Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.2003, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.2003, Blaðsíða 5
þeir? Hvaða tungumál töluðu þeir? Fortíðin var gleymd. Hálshöggvin. Hálshöggvin af löngu ferðalagi í járnum, innan um lík, öskur, grát, blóð, sjálfsmorð, morð; eftir þessa vítis– ferð stendur ekkert eftir, ekkert nema gleymskan: grundvallargleymskan sem varð grundvöllur alls. Ógleymanlegt áfall gleymskunnar breytti þrælaeyjunni í leikhús draumanna; það var aðeins í gegnum draumana sem íbúar Mart- íník gátu gert sér eigin tilveru í hugarlund, skapað sér sitt eigið tilvistarminni; ógleym- anlegt áfall gleymskunnar hóf sagnamenn al- þýðunnar upp á stall skálda sjálfsmyndar- innar (þeim til heiðurs skrifaði Chamoiseau skáldsöguna Sólíbó dásamlegi, 1988) og arf- leiddi skáldsagnahöfundana síðan að þessari stórkostlegu munnlegu arfleifð. Ég var afar hrifinn af þessum skáldsagnahöfundum (og ekki bara þeim frá Martíník, heldur líka höf- undum frá Haítí: René Depestre, sem var út- lagi eins og ég; Jacques Stephen Alexis, sem fasistar drápu árið 1961, rétt eins og nasistar höfðu tuttugu árum áður drepið tékkneska skáldsagnahöfundinn Vladislav Vancura, fyrstu bókmenntalegu ástina mína); ljóð- rænan í skáldsögunum þeirra var algerlega einstök og frumleg (draumurinn, töfrarnir, hugmyndaflugið léku þar óvenjustórt hlut- verk) og mikilvæg ekki bara fyrir eyjarnar þeirra heldur (nokkuð sem er afar sjaldgæft og ég undirstrika sérstaklega) fyrir nútíma- list skáldsögunnar. Minnisleikhúsið Í skáldsögunni Terra nostra (1975) eftir Carlos Fuentes er persóna brjálaðs vísinda- manns sem er með undarlega tilraunastofu „minnisleikhúsið“ þar sem einhver stórkost- legur búnaður gerir honum kleift að varpa upp á skjá, ekki bara öllum þeim atburðum sem hafa átt sér stað, heldur líka þeim sem hefðu getað átt sér stað; hann heldur því fram að við hlið „vísindalega minnisins“ sé til eitthvað sem hann kallar „skáldlega minnið“ sem bætir öllum hugsanlegu atburðunum við þá atburði sem áttu sér stað í raun og veru og inniheldur þar af leiðandi „algera þekkingu á algerri fortíð“. Það er eins og Fuentes sé innblásinn af brjálaða vísindamanninum sínum, því í Terra nostra setur hann á svið sögulegar persónur sem voru á dögum á Spáni á 16. öld, bæði kónga og drottningar, en það sem á daga þeirra drífur á ekkert skylt við það sem gerð- ist í raun og veru; það sem Fuentes varpar upp á skjá eigin „minnisleikhúss“ er ekki saga Spánar; heldur stórlega stílfært til- brigði við sögu Spánar. Þetta minnir mig á bráðfyndinn kafla í skáldsögunni Þriðji Hinrikinn (1974) eftir Kazimierz Brandys: pólskur útlagi er að kenna sögu bókmennta lands síns í banda- rískum háskóla; hann veit að enginn sem á hann hlustar veit neitt um þær og því býr hann sér til gamans til alls kyns bókmenntir, höfunda og verk sem aldrei hafa verið til. Í lok skólaársins kemst hann svo að því, sér til mikillar furðu, að þessi skáldaða bókmennta- saga er í megindráttum lík þeirri sem átti sér stað í raun og veru. Að hann fann ekki upp neitt sem ekki hefði getað staðist og að þessi tilbúningur hans endurspeglaði mjög vel það sem mestu máli skipti í pólskum bók- menntum. Á skjánum á sínu „minnisleikhúsi“ fylgist Robert Musil með starfsemi öflugrar stofn- unar í Vín, aðgerðum þar sem verið var að undirbúa árið 1914 afmælishátíð keisarans með það í huga að gera hana að panevrópskri friðarhátíð: öll atburðarásin í Manni án eigin- leika (1930–1943) snýst um þessa miklu vits- munalegu, pólitísku, diplómatísku og heims- borgaralegu stofnun sem hefur aldrei séð dagsins ljós. Því „sameiginlegir viðburðir eru nokkurs konar tölfræði“ segir Musil; það merkir að dagsetningar styrjalda, nafn á sigurvegurum og þeim sigruðu, ýmsir stjórnmálaviðburðir eru afsprengi tilbrigða og margvíslegrar upppstokkunar sem eru stærðfræðilega af- mörkuð af mun djúpstæðari öflum. Musil vissi að þessi „djúpstæðu öfl“ birtast oftast skýrar í öðru tilbrigði sögunnar en því sem birtist fyrir tilviljun. Ljóskastarinn sem hverfist um tilveruna Það væri hægt að lesa merkingu (og arf- leifð) módernismans úr viðleitni hverrar list- greinar til að nálgast eins mikið og hægt er það sem sérstakt er við hana, sérkenni henn- ar. Þannig hafnaði ljóðrænn skáldskapur öllu því sem röklegt er, öllum kennisetningum, öllu skrauti til að leyfa djúpri og hreinni lind hins ljóðræna hugarflugs að spretta fram hindrunarlaust. Myndlistin hafnaði því að vera heimild, eftirherma, hafnaði öllu því sem hægt var að gera á annan hátt (til dæmis með ljósmyndum). En hvað með skáldsög- una? Hún neitaði líka að vera nokkurs konar lýsing á mannkynssögunni, samfélagslýsing, vörn fyrir hugmyndafræði og hefur leit að „því sem skáldsagan ein getur sagt“. Nýverið las ég smásögu eftir Kenzaburo Oe, Jarmandi þjóðflokkur (skrifuð 1958). Sagan gerist í rútu að kvöldi dags, vagninn er fullur af Japönum en skyndilega kemur hópur af sauðdrukknum erlendum hermönn- um upp í rútuna og þeir fara að níðast á ein- um farþeganum, ungum stúdent. Þeir neyða hann til að gyrða niður um sig og bera á sér rassinn. Stúdentinn heyrir niðurbældan hlát- ur allt í kringum sig. En hermennirnir láta sér ekki nægja að níðast á þessum eina far- þega og neyða helming farþeganna til að gyrða niður um sig á sama hátt. Rútan stað- næmist, hermennirnir stíga út úr henni og fólkið hysjar aftur upp um sig buxurnar. Hitt fólkið hristir af sér slen aðgerðarleysisins og skipar þeim sem höfðu verið niðurlægðir að kæra þessa framkomu hermannanna til lög- reglunnar. Einn þeirra, sem er kennari, hell- ir sér yfir stúdentinn: hann stígur út úr vagn- inum um leið og hann, fylgir honum alla leið heim til sín, heimtar að fá að vita hvað hann heitir til að geta sagt öllum frá þeirri nið- urlægingu sem hann hafði orðið fyrir og kæra útlendingana. Þetta endar síðan með því að þeim lendir heiftarlega saman. Frábær saga um hugleysi, skömm, siðprýði, frekju- lega hnýsni, kvalalosta, hatur … Ástæðan fyrir því að ég minnist á þessa smásögu er einungis sú að mig langar að spyrja: hverjir eru þeir, þessir erlendu her- menn? Auðvitað eru þetta bandarískir her- menn sem hernámu Japan í lok síðari heims- styrjaldarinnar. Ef höfundurinn talar sérstaklega um „japanska“ farþega, hvers vegna tilgreinir hann ekki þjóðerni her- mannanna? Pólitísk ritskoðun? Stílbragð? Nei. Ímyndið ykkur að japönsku farþegarnir standi andspænis bandarískum hermönnum út alla smásöguna! Það hefði verið nóg að nefna þetta eina orð einu sinni greinilega, og þá hefði smásagan skroppið saman í pólitísk- an texta, árás á hernámsliðið. Það var nóg að sleppa þessu lýsingarorði, þar með myrkv- aðist pólitíska hliðin og birtan beindist að þeirri gátu sem á huga skáldsagnahöfundar- ins allan, gátu tilverunnar. Skáldsagnahöfundurinn hefur nefnilega ekki minnsta áhuga á að draga upp mynd af mannkynssögunni, segja frá henni, útskýra hana með öllum sínum breytingum, stríðum, byltingum og gagnbyltingum, þjóðar- skömmum o.s.frv.; skáldsagnahöfundurinn er ekki skjaldsveinn sagnfræðinganna; en hann sækir innblástur í mannkynssöguna og hann er heillaður af henni; hann lítur á hana eins og ljóskastara sem hverfist um tilveru mannsins og varpar ljósi á óvænta og óþekkta möguleika sem lítið fer fyrir, eru ósýnilegir á tímum friðar og stöðugleika. © Milan Kundera. Friðrik Rafnsson þýddi. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. JÚNÍ 2003 5 A ntoine Gallimard: Þegar ritgerðasafn þitt, Svikin við erfðaskrárnar, kom út árið 1993 birtir þú grein í dagblaðinu Le Monde sem nefnist Frakkahatur er til, en þar vitnaðir þú í Veru konuna þína sem hafði sagt við þig: „Frakkland er annað fæðing- arland þitt.“ Hún sagði fæðingar vegna þess að þegar þú fluttist til Frakklands endurfæddist þú til ritstarfanna. Milan Kundera: Eftir að Rússar gerðu innrás í land mitt ár- ið 1968 var ég settur í bann sem höfundur. Ég lauk við Lífið er annars staðar árið 1969 og við Kveðjuvalsinn árið 1970 en þá skáldsögu skrifaði ég sem endanlega kveðju til lífs míns sem rithöfundar. Claude, faðir þinn, kom á þessum tíma með reglulegu millibili að hitta mig í Prag. Hann hafði með sér á laun handritið að þessum tveimur skáldsögum, gaf þær út og gerði þar með Gallimard að skjólshúsi mínu. Það er honum að þakka að ég bý í Frakklandi núna. Hann hvatti mig til þess að flytjast úr landi vegna þess að hann sá enga aðra leið til að vinna gegn „kveðju minni til skáldsögunnar“, enda var hann afar ósáttur við hana. A.G.: Ég man eftir fyrstu árunum þínum í Frakklandi. Þú bjóst í borginni Rennes og þegar þú komst til Parísar kom Claude þér fyrir í herbergi undir súð, skammt frá þeim stað þar sem ég bjó. Við vorum mikið saman. Ég á ákaflega skemmtilegar minningar frá þessum tíma. M.K.: Það er satt, ég var hamingjusamur í útlegð minni hér í Frakklandi allt frá fyrstu mínútu. En því fór fjarri að ég hellti mér aftur út í ritstörfin. Það sem ég var hamingjusamur með eftir alla þessa árekstra við mannkynssöguna var að geta lifað aftur eðlilegu lífi, nafnlaus, sem háskólakennari úti á landi. Hann pabbi þinn þurfti enn að beita mig heilmiklum for- tölum áður en ég féllst á að láta hann hafa Bókina um hlátur og gleymsku til útgáfu. Það gerðist svo árið 1978. Eftir átta ára hlé. A.G.: Hvenær datt þér í hug að fara að skrifa á frönsku? M.K.: Ég fór strax að skrifa á frönsku! Fyrirlestrana mína við háskólann! Því kom það algerlega af sjálfu sér að skrifa ritgerðasöfnin tvö sem ég birti árið 1986 og 1993 á frönsku. En það hvarflaði hins vegar ekki að mér að fara að skrifa skáld- sögu á frönsku. A.G.: Þegar ég lít yfir líf þitt sé ég að það er undarlega sam- hverft. Fyrsta skáldsagan þín, Brandarinn, kom út í Frakk- landi tveimur vikum eftir að Rússar gerðu innrás í Tékkóslóv- akíu. Ódauðleikinn, síðasta skáldsagan þín sem skrifuð var á tékknesku, kom út tveimur mánuðum eftir hrun kommúnism- ans. M.K.: Í annað sinn á ævinni fannst mér ég þá vera að upplifa „kveðjustund“ gagnvart lífi mínu sem skáldsagnahöfundar. Frá listrænu sjónarmiði hef ég ekki gengið jafn langt í neinni skáldsögu og í Ódauðleikanum. Mér fannst að eftir það yrðu allar skáldsögur mínar óþarfa endurtekning sama formsins. Og þar sem mannskynssagan skellti hurðum og andúð mín á opinberu lífi fór vaxandi fannst mér þessi „lokakveðja til skáldsögunnar“ næstum notaleg. Ég var á þessum tíma að skrifa nokkrar ritgerðir á frönsku. Sú síðasta átti að fjalla um Choderlos de Laclos og Vivant Denon. Ég skrifaði nokkrar blaðsíður og fannst ég vera að drepast úr leiðindum. Ég þoldi ekki hvað þetta brölt mitt var óskaplega alvarlegt. Til að losna undan því, mér til skemmtunar, sneri ég ritgerðinni upp í einn allsherjar brandara. Þannig varð skáldsagan Með hægð til ár- ið 1995 til, léttasta skáldsagan mín þar „sem ekki er að finna eitt einasta alvarlegt orð“. Fyrsta franska skáldsagan mín. Sjö árum eftir að ég lauk við handritið að Ódauðleikanum. A.G.: Ég minnist þess þegar þú tókst tvö heil ár á áttunda áratugnum í að endurskoða frönsku þýðingarnar á öllum skáldsögunum þínum. Þú fórst yfir hverja setningu á fætur annarri, veltir fyrir þér hverju einasta orði til að vera viss um að þú næðir góðu sambandi við franska textann. Ég sagði við þig á þessum tíma að þú værir að búa þig undir að fara ein- hvern tímann að skrifa skáldsögur á frönsku. Það er í það minnsta svo að núna, þegar ég les franska þríleikinn þinn, ef ég má kalla hann það, þá heyri ég fyrir mér rödd þína eins og ég þekki hana úr tékknesku skáldsögunum þínum og mér finnst ég alltaf ganga aftur inn í sama heiminn. M.K.: Heim sömu þemanna. Orðið „þema“ þýðir í mínum huga: tilvistarvandamál sem glímt er við í skáldsögu. Það frumlega hjá hverjum skáldsagnahöfundi helgast umfram allt af nokkrum miklum þemum sem hann er með á heilanum allt sitt líf. Sá hryllingur að týna eigin sjálfi, það var meginþemað í einni af fyrstu smásögunum mínum, Ferðaleik, frá 1962. Þrjá- tíu og fimm árum síðar skrifaði ég skáldsöguna Óljós mörk, aðra skáldsöguna sem ég skrifaði á frönsku, sem fjallar um þetta sama þema. Einnig má nefna síðustu skáldsögu mína, Fáfræðina, sem skrifuð er á frönsku. Það sem vakti áhuga minn var ekki útlegðin sem pólitískt eða sögulegt vandamál, og þaðan af síður sú staðreynd að ég sjálfur var útlagi, heldur stóru tilvistarspurningarnar sem kringumstæður útlaga, allra útlaga, afhjúpa en eru um leið hluti af lífi hverrar einustu manneskju: fáfræðin gagnvart eigin lífi, söknuðinum, gleymskunni … A.G.: … söknuðurinn, gleymskan: þetta er eins og endur- ómur af Bókinni um hlátur og gleymsku. Eitt er þó algerlega nýtt í frönsku skáldsögunum þínum þremur. Það er hversu stuttar þær eru. M.K.: Ástæðan fyrir því að mér þykir svona vænt um Með hægð er sú að með henni uppgötvaði ég nýtt form. Skáldsög- urnar mínar fram að þeim tíma eru á vissan hátt byggðar upp eins og sónata: nokkrir hlutar sem koma hver á eftir öðrum, sjö í mínu tilfelli, á þann hátt að hver þeirra fjallar um ákveðið þema og er eins ólíkur öllum hinum í stíl og hugsanlegt er. Í síðustu skáldsögum mínum er því algerlega öfugt farið og þær minna einna helst á fúgu. Fúga er samsett úr örfáum þemum sem er unnið úr samtímis allt frá upphafi til enda og mynda þannig eina órjúfanlega heild. Hin mikla formlega fjölbreytni innan skáldsögunnar er ekki fólgin í hinum ýmsu hlutum sög- unnar, heldur er hún alltaf til staðar, samþjöppuð eins og kontrapunktur. Með hægð gerist til dæmis samtímis á tveim- ur öldum, hugleiðingar og framvinda sögunnar standa hlið við hlið, raunveruleikinn blandast hinu yfirnáttúrulega, og það eru einungis þemun tvö (hraðinn og sýniþörfin) sem mynda kjölfestuna og tryggja að sagan helst saman sem þétt heild. Þessi bygging krefst þess að maður sé afar knappur. Upp- haflega útgáfan af Fáfræðinni var 170 blaðsíður. Ég var óánægður allt þar til ég var búinn að ná handritinu niður í 130 blaðsíður. A.G.: Ég skil. Næsta skáldsagan þín verður tólf blaðsíður. Desember 2002 © Antoine Gallimard, Milan Kundera. Friðrik Rafnsson þýddi LEIÐIN TIL FÁFRÆÐINNAR Nýjasta skáldsaga Milans Kundera, Fáfræðin, kom nýverið út hjá einu virtasta útgáfufyrirtæki Frakklands, Gallimard. Af því til- efni birti mánaðarrit útgáfunnar stutt samtal milli aðaleiganda útgáfunnar, Antoine Gallimard, og Milan Kundera. Morgunblaðið/Friðrik Rafnsson „Það frumlega hjá hverjum skáldsagnahöfundi helgast um- fram allt af nokkrum miklum þemum sem hann er með á heil- anum allt sitt líf,“ segir Milan Kundera.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.