara hér, en
svo virðist í fyrstu sem Fry taki einarða afstöðu
gegn mikilmennakenningunni. Hann bendir á
að þeir þættir sem komu Hitler til valda, svo
sem Versalasamningarnir og kreppan hafi verið
til staðar hvort eð er, og þannig hafi verið óhjá-
kvæmilegt að eitthvað í ætt við nasismann kæmi
til. En samt, með annan leiðtoga hefði stríðið
fengið aðra útkomu, þannig að enn og aftur er
það einstaklingurinn sem skiptir máli.
Hvað ef Bretar hefðu samið
frið við Hitler?
En það eru ekki einungis rithöfundar sem
velta fyrir sér spurningunni um hvað hefði getað
gerst, því að á undanförnum árum hafa komið út
nokkrar bækur með greinum eftir sagnfræð-
inga sem spá í spilin. Enn er það seinni heims-
styrjöldin sem er mönnum efst í huga, og bera
tvær nýútkomnar bækur vitni um þetta. Á kápu
bókarinnar More What If, ritstýrðri af Robert
Crowley, er Hitler að keyra framhjá Big Ben í
London, sem skreyttur er hakakrossinum. Hit-
ler er einnig staddur framan á bókinni Virtual
History, ritstýrðri af Niall Ferguson, í bak-
grunninum eru skátar sem veifa breska fánan-
um með hakakrossinum í miðjunni.
Bretar sigruðu í seinni heimsstyrjöld, en glöt-
uðu við það heimsveldinu og stöðu sinni sem
stórveldi. Því eru sumir sem vilja velta því fyrir
sér hvað hefði gerst ef Bretar hefðu samið frið
við Hitler, en vitað er að margir innan bæði
bresku og þýsku ríkisstjórnanna óskuðu eftir
slíku. Árið 1993 kom út bókin Churchill: The
End of Glory, eftir enska prófessorinn John
Charmley. Þar lýsir hann því yfir að Churchill
hefði átt að semja frið við Hitler árið 1940. Olli
þetta miklu fjaðrafoki, og var eins og olíu væri
hellt a eldinn þegar íhaldsmaðurinn Alan Clark
lýsti sig sammála þessu. Jafnvel í Bandaríkj-
unum, sem er það stórveldi sem kom best út úr
stríðinu, eru til menn sem velta því fyrir sér
hvort betra hefði verið fyrir Bandaríkin að
reyna að halda sig fyrir utan átökin, og komast
frekar að samkomulagi við Japan og Þýskaland.
í bókinni A Republic, Not an Empire, frá 1999
lýsir einangrunarsinninn Patrick Buchanan því
yfir að slíkt hefði verið æskilegt.
Í báðum hinum nýútkomnu sýndarsagnfræði-
ritum eru greinar eftir Andrew Roberts þar
sem hann veltir fyrir sér hugsanlegu hlutleysi
Breta. Í greininni „Prime Minister Halifax“ í
bók Crowleys tekur Halifax við forsætisráð-
herraembættinu í stað Winston Churchill árið
1940, og semur frið við Þýskaland. Við þetta er
öllu snúið á haus. Japan ræðst á Bandaríkin og
nýlendur Breta, en Hitler lýsir þá Japönum
stríð á hendur. Hitler ræðst á Sovétríkin mánuði
fyrr, þar sem hann þarf ekki að hafa áhyggjur af
Bretum á Balkanskaga, en ræður þó ekki við
mannafla og iðnað Sovétríkjanna, og Rússar
taka Berlín árið 1946. Þar sem bandamenn hafa
enga heri á meginlandinu halda þeir síðan áfram
og leggja einnig undir sig Frakkland og Spán.
Greinin endar síðan á því að Rússar finna upp
kjarnorkusprengjuna fyrstir með aðstoð þýskra
vísindamanna.
Roberts virðist hér bæði hallur undir mik-
ilmenna- og efnahagskenningar. Yfirburðir Sov-
étríkjanna gerðu það að verkum að til lengri
tíma litið hlutu þeir að vinna stríðið, en annar
einstaklingur í Downingstræti hefði samt breytt
gangi sögunnar svo um munar. Hverju sem því
líður hefði friður við Hitler haft enn verri afleið-
ingar í för með sér en þær sem urðu.
Aðrir eru efins um afskipti Bretlands af meg-
inlandsátökum. Í greininni „The Kaiser’s
European Union“ lýsir Niall Ferguson því yfir
að betra hefði verið fyrir Bretland að hafa ekki
afskipti af fyrri heimsstyrjöld, jafnvel þótt það
hefði leitt til sigurs miðveldanna. Hann segir að
skjótur sigur Þjóðverja myndi hafa komið í veg
fyrir ekki einungis seinni heimsstyrjöld, heldur
einnig rússnesku byltinguna, kreppuna miklu,
hnignun Bretaveldis og efnahagsleg yfirráð
Bandaríkjanna í Evrópu. Útkoman í dag myndi
vera sameinuð Evrópa undir forystu Þýska-
lands, sem hann vill meina að sé raunin hvort eð
er, en með sterku Bretlandi sem mótvægi. Slík-
ar vangaveltur bera sterkan keim af Evrópuótta
margra Breta, og óvíst er hvort sigursælt og
hernaðarsinnað Þýskaland væri vænlegri kost-
ur en það friðarsinnaða fjármálaveldi sem við
þekkjum í dag.
Það er gegnumgangandi í mörgum slíkum
vangaveltum að sögunni er aftur beint í þekktan
farveg. Sigur Þjóðverja í seinni heimsstyrjöld
hefði leitt af sér kalt stríð í örlítið breyttri mynd,
sigur þeirra í fyrri heimsstyrjöld hefði leitt af
sér Evrópusambandið meira og minna eins og
við þekkjum það. Í greininni „Enigma Uncrack-
ed“ eftir David Kahn sigra Þjóðverjar í orrust-
unni um Atlantshafið, svo að innrás banda-
manna í Evrópu er afstýrt, en þeir tapa samt
sem áður stríðinu þegar Bandaríkin finna upp
kjarnorkusprengjuna.
Hvað ef Jesús hefði notið
verndar Rómarveldis?
Því aftar sem við förum yfir söguna, því erf-
iðara er að velta fyrir sér mögulegri útkomu við-
burða. Harry Turtledove hefur stundum verið
kallaður meistari sýndarsagnfræðinnar. Hann
skrifaði bókaröðina Guns of the South, sem
komið hefur út í fjórum hlutum. Þar fara Suð-
urríkin með sigur af hólmi í bandaríska borg-
arastríðinu, og segja sig úr Bandaríkjunum. Í
fjórðu bókinni, sem nefnist Great War: Americ-
an Front, berjast Norðurríkin, undir stjórn
Theodor Roosevelts, við hlið Þýskalands, meðan
Suðurríkin undir forystu Woodrow Wilson
skipa sér í lið með bandamönnum. Bækur
Turtledoves teljast kannski seint til fagurbók-
mennta, en bæta það að einhverju leyti upp með
ímyndunarafli, og má í því samhengi nefna
bókaflokkinn World War: In the Balance, þar
sem geimverur ráðast inn í miðja seinni heims-
styrjöld og Hitler, Stalín, Churchill og Roose-
velt verða að taka höndum saman við að stöðva
þær!
Í bókinni More What If? er farið enn aftar í
tímann. Meðal möguleika sem þar er velt upp er
að ef Kínverjar hefðu haldið flotauppbyggingu
sinni áfram á 15. öld hefði það getað leitt af sér
kínverskt heimsveldi frá Afríku til Ameríku
(möguleiki sem Jón Ormur Halldórsson hefur
einnig ýjað að í bókinni Löndin í suðri). Enn
áhugaverðari möguleika er velt upp í grein
Carlos M.N. Eire sem nefnist „Pontius Pilatus
Spares Jesus“. Þar er Jesús ekki hengdur á
krossinn, heldur þvert á móti nýtur hann vernd-
ar Rómarveldis. Þessi mjög svo ögrandi lýsing
er byggð á því að Rómverjar höfðu litla ástæðu
til að óttast mann sem hvetur til að menn borgi
skattana sína. Ef Nietzche hafði rétt fyrir sér,
að kristin trú byggist á þrælslund, hefði þá
Rómarveldi ekki haft fulla ástæðu til að vilja
breiða hana út meðal þegna sinna, sem varð jú
reyndin 300 árum síðar? Eire vill halda því fram
að ef Rómverjar hefðu gripið tækifærið strax,
fremur en að reyna að bæla trúna niður í fyrstu,
þá hefði hún ef til vill getað sameinað Róm-
arveldi í heildstæðara ríki en raunin varð, jafn-
framt því sem hún hefði breiðst út til barbar-
anna og fært þá undir keisarann. Róm hefði þá
staðið til okkar daga. En enn og aftur færist
sagan aftur í kunnuglegt horf, þegar rómverska
heimsveldið þróast smám saman yfir í Evrópu-
sambandið, þó með latínu sem sameiginlegt
tungumál.
Lýðveldi víkinga og móhíkana-
indíána, að fyrirmynd Alþingis?
Grein sem ætti að vekja sérstakan áhuga Ís-
lendinga er grein Ceceliu Hollands, „Repulse at
Hastings, October 14, 1066“. Þar tapar Vil-
hjálmur bastarður orustunni, og England verð-
ur áfram í höndum Saxa. Holland leggur til að ef
England hefði enn verið á áhrifasvæði nor-
rænna manna hefði þungamiðja vestræns afls
ekki flust suður á bóginn, eins og varð á hámið-
öldum og með endurreisninni, heldur hefði víð-
tæku verslunar- og herveldi, sem náði frá Ís-
landi til Miklagarðs getað verið haldið við, og
þýskumælandi þjóðir hefðu litið norður á bóginn
frekar en til suðurs. Einna áhugaverðust er sú
hugmynd að norrænir menn, þá líklegast með
Íslendinga í fararbroddi, hefðu haldið áfram
ferðum sínum til Norður-Ameríku. Hernaðar-
legir yfirburðir víkinga gagnvart frumbyggjum
Ameríku voru ekki jafnmiklir og hjá Spánverj-
um, Bretum og Frökkum 500 árum síðar, og
hefðu þeir því þurft að starfa meira með indíán-
um. Hún spáir því jafnvel að þetta hefði leitt af
sér lýðveldi víkinga og Móhíkana-indíána, að
fyrirmynd Alþingis.
Það gæti verið áhugavert að velta fyrir sér
hvernig Íslandssagan gæti hafa farið öðruvísi.
Til dæmis má spá í hvernig hefði farið ef önd-
vegissúlurnar hefði rekið annarsstaðar á land,
ef Íslendingar hefðu ekki kristnast árið 1000, ef
Íslendingar hefðu ekki gengið Noregskonungi á
hönd, eða ef Jón Arason hefði ekki verið höggv-
inn. Nýlegri möguleikar gætu verið eitthvað á
þá leið að Jörundur hundadagakonungur hefði
fengið þjóðina með sér og stofnað hér sjálfstætt
ríki árið 1809, eða að Ísland hefði orðið hluti af
Svíþjóð 1814 þegar krúna Noregs færðist til
Stokkhólms. Jafnvel hefði svo getað farið að
Danir hefðu fært Þjóðverjum Ísland ásamt
Slesvig og Holstein eftir ósigur sinn í stríðinu
1864. Eða hvað ef Þjóðverjar hefðu komið hing-
að fyrst árið 1940? Hefði það getað skipt sköp-
um í stríðinu? Hefði hér verið öðruvísi umhorfs
ef Íslendingar hefðu tapað þorskastríðunum,
eða ef Ísland hefði ekki gengið í Nato? Hefði það
jafnvel getað gerst að Pereatið 1851 hefði getað
þróast út í byltingu, eins og hafði gerst víðs-
vegar í Evrópu þremur árum áður, eða hefði
getað orðið bylting á kreppuárunum?
Erfitt er að segja til um hvað hefði getað orð-
ið. En það rennir vissum stoðum undir gagn-
semi slíkra vangaveltna, að einnig reynist erfitt
að segja til um hvað muni verða. Ef allt sem ger-
ist er á einhvern hátt óhjákvæmilegt eða afleið-
ingar hægfara efnahagsbreytinga ætti að vera
auðvelt að spá fyrir um framtíðina, en svo er þó
ekki. Margir líta nú á hrun Sovétríkjanna sem
óhjákvæmilegt, en fáir spáðu þó fyrir um þann
atburð aðeins örfáum árum áður. Og víst er að
enn færri sáu fyrir atburðina 11. september
2001. Sagan heldur víst áfram enn um sinn, til
góðs en þó allt of oft til ills, og mennirnir eru
bæði þolendur og gerendur, í senn leiksoppar
örlaganna og áhrifavaldar þeirra.
HVAÐ EF HITLER
HEFÐI UNNIÐ?
E F T I R VA L G U N N A R S S O N
Ef Al Gore hefði orðið forseti Bandarí.kjanna,
hefði þá verið gerð innrás í Írak? Hvernig hefði
farið ef Bretar hefðu samið frið við Hitler? Og hvernig
hefði sagan orðið ef Jesús hefði notið verndar
Rómarveldis? Við slíkar spurningar fæst sýndarsagn-
fræðin sem fjallað er um hér.
Associated Press
„Því eru sumir sem vilja velta því fyrir sér hvað
hefði gerst ef Bretar hefðu samið frið við Hitl–
er, en vitað er að margir innan bæði bresku og
þýsku ríkisstjórnanna óskuðu eftir slíku.“
Höfundur er við MA-nám í skapandi skrifum
(creative writing) í Belfast.