Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.2003, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.2003, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. JÚNÍ 2003 O PINBERT rými eða al- menningsrými hefur meðal annars verið skilgreint á þessa leið: „Opinbert rými er það sem ekki er einkavætt eða í einkaeign, það er almenningseign eins og hafið, andrúmsloftið, skógarnir og sólin. Það nýtur umhyggju og verndunar samfélagsins. Enginn getur lifað án þess og allir tilheyra því, þjófar jafnt sem dúfur, það er rýmið þar sem allir geta mæst óhindrað, það er líka rými ímyndunaraflsins, þar sem hægt er að vera enginn og allir. Það er rýmið sem við nefnum veröldina.“ Þetta eru orð hollenska lista- mannsins Henk Visch um opinbert rými en samkvæmt þeim getum við litið á svo til allt sem ekki er í einkaeign sem opinbert rými. Þetta er kannski ekki alveg svona einfalt en næstum því. Listasöfn teljast til dæmis ekki til þessa opinbera rýmis sem við fjöllum um hér, rými þeirra er helgað listinni frá upphafi. Op- inbera rýmið sem ég er að tala um er allt hitt; sjúkrahúsin, skólarnir, torgin, göturnar, um- ferðareyjurnar, útvarpið, náttúran, Engey, Sæbrautin, borgarskipulagið, Ægisíðan, strætó, mjólkurfernurnar, notkunarreglur straujárna, myrkrið, Sandskeið og … Tengsl samtímalistar við áhorfendur Listamenn í dag reyna yfirleitt eftir bestu getu að ná til áhorfenda. Á endanum er það jú áhorfandinn sem gefur listinni líf. Of algengt er samt að heyra viðkvæði eitthvað á þá leið að samtímalistir séu óskiljanlegar og ekki áhorf- endavænar. Það er líkast því að áhorfendur búist við því að geta gengið inn á hvaða listsýn- ingu sem er og fengið boðskap hennar beint í æð þrátt fyrir að hafa aldrei sýnt myndlist nokkurn áhuga áður. Ef innihaldið skilar sér síðan ekki á jafneinfaldan hátt og í sápuóperu kvarta sumir, þetta er aðeins fyrir fáa útvalda. Sem betur fer er líka fjöldinn allur af fólki sem sækir myndlistarsýningar og myndlistarvið- burði sér til skemmtunar. En það er umdeilanlegt hver hefur snúið baki við hverjum – áhorfendur og samfélagið við listamönnum eða listamenn við áhorfend- um? Umfjöllun um samtímalistir er lítil sem engin í flestum fjölmiðlum, sjónvarpsstöðvarn- ar sýna lítinn áhuga, menningarþáttur sjón- varpsins, Mósaík hefur í mörg horn að líta og getur ekki einn og sér staðið fyrir allri mynd- listarumfjöllun. Stöku yfirlitsmyndir í lok fréttatíma, gjarnan við undirspil háfleygrar og oft lítt viðeigandi tónlistar, teljast varla með. Það er helst ríkisútvarpið, hlægilegt nokk, sem sýnir lit með viðtalsþáttum og reglubundinni umfjöllun um myndlist t.a.m. í þættinum Víðsjá á Rás eitt. Einstaklingsframtakið á líka aðgang að útvarpinu, dæmi um það voru t.d. skemmtilegir og fróðlegir viðtalsþættir Jór- unnar Sigurðardóttur við myndlistarkonur í upphafi 21. aldar á síðasta ári. Listasöfnin standa einnig fyrir stöðugri fræðsludagskrá og oftar en ekki er auglýst listamannaspjall þar sem viðkomandi listamaður fjallar um verk sín og svarar spurningum. Svo virðist sem ritlistin hafi löngum verið okkur Íslendingum hugleiknari en myndlistin, þjóðararfurinn er ekki af myndlistarlegum toga og margt sem gæti flokkast undir slíkan arf, til dæmis útsaumur, vefnaður og útskurð- ur, hefur eyðilagst og ekki varðveist gegnum aldirnar. Það virðist viðurkennt viðhorf að rit- listin sé okkar fag. Hún er það vissulega en ekki eingöngu því sífellt koma fram fleiri ís- lenskir myndlistarmenn sem skipta sköpum fyrir menningu okkar. Þegar við þetta bætist að sýningaraðstaða er auðvitað af skornum skammti í lítilli borg eins og Reykjavík er eðli- legasta þróunin kannski sú að myndlistarmenn grípi til þess ráðs að skrifa skáldsögur, leikrit og barnabækur og sæki síðan um starfslaun úr launasjóði rithöfunda til að geta síðan með- fram ritstörfunum lagt stund á sitt eigið fag, myndlistina! Þar sem allir mætast Umfjöllunarefni þessarar greinar er list í opinberu rými sem eðlis síns vegna verður ekki til án styrkja frá ríkinu, í þessum geira kemst fólk ekki langt á einstaklingsframtak- inu. Listaverk í opinberu rými eru talandi vitn- isburður um menningu þjóða hvar sem þau má sjá. Hér á landi er það aðallega Listskreyt- ingasjóður sem leggur til fé til sköpunar var- anlegra listaverka í opinberu rými, en ætlast er til að 1% af byggingarkostnaði nýrra bygg- inga fari í listaverk. Á síðustu tíu árum hafa út- hlutanir verið æði misháar og hljóta tölurnar að fara eftir því hversu mikið hefur verið byggt á hverju ári. Samkvæmt tölum frá 1991 til 2000 er úthlutunin allt frá rúmum tveimur millj- ónum árlega upp í mest 17 milljónir 1991, en meðaltalið er nær 4–5 milljónum árlega. Þetta eru auðvitað tölur yfir allt landið og hver út- hlutun skiptist niður á marga aðila. Það er aug- ljóst að þetta rétt dugir fyrir nokkrum mál- verkum og stöku höggmynd. Listaverk sem unnin eru í opinberu rými eru yfirleitt frekar hefðbundin, hér á landi sem annars staðar. Þau eru helst í formi vegg- skreytinga, höggmynda, formi sem er þekkj- anlegt sem myndlistarverk og raskar ekki ró okkar. Sum eru auðvitað afar vel heppnuð og okkur til ómældrar ánægju á ferð okkar í hversdeginum. Þar má nefna hefðbundið verk eins og til dæmis mósaíkmynd Gerðar Helga- dóttur á Tollstöðinni jafnt sem nýstárlegra verk eins og pússuðu steinana hans Sigurðar Guðmundssonar við Sæbraut. Þessar aðstæður sem lýst er hér að ofan gefa til kynna að margt mætti betur fara og að bæði ríkið og samfélagið mættu hlúa betur að menningunni sem felst í myndlist. Það er þó ekki svo einfalt að fjárveitingar skapi af sjálfu sér áhugaverð listaverk, þegar allt kemur til alls eru það listamennirnir sem eru hinn skap- andi aðili. Það er þó öllum ljóst að skapandi hugsun einskorðast engan veginn við þær stéttir sem kallast listamenn og best hlýtur að vera að taka höndum saman. Þegar við hugsum um það er það synd að þetta svokallaða opinbera rými sé ekki meira lifandi en það er í dag. Hér er um að ræða vett- vang sem er kjörinn til að reyna að tengja sam- tímalistir samfélaginu á einhvern hátt. Styttur bæjarins Hingað til höfum við vanist því að hér og þar í hinu opinbera rými sé ákveðið svæði tekið frá fyrir listaverk. Eins og fram kemur í örlitlum bæklingi, Styttur bæjarins, sem Listasafn Reykjavíkur hefur gefið út og tíundar einar 33 höggmyndir í miðbæ Reykjavíkur var fyrsta útilistaverkið sem sett var upp í Reykjavík sjálfsmynd Bertels Thorvaldsen sem sett var upp á Austurvelli 1875. Bertel þurfti síðar að víkja út í Tjarnargarð þegar höggmynd Einars Jónssonar af Jóni Sigurðssyni var sett upp á Austurvelli árið 1931. Í upphafi voru allar stytturnar sem settar voru upp í Reykjavík minnismerki um fræga einstaklinga. Verkið Móðurást eftir Nínu Sæmundsson sem komið var fyrir við Lækjargötu 1928 var hið fyrsta sem vék frá þeirri reglu. En enn í dag eru listaverk sem unnin eru fyrir opinbert rými frekar hefðbundin að gerð, amk. hvað varðar viðhorf til áhorfenda. Hér er ekki endilega verið að setja út á það, hefð- bundið verk er auðvitað ekki í sjálfu sér óáhugavert verk, langt frá því. Frekar er verið að velta fyrir sér hvort fleiri möguleikar gætu verið fyrir hendi. Slíkar spurningar vakna sér- staklega þegar síður heppnuð útilistaverk ber fyrir augu, einhvers konar samsetningar sem tengjast umhverfi sínu aðeins að takmörkuðu leyti. Það er helst að börn geri sér að leik að príla í þeim en þá óttast maður kannski um líf þeirra og limi uppi á oddhvössum, steinsteypt- um brúnum. Héðan og hingað og þangað Lýsandi dæmi um stefnubreytingu og nýja hugsun við sköpun listaverka fyrir opinbert rými er verk Kristins E. Hrafnssonar, Héðan og hingað og þangað, sem afhjúpað var á menningarnótt 2001. Það sýnir miðpunkt Reykjavíkur, þann punkt sem miðað er við þegar húsnúmerum er raðað á götur. Verkið er að finna í gangstéttinni neðst á Vesturgötu, fyrir framan Kaffi Reykjavík. Listaverkið, í formi plötu sem felld er í gangstéttina, sýnir miðpunktinn sem gengið er út frá þegar hús- númerum í Reykjavík er raðað í austur og vestur, jafnar tölur á hægri hönd og oddatölur á vinstri. Þetta listaverk vísar fyrst og fremst til umhverfisins með því að birta það, það speglar ekki umhverfið. Það lýtur ekki fyrst og fremst fagurfræðilegum lögmálum, hlutverk þess er annað. Efni þess er hagnýtt, (það er gengið á því) og það vísar ekki í sögu högg- mynda nema með því að vera andstæða þeirra. Í þessu verki Kristins má sjá samhljóm við hugmyndir sem eru ofarlega á baugi í dag, hugmyndir um nýja tegund listaverka eða list- ar ætti frekar að segja, í opinberu rými. Hug- myndir um list sem gjarnan varpar ljósi á um- hverfi sitt í stað þess að baða sig sjálf í sviðsljósinu. Fleiri dæmi um þetta má auðvitað nefna, það eru helst sýningar sem hafa verið einka- framtak listamannanna sjálfra. Það eru sam- sýningar eins og til dæmis Bezti Hlemmur í Heimi, Listamaðurinn á horninu og Camp 2 á Höfn í Hornafirði síðastliðið sumar. Einnig má nefna samsýningar Myndhöggvarafélags Reykjavíkur, Firma og Strandlengjuna og tímabundna menningarviðburði eins og Menn- ingarnótt og Ljósahátíð. Slíkir viðburðir lífga upp á hversdaginn og margt sem þar hefur gerst hefur vissulega skapað tengsl milli áhorfenda og listamanna á frjóan hátt. Þessir atburðir standa þó stutt. Ný kynslóð listamanna Ég held að þessi tilhneiging, að taka sam- félagið og áhorfandann með í reikninginn sé sérstaklega áberandi hjá yngri kynslóð lista- manna. Tvö verk eftir Þórodd Bjarnason eru af þessum toga. Annars vegar er verk sem Lista- safn Reykjavíkur, Kjarvalsstaðir, festi kaup á og samanstendur af nokkrum þríhjólum. Ætl- unin er að börn geti hjólað um á þríhjólunum þegar þau koma á myndlistarsýningar með foreldrum sínum. Verkið hefur að vísu því mið- ur ekki sést uppi við síðan það var keypt. Í því verki sameinast nokkrir þættir. Hinn sjónræni þáttur sem myndast af því að sjá börnin hjóla, eins konar nútímaútgáfa af málverki eftir Brueghel, flæmska sextándu aldar málarann sem málaði gjarnan almúgann við störf og leik. Ennfremur gera hjólin safnheimsóknina ánægjulegri fyrir alla fjölskylduna, foreldrar fá meira næði til að skoða það sem sýnt er og börnin upplifa heimsóknina á safnið á jákvæð- an hátt, það er komið til móts við þau, þau eru fullgildir gestir. Annað verk eftir Þórodd var hluti af sýningunni Bezti Hlemmur í Heimi, þar sem hann bauð áhorfendum að stíga upp í lyftara og skoða útsýnið, nýtt sjónarhorn á þekkt umhverfi. Hér er áhorfandinn í aðal- hlutverki og hann þarf að taka þátt í verkinu til þess að það lifni við. Ósk Vilhjálmsdóttir hefur einnig unnið myndlistarverk þar sem samfélagið og áhorf- andinn eru aðalatriðið, dæmi um það er verk sem hún sýndi á sýningunni Camp 2 á Horna- firði, myndbandsupptökur af börnum á Horna- firði sem töluðu um það hvernig framtíðar- heimili þeirra ætti að vera. Börnin hjálpuðu líka til við að byggja umgjörðina utan um verk- ið, lítinn kofa þar sem myndbandið var svo sýnt. Ósk hefur unnið fleiri verk í opinberu rými og í samstarfi við aðflutta Íslendinga. Í list sinni leitast hún sérstaklega við að gera áhorf- andann að þátttakanda í verkinu, á ýmsan hátt. Nýjasta verkefni hennar, Eitthvað ann- að, sem hún setti upp í Gallerí Hlemmi sl. vetur vakti mikla athygli og hlaut góðar undirtektir. Þar bauð hún til umræðu um Eitthvað annað, betra líf, bað fólk að koma með tillögur og fólk úr öllum hópum samfélagsins kom saman og ræddi ólík málefni. Án efa hafa fleiri íslenskir listamenn unnið verk á þessum nótum á síðustu árum, verk sem ekki verða til nema fyrir tilstuðlan beinnar þátttöku áhorfenda á einn eða annan hátt. Ekki er mér þó kunnugt um varanleg verk sem sérstaklega hafa verið unnin fyrir opinbert rými á þennan hátt. Af því tilefni langar mig að fjalla um nokkra erlenda listamenn sem á mis- munandi hátt vinna innan þessa sívaxandi geira. Á ólíkan hátt gera þau samfélagið og áhorfendur að hluta af verkum sínum og end- urskilgreina hugtakið list í opinberu rými á frumlegan og skemmtilegan hátt. Kvakk-kvakk Árið 1993 stóð listamiðstöðin Straumur í den Haag í Hollandi, Stroom hcbk, að verkefni sem hafði það markmið að finna listinni nýja far- vegi í borginni og auka samskiptin við áhorf- endur/almenning. Einn af þátttakendunum var bandaríski listamaðurinn John Knight, með verk sitt Froskabjölluframkvæmdin. John Knight lét framleiða 3000 sérhannaðar reiðhjólabjöllur sem gáfu frá sér froskakvak og á þeim var mynd af storki, táknmynd den Haag, ennfremur fólst fangamark listamanns- ins í myndinni. Íbúum borgarinnar var til- kynnt í auglýsingablaði sem borið er í öll hús líkt og Fréttablaðið og með auglýsingum á strætisvögnum og í útvarpi að þeir gætu farið með gömlu reiðhjólabjölluna sína í listamið- stöðina og fengið glænýja „listhjólabjöllu“ í staðinn. Þekkjandi Holland og Hollendinga veit ég að þar er það í alvöru þannig að ef eitt- HVERJAR ERU HINAR NÝJU STYTTUR BÆJARINS? Hvar og hvernig á listaverkið á torginu að vera? Hver á að skapa listaverkin og hver á að njóta þeirra og hvernig? Undanfarin ár hafa sífellt fleiri listamenn velt þessum spurningum fyrir sér og komið fram með nýjar hugmyndir varðandi viðfangsefni, form og þátttöku áhorfenda í sköpun listaverka. RAGNA SIGURÐARDÓTTIR myndlistargagnrýnandi Morgunblaðsins leggur hér sitt lóð á vogarskálarnar. Morgunblaðið/ÞB Hluti af verki Þórodds Bjarnasonar, Takið börnin með, 1998.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.