Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.2003, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.2003, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. JÚNÍ 2003 11 Hvað er kísilgúr og til hvers er hann framleiddur? SVAR: Kísiliðjan við Mývatn vinnur hráefni sitt úr setlögum á botni Mývatns en ekki er vitað til þess að slík vinnsla úr votnámu fari fram ann- ars staðar í heiminum. Mývatn er talið hafa myndast fyrir um 2300 árum og hefur það mikla sérstöðu meðal stöðuvatna á norðlægum slóðum. Vatnið er allt mjög grunnt og nær sól- arljós alls staðar til botns. Mývatnssvæðið er eitt hið sólríkasta á landinu, ljóstillífun er því öflug og lífauðgi með fádæmum. Vatnið er auð- ugt að næringarefnum og það sem einkennir lífið í vatninu öðru fremur er mikill vöxtur og viðgangur vatnaþörunga. Kísilgúr er myndaður af skeljum dauðra kísilþörunga sem hafa hlaðist upp á rúmum 2000 árum og mynda nú nokkurra metra þykkt setlag á botni Mývatns. Skeljarnar eru gerðar úr myndlausu kísiltvíoxíði, SiO2. Í nátt- úrunni finnst hreint kristallað SiO2 sem kvars, kristobalít og trídymit. Að auki eru margar gerðir þekktar af myndlausu SiO2 sem falla undir enska samheitið „silica“ en það hefur verið þýtt sem kísl (kvk.) á íslensku. Þetta efni er líka stundum nefnt kísilsýra en það er ekki réttnefni nema það sé uppleyst í vatni. Í dag- legu máli er oft einnig talað um kísil (sam- anber kísilútfellingar) en það er óheppileg málnotkun því að kísill er að réttu íslenska heitið fyrir frumefnið Si (Silicium). Kísiltvíoxíð er eitt algengasta efni jarðar. Hluti þess jarðvatns sem rennur í Mývatn er jarðhitavatn ættað úr jarðhitakerfi Kröflu- eldstöðvarinnar. Jarðhitavatn er mjög auðugt að uppleystum efnum en kísilsýra er þar í yf- irgnæfandi magni. Því má segja að Krafla ljái kísilþörungum í Mývatni byggingarefni í skelj- ar sínar. Nýmyndun kísilgúrs í Mývatni er mjög mikil og er talið að hún nemi 11 til 15 þúsund tonnum af skeljum á ári hverju. Til samanburðar má benda á að framleiðsla Kís- iliðjunnar er 25–30 þúsund tonn á ári af kís- ilgúr, en til þeirrar framleiðslu þarf rúm 40 þúsund tonn af gúr. Kísilskeljarnar eru örsmáar, frá nokkrum þúsundustu úr millimetra upp í einn milli- metra að stærð. Skeljarnar eru holar að innan og veggir þeirra alsettir götum. Skeljarnar eru því gegndræpar og hafa mjög stórt innra yfirborð. Kísilgúr hentar því vel til síunar á vökva og sem fylliefni í ýmiss konar iðnaði. Efnið í skeljunum er mjög hart, en hverahrúð- ur, ópalar og kvarts er myndað úr sama efni og skeljarnar. Skeljaduftið er því líka gott slípiefni. Mestur hluti þess bjórs sem drukkinn er í Evrópu er síaður gegnum kísilgúr áður en honum er tappað á flöskur. Gúrinn er einnig notaður til að sía sykurvökva, matarolíu, flug- vélabensín og blóð í blóðbönkum svo eitthvað sé nefnt. Sem fylliefni er hann notaður í máln- ingu, pappír og í plastiðnaði en einnig til lyfja- gerðar og í snyrtiefni. Þannig eru lyfjatöflur til dæmis gerðar úr samanpressuðum kísilgúr sem lyfinu hefur verið blandað í. Sem slípiefni er gúrinn meðal annars notaður í tannkrem og í bílabón. Dælt er úr Mývatni frá maí fram í október meðan vatnið er íslaust. Dæluprammi sýgur botnleðjuna úr Mývatni og blandar hana vatni. Efninu er dælt í land um flotlögn frá pramm- anum yfir í dælustöð í Helgavogi. Þar er leðjan grófhreinsuð með sigtun áður en henni er dælt um þriggja km vegalengd til verksmiðjunnar í Bjarnarflagi. Í verksmiðjunni er gosaska og foksandur skilinn frá leðjunni en gúrnum dælt áfram í hráefnisþró 1 km norðan við verk- smiðjuna. Í þurrvinnsludeild eru lífrænar leifar brenndar úr hráefninu og skeljarnar glæddar við 1100° C. Glæðingin eykur kornastærð duftsins þegar hálfbráðnar skeljar límast sam- an. Að glæðingu lokinni er gúrinn malaður og flokkaður í framleiðslutegundir eftir korna- stærð. Pökkun á gúrnum er sjálfvirk og snert- ir mannshöndin hvergi á gúrnum í fram- leiðsluferlinu. Framleiðslan er þannig fullkomlega hrein eftir glæðingu og pökkun og er hún notuð í matvælaiðnaði og við lyfjagerð án frekari meðhöndlunar. Kristján Björn Garðarsson, framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar hf. Ef boruð yrði hola gegnum jörðina gæti maður þá svifið í lausu lofti vegna aðdráttaraflsins? SVAR: Þessu máli eru oft gerð skil í kennslubókum í eðlisfræði, þar sem það varpar ljósi á mikil- væg atriði í aflfræði. Hugsum okkur sem sagt að við höfum borað holu beint niður í jörðina, gegnum miðju henn- ar og út hinum megin. Hugsum okkur líka að jörðin sé nákvæmlega kúlulaga og að massinn í henni dreifist jafnt um hana. (Hvorugt er ná- kvæmlega rétt en alveg sæmileg nálgun.) Setjum nú hlut í holuna, annaðhvort mann eða annað sem getur hreyfst greiðlega upp og niður í holunni, og við reiknum ekki með loft- mótstöðu. Ef hluturinn er staddur inni í jörðinni í til- tekinni fjarlægð frá jarðarmiðju þá verkar á hann þyngdarkraftur frá öllum þeim massa í jörðinni sem er nær miðjunni en hluturinn. Stærð þessa massa er í hlutfalli við þriðja veldi fjarlægðarinnar frá miðju og þyngdarkraft- urinn er í réttu hlutfalli við massann en í öfugu hlutfalli við fjarlægðina frá miðju í öðru veldi. Þetta leiðir til þess að krafturinn verður í hlut- falli við fjarlægðina sjálfa. Sama regla gildir til dæmis um hlut sem festur er í gorm sem er síðan teygður um tiltekna lengd eða honum þjappað saman. Þegar öllu þessu er til skila haldið sést að hreyfing hlutar sem sleppt er í svona holu verður það sem kallað er hrein sveifla (e. harmonic oscillation), rétt eins og hreyfing hlutarins í gorminum eða raunar hreyfing pendúls sem fer ekki alltof langt frá lóðréttri stöðu. Ef við sleppum hlutnum í kyrrstöðu í tiltekinni fjarlægð frá miðju fellur hann með vaxandi hraða inn að jarðarmiðju og fer síðan út frá henni hinum megin upp í sömu fjarlægð frá henni og hann byrjaði. Síðan fellur hann til baka og út í upphaflegu stöðuna og þannig koll af kolli. Þegar við viljum lýsa því hvernig slík hreyf- ing er háð tímanum fást svokölluð hornaföll eða harmónísk föll, það er að segja sínus (sin) eða kósínus (cos). Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í vísindasögu og eðlisfræði við HÍ. HVAÐ ER KÍSILGÚR OG TIL HVERS ER HANN FRAMLEIDDUR? Á meðal spurninga sem hefur verið svarað á Vís- indavefnum að undanförnu má nefna: Hvernig læra börn tungumál, hvernig verkar Doppler-ratsjá og hvað er UML? VÍSINDI Kísiliðjan við Mývatn. herja? spurði ég, það er dramatískari saga. Nei, það yrðu voðaleg örlög á glæsilegum ferli mínum þótt glæsileikinn felist ekki í öðru en að sitja í tólf ár. En viltu þá ekki bara segja af þér og fara að skrifa, það er soldið sætt, allir íslendingar skilja mann sem fer að skrifa, sagði ég. Veistu ég er enginn rithöfundur, ég fékk mann til að skrifa þessar bækur fyrir mig, Grímhallur eða hvað hann heitir, ég vissi sem var að þetta væri soldið sjarmerandi að hafa forsætisráðherra sem skrifar en sjálfur er ég leikari. Einsog þú veist lék ég í menntó. Ég er að leika forsætisráðherra, hvíslaði hann einsog hann hefði ljóstrað upp einhverju ægilegu leyndarmáli. Og ég minntist minna eigin orða að íslendingar hefðu allir breyst úr skáldum í leikara þegar lagerinn af kálfsskinnum var á þrotum. Og grettu sig og geifluðu í baðstofunni í staðinn fyrir að skrifa með blóði eigi skal þetta og eigi skal hitt. Gerðu bara það sem þú telur best, sagði ég. Hvaða ráðherra ætti Ingibjörg Sólrún að vera? sagði hann. Geturðu ekki gert hana að forsætis- ráðherra, það yrði sögulegt og stórmannlegt, sagði ég. En ég get ekki leikið neitt annað en forsætisráðherra, þá sæju allir hvað ég væri lé- legur. Pældu í því ef ég yrði utanríkisráðherra og færi að skamma Sírak og Búss. Ég get kannski skammað menn hér heima en ekki í út- löndum, hvað heldurðu að NjúJorkTæms myndi segja. Það er víst eitthvað blað í útlönd- um. En geturðu ekki gert Ingibjörgu að menntamálaráðherra? spurði ég. Það er merg- urinn málsins, ég get ekki gert hana að menntamálaráðherra því hún hefur svo mikinn áhuga á því, ekki umhverfismálaráðherra því hún gæti fengið áhuga á því. Ég vil bara ekki að hún fái áhuga á neinu, sagði Davíð, ég vil að henni leiðist. Ingibjörgu leiðist ekki á meðan hún er í stjórnmálum, sagði ég en bætti svo við: Er annars hægt að kalla þetta stjórnmál, þessa landsmálapólitík? Nei, þarna komstu með það, sagði Davíð himinlifandi og sagðist verða að drífa sig, hann ætti boðaðan fund með Ingi- björgu úti á Seltjarnarnesi í gula húsinu þar- sem gamla konan bjó sem seldi eggin. Þú gerir það sem þú telur best, sagði ég hughreystandi. Ég veit aldrei hvað er best, muldraði Davíð og labbaði niður tröppurnar. Ég dýfði tuskunni í fötuna, breiddi úr henni á gólfið og bjó mig undir að munda skrúbbuna þegar enn var bánkað. Þegar ég opnaði dyrnar stóðu þar nokkrir álfar fölir á vangann með haf- meyju í fanginu sem virtist vera að drukkna og fyrir aftan þau stóð Ingibjörg kona Jóns Sig- urðssonar og riðaði til og frá. Raddir þeirra hljómuðu slitnar og veikburða þegar þau sögðu: Við erum þjóðin, við erum hin ósýnilega mynd þjóðarinnar sem hún bjó til af sjálfri sér svo hún kæmist inní söguna. En nú er verið að úthýsa okkur eina ferðina enn. Það meirað- segja skilur enginn söguna okkar. Það skilur heldur enginn Njálu, sagði ég. Það er hættu- legt að skilja söguna, yfirvöld hafa aldrei þolað það. Viljiði ekki koma inn og fá ykkur djús? sagði ég. En þau sögðust ekki mega vera að því, það þyrfti að lífga við hafmeyjuna og álfarnir yrðu að fá roða í kinnarnar og það þyrfti að stilla Ingibjörgu af svo hægt væri að reisa af henni styttu á Arnarhóli. Afhverju Arnarhóli? sagði ég. Það vantar styttu í túnfótinn, túnfót- urinn er að hverfa, þusuðu álfarnir og bættu við: Ingibjörg og Davíð geta ekki hugsað þetta út frá sér. Þau verða að hugsa þetta út frá Ís- landi. Ég gat fallist á að það væri rétt, sem rit- höfundur er ég að þjóna sögunni og verð oft að strika út margar góðar síður svo sagan komist til skila. Þau verða að hlusta á okkur, við erum hluti af Íslandi, sögðu álfarnir, hafmeyjan draf- aði og Ingibjörg stappaði niður fætinum þótt hún riðaði til og frá. En þið eruð ekki í sögunni, það hlustar enginn á ykkur, sagði ég leið í bragði, það er bara það sem er í sögunni sem fær að vera með. Þú verður þá að skrifa sög- una, sögðu álfarnir, þú verður að koma okkur inní söguna. En það hlustar enginn á mig, ég er bara skáld, sagði ég, sagnfræðingar verða að setja ykkur inní söguna. En Bjartur í Sum- arhúsum, hann var settur í sögu, sögðu álf- arnir. Hann hefur verið til lengi og fólk kann- aðist við hann. Fólk verður að kannast við álfinn í sjálfum sér. Afhverju vill enginn kann- ast við álfinn í sjálfum sér? Hafmeyjuna í sjálf- um sér? Ingibjörguna í sjálfum sér? Eða kon- una í sjálfum sér? Konuna sem kemur fram og bullar þangað til hún lærir að tala eða kannski kann hún alveg að tala, það þarf bara góða heyrn til að heyra að hún er að tala á móti öllu bullinu sem hefur oltið hér uppúr mönnum gegnum aldirnar og er einsog hvert annað eyði- leggjandi hraun sem hefur runnið yfir tungu- málið, tungumál sem hefur ekki mátt tala á og enginn hefur viljað hlusta á. Og svo fórum við öll í gula húsið sem gamla konan bjó í og seldi eggin. Þar voru Ingibjörg og Davíð að rífast og hún að ásaka hann fyrir að um leið og einhver ólga hefði verið komin í kosningabaráttuna hefðu þeir lagt allt í eyði með stöðugleikatuggunni. Kallarðu það ólgu? sagði Davíð, þetta var bara bólga. Ingibjörg sagði að hér ríkti í raun höfðingjaveldi einsog á 13. öld. Það sýnir bara stöðugleikann, mót- mælti Davíð. Þessi stöðugleiki truflar alla jarð- skjálftamæla, sagði Ingibjörg, við getum ekki vitað af því þegar hér koma náttúruhamfarir. Viltu kannski hafa náttúruhamfarir? sagði Davíð. Ég vil allavega hafa náttúru, hrökk út úr Ingibjörgu. Það er mikið að þið vitið hvað þið viljið, gallinn við ykkur er að þið vitið ekkert hvað þið viljið, kjósendur vissu ekki hvað þeir voru að kjósa. Það er ekki skrítið, sagði Ingi- björg, hvernig áttu þeir að vita um höfðingja- veldið og það væri nóg í bili að kjósa um að leggja það niður? Höfðingjahvað, ertu að segja að Steingrímur sé kannski höfðingi, eða Guðjón Arnar eða Halldór, ertu að segja að Halldór sé höfðingi sem svoleiðis vældi út úr mér forsætis- ráðherrann með brosinu framaní sér. Það urðu fleiri en ég hræddir við þetta bros, það var virkilega skerí. Og þú ætlar kannski að segja að Össur sé höfðingi, hann sem gat ekki látið þér eftir þingsætið sitt. Veistu útafhverju, afþvíað hann er höfðingi, ha ha ha. (Við sjálfan sig: Af- hverju sagði ég þennan ekki í þingflokknum?) Ertu svo að segja að við séum höfðingjar! Já, þið eruð allir höfðingjar og komið í veg fyrir að hægt sé að breyta sögunni, sagði Ingibjörg. Af- hverju þarf að breyta sögunni? sagði Davíð steinhissa. Til að fólk fái ekki leið á henni, sagði Ingibjörg, svo það nenni að búa hérna og vera hérna og vera partur af sögunni. Fólk er svo hamingjusamt hérna, sagði Davíð. Já, sam- kvæmt skoðanakönnunum, sagði Ingibjörg. Ertu að segja að það sé ekkert að marka skoð- anakannanir? Kannski er ekkert að marka hamingjuna, sagði Ingibjörg. Er ég skáldið hérna eða þú? hvæsti Davíð, braut svo öll eggin í húsinu og Ingibjörg var að velta því fyrir sér hvort hún ætti að gera eggjaköku en ákvað svo að bíða eftir því að hænurnar myndu verpa aft- ur. Davíð drafaði eitthvað um að láta sig strax vita ef Búss hringdi og hann nennti helst ekki að hlusta á nöldrið í Samherja og hann væri allsekki við ef Halldór hringdi og þá ætti að segja: Hvaða Halldór? Ingibjörg sagðist ekki vera nein símadama og þá spurði hann hver væri fyndinn hér, hún eða hann. En þá gripu þau öll fram í og byrjuðu að tala, konurnar sem vantaði kvóta, konurnar sem vantaði bók- menntahátíð, konurnar sem vantaði fótbolta, konurnar sem vantaði hálendi en ekki stór- karlavirkjanir, konurnar sem vantaði hærri laun fyrir að skúra, álfarnir sem vantaði roða í kinnarnar og hólana sína í landinu, hafmeyjan sem vantaði sporðinn sinn og djúpa dali í haf- inu, selirnir með mannsaugun, Ingibjörg sem vildi jafnrétti á við mann sinn, það hefði bara aldrei komið fram í sögunni. Hafmeyjarnar kvörtuðu undan því að sætu strákarnir væru horfnir af sjónum og fésið á Samherja blasti við í hverjum brúarglugga og kóralrifin þarsem þær hefðu falið demantana sína væru í maski út af togveiðum, álfarnir voru miður sín vegna þess að ekki var hægt lengur að halda veislu í hverjum hól því fólk héldi að það ætti að skemmta sér í verslunarhöllum, Ingibjörg hans Jóns uppástóð að sífílisinn væri kannski útaf því að hún hefði átt sér elskhuga en engum dytti í hug að hún hefði rennt hýru augu til neins nema Jóns og þessvegna væri hún með þessa skeifu. Og svo kom meiraðsegja skugg- inn af Samherja og kvartaði undan því að ef hann væri ungur maður í dag ætti hann engan sjens útaf þessu kvótakerfi og gæti ekki einu- sinni fengið sér trillu, skugginn af fráfarandi ríkisstjórn liðaðist loks innum dyrnar, pataði útí loftið og gat ekkert sagt því landið var búið að missa mál sitt en einsog allir vita er það landið sem gefur okkur málið. Það sannast best á bergmálinu. Og þá byrjuðu álfarnir að pískra um það að raddir Bjarkar og Jónsa í Sigurrós væru búnar til úr Íslandi og þeir hefðu ætlað að bjóða þeim og Sinfóníuhljómsveitinni að halda tónleika í Dimmugljúfrum en það væri ekki hægt útaf sprengingum sem ekkert lát væri á fyrir utan það að bergmálið af þeim væri ær- andi og ferðaðist dag og nótt eftir gljúfrunum. Og selirnir skriðu á land og köstuðu hamnum og útskýrðu hvernig þeir hefðu ekki getað bor- ið þjáningar aldanna og þess vegna horfið og aðeins tekið augun með sér. Og þannig hélt húsið áfram að fyllast af ósýnilegri sögu. Smám saman rankaði Davíð við sér og sagð- ist í fyrsta skipti hafa fengið áhuga á því að skrifa, þetta væri svo undarleg saga að hann hefði aldrei heyrt annað eins og Ingibjörg mætti vel vera forsætisráðherra fyrir sér en þá sagðist Ingibjörg ekki taka við neinu frá honum en svo skipti hún um skoðun. Um leið fékk ég hugboð um að brennumenn nálguðust því eins- og Nóbelsskáldið sagði: Hver saga endar á því að Njáll er brenndur. Við vorum kannski ekki Njáll en slóðin að baki honum eða slóðin undan honum og þegar ég kíkti útum gluggann sá ég þá koma þeysandi. Ég greip til þess ráðs að steypa fossi yfir húsið minnug sögunnar um fjársjóðinn á bak við fossinn. En það var sama þótt ég steypti öllum fossum landsins yfir hús- ið, eldurinn æstist, logarnir léku um húsið en á því augnabliki þegar mér var farið að súrna í augum var skvett úr skúringafötunni. – Og lýk ég hér Skúringasögu. Höfundur er rithöfundur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.